Fréttir

Lífeyrisskuldbindingar Matís ohf.

Þann 22. janúar 2009 var undirritaður samningur á milli Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) annars vegar og fjármálaráðuneytisins og Matís ohf. kt. 670906-0190 hins vegar um árlegt uppgjör á skuldbindingum vegna starfsmanna Matís ohf. skv. 33. gr. laga nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Samningur þessi tók gildi frá og með 1. janúar 2007 þegar Matís ohf. var stofnað.

Skuldbindingar vegna starfsmanna Matís ohf. sem eiga aðild að B-deild LSR eru gerðar upp árlega og var greiðsla Matís vegna þeirra 11,9 milljónir á árinu 2014.  Rétt er að geta þess að þessi skuldbinding varð ekki ljós fyrr en um tveimur árum eftir að félagið hóf starfsemi og hefur hún ekki verið bætt sérstaklega.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, í síma 858-5125.

Fréttir

Matís – brú milli háskóla og atvinnulífs

Matís er í miklu samstarfi við Háskóla Íslands, sem og aðra ríkisrekna háskóla, til þess að tryggja góða samvinnu milli atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Fyrirtækið vinnur að þróun og nýsköpun í matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi.

„Innan Matís er mjög fjölbreytt starfsemi. Hér eru mörg sérsvið sem vinna bæði í matvælaiðnaði og líftækni. Það er sterk tenging við atvinnulífið og háskólaumhverfið,“ segir Hörður G. Kristinsson rannsóknarstjóri Matís.

Boðið er upp á meistaranám og doktorsnám í matvælafræði við Háskóla Íslands. Námið er samvinnuverkefni Matís og næringarfræðideildar Háskóla Íslands. Boðið er upp á þrjár námsleiðir, framleiðslustjórnun, gæðastjórnun og líftæknilínu. Doktorsnámið felur í sér vísindaleg og tæknileg rannsóknarverkefni sem leiða til nýrrar þekkingar og nýsköpunar. Mikil áhersla er lögð á að rannsóknarniðurstöður séu birtar í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum við lok doktorsnáms.

Áhersla er lögð á hagnýtt nám en það felur í sér samstarf við fyrirtæki og stofnanir á vettvangi matvælaframleiðslu. Tækifærin eru mikil í íslenskri matvælaframleiðslu, sem sýnir sig í eftirspurn og starfsmöguleikum eftir nám. Námið nýtist þeim sem lokið hafa grunnnámi í matvælafræði eða öðrum raunvísindum eins og efnafræði, líffræði og verkfræði. Það nýtist öllum þeir sem hafa áhuga á að gegna leiðandi hlutverki í matvæla- og líftækniiðnaði við stjórnun, nýsköpun eða rannsóknir.

Nánari upplýsingar: www.matis.is/bruin/

Fréttir

Fundur hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi – MareFrame

Nú rétt í þessu lauk fundi í MareFrame verkefninu. Fundurinn var með íslenskum hagsmunaaðilum, þversniði af þeim hagsmunaaðilum sem fiskveiðistjórnun hefur áhrif á. 

Matís, Háskóli Íslands og Hafrannsóknarstofnun eru þátttakendur í evrópska rannsóknar- og þróunarverkefninu MareFrame (http://www.mareframe.eu).

Meðal markmiða MareFrame er að þróa og nýta vistkerfislíkön til að aðstoða við ákvarðanatöku þegar kemur að stjórn fiskveiða.

Mikilvægur þáttur í þessu ferli er að taka tillit til áherslna og skoðana mismunandi hagsmunaaðila við gerð líkananna og við ákvarðanatökuna. Þarf þar að huga jafnt að líffræðilegum-, vistfræðilegum-, efnahagslegum- og félagslegum áhrifaþáttum.

Á fundinum var MareFrame kynnt og sú vinna sem fram hefur farið í verkefninu hér á landi.

Nánari upplýsingar um MareFrame verkefni má finna á heimasíðu verkefnisins og heimasíðu Matís.

Fréttir

Þurrkun og reyking eru hagkvæmar varðveisluaðferðir

Cyprian Ogombe Odoli mun verja doktorsritgerð sína í matvælafræði fimmtudaginn 22. október næstkomandi. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl.14:00.

Ritgerðin ber heitið: Drying and smoking of capelin (mallotus villosus) and sardine (sardinella gibbosa) – the influence on physicochemical properties and consumer acceptance.

 Andmælendur eru dr. Morten Sivertsvik, prófessor og sviðsstjóri hjá Nofima, Noregi, og dr. Hjörleifur Einarsson, prófessor við Auðlindadeild Háskólans á Akureyri.

