Kröfur til merkinga á umbúðum matvæla hafa aukist mikið á undanförnum árum og eru ákvæði þess efnis í ítarlegri reglugerð. Merking næringargildis getur verið flókið viðfangsefni fyrir smáframleiðendur matvæla.
Verkefninu er ætlað að útbúa leiðbeiningar og verkfæri til að reikna næringargildið samkvæmt reglugerð. Verkefninu er skipt upp í fjóra verkþætti: (1) Þarfagreining og samráð við matvælaframleiðendur. Hér hefur verið komið á samstarfi við Samtök smáframleiðenda matvæla. (2) Skráning næringargildis fyrir hráefni í íslenska gagnagrunninn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) sem er staðsettur hjá Matís. Jafnframt verður skrifuð handbók til útgáfu á vefnum en þar verða ítarlegar skýringar á vinnubrögðum við merkingar. (3) Hugbúnaðargerð til að auðvelda notkun ÍSGEM gagnagrunnsins og smíði á einföldu forriti ofan á ÍSGEM gagnagrunninn. (4) Kynning sem beinist að smáframleiðendum og öðrum matvælaframleiðendum.
Afurðir verkefnisins eru nýjar lausnir fyrir matvælaframleiðendur, lausnirnar eru ítarlegar leiðbeiningar (vefbók) um merkingar matvæla (næringargildi, innihaldslýsing, aukefni og geymsluþol) ásamt hugbúnaðarlausn sem vinnur með ÍSGEM gagnagrunninum við útreikning næringargildis út frá uppskrift. Afraksturinn dregur úr vinnu og kostnaði fyrir matvælaframleiðendur.