Fréttir

Matarsmiðjan

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Klakavinnslan

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem unnið hafa að sínum verkefnum í Matarsmiðjunni eruDaníel Jón Jónsson og Fannar Alexander Arason hjá Klakavinnslunni. 

Árið 2018 var fyrirtækið Klakavinnslan stofnað og í dag eru það Daníel Jón, annar stofnenda, og Fannar Alexander sem sjá um reksturinn. Þeir hafa báðir unnið í veitingageiranum um árabil og kynntust í gegnum þá vinnu. Þeir eru miklir áhugamenn um góða og vandaða drykki en í störfum sínum sem barþjónar ráku þeir sig oft á það að lök gæði klaka sem þeir nýttu í drykkjargerðina gerðu það að verkum að þeir gátu ekki framreitt drykki af þeim gæðum sem þeir hefðu helst kosið. Að þeirra mati fengu klakar alls ekki nægilega mikla athygli í veitingaheiminum þrátt fyrir að þeir væru stór og mikilvægur hluti af flestum drykkjum sem barþjónar framreiddu. Að auki var aðgengi að góðum klökum lítið sem ekkert á Íslandi

Þeir félagar sáu þarna tækifæri til þess að hefja framleiðslu hérlendis á hágæða klökum úr íslensku vatni. Það er engum blöðum um það að fletta að íslenskt vatn er með því besta í heimi svo þeir sáu fyrir sér að klakar úr því, unnir eftir kúnstarinnar reglum gætu orðið afburða góðir. Klakarnir frá Klakavinnslunni eru frystir hægt og rólega og með þrýstingi þannig að þeir verða mjög þéttir í sér. Ekkert loft verður eftir í þeim og þeir eru því alveg tærir og lausir við göt. Þetta gerir það að verkum að hver klaki bráðnar hægar en ella og þar af leiðandi helst drykkurinn óvatnsþynntur og í sinni réttu mynd mun lengur.

Klakavinnslan stundar fyrirtækjaþjónustu og því er hægt að fá klaka frá þeim í drykkinn sinn á hinum ýmsu veitingastöðum og börum í Reykjavík, svo sem á Slippbarnum, Sushi Social og Miami. Auk þess hefur vöruþróun farið fram og margt spennandi í pípunum en þeir hafa nýlega verið teknir í sölu í Melabúðinni og völdum Hagkaupsverslunum svo fólk getur nálgast þá með einföldum hætti og kælt drykkinn sinn.

Nánari upplýsingar um Klakavinnsluna má meðal annars finna á vefsíðu þeirra

IS