Leiðbeinandi í verkefninu var Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur hjá Matís og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd þau Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís og prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, dr. Kolbrún Sveinsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, dr. Tumi Tómasson, forstöðumaður Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, og Ásbjörn Jónsson, verkefnastjóri hjá Matís.

Dr. Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, stjórnar athöfninni.

Ágrip

Þurrkun og reyking eru hagkvæmar varðveisluaðferðir sem almennt eru notaðar í þróunarlöndum, þar sem vanþróaðir flutningaferlar takmarka markaðssetningu á ferskum fiski. Í Austur-Afríku er þurrkaður og reyktur fiskur mikilvæg uppspretta próteina í mataræði íbúa. Smáfiskur, aðallega sardínur, er venjulega settur í saltpækil og forsoðinn til að stöðva ensímvirkni og örveruvöxt áður en hann er þurrkaður utandyra. Þurrkaði fiskurinn er oft lélegur að gæðum og takmarkast sala hans við tekjulægri hópa er versla á útimörkuðum. Á sama tíma er aukin eftirspurn meðal neytenda millistéttar eftir þurrkuðum og reyktum smáfiski í stórmörkuðum sem uppfyllir gæðakröfur þeirra. Þessari eftirspurn mætti mæta með innflutningi eða bættum vinnsluaðferðum. Markmið þessarar rannsóknar var að bæta gæði og öryggi í vinnslu smáfisks og kanna viðbrögð neytenda við nýrri afurð eins og þurrkaðri loðnu veiddri við Ísland, sem er ekki þekkt á mörkuðum í Austur-Afríku. Áhrif forsuðu, þurrkunar og reykingar á gæði afurða voru metin, ásamt áhrifum pökkunaraðferða á niðurbrot fitu. Einnig voru kannaðir skynmatseiginleikar og magn örvera í þurrkuðum og reyktum afurðum. Að síðustu var hugað að markmiðssetningu á hollari þurrkaðri sardínu og innfluttri þurrkaðri loðnu.                                                                                       

Hefðbundin þurrkun og forsuða fyrir þurrkun á sardínum og loðnu leiddi til minni afurðagæða, lakara skynmats og minni próteingæða. Magn fitu í loðnu er árstíðabundið og þegar loðna með fituinnihald 9-10% í stað 7-7,5% var þurrkuð, tók þurrkunin lengri tíma og rakainnihald í lokaafurð jókst. Jafnframt dró fitan úr afmyndun próteina í vinnsluferlinu. Við stýrðar þurrkaðstæður jukust gæði afurða, en það bendir til að nauðsynlegt sé að þróa þurrkara fyrir vinnslu á smáfiski. Í þurrkaðri og reyktri loðnu og sardínum greindist hátt hlutfall lífsnauðsynlegra fjölómettaðra fitusýra eins og eicosapentaenoic-sýru (EPA) og docosahexaenoic-sýru (DHA), nákvæmlega 13% í loðnu og 20% í sardínum. Í heitreyktri loðnu og sardínum var hærra fituinnihald, minna rakainnihald og aukinn stöðugleiki gegn örverum, miðað við kaldreykta afurð, en heitreyking minnkaði nýtingu. Fituinnihald hafði áhrif á vatnsrof próteina, oxun fitu og bætti skynmatseiginleika við geymslu á reyktri og þurrkaðri loðnu. Niðurbrot fitu var mest í loðnu með lágu fituinnihaldi á meðan þránun var mest í loðnu með háu fituinnihaldi. Pökkun á reyktri og þurrkaðri feitri loðnu í loftfirrtar umbúðir leiddi til minni þránunar fitu og færri örvera. Pökkun hafði ekki áhrif á niðurbrot fitu.

Heitreyktur fiskur í loftfirrtum umbúðum hélt upphaflegum eiginleikum sínum eftir fjögurra vikna geymslu. Þurrkuð loðna með rakainnihaldi undir 25% og vatnsvirkni undir 0,7 geymist óskemmd við stofuhita í fimm mánuði í loftfirrtum umbúðum. Bætt vinnsluferli við þurrkun á sardínum og loðnu skilaði góðum árangri og afurðinni var vel tekið hjá  neytendum hefðbundins þurrkaðs smáfisks í Kenía. Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna fram á að þurrkaður og reyktur smáfiskur getur verið mjög næringarrík fæða og ef verklag við vinnslu og pökkun er rétt, gæti neysla þessara afurða dregið verulega úr vannæringu sem er ríkjandi í þróunarlöndum.

Doktorsvörn_auglýsing_Cyprian-Odoli

Um doktorsefnið

Cyprian Ogombe Odoli er fæddur í Kenýa árið 1974. Árið 2006 lauk hann námi frá Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna og í framhaldi af því hefur skólinn styrkt hann til meistara- og doktorsnáms.  Cyprian lauk MS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2009 og innritaðist í doktorsnám við sömu deild þremur árum síðar, árið 2012. Hann er kvæntur Hellen Namugeere og eiga þau tvö börn.

