Fréttir

Matís sendir ekki út jólakort í pósti en styrkir Kraft

Líkt og undanfarin ár þá sendir Matís ekki út hefðbundin jólakort heldur eingöngu kort á rafrænu formi. Þess í stað styrkir Matís Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendur þeirra.

Er það ósk Matís að styrkurinn komi að góðum notum og styðji enn frekar við það frábæra starf sem nú þegar fer fram hjá Krafti.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Krafts, www.kraftur.org.

Fréttir

Matís tekur þátt í evrópska samstarfsverkefninu EuroFIR

Tilgangurinn með EuroFIR (European Food Information Resource) er að bæta gögn um efnisinnihald matvæla. Verkefnið miðar að því að leita leiða til að miðla upplýsingunum með gagnagrunnum og á netinu.

Þannig styrkist samkeppnishæfni smárra og stórra matvælafyrirtækja í Evrópu. Nú er unnið að því að þróa staðla, gæðamatskerfi og skilgreiningar á fæðutegundum og samhæfa gagnagrunna. Starfið auðveldar Íslendingum að fá gögn frá öðrum Evrópulöndum, ekki síst með rafrænum hætti. Afar mikilvægt er að Íslendingar taki áfram þátt í starfinu þegar verkefninu lýkur en evrópskt félag tekur við hlutverki EuroFIR á næsta ári.

Fjöldi vörumerkja fyrir matvæli á Vesturlöndum skiptir nú tugum þúsunda. Oft þarf að leggja fram upplýsingar um næringargildi þessara vara og matvælaiðnaðurinn þarf að finna hagkvæmar leiðir til að láta þessar upplýsingar í té. Afrakstur EuroFIR verkefnisins leiðir til þess að iðnaðurinn fær áreiðanlegri gögn en áður og þau eru skilgreind með sama hætti í Evrópulöndum.

Á vegum Matís er nú unnið að því að endurskipuleggja ÍSGEM gagnagrunninn um efnainnihald matvæla til að uppfylla þær gæðakröfur sem hafa verið settar fram í EuroFIR verkefninu Gagnagrunnurinn hefur í rúmt ár verið aðgengilegur á vefsíðu Matís. Þar er að finna upplýsingar um næringarefni í fjölmörgum fæðutegundum. Á vefsíðu EuroFir er að finna upplýsingar fyrir matvælaiðnað um heilsufullyrðingar, staðla fyrir gögn og skýrslur.

EuroFir verkefninu lýkur á árinu 2009 og er þegar farið að vinna að því að evrópskt félag (non-profit organization) haldi áfram starfinu við að samhæfa gagnagrunna, uppfæra verklagsreglur og miðla þekkingu. Óskað hefur verið eftir því að þátttakendur í EuroFIR verkefninu haldi samstarfinu áfram innan hins nýja félags.

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal, olafur.reykdal@matis.is.

Grein þessi birtist nú síðast á bls. 5 í Íslenskum iðnaði, fréttabréfi Samtaka Iðnaðarins.

Fréttir

Matís fagnar góðum sölusamningi á ensímum

Starfsemi á sviði líftækni og lífvirkra efna hefur aukist til mikilla muna um allan heim.

Vísindamenn hafa í auknu mæli lagt áherslu á rannsóknir á þessu sviði enda er talið að niðurstöður þeirra geti gegnt mikilvægu hlutverki í baráttunni við heilbrigðisvandamál nútíðar og framtíðar. Auk þess telja fræðimenn að leysa megi hluta orkuvanda heimsins með líftækni. Eitt dæmi um ávinning af líftækninni og lífvirkum efnum eru fiskpeptíð sem geta hugsanlega lækkað blóðþrýstinn hjá fólki. Lækkun háþrýstings er mikið kappsmál enda kostnaður heilbrigðiskerfisins verulegur vegna hjarta- og æðasjúkdóma en háþrýstingur er einmitt einn áhættuþátta þessara sjúkdóma (sjá einblöðung um þetta efni hér).

Prokaria hefur undafarin tvö ár verið í samstarfi við erlent efnafyrirtæki sem hefur sviði líftækni og lífvirkra efna. Nú er svo komið að þetta fyrirtæki keypti af Matís mikilvæg ensím sem það ætlar að nýta í orkurannsóknir sínar. Söluverðmæti þessa samnings er hvorki meira nei minna en 60.000 evrur!

