Fréttir

Vegna umræðu í Kastljósi 14. nóv. sl.

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í inngangi og í þáttabroti um Hreindýrafélagið í Kastljósi 14. nóv. sl. kom fram að Yfirdýralæknir og Matís hafi lagst gegn því að hreindýr verði flutt á Vestfirði. Hér má víst telja að verið sé að rugla saman Matvælastofnun (MAST) og Matís ohf.

Matís er þekkingar- og rannsóknafyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun i matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja og einstaklinga í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir stór sem smá fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla. Matís kemur ekki að almennu eftirliti hvort sem það er matvælum eða dýrum. Matís hefur því ekki skoðun á því hvort heppilegt eða æskilegt sé að flytja hreindýr á Vestfirði.

Verði hreindýr hins vegar flutt á Vestfirði og þau veidd þar, getur Matís aðstoðað veiðimenn og aðra í nærsamfélaginu við að búa til verðmætar afurðir úr dýrunum. Til dæmis getur Matís aðstoða við að koma á fót heppilegum matvælavinnslum fyrir  úrvinnslu á hreindýrakjöti. Margar þekktar afurðir eru úr slíku hráefni, ferskt hreindýrakjöt er hátíðarmatur sem allir þekkja, hráverkaðar pylsur úr hreindýrakjöti eru framleiddar í Noregi og alþekktar eru kæfur og paté úr kjöti eða lifur dýranna.

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.