Fréttir

Matís á Landbúnaðarsýningunni á Hellu 22.-24. ágúst

Í tilefni af 100 ára afmæli Búnaðarsambands Suðurlands 2008 verður haldin glæsileg og viðamikil landbúnaðarsýning á Gaddstaðaflötum við Hellu dagana 22.-24. ágúst 2008. Matís mun á sýningunni kynna ýmis landbúnaðartengd verkefni sem fyrirtækið vinnur að.

Ennfremur munu þeir framleiðendur lambakjöts fá upplýsingar um könnun um áhuga á samstarfi í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt, sem kynnt var á ytri vef Matís fyrr í vikunni.

Loks gefur Matís krökkunum glaðning sem ætti að gagnast í skólanum, sem hefst víðast hvar í næstu viku.

Þeir sem eiga erindi austur fyrir fjall ættu því að staldra við og fylgjast með hrútaþukli og taka þátt í töðugjöldum og, koma við á sýningarbás Matís.

Fréttir

Hangikjöt: Sambærileg vara og Parmaskinka, San Daniels og Serrano?

Matís er að undirbúa verkefni um reykt og þurrkað lambakjöt og óskar eftir samvinnu við lítil, staðbundin fyrirtæki vegna þróunar reyktra og þurrkaðra afurða úr lambakjöti. Loftþurrkað lambakjöt ætti að skipa sama sess og loftþurrkuð skinka (s.s. Parma, San Daniels og Serrano) gerir í Suður-Evrópu.

Matís kannar áhuga framleiðenda á að vera með í þróunarverkefni um reykt og þurrkað lambakjöt. Verkefnið skiptist í tvennt, annars vegar fræðslu og vöruþróun sem snýr að staðbundinni matvælaframleiðslu og matarferðamennsku á Íslandi og hins vegar samstarf við aðila í Færeyjum og Noregi um þróun á loftþurrkuðum/reyktum afurðum úr lambakjöti.

Fyrsti hluti verkefnisins er greiningu á stöðu mála á Íslandi, þ.e. úttekt á því hversu margir eru að framleiða eða hafa áhuga á að framleiða reykt og/eða þurrkað kindakjöt og að átta sig á þörfinni og áhuga á fræðslu, ráðgjöf og samstarfi um vöruþróun og kynningu/markaðssetningu á þessum afurðum.

Sem hluti af verkefninu hefur nú verið útbúin könnun sem hefur það markmið að kanna hver áhugi er á og núverandi staða framleiðsla á loftþurrkuðu lambakjöti er hér á landi. Matís hvetur alla sem að hafa áhuga á málefninu að taka þátt. Könnunin verður opin til þátttöku til 5. september.

Fréttir

Matís með námskeið fyrir nemendur í doktorsnámi

Vikuna 17.-24. ágúst stendur Matís fyrir námskeiði í samvinnu við Háskóla Íslands, fyrir nemendur í doktorsnámi. Yfirskrift námskeiðsins er “Samspil skynmats, neytenda- og markaðsþátta í vöruþróun”, og markmiðið er, eins og nafnið gefur til kynna, að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun. Námskeiðið er fullbókað og alls munu sitja það 24 nemendur frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi , Eistlandi Lettlandi og Litháen.

Sem fyrr segir er markmiðið að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun. Tilgangur námskeiðsins er að þjálfa doktorsnema í að nota skynmatsaðferðir og neytendakannanir í vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. Verkefni námskeiðsins mun felast í að framleiða heilsusamlegri útgáfu af vöru sem þegar er á markaði. Heilsusamlegri vara getur t.d. verið vara með minna innihald af mettaðri fitu eða salti.

Fyrirlesarar verða norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar. Á hverjum degi verða fræðilegir fyrirlestrar með verklegum æfingum til að varpa ljósi á efnið. Námskeiðið er því kjörið tækifæri fyrir norræna doktorsnema og aðra nemendur á þessu sviði.

Efni námskeiðsins er:

Vöruþekking– Bragð og lykt matvæla
• Hvers vegna er áhugi á bragði og lykt matvæla? Þáttur meðferðar hráefnis, vinnslu og áhrif nýrra innihaldsefna í myndun bragðs og lyktar er nauðsynleg þekking fyrir vísindamenn í vöruþróun. Margvísleg tækni og aðferðir eru notðar í matvælaiðnaði til að minnka fitu og salt í matvælum til að mæta óskum neytenda um hollari matvæli.

