Fréttir

Verður ein besta líftæknirannsóknastofa í heimi staðsett á Sauðárkróki?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýverið var tekin í notkun sérstök rannsóknastofa til frumurannsókna í Líftæknismiðju Matís í Verinu á Sauðárkróki og mun Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hjá Matís hafa yfirumsjón með rannsóknastofunni.

Líftæknismiðjunni starfa að staðaldri fjórir sérfræðingar frá Matís, þrír af Lífefna- og Líftæknisviði ásamt einum af Vinnslu- og Virðisaukningarsviði. Í Líftæknismiðjunni eru stundaðar mjög sérhæfðar rannsóknir á lífvirkni lífefna sjávarfangs og er það markmið Matís að gera rannsóknastofuna að einni bestu í heiminum á þessu sviði.

Lífvirkni getur verið t.d. krabbameinshindrandi, blóðþrýstingslækkandi og andoxunarvirkni. Nú þegar er til staðar fullkominn tækjabúnaður til rannsókna á lífvirkni mældri í in vitro aðstæðum (í tilraunaglösum) sem framkvæmdar eru undir stjórn Dr. Patriciu Hamaguchi. Þar sem in vitro rannsóknir hafa lofað góðu er mikill áhugi að skoða lífvirkni nánar í frumumódelum þar sem in vitro mælingar á lífvirkni hafa verið gagnrýndar vegna getu þeirra til að spá fyrir um virkni í líffræðilegum kerfum. Nú þegar er unnið að þróun mæliaðferðar til að meta andoxunarvirkni fiskpeptíða í Hep G2 frumum.

Þetta er mikilvægt skref fram á við í rannsóknum á lífvirkni fisk- og sjávarafurða og er nauðsynlegt fyrir næsta stig þessara rannsókna sem felst í klínískum tilraunum á dýrum og mönnum.

IS