Ekki slæmt þegar þörf er á fjármunum inn í íslenskt hagkerfi!

Skemmtilegt er einnig frá því að segja að Matís-Prokaria hefur nú sett á laggirnar sölueiningu á ensímum og öðrum lífvirkum efnum og má nálgast frekari upplýsingar á heimasíðu Prokazyme, www.prokazyme.com.

Matís-Prokaria á von á því að vel gangi að selja ofangreindar vörur í gegnum þetta nýja sölukerfi.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Jóhannsson, ragnar.johannsson@matis.is, og í síma 422-5000.

Fréttir

Okkar starfsemi – allra hagur!

Matís auglýsir eftir verkefnastjóra á svið fiskeldis á starfstöð fyrirtækisins á Ísafirði. Auglýsing þess efnis birtist í MorgunblaðinuFréttablaðinu og Bæjarins besta á Ísafirði.

Starfssvið: Að efla starfsemi Matís á sviði fiskeldis og þróa ný atvinnutækifæri.

Í starfinu felst m.a:

  • Þróun á eldistækni
  • Hönnun og þróun á vinnsluferlum
  • Efling verkefna hjá Matís á Vestfjörðum í tengslum við atvinnulífið

Hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í raunvísindum s.s. verkfræði eða tæknifræði; framhaldsmenntun er kostur
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi

Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla, skal senda til Matís ohf., Borgartúni 21, 105 Reykjavík, eða á netfangið atvinna()matis.is.

Umsóknarfrestur er til og með 23. desember nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf í janúar 2009.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Jón H. Arnarson, mannauðsstjóri, jon.h.arnason@matis.is, og í síma 422-5000.

Fréttir

Meistaravörn í Viðskipta- og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri – Matís styrkir verkefnið

Þriðjudaginn 16. desember heldur Guðbjörg Stella Árnadóttir meistaravörn sína á auðlindasviði. Vörnin fer fram kl. 13:00 og verður í stofu K201 á Sólborg.

Verkefni Stellu ber heitið „The effects of cold cathode lights on growth of juvenile Atlantic cod (Gadus morhua L.): use of IGF-I as an indicator of growth”.

Verkefnið var hluti af stærra verkefni, „Þróun iðnaðarvædds þorskeldis: Stjórn vaxtar og kynþroska með háþróuðum ljósabúnaði“ sem styrkt var af AVS sjóðnum og var samstarfsverkefni Matís ohf., Hafrannsóknarstofnunar, Hraðfrystihússins Gunnvarar hf., Háskólans í Gautaborg, Háskólans að Hólum, Háskólans á Akureyri, Matís-Prokaría og Náttúrustofu Vestfjarða.

Meistaraverkefni Guðbjargar Stellu var styrkt af Matís ohf., AVS-sjóðnum, Landsbankanum og Minningarsjóði Margrétar Björgólfsdóttur.

Ljóslota er einn af þeim umhverfisþáttum sem hefur hvað mest áhrif á vöxt og kynþroska þorsks líkt og hjá öðrum fiskitegundum. Nýlegar rannsóknir benda til að unnt sé að auka vaxtarhraða þorsks með því að nota ljósastýringu til þess að lengja dag yfir haust og vetur. Í þessari rannsókn voru þorskseiði alin í kerjum með nýrri ljósatækni (cold-cathod lights; CCLs) frá því að þau voru um 10 grömm að þyngd. Með lýsingunni voru seiðunum skapaðar sérstakar umhverfisaðstæður mjög snemma á lífsferlinum sem hugsanlega geta aukið næmni fyrir ákveðnum bylgjulengdum ljósa þegar seiðin eru síðar á lífsferlinum flutt í ljósastýrðar sjókvíar. Rannsökuð voru áhrif ljósanna á vöxt seiðanna og styrk IGF-I (insúlín-líkur vaxtarþáttur-I) í blóði.

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að meðhöndlun með CCL ljósum hafi ekki áhrif á vöxt eða lifun þorsksseiða fyrsta árið í eldi. Niðurstöður sýna ennfremur að mögulegt er að mæla magn IGF-I í blóði, en ekki reyndist vera samband á milli vaxtarhraða og styrks IGF-I í blóði þorsks á þessu þroskaskeiði. Niðurstöður benda jafnframt til þess að meðhöndlun með CCL ljósum á fyrstu stigum eldisins hafi jákvæð áhrif með tilliti til beinagrindargalla sem hafa verið vandamál í seiðaeldi þorsks.