Skynmat og þjálfun dómara
• Í skynmati skipta skilgreiningar á þáttum sem lýsa útliti, lykt, bragði og áferð matvæla miklu máli. Farið verður fræðilega í myndrænar aðferðir (descriptive sensory analysis) og tengt við þjálfun, vöktun og mat á dómurum.

Þættir sem hafa áhrif á hvernig neytendur upplifa skynja matvælin.
• Væntingar hafa áhrif á hversu mikið neytendur njóta og líkar við ákveðin matvæli auk þeirrar upplifunar sem bragð af matnum hefur. Upplýsingar um heilsusamleg áhrif fæðu og uppruni henna eru mikilvæg skilaboð sem hafa áhrif á væntingar og upplifun neytenda. 

Mismunandi hópar neytenda (consumer segmentation) og smekkur þeirra (product acceptance)
• Ný matvara er oft hönnuð fyrir ákveðna hópa neytenda. Neytendum er hægt að skipta í hópa eftir mismunandi þáttum, t.d. eftir landfræðilegum þáttum, viðhorfum eða smekk.

Neytendakannanir og tengsl milli smekks og gæðaþátta (preference mapping)
• Unnt er að tengja smekk og val neytenda við skynmatsþætti vöru með aðferð sem nefnist preference mapping. Með þessari aðferð er skynmat með þjálfuðum hópi notað til að skýra og spá fyrir um val neytenda.

Neytendahegðun og markaðssetning
• Frá sjónarhóli markaðssetningar eru áhugaverðustu rannsóknaspurningarnar sem tengdar eru óskum og hegðun neytenda þessar: Að skilja hvernig smekkur neytenda myndast, hvernig geymist hann í minninu, og er hægt að hafa áhrif á hann, þ.e hvað ákveður hvort smekkur er ákveðinn eða ekki og hvenær hafa ytri aðstæður áhrif á val og hegðun.

Tölfræði

• Tölfræði er lykilatriði í skynmats og neytendarannsóknum. Ef tilraunahögun er ekki rétt unnin í upphafi tilrauna eru niðurstöður tilrauna mjög oft marklitlar bæði þegar greina á skynmatsþætti og kanna smekk neytenda. Við þjáflun skynmatsdómara er tölfræði og myndræn framsetning gagna nauðsynleg tól. Eftir að hafa safnað gögnum um skynmatsþætti og neytendur er rétt tölfræði og úrvinnsla gagna nauðsynleg til að tryggja að réttar upplýsingar fáist úr gögnunum. 


Frekari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir í síma 422 5032 eða í emilia.martinsdottir@matis.is

Fréttir

AMSUM 2007: Lífríki Íslandsmiða í góðu ástandi

Mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þungmálmar eru frumefni sem eru upprunnir í náttúrunni en styrkur þeirra getur aukist vegna aðgerða manna (t.d. námuvinnslu).

Síðan 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu en svokallaður AMSUM hópur, sem starfar á vegum ráðuneytisins, heldur utan um það. Aðilar í þessum starfshópi eru frá Matís, Geislavörnum ríkisins, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Umhverfis-ráðuneytinu.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Hvorki mengun né dýr virða landamæri og hingað berast mengandi efni með loft- og sjávarstraumum, hvort sem við kærum okkur um það eða ekki. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, hvort heldur er í lofti, á láði eða í legi og ekki síður í þeim lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið stöðu okkar saman við ástand í öðrum löndum. Það er ekki síst áríðandi vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Sem fyrr segir hefur vöktunin staðið yfir frá árinu 1989 og er tilgangur hennar þríþættur:.

? Í fyrsta lagi að kanna hvort magn mengandi efna fari vaxandi í hafinu við Ísland.
? Í öðru lagi að meta hvort heilsu manna sé hætta búin af neyslu sjávarfangs.
? Í þriðja lagi að meta hvort lífríki sjávar stafi hætta af mengun.

Til að kanna þetta eru tekin sýni af þorski og sandkola á fjórum stöðum í kringum landið ár hvert og kræklingi er safnað á 11 stöðum í kringum landið.

