Fimmtudaginn 21. september brá starfsfólk Matís undir sig betri fætinum og skellti sér í haustferð austur fyrir fjall. Dagurinn var sólríkur og fallegur og Ölfus skartaði sínu fegursta.
Fyrsti viðkomustaður hópsins var Ráðhús Ölfuss í Þorlákshöfn. Þar tóku þau Kolbrún Hrafnkelsdóttir og Rúnar Þórarinsson vel á móti okkur með kaffi og kleinum og kynntu fyrir hópnum Ölfus Cluster, Grænan iðngarð, starfsemi First Water og Jarðlífs og fleiri spennandi þætti sem eru í gangi í þessu ört vaxandi sveitarfélagi. Óhætt er að segja að af nógu hafi verið að taka!
Eftir kynninguna var haldið í vettvangsferð um svæði First Water en það er lokuð landeldisstöð sem er í hraðri uppbyggingu um þessar mundir. Það var tilkomumikið að ganga um svæðið sem er gríðarstórt og fullt af möguleikum. Rúnar leiðsagði hópnum og sýndi hvernig uppbyggingin hefur verið undanfarna mánuði og hverjar áætlanirnar eru fyrir næstu misseri.
Eftir gönguferð um svæðið var stoppað á veitingastaðnum Hafinu Bláa sem staðsett er við ósa Ölfusár milli Eyrarbakka og Þorlákshafnar. Þar var dýrindis humarsúpa og nýbakað brauð borið á borð og hópurinn gat notið útsýnisins og veðurblíðunnar á þessum skemmtilega stað.
Þaðan lá leiðin upp á Hellisheiði, í húsakynni Orku Náttúrunnar og VAXA. Kristinn Hafliðason eða Kiddi í VAXA eins og hann er gjarnan kallaður sagði frá uppbyggingu og starfsemi fyrirtækisins sem endurnýtir vatn og orku frá Hellisheiðarvirkjun til þess að rækta örþörunga og framleiða úr þeim sjálfbær matvæli. Hópurinn fékk að ganga um framleiðslusalinn sem er afar skemmtileg upplifun vegna þess að allt svæðið er baðað fjólubláu ljósi sem örþörungarnir þrífast vel í.
Hópurinn endaði svo daginn á því að fá sér kaffisopa á Hellisheiði og halda aftur sem leið lá til Reykjavíkur.