Fréttir

Humarpaté framlag Íslands í Evrópukeppni

Sextán Evrópulönd keppa um titilinn nýstárlegasta matvara Evrópu 2015 dagana 5. og 6. október á alþjóðlegu matvælasýningunni í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.

Hvernig verða matvæli framtíðarinnar? Hverjir verða helstu straumar og stefnur í neyslu matvæla í Evrópu?

Í október verður þessum spurningum svarað með nýsköpun 85 háskólanemenda í Ecotrophelia Europe keppninni í Mílanó. Keppendur frá Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Íslandi, Ítalíu, Króatíu, Rúmeníu, Serbíu, Slóveníu, Spáni, Ungverjalandi og Þýskalandi munu kynna aðlaðandi, bragðgóðar og nýstárlegar vörur fyrir dómnefnd sem skipuð er fulltrúum sömu landa. Formaður dómnefndar er Michel COOMANS, fyrrum forseti matvælasviðs iðnaðarráðuneytis Evrópusambandsins. Heildarverðmæti verðlauna er 15.000 evrur. 

Fyrir Íslands hönd keppir varan Humarpaté eða Paté de Langoustine þróað af 7 nemendum Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands með stuðningi frá Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Samtökum iðnaðarins. 

Nám í nýsköpun matvæla eykur samkeppnishæfni fyrirtækja

Frá árinu 2011 hefur framtakið ECOTROPHELIA staðið fyrir 75 keppnum og virkjað 550 háskóla og yfir 3000 nemendur til þátttöku. Fjörutíu vörutegundir, hannaðar innan ramma Evrópukeppninnar, hafa verið þróaðar og settar á markað.  ECOTROPHELIA Europe er námsmódel fyrir háskóla og nemendur, viðurkennt af iðnaðarráðuneyti Evrópusambandsins. Keppnin tengir saman hæfileika, færni og nýsköpun. Hún er einnig vettvangur fyrir fólk í kennslu, rannsóknum, framleiðslu og viðskiptum til að eiga árangursrík samskipti.

ECOTROPHELIA Europe er skipulögð af viðskiptaráði Vaucluse héraðs í Frakklandi með stuðningi samtaka matvælaiðnaðar í Frakklandi og annars staðar í Evrópu, þar á meðal Samtaka iðnaðarins á Íslandi. Aðrir stuðningsaðilar eru ýmsir opinberir aðilar í Frakklandi og stórfyrirtækin NESTLÉ World og Campden BRI í Bretlandi.

VERÐLAUN Í ECOTROPHELIA EUROPE KEPPNINNI verða afhent þriðjudaginn 6. október á sýningarsvæði alþjóðlegu matvælasýningarinnar í Mílanó, Feeding the Planet „Energy for Life“.


Frétt þessi birtist fyrst á vef Samtaka Iðnaðarins, www.si.is, þar sem fá má nánari upplýsingar.

Fréttir

Opni háskólinn í HR og Matís í samstarf um Iceland School of Fisheries

Skrifað undir samstarfssamning um nám fyrir erlenda stjórnendur í alþjóðlegum sjávarútvegi í HR

Opni háskólinn í HR og Matís, í samvinnu við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og aðrar háskóla- og rannsóknastofnanir á Íslandi, hefur sett á fót yfirgripsmikið nám fyrir erlenda stjórnendur og sérfræðinga í sjávarútvegi. Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís skrifuðu undir samstarfssamning um stofnun Iceland School of Fisheries í HR í gær.

Matis_undirskrift_HR_web
Sandra Kr. Ólafsdóttir, verkefnisstjóri ISF hjá Opna háskólanum í HR, Guðmunda Smáradóttir, forstöðumaður Opna háskólans í HR, Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Páll Jensson, prófessor við tækni- og verkfræðideild HR, Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, Páll Gunnar Pálsson, verkefnastjóri hjá Matís og Kristján Vigfússon, forstöðumaður MBA náms í HR.