Leiðbeinendur og umsjónaraðilar verkefnisins voru Rannveig Björnsdóttir lektor við Háskólann á Akureyri/deildarstjóri Matís ohf., Dr. Þorleifur Ágústsson verkefnastjóri Matís ohf., Prófessor Björn Þrándur Björnsson við fiskalífeðlisfræðideild Háskólans í Gautaborg og Dr. Helgi Thorarensen, deildarstjóri fiskeldisdeildar Háskólans að Hólum.

Andmælandi er Dr. Logi Jónsson, dósent við Háskóla Íslands.

Fréttir

Allt að 80% vatn í sviðasultu – ÍSGEM kemur að góðum notum

Hlutfall vatns í sviðasultu sem hér til sölu er allt að 80% eftir því sem fram kemur í niðurstöðum mælinga Matís fyrir Neytendasamtökin. Súr sviðasulta er vatnsríkari en ný og reyndist vatnsinnihaldið ívið meira en áskilið er í ÍSGEM, gagnagrunni um efnainnihald matvæla(nánar um ÍSGEM).

Neytendasamtökin fengu kvörtun um að sviðasulta innihéldi of lítið af kjöti en þess meira af vatni og matarlími. Því ákváðu Neytendasamtökin að láta mæla magn vatns í fjórum tegundum sviðasulta og annaðist Matís mælingarnar.

Niðurstaðan var eftirfarandi:

SS sviðasulta
75,7 g/vatn í 100g

Goða sviðasulta 74,9 g/vatn í 100g

Sviðasulta SAH afurðir Blönduósi 76,1 g/vatn í 100g

Nóatúns sviðasulta súr 80,3 g/vatn í 100g

Í niðurstöðum Matís segir að súra sviðasultan sé greinilega vatnsríkari en nýja sviðasultan, enda hafi mátt sjá meira hlaup milli sviðabita í súrsuðu sultunum en hinum. Þá segir að vatnsupptaka í súrsunarferlinu geti einnig skýrt mun á vatnsinnihaldi að hluta. Gildi fyrir sviðasultu eru birt í ÍSGEM gagnagrunninum (íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla.

Gildi fyrir nýja sviðasultu eru
74,8g vatn / 100g og fyrir súra sviðasultu 77,8g vatn / 100g.

„Samkvæmt reglugerð um kjöt og kjötvörur eru kjötsultur soðnar vörur úr kjöti og öðrum hráefnum og/eða aukefnum og mynda hlaup eftir hitun. Notað er matarlím/gelatín í þessar vörur eins og fram kemur í innihaldslýsingum. Ediksýra kemur fram í innihaldslýsingu fyrir nýja sviðasultu frá SAH afurðum en ætla má að það passi ekki fyrir þessa afurð,“ segir í niðurstöðum Matís Innihaldslýsingu vantaði á umbúðir súru sviðasultunnar frá Nóatúni. „Slíkt er að sjálfsögðu ekki í samræmi við gildandi reglur, enda ber að geta innihalds í samsettum vörum eins og sviðasulta er,“ segir á heimasíðu Neytendasamtakanna.

Fréttin birtist fyrst á heimasíðu Neytendasamtakan, www.ns.is/

Fréttir

Virðiskeðja gámafisks – Aukið verðmæti gámafisks

Matís ohf. vinnur nú að rekjanleikaverkefni í samstarfi við innlend og erlend fyrirtæki sem koma að virðiskeðju gámafisks sem seldur er á uppboðsmörkuðunum í Hull og Grimsby.