Doktorsnemi: Cyprian Ogombe Odoli – coo1@hi.is  cogombe@yahoo.com (gsm: 8627565).

Nánari upplýsingar veita Cyprian Ogombe Odoli og Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

Matvæladagur MNÍ 2015 haldinn fimmtudaginn 15. október

Titill ráðstefnunnar í ár: Hvaða efni eru í matnum ?  Vitum við það ? Brýn þörf á gagnagrunnum & viðhaldi þeirra.

Dagurinn var að þessu sinni helgaður umfjöllun um sértæka gagnagrunna sem halda utan um næringargildi og efnainnihald matvæla, bæði íslenskra og innfluttra. Mikilvægi þessa gagnagrunna er ótvírætt en án þeirra er ekki hægt að reikna út næringargildi máltíða, matseðla og framleiðsluvara, né að meta mengunarefni í fæðunni.

Nánar á heimasíðu Matvæla- og næringafræðafélags Íslands.

Fréttir

European Sensory Network

Matís skipuleggur fund European Sensory Network (ESN), sem eru samtök sérfræðinga á sviði skynmats og neytendarannsókna, 8. og 9. október nk. á Grand Hótel Reykjavik. Á fundinum, sem er lokaður og hefur fyrirtækjum í matvælaframleiðslu verið boðið til fundarins, verður lögð áhersla á framvindu og niðurstöður nýjustu rannsókna sem samtökin hafa komið að. 

European Sensory Network (ESN) er alþjóðlegt samstarfsnet rannsóknastofnanna og fyrirtækja sem eru leiðandi á sviði skynmats og neytendarannsókna. ESN var stofnað 1989 til að koma til móts við hraða þróun á sviði skynmats í Evrópu. Í dag eru 26 rannsóknastofnanir og fyrirtæki aðilar að ESN og fjögur utan Evrópu. ESN er í fararbroddi í rannsóknum á sviði skynmats og neytenda og heldur alþjóðlegar ráðstefnur og miðlar nýrri aðferðafræði. ESN veitir ráðgjöf er varðar skynmat, markaðsrannsóknir, framkvæmd skynmats og neytendarannsókna, uppsetningu verkefna, úrvinnslu og túlkun, sem og spurningar er varða hegðun og upplifun neytenda.

Nánari upplýsingar um ESN má finna á heimasíðu samstarfsnetsins.

Fréttir

Inngangur að fisktækni – beint úr prentun!

Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.

Rit þetta er aðgengilegt á heimasíðum Matís og Fisktækniskólans. www.matis.is og www.fiskt.is

Skýrslur

Consultancy to provide technical support to develop national and regional environmental monitoring programmes related to SPS for fishery and aquaculture products in CARIFORUM states

Útgefið:

05/10/2015

Höfundar:

Margeir Gissurarson, Helga Gunnlaugsdóttir

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Consultancy to provide technical support to develop national and regional environmental monitoring programmes related to SPS for fishery and aquaculture products in CARIFORUM states

Skýrslan skýrir frá niðurstöðum úr verkefni sem framkvæmd var til að aðstoða CARIFORUM ríki við að öðlast aðgang að verðmætum mörkuðum með því að uppfylla alþjóðlegar reglur um hreinlæti og öryggi (e. SPS measures) við framleiðslu fiskafurða. Jafnramt að aðstoða CARIFORUM ríki við mæta þeim kröfum sem þarf til auka viðskipti með fiskafurðir í hverju landi, innan CARIFORUM svæðisin og alþjóðlega. Megin markmið verkefnisins var að styrkja eftirlit með heilbrigði og matvælaöryggi fisks og fiskeldis innan svæðisins með samræmdum kröfum sem uppfylla einnig alþjóðlegar kröfur.

The report explains findings from an assignment that was carried out to facilitate CARIFORUM States to gain and improve market access by complying with Europe’s Sanitary and Phytosanitary Measures (SPS) and to help CARIFORUM states to meet the requirements necessary to maintain and expand on the trade of fish and fish products locally, regionally and internationally. The main purpose of the project was to strengthen monitoring programmes for health and food safety requirements of fisheries and aquaculture and to ensure safe food standards for fisheries products in the region, while meeting the requirements of the region’s trading partners worldwide.

Verkkaupi: Caribbean Regional Fisheries Mechanism (CRFM)

Skýrsla lokuð til 31.12.2018

Skoða skýrslu

Fréttir

Er arsen til vandræða?

