Fréttir

Íslensk ungmenni slógu í gegn á matarfundi ungs fólks í Danmörku

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í lok maí var haldinn Matarfundur ungs fólks, Ungdommens madmøde, í Danmörku. Á matarfundinum kynntu nemendur Matvælaskóla Menntaskólans í Kópavogi íslenskan mat fyrir öðrum norrænum nemendum í matvælagreinum og um 150 dönskum grunnskólanemendum.

Það er skemmst frá því að segja að íslensku nemendurnir, Markús Eðvarð Karlsson, Svanfríður Elín Bjarnadóttir og Sölvi Hermannsson, stóðu sig frábærlega og var íslensku réttunum mjög vel tekið. Uppskriftirnar og framreiðslan var gerð undir leiðsögn Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara og kennara.

Kynning íslensku ungmennanna var hluti af vinnustofu sem var kölluð Nordic kitchen þar sem ungmenni frá Norðurlöndunum kynntu mat frá sínum löndum. Auk Nordic kitchen vinnustofunnar voru vinnustofur sem fólu m.a. í sér bragðþjálfun og innblástur fyrir hollar máltíðir og snarl.

Markmiðið með matarfundinum var að hvetja til sjálfbærrar matarmenningar meðal matgæðinga framtíðarinnar og skapa tengsl meðal ungmenna og fagfólks. Hugmyndin var að skapa tækifæri og áhuga hjá næstu kynslóð neytenda á að borða og elda matvæli sem eru bæði holl og góð fyrir þau sjálf og heiminn sem þau lifa í.

Samhliða vinnustofunum var haldin ráðstefnan Matur í skólanum í norrænu ljósi. Hvernig getur matur stuðlað að heilsu, námi og vellíðan í skólum? og greindi þar Dr. Ellen Alma Tryggvadóttir frá Háskóla Íslands, frá þeirri reynslu af skólamáltíðum sem hefur orðið til á Íslandi.

Viðburðurinn Ungdommens madmøde var hluti af stærri matarviðburði Madens folkemøde sem hefur verið haldinn árlega síðastliðinn áratug og hefur það að markmiði að skapa vettvang fyrir samtal um danska matarmenningu og matvælakerfi. Þar er á ferðinni sérstaklega áhugaverður viðburður sem vert er að heimsækja og jafnvel taka upp hérlendis. 

Matís tók þátt í skipulagi Ungdommens madmøde en viðburðurinn var styrktur af Norrænu ráðherranefndinni gegnum Ny nordisk mad verkefnið.

IS