Samstarfsaðilarnir eru Atlantic Fresh Ltd., Fishgate Hull Fish Auction, Grimsby Fish Market, The Sea Fish Industry Authority (Seafish), Samskip, fjöldi íslenskra útgerða sem eru í reglubundnum viðskiptum við Atlantic Fresh Ltd. og nokkrir stórir sem smáir hagsmunaaðilar á mörkuðunum í Hull og Grimsby s.s. Yorkshire & Humber Seafood Group, Grimsby Fish Merchants Association o.fl. Verkefnið er styrkt af AVS sjóðnum, auk þess sem fjármögnun hefur komið frá Seafish og hagsmunaaðilum í breskri fiskvinnslu. Markmið verkefnisins er að auka rekjanleika og upplýsingastreymi í virðiskeðjunni allri og að búa til verðmæti úr þeim upplýsingum. Verkefnið hófst sumarið 2006 þegar Matís og Atlantic Fresh hófu að safna sölugögnum frá níu skipum sem hafa verið í reglubundnum viðskiptum við Atlantic Fresh. Þegar sölugögnum hafði verið safnað í eitt ár voru þrjú þessara skipa fengin til að auka rekjanleika og upplýsingastreymi til væntanlegra kaupenda. Þetta fólst m.a. í því að dagmerkja allan afla og koma ýmiskonar upplýsingum til Atlantic Fresh um aflann. Atlantic Fresh gat svo í framhaldi af því upplýst væntanleg kaupendur betur um þann fisk sem væntanlegur væri í sölu og látið svo þær upplýsingar fylgja vörunni alla leið inn á gólf fiskmarkaðanna. Þessu fyrirkomulagi var haldið í þrjá mánuði og þá voru sölugögnin greind; þar sem bæði var kannað hvaða áhrif breytingin hefði á fiskverð hjá hverju skipi fyrir sig og svo í samanburði við skipin níu sem voru í upphaflegu úrtaki.  Bráðabirgðaniðurstöður benda til að aukinn rekjanleiki og upplýsingastreymi hafi ekki mikil áhrif á fiskverð, t.a.m. í samanburði við framboð og eftirspurn.  Þar sem framboðið er mjög óstöðugt sveiflast verð nokkuð á milli vikna og jafnvel daga.

Sem partur af verkefninu er nú verið að undirbúa vefsíðu þar sem unnt verður að koma upplýsingum um væntanlegt framboð til kaupenda.  Þessi vefsíða verður partur af upplýsinganeti Seafish þ.e. Seafood Information Network (SIN) og eiga þá kaupendur að geta séð á föstudegi hvert framboðið frá hverju skipi fyrir sig verður í vikunni á eftir.  Hugsanlegt er að útgerðir geti nýtt þessa síðu til að koma frekari upplýsingum til kaupenda t.d. hefur komið upp sú hugmynd að einhver skipanna verði útbúin netmyndavélum.

Gámar

Verkefnið hefur nýst vel til að koma á fót öflugu tengslaneti innan virðiskeðjunnar, t.d. eru starfsmenn Matís búnir að fara til Bretlands til að kynna sig fyrir þarlendum hagsmunaaðilum og til að skoða aðstæður.  Einnig hefur hópur kaupenda í tvígang komið til Íslands í tengslum við verkefnið til að kynna sér aðstæður hér á landi og til fundarhalda um framgang verkefnisins.

Nýr vinkill kom á verkefnið í október í kjölfar falls bankanna og deilna sem sköpuðust milli þjóðanna í framhaldi af því.  Kaupendur í Bretlandi fóru þá að hafa miklar áhyggjur af því hvaða áhrif ástandið gæti haft á framboð gámafisks frá Íslandi, og fóru því þess á leit við Matís að fyrirtækið myndi gera fyrir þá stuttar skýrslur um áhrif bankakreppunnar á íslenskan sjávarútveg.  Það er mat verkefnisaðila að þessar skýrslur hafi hjálpað til við að upplýsa kaupendur í Bretlandi um stöðu mála og meðal annars orðið til þess að þeir gátu beitt áhrifum sínum til að liðka fyrir því að greiðslur fyrir fiskinn bærust til Íslands.  Þess ber að geta að greiðslur fyrir gámafisk voru fyrstu greiðslur sem bárust frá Bretlandi eftir bankahrunið.Næstu skref í verkefninu eru að fullkomna gæðamat gámafisksins og koma vefsíðu um væntanlegt framboð í gagnið, auk þess sem Jónas Rúnar Viðarsson, starfsmaður Matís, mun innan skamms heimsækja fiskmarkaðina í Hull og Grimsby og meta hvaða áhrif aldur hráefnis hafi á verðmyndun, í samstarfi við Atlantic Fresh.

