Fréttir

Tryggja veirufrítt íslenskt kartöfluútsæði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Í desember 2021 gerðu Matís og Bændasamtök Íslands með sér samkomulag um vefjaræktun á stofnútsæði kartaflna og er vinna við verkefnið hafin hjá Matís. Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist umfjöllun um verkefnið þar sem fjallað er um samkomulagið og helstu verkþætti.

Tilgangurinn með vefjaræktun á kartöflum er að tryggja að íslenskir bændur eigi áfram aðgengi að heilbrigðu útsæði af íslensku yrkjunum fjórum: Premier, Gullauga, Rauðum íslenskum og Helgu. Tilgangur stofnræktunar er að stuðla að framleiðslu á stofnútsæði sem er laust við veirusjúkdóma. Veirur komast auðveldlega milli móðurkartafla og afkvæma og því er vefjaræktun eina leiðin til að viðhalda veirufríu útsæði. Veirur eru mjög skaðlegar fyrir bændur en veirusmitað útsæði gefur allt að þriðjungi minni uppskeru. Sigurgeir Ólafsson, fyrrum sérfræðingur á RALA, kom upp veirufríum stofnum af íslensku afbrigðunum. Markmið þessa verkefnis er viðhalda þessum stofnum. Í samstarfsverkefni Bændasamtakanna og Matís kemur Matís til með að sjá um framkvæmd á verkþáttum sem snúa að vefjaræktuninni sjálfri.

Í Bændablaðinu er haft eftir Axel Snæland, formanni deildar garðyrkjubænda innan Bændasamtaka Íslands:

„Deild garðyrkjubænda innan Bændasamtakanna stóð fyrir gerð samningsins við Matís, sem felur í sér vefjaræktunarhluta stofnræktunar útsæðiskartaflna. Verkefni Matís felur í sér að skila af sér vefjaræktuðum útsæðiskartöflum, Premier, Gullauga, Helgu og Rauðum íslenskum, sem eru lausar við veirur og sjúkdóma, eins og til dæmis kláða og hringrot. Auk þess sem kartöflurnar eru valdar með tilliti til útlits. […] Því miður er það svo að víða um heim eru sjúkdómar í kartöflum landlægir og margir þeirra sjúkdóma geta borist hingað til lands og valdið miklum skaða ef við gætum þess ekki að hafa vaðið fyrir neðan okkur.“

Verkefninu miðar vel og um þessar mundir eru kartöfluplöntur, ræktaðar af spírum, í glerflöskum við sérstakar stýrðar aðstæður í vefjaræktunarklefa í húsakynnum Matís eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.

Eftir frekari rannsóknavinnu verður svo hægt að skila litlum plöntum í ræktunarhlaupi í áframræktun til stofnkartöfluræktenda til gróðurhúsaræktunar í mold næsta vor ef allt gengur eftir.

Greinina má lesa í heild sinni í Bændablaðinu hér: Stofnræktun á útsæðiskartöflum