Íslenskur sjávarútvegur er þekktur fyrir hágæðaafurðir og ábyrgar fiskveiðar. Í Iceland School of Fisheries er markmiðið að miðla dýrmætri þekkingu íslenskra sérfræðinga á þessu sviði. Í náminu verður m.a. fjallað um stjórnun í sjávarútvegi, vinnslu sjávarafurða, markaðssetningu og nýjustu þróun í tækni og nýsköpun í fiskiðnaði. Ennfremur verður fjallað um fiskveiðistjórnun, regluverk, rannsóknir og eftirlit í sjávarútvegi.

„Í Háskólanum í Reykjavík höfum við mikla reynslu af uppbyggingu alþjóðlegs náms á sviðum þar sem Íslendingar búa yfir sérþekkingu. Í uppbyggingu á slíku námi skiptir samstarf við leiðandi íslensk fyrirtæki og stofnanir mjög miklu máli og við erum þess vegna mjög ánægð með þennan samning við Matís,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor HR. „Við höfum þegar fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá og við vonumst líka til þess að íslensk fyrirtæki sjái sér hag í því að bjóða erlendum viðskiptavinum og samstarfsaðilum á námskeið Iceland School of Fisheries til að sækja sér sérfræðiþekkingu um öflugan og sjálfbæran sjávarútveg.“

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, leggur áherslu á að samstarfsvettvangur Matís og Háskólans í Reykjavík falli mjög vel að starfsemi Matís enda sé eitt markmiða Matís að koma að menntun aðila innan sjávarútvegsins hvort heldur sem er á Íslandi eða erlendis. Undanfarin ár hefur Matís tekið stór skref í auknu erlendu samstarf og því sé það mikið tilhlökkunarefni að taka þátt í með HR að byggja upp alþjóðlegt, öflugt stjórnendanám, fyrir aðila í sjávarútvegi. „Með þessu eflum við þekkingu þeirra sem fara höndum um hið mikilvæga hráefni sem fiskurinn er og tryggjum þannig aukin gæði sem skila sér í hærra verði til þeirra þjóða sem veiðarnar stunda,“ segir Sveinn. 

Í Iceland School of Fisheries verða í haust kennd þrjú vikulöng námskeið og koma leiðbeinendur úr íslensku atvinnulífi og akademíu. Meðal fyrirlesara má nefna Svein Margeirsson, forstjóra Matís; Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra  Sjávarklasans; Guðbjörgu H Guðmundsdóttur, verkefnastjóra nýsköpunar hjá Marel; Eggert Benedikt Guðmundsson, fyrrum forstjóra Granda; Daða Má Kristófersson, forseta félagsvísindasviðs HÍ og Bjarna Má Magnússon, lektor við Lagadeild HR. Einnig verður farið í heimsóknir til íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og stofnana sem starfa á sviði sjávarútvegs.

Nánari upplýsingar veita:

  • Eiríkur Sigurðsson, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá HR  í síma 859 5117, netfang eirikursig@hr.is
  • Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís í síma 858 5111, netfang steinar@matis.is

Fréttir

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar. Verðlaunafé upp á kr. 500 þúsund er í boði.

Ef þú ert hugmyndsmiður, hugsar út fyrir boxið, endilega sendu þá inn framúrstefnuhugmynd. Einstaklingar og/eða fyrirtæki geta sent inn hugmyndir eða tilnefnt aðra.
Gott tækifæri til að koma á framfæri góðum hugmyndum og eftirtalin verðlaun eru veitt:

  • Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 500 þús.
  • Þrjár bestu hugmyndirnar fá kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni.
  • Þjár bestu hugmyndirnar fá sýningarbás á ráðstefnunni til að kynna sínar hugmyndir.
  • Fleiri hugmyndirnar fá síðan sérstaka kynningu í veglegu ráðstefnuhefti Sjávarútvegsráðstefnunnar.
  • 10 bestu hugmyndasmiðirnir fá frítt fyrir einn á ráðstefnuna.

Á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 verða fimm erindi þar sem kynntar verða eldri framúrstefnuhugmyndir og m.a. sagt frá því hve langt þær eru komnar í þróunni.

Frestur til að skila inn umsóknum er 1. október nk.
 
