Fréttir

Matís er bakhjarl LEGO hönnunarkeppninnar

Grunnskólabörn leysa loftlagsvanda í LEGO-hönnunarkeppni. Hátt í 100 krakkar á aldrinum 10-15 ára hafa skráð sig til leiks í LEGO-hönnunarkeppni grunnskólabarna, First Lego League, sem haldin verður á morgun, laugardaginn 12. nóvember, á Háskólatorgi.

Markmiðið með keppninni er að vekja áhuga grunnskólanema á vísindum og tækni ásamt því að byggja upp sjálfstraust þeirra, leiðtogahæfni og lífsleikni. Á hverju ári er keppninni valið  ákveðið  þema sem  er ofarlega á baugi í heiminum. Í ár verður þemað fæðuöryggi. Ólafur Ögmundarson er fulltrúi Matís í dómnefnd og fer vel á því þar sem hann þekkir virðis- og flutningskeðju matvæla mjög vel.

Segja má að keppnin felist í fimm mismunandi verkefnum. Í fyrsta verkefni smíða keppendur vélmenni úr tölvustýrðu LEGO-i sem er forritað til að leysa tiltekna þraut. Í öðru lagi eiga keppendur að gera vísindalega rannsókn á ákveðnu efni. Í þetta sinn snýst verkefnið um fæðuöryggi (e. food factor) og eiga þátttakendur að flytja tiltekna vöru frá einum stað til annars á sem hagkvæmastan hátt. Í þriðja lagi halda keppendur ítarlega dagbók um undirbúning fyrir keppnina og í fjórða lagi eiga þeir að flytja frumsamið skemmtiatriði. Í fimmta lagi þurfa liðin að gera grein fyrir því hvernig þau forrituðu vélmennið sitt., en þar reynir á þekkingu þátttakenda á eigin búnaði.

Níu lið frá jafnmörgum skólum víðs vegar af landinu hafa skráð sig til leiks og eru á bilinu 6-10 manns í hverju liði ásamt einum fullorðnum liðsstjóra. Öll lið fengu senda þrautabraut og keppnisboli átta vikum fyrir keppni til þess að undirbúa sig.

Dagskrá keppninnar hefst kl. 9 á laugardagsmorgun og reiknað er með að sigurvegarar verði krýndir um kl. 15. Það lið sem ber sigur úr býtum á kost á að keppa á Evrópumóti First Lego League. Auk verðlauna fyrir sigur í keppninni eru m.a. veitt verðlaun fyrir besta lausn í hönnun á vélmenni og forritun, besta rannsóknarverkefnið, bestu dagbókina, besta skemmtiatriðið og bestu liðsheildina. Allir þátttakendur fá FLL medalíu í viðurkenningarskyni.

Keppnin hefur farið fram hér á landi undanfarin 6 ár og hefur jafnan vakið mikla athygli. Hlutfall verk- og tæknimenntaðs fólks er stundum notað sem mælikvarði  þegar kannað er hve vel þjóðir eru búnar undir að takast á við framtíðina. Ef fjölga á fólki með slíka menntun í  íslensku þjóðfélagi er mikilvægt að efla áhuga á tækni og vísindum meðal æsku  landsins. LEGO-hönnunarkeppnin er nýstárleg leið til þess.

Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands heldur utan um keppnina en bakhjarlar hennar eru Nýherji, Verkfræðingafélag Íslands, Samtök iðnaðarins og Matís.

Öllum er velkomið að fylgjast með keppninni á Háskólatorgi.

Nánari upplýsingar um keppnina veitir Ingi Rafn Ólafsson, Markaðs- og kynningarstjóri Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, ingirafn@hi.is og GSM: 772-1400.

Frétt tekin af vef Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ.

IS