Ritrýndar greinar

Innflutt fersk matvæli og sýkingaráhætta fyrir menn

Höfundar: Kristinsson K. G., Georgsson F.

Útgáfa: The Icelandic Medical Journal

Útgáfuár: 2015

Samantekt:

Aðgangur að öruggum matvælum er hluti af forréttindum Íslendinga. Hratt vaxandi sýklalyfjaónæmi, sem meðal annars er tengt verksmiðjubúum og mikilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði, er ein helsta ógn við lýðheilsu mannkyns. Vaxandi verslun með matvæli á milli landa og heimsálfa auðveldar dreifingu sýkla og sýklalyfjaónæmis um heiminn. Íslenskur landbúnaður og landbúnaðarafurðir hafa sérstöðu vegna einangrunar landsins og smæðar.

Eftir umfangsmiklar aðgerðir til að draga úr útbreiðslu Campylobacter og Salmonella á kjúklingabúum er nýgengi Campylobactersýkinga orðið um 17-43/100.000 íbúa, þar af helmingurinn af innlendum uppruna, og Salmonellusýkinga 10-15/100.000, og þar af smitast flestir í útlöndum. Enterohaemorrhagic E. coli (EHEC) hefur ekki fundist í íslenskum nautgripum og kemur lágt nýgengi (að jafnaði 0-0,6/100.000) því ekki á óvart. Nýleg hópsýking af völdum fjölónæms EHEC-stofns var rakin til innflutts mengaðs salats. Sýklalyfjanotkun í íslenskum landbúnaði er ein sú lægsta sem þekkist í Evrópu og fágætt er að innlent smit af völdum Salmonella og Campylobacter sé af völdum sýklalyfjaónæmra stofna. Karbapenemasa-myndandi Enterobacteriaceae hafa enn ekki fundist á Íslandi.

Lítil notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði ásamt aðhaldsaðgerðum til að draga úr útbreiðslu Campylobacter og Salmonella hafa borið mikinn árangur. Almenningur þarf að vera meðvitaður um mikilvægi uppruna matvæla og að íslenskar landbúnaðarafurðir hafa enn sérstöðu með tilliti til smithættu.

Hlekkur að grein