Nánar upplýsingar á vef ráðstefnunnar undir liðnum VERÐLAUN

Fréttir

World Seafood Congress verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017

World Seafood Congress (WSC) 2015 er rétt að ljúka en ráðstefnan er haldin að þessu sinni í Grimsby á Englandi. Í lok hverrar ráðstefnu er tilkynnt hverjir halda þá næstu og tilkynnt var rétt í þessu að WSC 2017 verður haldin í Reykjavík 10. – 14. september 2017.

Mikill heiður fylgir því að fá að halda WSC en ráðstefnan er mjög stór og dregur að borðinu fólk úr öllum hornum sjávarútvegs og fiskveiða, frá villtum veiðum til fiskeldis og allt þar á milli. Á ráðstefnuna koma aðilar frá útgerðum, fiskvinnslum, innflutningsaðilum, útflutningsaðilum, fólki úr menntastofnunum, fyrirtækjum og ríkisreknum stofnunum úti um allan heim.

WSC_2017

Meginþema

Meginþema ráðstefnunnar 2017 er vöxtur í bláa lífhagkerfinu en bláa lífhagkerfið er tilvísun í mikilvægi hafsins þar sem veruleg tækifæri liggja til vaxtar, nýsköpunar, rannsókna, markaðssetningar með matvælaöryggi, fæðuöryggi, sjálfbærni og matarheilindi að leiðarljósi.

Áhersluatriði:

  • Nýsköpun í sjávarútvegi – nýjar vörur og möguleikar til fjárfestinga
  • Matvælaöryggi – forsenda nýsköpunar í matvælaframleiðslu og alþjóðlegrar verslunar með mat
  • Matar heilindi – baráttan gegn svikum í matvælaframleiðslu og –sölu á tímum netverslunar, matartengdar ferðaþjónustu og ósk neytenda um rekjanleika í matvælaframleiðslu

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa Smáradóttir (858-5113) eða Steinar B. Aðalbjörnsson (858-5111).

Heimasíða ráðstefnunnar: www.wsc2017.com
Twitter: @WSC_2017
Facebook: World Seafood Congress

Fréttir

Hagnýting korns á norðurslóð – þjálfun í boði

Hafin er vinna við nýtt alþjóðlegt verkefni um hagnýtingu korns á norðurslóð. Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætluninni (Northern Periphery & Arctic Programme) og er til þriggja ára. Þátttakendur eru frá Íslandi (Matís og Landbúnaðarháskólinn), Norður-Noregi, Færeyjum, Orkneyjum og Nýfundnalandi.

Þjálfun stendur fyrirtækjum til boða

Markmið verkefnisins er að auka framleiðslu matvara úr innlendu korni og finna nýjar leiðir til að hagnýta kornið. Einnig er ætlunin að auka verðmæti kornframleiðslunnar og fjölga störfum sem tengjast korni. Gerðar verða leiðbeiningar um hvernig best verði staðið að kornrækt við mismunandi skilyrði, dregnar fram upplýsingar um kornmarkaðinn og efnt til átaks í vöruþróun bökunarvara og drykkja í samvinnu við fyrirtæki.

Upplýsingamiðlun milli landa er lykilatriði í verkefninu. Fyrirtækjum í bökunar- og drykkjarvöruiðnaði stendur til boða að hagnýta margvíslegar upplýsingar auk þess sem námskeið og handleiðsla standa til boða. Þremur íslenskum fyrirtækjum í bökunariðnaði er boðið að taka þátt í námskeiðum og handleiðslu á vegum NOFIMA í Noregi. Í þessu felst vöruþróunarnámskeið vorið 2016 og námeið um markaðsmál vorið 2017 ásamt ráðgjöf á tímabilinu. NOFIMA býr yfir háþróuðu tilraunabakaríi og mikilli reynslu af þróun vara úr korni. Drykkjarvöruframleiðendur geta hagnýtt sér reynslu Orkneyinga í drykkjarvöruiðnaði.

Matís óskar eftir að fá upplýsingar frá þeim fyrirtækjum sem vilja hagnýta sér upplýsingamiðlun í verkefninu. Einnig er óskað eftir áhugasömum fyrirtækjum til að taka þátt í námskeiðunum en þau verða valin á grundvelli væntanlegs árangurs þeirra. Fyrirtæki skulu senda upplýsingar um áhuga og áform til Ólafs Reykdal hjá Matís ( olafur.reykdal@matis.is).

Skýrslur

Áhrif vistfræði þangs og þara á lífvirk efni þeirra og nýtingu

Útgefið:

01/09/2015

Höfundar:

Rósa Jónsdóttir, Ásta Heiðrún Pétursdóttir, Halldór Benediktsson, Hilma B. Eiðsdóttir, Karl Gunnarsson, Jóna Freysdóttir

Styrkt af:

Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif umhverfisþátta á magn og lífvirkni fjölfenóla og fjölsykra í þangi og þara. Á þann hátt var stefnt að því til að auka þekkingu á vist- og efnafræði þessara tegunda fyrir hagkvæmari einangrun lífefna, nánari greiningu þeirra og nýtingu til lífvirknimælinga. Sýni af beltisþara, marinkjarna, bóluþangi og klóþangi voru tekin á þremur stöðum á landinu; á norðanverðu Reykjanesi, í Breiðafirði og Eskifirði, alls sex sinnum yfir árið, frá mars til júní, í ágúst og október. Þróuð var aðferð til að einangra fucoidan og laminaran fjölsykrur úr bóluþangi og klóþangi. Heildarmagn fjölfenóla var mælt í öllum sýnum en lífvirkni í völdum sýnum. Auk þess voru þungmálmar og joð mælt í völdum sýnum.

Magn fjölfenóla mældist hátt í bóluþangi og klóþangi en lítið í marinkjarna og beltisþara. Andoxunarvirkni, mæld sem ORAC og í frumukerfi, var mikil í þeim sýnum sem innihéldu mikið magn fjölfenóla. Bóluþang og marinkjarni sýndu bólguhemjandi virkni.

Niðurstöður verkefnisins auka verulega við þekkingu á sviði nýtingar þangs og þara. Nýtast þær vel við þróun á vinnslu þangs til manneldis sem nú stendur yfir.

Skoða skýrslu

Inngangur að fisktækni

Tengiliður

Margeir Gissurarson

Stefnumótandi sérfræðingur

margeir.gissurarson@matis.is

Matís og Fisktækniskólinn í Grindavík hafa unnið saman að gerð þessa efnis sem nú birtist og hefur fengið heitið „Inngangur að fisktækni“ en þar er að finna fjölbreyttar og gagnlegar upplýsingar um framleiðslu sjávarafurða.

Rannsóknasjóður síldarútvegsins styrkti þessa útgáfu í samvinnu við Matís og Fisktækniskólann. Efnið er fyrst og fremst hugsað fyrir nemendur í fisktækni, en ætti auk þess að henta öllum þeim sem vilja fræðast um hvernig eigi að standa að framleiðslu sjávarfangs. Það er gríðarlega mikilvægt að efla aðgang að fræðslu um vinnslu matvæla, auknar kröfur á mörkuðum krefjast aukinnar þekkingar og vandvirkni á öllum stigum virðiskeðju sjávarfangs. Það skiptir máli að allir þeir sem koma að öflun og vinnslu hráefnis viti hvernig á að standa að verki til að framleiða örugg hágæða matvæli fyrir okkar verðmætustu markaði.

Fréttir

Lífvirkni í vörum frá Villimey

Fyrirtækið Villimey slf framleiðir lífrænt vottaðar vörur úr íslenskum jurtum sem vaxa í villtri náttúru Vestfjarða. Vörur Villimeyjar komu á markað í ágúst 2005 og hefur framleiðsla farið vaxandi undanfarin ár. Vörurnar hafa fengið góðar móttökur á Íslandi og þar sem þær hafa verið kynntar erlendis.

