Þróun mynd- og litrófsgreiningarspálíkans til að meta gæði fiskimjöls sem innihaldsefni í laxeldisfóður

Heiti verkefnis: Þróun mynd- og litrófsgreiningarspálíkans til að meta gæði fiskimjöls sem innihaldsefni í laxeldisfóður

Samstarfsaðilar: Félag Íslenskra Fiskimjölsframleiðenda, SVN, Eskja, Ísfélagið og Háskóli Íslands.

Rannsóknasjóður: Matvælasjóður

Upphafsár: 2022

Þjónustuflokkur:

Uppsjávarfiskur

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Markmið verkefnisins er að þróa spálíkan sem gerir fiskimjölsframleiðendum kleift að fá hraðvirka, hagkvæma og nákvæma greiningu á gæðum fiskimjöls sem innihaldsefnis í laxafóður með einfaldri litrófsgreiningu (near-infrared spectroscopy / NIR).

Flestir íslenskir fiskimjölsframleiðendur nota nú þegar NIR til að mæla efnainnihald fiskimjölsins, en slíkar mælingar veita góðar vísbendingar um gæði fiskimjölsins. Þessar breytur nýtast þó takmarkað þegar kemur að því að meta gæði fiskimjölsins sem innihaldsefni í fiskeldisfóður. Þetta verkefni mun fylla í það skarð með því að tengja NIR litrófs- og myndgreiningargögn við vöxt og meltanleika í laxeldi. Hér er ekki um nýja nálgun að ræða, þar sem norskir fóðurframleiðendur hafa þegar þróað slík líkön, og hafa notað þau til að meta gæði fiskimjölsins sem þau kaupa. Norskir fóðurframleiðendur hafa hins vegar litið á NIR-líkönin sem viðskiptaleyndarmál, sem veitt hafa þeim samkeppnisforskot. Að þróa sambærileg NIR-líkön aðgengileg fyrir íslenska fiskimjölsframleiðendur mun því veita íslenskum mjöliðnaði sömu (eða betri) upplýsingar um eiginleika afurða þeirra, og viðskiptavinir þeirra hafa, og mun þannig styrkja sölu- og markaðsstyrk þeirra. Engin spálíkön eru hins vegar til staðar fyrir myndgreiningartækni (hyperspectral imaging) á fiskimjöli. Litrófsgreiningarspálíkönin munu einnig gera fiskimjölsframleiðendum kleift að meta og bæta eigin afurðir betur til innra gæðaeftirlits.

Þetta verkefni kemur í kjölfar AVS forverkefnis sem lauk árið 2021 með útgáfu skýrslu sem ber heitið Nær innrauð litrófsgreining – Staða þekkingar um notkun NIR í fiskmjölsiðnaði.Verkefnið verður unnið á tveim árum, þar sem framkvæmdar verða vaxtar- og meltanleikatilraunir á 20+ tegundum fiskeldisfóðurs í laxeldi á fyrra árinu, og á seinna árinu verða niðurstöðurnar nýttar til að þróa líkanið.