Þorskur er valinn til vöktunar vegna mikillar útbreiðslu og mikilvægis í veiðum. Þorskar í almennri vöktun eru á lengdarbilinu 30-45 cm (3-6 ára) og eru veiddir fyrir hrygningu í mars ár hvert. Sandkoli er botnlæg fisktegund sem lifir á tiltölulega afmörkuðu svæði og hentar því vel til vöktunar. Sýnin eru á lengdarbilinu 20-35 cm og tekin í mars eins og þorsksýnin. Kræklingur er staðbundin tegund og endurspeglar tilvist mengandi efna á því strandsvæði þar sem hann lifir, en sýni eru tekin fyrir hrygningu í ágúst/sept.

Í þessum sýnum eru mæld ólífræn (þungmálmar) og lífræn snefilefni. Mældir eru þungmálmarnir blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, DDT og TBT og geislavirka efnið Cs-137. Matís mælir þungmálma í ofangreindum sýnum og sér um að þrávirk lífræn efni séu einnig mæld í þeim.

Í skýrslu Matís eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2006 og 2007. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2006 – 2007) að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig hefur t.d. kadmínstyrkur í kræklingi á undanförnum árum mælst hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík.

Lesa skýrslu

Á meðfylgjandi mynd er Dr. Sasan Rabieh, starfsmaður Efnarannsóknadeildar Matís og aðalhöfundur skýrslunnar.

Fréttir

Nýtt verkefni hjá Matís: vöruþróun á kryddlegnum og maukuðum sölvum

Fyrirtækið Hollusta úr hafinu hóf þróun á kryddlegnum sölvum og söl-puree árið 2006, en það ár fékk það úthlutað styrk úr smáverkefnaflokki AVS rannsóknasjóðsins til að þróa vöru úr íslenskum matþörungum og kanna hvort markaður fyrir þær vörur er að opnast innanlands, kanna hvort markaðurinn sé nægjanlega stór til að það borgi sig að sinna honum og huga að sölu sölva á erlendan hollustu- og neysluvörumarkað. Nú áforma Hollusta úr hafinu og Matís að ljúka vöruþróun á framangreindri vöru.

Í verkefninu verður farið yfir uppskriftir, umbúðir og útlit í því markmiði að draga fram þá ímynd og eiginleika sem sóst er eftir, þ.e. bragðgóða vöru með gott geymsluþol sem ber jafnframt með sér hollustu og gæði. Þá verður hannað framleiðsluferli fyrir vinnslu og pökkun á vörunni.

Kryddlegin söl og söl puree, maukuð söl, er ný sælkeravara. Á markaði erlendis er kryddleginn þari, en ekki er vitað til að til sölu séu kryddlegin söl. Þetta er spennandi vara sem mun eflaust falla vel í landann sé tekið mið af vaxandi áhuga hér á landi á austurlenskri matargerð, s.s. sushi, en þar gegna þurrkaðir matþörungar einmitt stóru hlutverki.

Stofnandi Hollustu úr hafinu ehf er Eyjólfur Friðgeirsson en verkefnisstjóri af hálfu Matís er Þóra Valsdóttir. Að sögn Þóru hefst vinna í verkefninu af fullum krafti í september, en hún segir að besti tíminn til að safna sölvum sé einmitt á vorin og haustin. 

Það eru AVS sjóðurinn og Matís sem styrkja nýja verkefnið.

Skýrslur

Mengunarvöktun í lífríki sjávar við Ísland 2006 og 2007 / Monitoring of the marine biosphere around Iceland 2006 and 2007

Útgefið:

01/08/2008

Höfundar:

Sasan Rabieh, Ingibjörg Jónsdóttir, Þuríður Ragnarsdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir

Styrkt af:

Umhverfisráðuneyti & Sjávarútvegsráðuneyti / Ministry for the Environment and Ministry of Fisheries

Mengunarvöktun í lífríki sjávar við Ísland 2006 og 2007 / Monitoring of the marine biosphere around Iceland 2006 and 2007

Í þessari skýrslu eru birtar niðurstöður árlegs vöktunarverkefnis á vegum Umhverfisráðuneytisins fyrir árin 2006 og 2007. Markmið með þessari vöktun er að uppfylla skuldbindingar Íslands varðandi Oslóar- og Parísarsamninginn (OSPAR), auk AMAP (Artic Monitoring Assessment Program). Gögnin hafa verið send í gagnabanka Alþjóðahafrannsóknarráðsins (ICES). Hafrannsóknastofnun sér um að afla sýna og Matís hefur umsjón með undirbúningi sýna og mælingum á snefilefnum í lífríki hafsins. Sýnin eru mæld á Matís og á Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði. Mæld voru ýmis ólífræn snefilefni og klórlífræn efni í þorski veiddum í árlegu vorralli Hafró í mars 2007 og í kræklingi sem safnað var á 11 stöðum í kringum landið í ágúst/sept 2006. Vöktun í lífríki sjávar við Ísland hófst 1989.