Villimey byggir starfsemi sína á nýtingu á auðlindum Vestur-Barðastrandasýslu sem eru hrein og ómenguð náttúra og jurtir sem vaxa villtar í náttúrunni. Aðalbjörg Þorsteinsdóttir, eigandi  og framkvæmdastjóri Villimeyjar nýtir þennan hreinleika náttúrunnar til að framleiða vörur úr jurtum og byggir framleiðsluna á aldagömlum uppskriftum sem hún hefur þróað í takt við nútímakröfur og þarfir. Vörur Villimeyjar eru orðnar þekktar hér á landi og njóta sífellt aukinna vinsælda.

Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki
Frá rannsóknastofu Matís á Sauðárkróki | From Matis lab in Saudarkrokur

Niðurstöður úr lífvirknirannsóknum á vörum frá Villimey

Undanfarna mánuði hafa jurtavörur sem framleiddar eru af Villimey á Tálknafirði verið rannsakaðar á rannsóknarstofu Matís á Sauðárkróki og í Reykjavík. Framleiðsla jurtasmyrslanna frá Villimey er eftir ströngustu kröfum varðandi hreinlæti og vönduð vinnubrögð. Engum rotvarnarefnum er bætt í smyrslin og þau standast þær kröfur sem gerðar eru almennt til slíkrar framleiðslu. Um er að ræða náttúruvörur sem hafa sína náttúrulegu virkni gegn bakteríum. Sýnt var fram á þessa virkni smyrslanna með svokölluðu ögrunarprófi eða „Preservative efficacy testing (challenge test)”, sem framkvæmt var á rannsóknastofu Matís. Við þessar prófanir var fylgt leiðbeiningum í Evrópsku Farmakópíunni (7. útgáfu frá 2011).

Húðvörur Villimeyjar hafa jafnframt verið prófuð í margskonar húðfrumuprófum þar sem hægt er að mæla virkni ýmissa efna í húðfrumum og finna þannig út áhrif þeirra á uppbyggingu húðfruma. Húðfrumuprófin mæla magn kollagens sem stuðlar að uppbyggingu húðfruma, elastasa sem orsakar hrörnun húðarinnar, málmpróteinasa 1  sem brýtur niður kollagen og málmpróteinasa 2 sem er nauðsynlegur við endurnýjun líkamsvefja.

Í þessum prófunum kom fram jákvæð virkni húðvaranna frá Villimey á þessi efni og þær ýmist hindra myndun þeirra svo sem elastasa og vinna þannig gegn hrörnun húðarinnar eða örva framleiðslu þeirra svo sem kollagens og stuðla þannig að endurnýjun húðarinnar. Einnig kom fram töluverð jákvæð svörun húðvaranna í prófum sem mæla hemjandi áhrif þeirra á bólgu í vöðvum og liðum.

Ennfremur kom í ljós virkni í húðvörunum við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) og reyndust græðandi áhrif þeirra í þessu prófi vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið.

Einnig voru mæld andoxunaráhrif í vörum Villimeyjar, bæði húðvörum og jurtablönduðu eplaediki og reyndist andoxunarvirknin vera umtalsverð umfram ómeðhöndluð viðmið og má rekja þessa andoxunarvirkni til jurtanna sem notaðar eru í vörurnar. Einnig komu í ljós töluverð bólguhemjandi áhrif jurtablöndunnar í eplaedikinu.

Rannsóknir Matís á vörum Villimeyjar hafa verið styrktar af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði V-Barðastrandasýslu og færa Villimey og Matís sjóðnum bestu þakkir fyrir mikilvægan stuðning.

Skýrslur

Áhrif vistfræði þangs og þara á lífvirk efni þeirra og nýtingu / Ecological impact on bioactive chemicals in brown seaweeds and their utilization

Útgefið:

01/09/2015

Höfundar:

Rósa Jónsdóttir, Ásta Heiðrún Pétursdóttir, Halldór Benediktsson, Hilma B. Eiðsdóttir, Karl Gunnarsson, Jóna Freysdóttir

Styrkt af:

Verkefnasjóður sjávarútvegsins

Tengiliður

Rósa Jónsdóttir

Fagstjóri

rosa.jonsdottir@matis.is

Áhrif vistfræði þangs og þara á lífvirk efni þeirra og nýtingu / Ecological impact on bioactive chemicals in brown seaweeds and their utilization

Markmið verkefnisins var að rannsaka áhrif umhverfisþátta á magn og lífvirkni fjölfenóla og fjölsykra í þangi og þara. Á þann hátt var stefnt að því til að auka þekkingu á vist- og efnafræði þessara tegunda fyrir hagkvæmari einangrun lífefna, nánari greiningu þeirra og nýtingu til lífvirknimælinga. Sýni af beltisþara, marinkjarna, bóluþangi og klóþangi voru tekin á þremur stöðum á landinu; á norðanverðu Reykjanesi, í Breiðafirði og Eskifirði, alls sex sinnum yfir árið, frá mars til júní, í ágúst og október. Þróuð var aðferð til að einangra fucoidan og laminaran fjölsykrur úr bóluþangi og klóþangi. Heildarmagn fjölfenóla var mælt í öllum sýnum en lífvirkni í völdum sýnum. Auk þess voru þungmálmar og joð mælt í völdum sýnum. Magn fjölfenóla mældist hátt í bóluþangi og klóþangi en lítið í marinkjarna og beltisþara. Andoxunarvirkni, mæld sem ORAC og í frumukerfi, var mikil í þeim sýnum sem innihéldu mikið magn fjölfenóla. Bóluþang og marinkjarni sýndu bólguhemjandi virkni. Niðurstöður verkefnisins auka verulega við þekkingu á sviði nýtingar þangs og þara. Nýtast þær vel við þróun á vinnslu þangs til manneldis sem nú stendur yfir.

The aim of the project was to study the effect of environmental factors on polyphenols and polysaccharides in seaweed. Thereby be able to better recognize the ecology and chemistry of these species for more efficient isolation of the biochemical, their further analysis and utilization in bioactive measurements. Samples of Saccharina latissima, Alaria esculenta, Ascophyllum nodosum and Fucus vesiculosus were collected at three different locations, Reykjanes, Breiðafjörður and Eskifjörður, from March till October, in total six times. Method to isolate fucoidan and laminaran polysaccharides was developed. Total polyphenol content (TPC) was measured in all samples and bioactivity in selected samples. In addition, contaminants and iodine were analysed in selected samples. The TPC was high in F. vesiculosus and A. nodosum but rather low in A. esculenta and S. latissima. The antioxidant acitivty, measured as ORAC value and in cells, was high in samples containing high amount of TPC. F. vesiculosus and A. esculenta had anti-inflammatory properties. The results of the project have increased the knowledge about the utilization of seaweed in Iceland substantially.

Skýrsla lokuð til 31.12.2017

Skoða skýrslu

Fréttir

Guðjón Þorkelsson prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ

Guðjón Þorkelsson, starfsmaður Matís, fékk fyrir stuttu stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Guðjón hefur lengi kennt við háskólann eða allar götur síðan 1978. Guðjón lagði stund á líffræði við HÍ þaðan sem hann útskrifaðist árið 1977 og nám í matvælafræði í kjölfarið en Guðjón er með meistaragráðu í matvælafræði frá háskólanum í Leeds í Englandi þaðan sem hann útskrifaðist 1981. Auk þessa situr Guðjón í stjórn Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.

Hjá Matís er Guðjón með yfirumsjón með öllu sem tengis menntun og matvælaframleiðslu og er Guðjón mikilvæg tenging Matís við háskólana á Íslandi. Við erum afar stolt af prófessorsstöðu Guðjóns og hlökkum til að takast á við framtíðar verkefni saman.

Guðjón hélt fyrirlestur á sérstökum kynningarfyrirlestri í sl. viku en á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands er haldið upp á framgang eða ráðningu nýrra prófessora með slíkri kynningu. Athöfnin hófst með stuttu yfirliti yfir helstu störf Guðjóns, en síðan tók hann sjálfur við og flutti erindi um störf sín og framtíðarsýn í kennslu og rannsóknum.
 
Matís óskar Guðjóni innilega til hamingju með prófessorsstöðuna.

IS