Fréttir

Auglýst er eftir umsóknum í átaksverkefni um smáframleiðslu á matvælum

Atvinnumálanefnd Hornafjarðar auglýsir eftir umsóknum í átaksverkefni um smáframleiðslu á matvælum á Hornafirði. Um er að ræða stuðningsverkefni sem ætlað er einstaklingum og fyrirtækjum í Sveitarfélaginu Hornafirði sem vilja vinna að framleiðslu og þróun á matvælum í matvælasmiðju Matís á Hornafirði.

Matvælasmiðjan var opnuð í byrjun nóvember 2008 og er sérstaklega sett upp til að styðja við frumkvöðla og fyrirtæki sem vilja hefja virðisaukandi smáframleiðslu matvæla úr íslensku hráefni. Fjármunir í verkefnið eru hluti af fjármunum sem úthlutað var til Sveitarfélagsins Hornafjarðar í tengslum við mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar í upphafi árs 2008. Markmið verkefnisins er að fullgera vörur sem hægt er að selja beint til neytenda, í verslunum og til eða á veitingastöðum í héraðinu. Nýheimar hafa unnið að þróun hugmynda og gerð viðskiptaáætlana undanfarin ár en nú er markmiðið að taka næsta skref og fullgera vörur tilbúnar til neytenda. í neytendapakkningar. Atvinnumálanefnd Hornafjarðar heldur utan um verkefnið í samvinnum við Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Atvinnumálanefnd tekur við umsóknum og afgreiðir þær.

Matís og Nýsköpunarmiðstöð Íslands veita ráðgjöf við að undirbúa umsóknir og veita síðan styrkþegum liðsinni í framhaldinu.

Styrkur veitist til þess að:
kaupa ráðgjöf hjá sérfræðingum vegna prófana og vottana,
kaupa framleiðslutíma hjá Matís í matvælasmiðjunni,
kaupa ráðgjöf og hönnun hjá sérfræðingum um ímynd og útlit vörunnar og umbúða.

Stefnt er að því að lokaafrakstur hvers verkefnis sé afurð tilbúinn á markað. Styrkur veitist ekki til frumhugmynda eða gerð viðskiptaáætlana.

Nánari upplýsingar veitir Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri Hornafjarðar, í síma 470 -8000 / 822-7950 og í netfangið hjaltivi@hornafjordur.is. Umsóknarfrestur er til 20. desember 2008.

Verkefnið er unnið að frumkvæði Sveitarfélagsins Hornafjarðar í samvinnu við starfstöðvar Matís og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Hornafjarðar.

Fréttir

Spennandi starfsvettvangur – frábær tækifæri

Matís auglýsir eftir nemendum á framhaldsstigi til að vinna lokaverkefni og einstök verkefni í samstarfi við fyrirtækið. Auglýsingu í Morgunblaðinu má finna hér.

Matís býður upp á verkefni í lyfjavísindum sem hluta af meistaranámi. Verkefnið snýst um einangrun og greiningar á flóknum fjölsykrum og öðrum lífefnum úr sjávarhryggleysingjum ásamt mælingum á lífvirkni þeirra. Í verkefninu verður beitt fjölbreytilegri aðferðafræði og er öll aðstaða og tækjabúnaður fyrir verkefnið fyrsta flokks. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í lífefnafræði, matvælafræði, lyfjafræði, líffræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Matís býður upp á verkefni sem hluta af meistaranámi. Verkefnin snúa meðal annars að rannsóknum sem tengjast tölfræðilegri greiningu gagna úr virðiskeðju matvæla, beitingu aðgerðagreiningar í matvælaiðnaði, þróun matvælaframleiðsluferla og stýringu virðiskeðjunnar. Rannsóknirnar eru stundaðar í samstarfi við íslensk matvælaframleiðslufyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í Iðnaðarverkfræði, Rekstrarverkfræði, Matvælafræði, Tölvunarfræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Sveinn Margeirsson, sveinn.margeirsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Matís býður upp á verkefni sem hluta af meistaranámi. Verkefnin snúa meðal annars að rannsóknum sem tengjast sérstöðu og sérkennum hráefna til matvælavinnslu úr íslensku umhverfi og gætu tengst matvælaörverufræði, matvælaefnafræði, neytendarannsóknum, skynmati og nýsköpun í matvælaiðnaði og er öll aðstaða og tækjabúnaður hjá Matís fyrsta flokks fyrir verkefni af þessum toga. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í lífefnafræði, matvælafræði, búvísindum, lyfjafræði, líffræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Guðjón Þorkelsson, gudjon.thorkelsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Matís býður upp á verkefni í líftækni sem hluta af meistaranámi. Verkefnið snýst um rannsóknir á ensímum úr sjávarörverum sem virka á flóknar fjölsykrur. Beitt verður fjölbreytilegri aðferðafræði svo sem örverufræði, ensímfræði, erfðatækni og erfðamengjafræði og er öll aðstaða og tækjabúnaður fyrir verkefnið fyrsta flokks. Umsækjandi verður að hafa lokið B.Sc. prófi í lífefnafræði, líffræði eða skyldum greinum. Upplýsingar um náms- og starfsferil fylgi umsókn.

