Faghópur erfða hjá Matís sinnir meðal annars erfðagreiningum og rannsóknum á laxi, bæði eldislaxi og villtum. Sæmundur Sveinsson er fagstjóri erfða og hann hefur skoðað lífsferil íslenska laxins og erfðafjölbreytileika hans eftir vatnasvæðum, erfðagreiningar á strokulöxum úr sjókvíaeldi og erfðagreiningar á laxi fyrir svokallaða fiskrækt svo eitthvað sé nefnt.
Íslenskir laxastofnar
Talið er að villti Atlantshafslaxinn hafi verið á Íslandi frá því að síðustu Ísöld lauk eða í um 10.000 ár. Lífsferill laxa hefur áhugaverðar afleiðingar á erfðafræði tegundarinnar en lax hrygnir í ferskvatni, seiðin lifa í ánum í 2-4 ár og ganga síðan til sjávar. Fullorðinn kynþroska lax snýr síðan aftur í sömu á og hann ólst upp í eftir eitt eða tvö ár í sjó, til hrygningar. Lax sem eyðir einu ári í sjó er kallaður smálax og lax sem eyðir tveimur árum í sjó er kallaður stórlax. Þetta atferli laxins, að leita í uppeldisá til hrygningar er að hluta til ákvörðuð af tilteknum genum eða geni. Þessi lífsferill leiðir til þess að stofnar í ám eru fljótir að aðgreinast erfðafræðilega frá hverjum öðrum.
Lífsferill laxa og þessi erfðafræðilega aðgreining milli stofna hefur í för með sér að hægt er að rekja uppruna laxa til áa og vatnasvæða með arfgerðargreiningu. Lax á Íslandi er af þessum sökum afar fjölbreyttur og mikill erfðafjölbreytileiki er til staðar innan – og milli vatnasvæða.
Hafrannsóknastofnun vann að rannsóknum á stofnerfðafræði íslenska laxins, í samstarfi Matís, á árunum 1990-2017 sem sýndu einmitt fram á mikinn erfðafræðilegan mun á milli vatnasvæða og landshluta. Afar mikilvægt er að varðveita þennan fjölbreytileika en heilt yfir fer erfðafjölbreytileiki tegunda dvínandi á heimsvísu. Þessu til viðbótar voru laxar sem veiddust í sjó, aðallega sem meðafli úr makrílveiðum, raktir til upprunaáa. Þær greiningar leiddu í ljós að stærsti hluti laxa við Íslandsstrendur að sumri til reyndist vera frá meginlandi Evrópu og Skandinavíu.
Erfðafjölbreytileiki er nauðsynlegur viðkomu tegunda og gerir þeim kleift að aðlagast breytingum í umhverfinu. Þessar breytingar geta verið margvíslegar, allt frá breytingum á hitastigi eða öðrum umhverfisþáttum til nýrra sjúkdóma. Hnattrænar loftslagsbreytingar munu til að mynda án efa ýkja sveiflur í veðurfari hér á norðurslóðum og því hefur aldrei verið mikilvægara að varðveita líffræðilegan og erfðafræðilegan fjölbreytileika í lífríki Íslands
Strokulaxar
Matís hefur um árabil sinnt arfgerðargreiningum á strokulöxum. Strokulaxar eru fiskar sem sloppið hafa úr sjókvíaeldi og eru síðan veiddir í ám eða sjó. Sjókvíaeldi fylgir óumflýjanlega sú áhætta að eldislaxar sleppi úr kvíum en óhætt er að fullyrða að enginn vill að slíkt hendi og eldisfyrirtæki gera ýmsar ráðstafanir til að sporna við stroki. Á Íslandi er viðhaft afar skilvirkt og gott kerfi til að halda utan um uppruna strokulaxa sem veiðast í ám. Það er lögbundin skylda að skila öllum strokulöxum sem veiðast til Fiskistofu og/eða Hafrannsóknastofnunar. Matís fær sýni af strokulaxinum til arfgerðargreiningar sem Hafró nýtir síðan til að rekja uppruna fisksins, þ.e. úr hvaða sjókví hann slapp.
Þetta kerfi byggir á því að Matís arfgerðargreinir líka alla eldishænga sem notaðir eru til að framleiða seiði í sjókvíaeldi hér á landi. Þessi gögn eru nýtt til að framkvæma faðernisgreiningar en allir fiskar í tiltekinni kví hafa sama föður og því er hægt að rekja uppruna þeirra.
Í ágúst 2023 tilkynnti Matvælastofnun, MAST, um stórt strok úr kví í Patreksfirði. Það sem var sérstaklega alvarlegt við það strok var að flestir strokulaxar sem veiddust reyndust vera kynþroska. Það þýðir að hættan á alvarlegri erfðablöndun eru talsverðar. Matís fékk rúmlega 500 sýni til greininga í haust.
Fiskrækt
Haustið 2023 fór Matís að bjóða upp á arfgerðargreiningar á laxi fyrir fiskrækt. Með fiskrækt er átt við eldi smá- og gönguseiða og hrognagröft frá villtum fiski úr þeirri á sem verið er að reyna að auka fiskgengd og veiði í. Starfsfólk Matís vinnur mjög náið með sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar á ferskvatnssviði stofnunarinnar.
Það er samróma álit Fiskistofu og Hafró að það væri mjög slæmt fyrir laxastofna ef eldisfiskur kæmist inn í seiðaeldisstöð og væri nýttur til seiða- eða hrognaframleiðslu. Strokulaxar sem hafa sloppið snemma úr eldi, þ.e.a.s. þegar þeir voru litlir, bera mjög lítil sjáanleg merki um eldi og því er ekki alltaf hægt að treysta á greiningu eldislaxa út frá útlitslegum þáttum. Arfgerðargreiningar eru öflugt tól til að greina mögulega eldislaxa sem gætu slæðst með í fiskrækt. Haustið 2023 framkvæmdi Matís þessar greiningar fyrir fimm veiðifélög til að tryggja að aðeins villtur lax yrði nýttur í fiskrækt.
Hlaðvarpsþáttur um erfðagreiningar laxa á Íslandi
Sæmundur Sveinsson var viðmælandi í Matvælinu, hlaðvarpi Matís um rannsóknir og nýsköpun í matvælaframleiðslu á dögunum. Í þættinum fjallar hann um erfðagreiningar á laxi á Íslandi í gegnum árin og sérstaklega þær rannsóknir sem faghópur hans fæst við um þessar mundir. Sæmundi er lagið að fjalla um þessi mál á auðskiljanlegan og skemmtilegan hátt svo að óhætt er að mæla með hlustun!
Þátturinn er aðgengilegur í heild sinni á öllum helstu hlaðvarpsveitum og í spilaranum hér að neðan: