Fréttir

Vöktun líffræðilegs fjölbreytileika með Umhverfis DNA

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Líffræðilegur fjölbreytileiki á undir högg að sækja í hafinu en talið er að fjölbreytileikinn sé að dala hratt og hraðar en áður í sögu hafsins. Sýnt hefur verið fram á að útbreiðsla og göngumynstur margra sjávartegunda hafi breyst vegna hnattrænnar hlýnunar. Einnig hefur veðurfar breytt vistkerfum þannig að margar tegundir hafa horfið en slíkt tap á tegundum er eflaust vanmetið þar sem aðeins lítið brot af tegundum í djúpsævi og á heimskautasvæðum eru þekktar. Tegundir sem lifa í hafinu eru flestar huldar sjónum okkar og því er erfiðara að finna og meta fjölda þeirra.

Eftirlit með líffræðilegum fjölbreytileika og útbreiðslu sjávartegunda er erfitt, kostnaðarsamt og tímafrekt. Slíkar rannsóknir krefjast sérhæfðra rannsóknarskipa og tækjabúnaðar ásamt sér menntaðar áhafnar.

Ný tæki í verndunarlíffræði notast við umhverfis DNA (environmental eDNA) til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika. Þessi tækni hjálpar við að komast fyrir ýmsa af þeim annmörkum sem fylgir öðrum aðferðum og býður upp á fljótlega og ódýra leið til þess að meta líffræðilegan fjölbreytileika í hafinu. Uppruni eDNA í hafinu er ýmiskonar en venjulega kemur DNA-ið frá lífverunum úr húðfrumum, slími, hrognum, hlandi eða saur. Sjó er safnað á misunandi dýpi á þeim svæðum sem eru til rannsókna og er sjórinn svo síaður. Í síunni verður eftir DNA úr lífverum sem hægt er að greina með raðgreiningartækni. Eftirlit með líffræðilegum fjölbreytileika með umhverfis DNA hefur marga kosti umfram aðrar aðferðir og hefur aðferðin reynst vel við mat á líffræðilegum fjölbreytileika í mörgum vistkerfum.

Í þessu verkefni er ætlunin að setja ráðstefnu með helstu sérfræðingum í Evrópu og víðar um tækni, tækifæri og annmarka í eDNA rannsóknum. Einnig verða kynnt rannsóknarverkefni þar sem eDNA hefur verið notað við vistfræðirannsóknir.

Ráðstefnan verður haldin í fundarsal Hafrannsóknastofnunar 2. til 3. október 2019 og verður hún öllum opin. Fljótlega verður vefsíða ráðstefnunnar opnuð. Þar verður hægt að finna dagskrá ásamt ýmsum fróðleik um eDNA og þar verður einnig hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Verkefninu er stýrt af Davíð Gíslasyni hjá Matís og Christopher Pampoulie hjá Hafrannsóknastofnun. Verkefnið er styrkt af Ag-fisk, vinnunefndar Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf á sviði fiskveiða og fiskeldis.

IS