Nánari upplýsingar um verkefnin veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is, og í síma 422-5000.


Frekari upplýsingar um starfsemi Matís og atvinnutækifæri hjá fyrirtækinu fást hjá Jón H. Arnarsyni mannauðsstjóra, jon.h.arnarson@matis.is

Skýrslur

Samanburður á smásærri byggingu aleldis- og villts þorsks / Comparison of microstructure between farmed and wild cod

Útgefið:

01/12/2008

Höfundar:

Valur Norðri Gunnlaugsson, Guðrún Anna Finnbogadóttir

Styrkt af:

AVS R26-06 / AVS R&D Fund of Ministry of Fisheries in Iceland

Tengiliður

Valur Norðri Gunnlaugsson

Fagstjóri

valur.n.gunnlaugsson@matis.is

Samanburður á smásærri byggingu aleldis- og villts þorsks / Comparison of microstructure between farmed and wild cod

Markmið þessa verkþáttar var að byggja upp þekkingu með myndgreiningu til að auðvelda vinnslu og vöruþróun eldisþorsks. Í verkefninu ,,Framtíðarþorskur” leiddi myndgreining í ljós merkilegar niðurstöður þar sem mikill munur kom fram á uppbyggingu holdsins í villtum þorski og áframeldisþorski. Tilgangur þessa verkþáttar var að skoða þennan mun nánar og reyna að finna ástæður fyrir honum. Niðurstöður verkefnisins staðfestu þennan mikla mun á millifrumubili eins og áður hafði sést, en hann kom einungis fram í sýnum sem tekin voru af lifandi fiski. Lítill munur kom fram á sýnum sem tekin voru fyrir dauðastirðnun (pre-rigor) hvort sem um var að ræða eldis- eða villtan fisk. Eftir dauðastirðnun (post-rigor) voru eingöngu tekin sýni af villtum fiski þar sem vinnslueiginleikar eldisþorsks voru slakir eftir dauðastirðnun. Í ljós kom að millifrumubilið jókst aftur í villtum fiski við dauðastirðnun. Fjölmargar aðrar mælingar voru gerðar á þessum sýnum í verkþætti 4 í þessu verkefni og mátti sjá nána tengingu við niðurstöður fyrir hlutfall millifrumubils í þessum sýnum. Hreyfanleiki vatnssameinda var minni í villtum þorskvöðva sem var í samræmi við að millifrumubil var meira en í eldisfiski. Aftur á móti var vatnsinnihald hærra í villta þorskinum. Niðurstöður gáfu því til kynna að uppbygging og eiginleikar vöðvans væri nokkuð ólík hjá þessum hópum. Rannsóknin var hluti af verkefninu „Vinnslu – og gæðastýring á eldisþorski, nánar tiltekið samantekt fyrir verkþátt 3.

In previous project there was much difference in gap between cells samples from wild and farmed cod. In this project phase the aim was to confirm this difference and try to identify the reason for it. The results showed a difference in microstructure between wild cod and farmed one, when samples were taken from live fish. This difference was not a distinct, when samples from pre-rigor and post rigor fish where analyzed. In project phase 4 these samples where used for number of measurement. The results from the microstructure analysis were in harmony with results from measurement of water content and water mobility.

Skýrsla lokuð til desember 2011 / Report closed until December 2011

Skoða skýrslu
IS