Matís ohf hefur á undanförnum árum staðið að verkefnum um virðiskeðju korns frá kornskurði til framleiðslu matvæla. Flest þessi verkefni hafa fjallað um íslenskt bygg, gæði þess, efnainnihald og virðisaukningu með framleiðslu matvara.
Bæði í verkefnum og hjá fyrirtækjum hefur verið sýnt fram á að hægt er að nýta íslenskt bygg til framleiðslu á áfengum drykkjum. Framleiðsla áfengra drykkja á Íslandi hefur eflst til muna á undanförnum árum. Um 22 handverksbrugghús eru nú í landinu auk tveggja stórra framleiðenda á bjór. Þá er viskí framleitt á Íslandi í vaxandi mæli. Í flestum tilfellum er notað innflutt bygg til framleiðslunnar.
Í verkefnum Matís hefur athyglin í vaxandi mæli beinst að sjálfbærni. Einn afraksturinn í nýlegu kornverkefni er kafli um sjálfbærni bjórframleiðslu í bókinni Case studies in the Beer Sector sem kom út nú í september hjá Elsevier bókaútgefandanum. Bókin fjallar um fjölmörg svið bjórframleiðslu svo sem þróun bjórmarkaðarins, nýjungar og markaðsmál. Stungið er upp á vænlegri aðferðafræði við markaðssetningu og fjallað um það hvernig bjór tengist svæðisbundnum mat og ferðamennsku. Fjallað er um árekstrana milli umhverfislegrar og hagrænnar sjálfbærni og ályktað er að ræða þurfi sjálfbærnina við stjórnvöld og sveitarfélög.
Þess er að vænta að íslenskir bjórframleiðendur geti sótt margar hugmyndir í bókina en hana má panta á vef Elsevier: elsevier.com.
Þess má einnig geta að Matís átti aðild að vísindagrein um virðiskeðjuna frá byggi til bjórs en hún er í opnum aðgangi hér.