Fréttir

Vel heppnuð vinnustofa um lífhagkerfi

Þann 20.-21. júní var haldin vinnustofa í Düren í Þýskalandi á vegum verkefnisins BIO2REG sem Matís er þátttakandi í. Sjálfbærniráðgjafar hjá BioökonomieREVIER sem starfar á vegum rannsóknastofnunarinnar Forschungszentrum Jülich GmbH, héldu vinnustofuna “Circular Bioeconomy in practices – Discovering value chains in bioeconomy model regions” fyrir hönd BIO2REG, í húsnæði pappírsverksmiðjunnar Reflex GmbH & Co. KG.

Vinnustofuna sótti fjölbreyttur hópur fólks sem innihélt m.a. hagsmunaaðila á svæðinu, sérfræðinga á sviði lífhagkerfis og eigendur fyrirtækja sem starfa á sviði pappírsframleiðslu í Evrópu. Á dagskránni voru bæði kynningar og stýrðar umræður ásamt því að hin yfir 150 ára gamla pappírsverksmiðja var heimsótt og starfsemi hennar kynnt fyrir gestum. Verksmiðjan sérhæfir sig í ákveðnum gerðum pappírs, þ.m.t. skjalapappír og það er gaman að segja frá því að þar er einmitt löggiltur íslenskur skjalapappír framleiddur.

Daginn eftir var svo farið í skoðunarferð um Norðurrín-Vestfalíu. Gestgjafarnir voru heimsóttir og starfsemi þeirra á sviði landbúnaðar og jarðræktar var kynnt. Annar viðkomustaður skoðunarferðarinnar var þorpið Morschenich-Alt, en það hefur verið yfirgefið að mestu í meira en áratug. Ástæða þess er sú að grafa átti fyrir kolum þar sem þorpið stendur núna. Flestir íbúanna seldu því orkufyrirtækinu heimilin sín og fluttu til Morschenich-Neu. Síðan þá hefur verið fallið frá áformum um áframhaldandi námugröft á svæðinu, m.a. vegna mótmæla loftslagssinna, og nú stendur til að byggja þorpið upp á ný.

Morschenich-Alt er ekki eina þorpið á svæðinu sem þurfti að víkja fyrir námugreftri. Hambach náman var líka heimsótt, en það er gríðarstór, opin kolanáma sem ennþá er í notkun. Áform eru um að loka öllum kolanámum á svæðinu fyrir árið 2030. BioökonomieREVIER hefur það hlutverk að drífa áfram græna umbreytingu svæðisins. Verkefnið ráðleggur fyrirtækjum, bændum og svæðisyfirvöldum um hvernig hægt er að færa hagkerfi sem byggir á jarðefnaeldsneyti (kolum) yfir í lífhagkerfi.

Vinnustofan var gríðarlega vel heppnuð og fóru þátttakendur ánægðir heim. Mikilvæg umræða skapaðist um áhrif þess að umbreyta svæðum, ekki bara fyrir efnahaginn heldur einnig á samfélagið. Í byrjun september verður svo haldin vinnustofa á Íslandi, á vegum Matís og sænsku rannsóknarstofnunarinnar RISE sem fjallar um rannsóknarinnviði. Fljótlega verður opnað fyrir skráningu á hana, en hún mun fara fram á heimasíðu BIO2REG og verður auglýst á miðlum Matís. Dagskrá verður birt þegar nær dregur.

Verkefnasíða BIO2REG

IS