Fréttir

Vöxtur í víðum skilningi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Þegar nýtt ár gengur í garð er ekki úr vegi að líta til ársins sem nú er að ljúka. Sveinn Margeirsson fer hér yfir árið 2012 í starfssemi Matís en vöxtur einkenndi öðru fremur starfsemi fyrirtækisins á árinu.

Vöxturinn birtist á mörgum sviðum, bæði sem stærsta ár í sögu fyrirtækisins hvað veltu varðar en ekki síst í víðtækari verkefnaþátttöku Matís bæði erlendis og ekki síður innanlands.Starfsmönnum hefur einnig farið fjölgandi og þekkingargrunnur vaxið. Allt gerist þetta á þrengingartímum í efnahagslífinu og segir mikið um styrk fyrirtækisins og starfsmanna þess.

Matís er á margan hátt í takti við sókn matvælavinnslu á Íslandi og mikilvægi virðiskeðjunnar hefur æ betur komið í ljós. Verðmætasköpunin er á þann hátt í mörgum hlekkjum keðjunnar; hún verður í þróun, framleiðslu og ekki síður markaðssetningu. Styrkleiki Matís liggur einmitt í aðkomu þekkingar að hinum ýmsu hlutum virðiskeðjunnar, við styðjum matvælaframleiðsluna í sinni uppbyggingu um leið og við rækjum hlutverk okkar hvað varðar matvælaöryggi og eftirlit. Neytendur þurfa að hafa tiltrú og traust á framleiðsluvörunum.

Erlendar tekjur Matís nema nú hátt í 25% af ársveltu og hafa þær aldrei verið hærra hlutfall. Það endurspeglar árangur okkar í erlendum verkefnum, stöðu og styrk Matís í alþjóðlegu rannsóknarumhverfi. Við höfum einnig aukið þátttöku í innlendum verkefnum og þétt net Matís á landsvísu. Á árinu 2012 opnaði fyrirtækið tvær nýjar starfsstöðvar, á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi. Þær hafa að leiðarljósi verðmætasköpun á þessum svæðum með sérstaka áherslu á Breiðafjörðinn þar sem er að finna miklar auðlindir í matvæla- og líftækni. Í Breiðafirðinum er mikið magn þörunga sem líftæknirannsóknir okkar hafa sýnt að vinna má úr dýrmætar afurðir en samhliða nýsköpuninni getur Matís hjálpað til við að samtvinna þessar nýju áherslur við þá matvælaframleiðslu sem fyrir er á svæðinu. Lykilatriðið er að vinna eftir því leiðarljósi sem tryggir sem mesta verðmætasköpun.

Matvælaframleiðsla á Íslandi fer fram að stórum hluta utan höfuðborgarsvæðisins og við höfum góða reynslu af rekstri starfsstöðva út um landið til að fylgja eftir áherslum og tækifærum á hverju svæði fyrir sig, í samvinnu við heimamenn. Þrátt fyrir að uppbyggingu starfsstöðvanna fylgi umtalsverður kostnaður þá teljum við engu að síður mikil verðmæti fólgin í þessu neti. Við höfum lagt mikla áherslu á auknar tengingar við menntastofnanir og segja má að Matís hafi orðið vel ágengt í þeirri brúarsmíð sem þarf að verða milli menntastofnana, rannsóknafyrirtækja og atvinnulífsins. Reynslan sýnir hversu miklu sú brú getur skilað til aukinnar verðmætasköpunar.

Neytendur þurfa að geta treyst á öryggi matvælaframleiðslu. Þeir þurfa líka að geta treyst því að þeim takmörkuðu fjármunum sem veitt er til rannsókna- og þróunarstarfsemi sé varið til viðgangs og vaxtar fyrir íslenskt samfélag. Þar tel ég að starfsmönnum Matís hafi tekist vel til – líkt og vöxtur fyrirtækisins á árinu 2012 staðfestir.