Undanfarna daga og vikur hefur verið nokkuð hávær umræða um arsen (e. arsenic) og mögulega skaðsemi efnisins. Sitt sýnist hverjum um þetta efni sem finnst í sumum matvælum og í mismiklu magni. Livsmedelsverket (systurstofnun Matvælastofnunar) þykir ástæða til að neytendur takmarki neyslu á hrísgrjónum og afurðum úr hrísgrjónum og gáfu út ráðleggingar í þá veru í síðustu viku.

Matvælastofnun hefur niðurstöður Livsmedelsverket nú til skoðunar skv. frétt á vef stofnunarinnarwww.mast.is .

En hvað er arsen? Veistu eitthvað um þetta efni? Ef ekki, viltu vita meira? Kíktu á þetta upplýsingamyndband um arsen (á ensku).

Arsen – úlfur í sauðagæru?

Fréttir

28 ára fangelsi fyrir salmonellusmit – matvælaöryggi er undirstaða allrar matvælaframleiðslu

Fyrir nokkrum dögum bárust okkur fréttir af því að forsvarsmenn hnetuframleiðanda hefðu verið dæmdir í 20 og 28 ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í útbreiðslu salmonellu mengaðra matvæla. Ekki er ætlunin með þessari frétt að leggja nokkurn mat á þær fréttir en áhugavert er að velta fyrir sér mikilvægi öruggra matvæla þegar slíkar fréttir berast.

Í flestum matvælaframleiðslufyrirtækjum er ljóst að framleiðsla og sala matvæla getur ekki átt sér stað án þess að matvælin séu heilnæm og örugg til neyslu. Örugg matvæli eru forsenda viðskipta með mat og aukinheldur byggir öll nýsköpun í matvælaiðnaði á því að framleidd séu matvæli sem séu örugg til neyslu. Fyrir þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í matvælaframleiðslu er mikilvægt að tryggja að öll aðstaða sé í samræmi við lög og reglur og að öll meðhöndlun matvæla, hvort sem er við hráefnaöflun, framleiðslu, pökkun, dreifingu, sölu eða hvar sem er í virðiskeðju matvæla, sé með þeim hætti að ekki skapist vá fyrir neytendur við neyslu matvæla.

Örugg matvæli

Sjúkdómsvaldandi örverur geta borist í matvæli á ýmsan hátt. Þess vegna er nauðsynlegt að tileinka sér góða starfshætti við framleiðslu og meðhöndlun matvæla. Með góðum starfsháttum og innra eftirliti matvælafyrirtækja, fræðslu, rannsóknum og opinberu eftirliti hefur tekist að halda sjúkdómstilfellum vegna matarsýkinga og matareitrana í lágmarki hér á landi.

Á síðustu árum hefur framleiðsla aukist á matvælum sem hafa verið þróuð og framleidd í litlu magni frá býli eða úr héraði. Með auknum umsvifum í framleiðslu fjölbreyttra matvæla er þörf á að vekja athygli á þeim vágestum eða sjúkdómsvaldandi örverum sem geta borist með matvælum.

Með aukinni þekkingu á eiginleikum og smitleiðum þeirra ættu neytendur, matvælaframleiðendur og aðrir áhugamenn um matvælavinnslu að geta tryggt öryggi þeirra matvæla sem þeir meðhöndla. Framleiðendur matvæla bera ábyrgð á öryggi þeirra afurða sem þeir framleiða.

Alþjóðleg samvinna Matís við BfR

Hjá Matís er unnið að að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem einkum er lögð áhersla á heilnæmi og öryggi matvæla. Verkefnin eru unnin í samvinnu við innlenda matvælaframleiðendur, háskóla og alla þá sem með einhverjum hætti eru að þjónusta matvælaiðnaðinn. Markvisst er einnig unnið með erlendum rannsóknastofnunum og fyrirtækjum í gegnum alþjóðleg rannsókna- og þróunarverkefni. Sem dæmi um þetta er afar farsælt samstarf við BfR (Federal Institute for Risk Assessment) en frá árinu 2012 hefur Matís átt í miklum samskiptum við þessa stóru og öflugu stofnun .

Helstu rannsóknaverkefni eru á sviði örveru- og efnarannsókna á matvælum, fóðri og umhverfi. Örverurannsóknir taka til flestra mikilvægustu sýkla sem fundist geta í matvælum. Meðal verkefna eru aðferðaþróun og prófun aðferða, rannsóknir á afkomu örvera í matvælum og umhverfi, vöktun örvera og áhrif hreinlætisaðgerða á örverur. Efnarannsóknir eru m.a. á aðskotaefnum og varnarefnum í matvælum. Þar undir heyra t.d. rannsóknir á snefilefnum í sjávarafurðum og ýmsum varnarefnum í grænmeti og ávöxtum.

Frétt um þetta má finna á vefsvæði Kjarnans.

IS