Markmið verkefnisins er að framkvæma vistferilsgreiningu á íslenskum fiskafurðum unnum úr afla valinna ferskfisktogara og togbáta. Niðurstöður verkefnisins munu þannig sýna fram á hvert kolefnisspor íslenskra sjávarafurða er, og hvernig það spor sé í samanburði við samkeppnisafurðir.
Verkefnið er óbeint framhald á verkefninu Vistferilsgreining á ferskum þorskhnökkum, sem lauk árið 2014 með útgáfu skýrslu og kynningarbæklings. Áður hafði Matís framkvæmt samskonar vistferilsgreiningar 2002 og 2009. Leitast verður við að hafa sem breiðastan hóp af togskipum í greiningunni, þannig að unnt verði að greina helstu áhrifaþætti á stærð kolefnissporsins. Hluti að greiningunni mun felast í því að bera saman kolefnisspor eftir aldri skipanna þ.s. sérstaklega verður horft til þess að bera saman nýja ferskfisktogara/togbáta sem komið hafa til landsins á undanförnum árum, og togara sem hafa verið úreltir á undanförnum árum. Í einhverjum tilvikum verða borin saman eldri skip og nýsmíðuð skip sem komið hafa í þeirra stað. Á þann hátt verður leitast við að kanna hvort að ný skip hafi lægra kolefnisspor en þau eldri. Kolefnissporið verður einnig borið saman við kolefnisspor samkeppnisvara, bæði sjávarafurða og annarra matvæla. Niðurstöðurnar verða nýttar til að útbúa kynningarefni sem nýta má við markaðssetningu íslenskra sjávarafurða, sem og til útgáfu á ritrýndri fræðigrein. Afurð verkefnisins verður vistferilsgreining sem gerð er með alþjóðlega stöðluðum aðferðum sem unnt er að nota við markaðssetningu sjávarafurða.