This report contains results of the annual monitoring of the biosphere around Iceland in 2006 and 2007. The project, overseen by the Environmental and Food Agency of Iceland, is to fulfil the OSPAR (Oslo and Paris agreement) and AMAP (Arctic Monitoring Assessment Program) agreements. The data has been submitted to the ICES databank (ices.dk), collection of data began 1989. Matís ohf is the coordinator for marine biota monitoring and is responsible for methods relating to sampling, preparation and analysis of samples. The samples were analyzed at the Matís and at the Department of Pharmacology and Toxicology at the University of Iceland. Trace metals and organochlorines were analyzed in cod (Gadus morhua) caught in March 2007 and in blue mussel (Mytilus edulis) collected in August/Sept 2006. Marine monitoring began in Iceland 1989.

Skoða skýrslu

Fréttir

Skýrsla Matís: Samantekt á vísindalegum sönnunum á heilsufæði

Markaður fyrir heilsu- og markfæði af ýmsu tagi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og við markaðssetningu slíkrar vöru hefur stundum ýmsu verið haldið fram sem illa stenst nánari skoðun. Í nýútkominni skýrslu frá Matís, er að finna ýtarlega samantekt á ýmsum flokkum heilsufæðis og einnig er þar farið yfir skilgreiningar og reglugerðir, efnivið og virkni vinsælla heilsuvara og leyfðar heilsufullyrðingar. Aðalhöfundur skýrslunnar er Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, en samantektin er hluti af meistaraverkefni hennar við matvælafræðiskor H.Í., sem hún vinnur að á Matís.

Í skýrslunni sem ber titilinn HEILSUFÆÐI: Samantekt á helstu flokkum heilsufæðis og vísindalegra sannana á virkni þeirra, kemur m.a. fram að hugtakið markfæði (functional food) hafi fyrst komið fram í Japan á áttunda áratug 20. aldar í kjölfar þess að þarlend yfirvöld vildu bæta lýðheilsu. Markfæði hefur verið skilgreint sem “matvæli sem eiga það sameiginlegt að þeim hefur verið breytt í þeim tilgangi að þau hafi jákvæðari heilsusamleg áhrif á neytandann en matvælin óbreytt.”

Þegar setja á heilsuvöru á markað þarf að huga að mörgu t.d. reglugerðir og heilsu-fullyrðingar. Á meðal þess sem þarf að skoða eru spurningarnar: Hvenær er matvæli orðin að lyfi? Hvernig getur neytandinn verið viss um virkni og ágæti vöru? Rekja má tilurð samantektarinnar til þessara og fleiri spurninga sem gagnlegt er að fá svör við.

Sigrún, í félagi við tvo viðskiptafræðinema, tók þátt í frumkvöðlakeppni Innovit fyrr á þessu ári og komust þau í átta liða úrslit með viðskiptaáætlun fyrir vörulínu sem inniheldur lífvirk peptíð (upprunin úr fiskvöðvapróteinum framleiddum í Iceprotein). Þau nefndu “fyrirtækið” Heilsufæði ehf. og fyrstu framleiðluvöruna Græðir sem er heilsudrykkur með blóðþrýstingslækkandi áhrif. 

Sigrún Mjöll Halldórsdóttir

Að sögn Sigrúnar er mikill áhugi á ”lífvirkum peptíðum” á heilsuvörumarkaði í heiminum í dag og rannsóknir hafa sýnt að þau hafa mjög víðtæk heilsufarsleg áhrif s.s. blóðþrýstings- og kólesteróllækkandi áhrif, þau eru ónæmisstillandi og vinna gegn of hárri líkamsþyngd og sykursýki. Rannsóknir hafa líka sýnt að lífvirk peptíð upprunin úr fiski eru sterkari og virkari en úr öðrum uppruna s.s. mjólk og soja.

Matís á og rekur próteinvinnslufyrirtækið Iceprótein ehf á Sauðárkróki, en það þróar, framleiðir og mun selja blautprótein fyrir fiskiðnað á Íslandi og þurrkuð prótein fyrir heilsu- og fæðubótarmarkaðinn.  Sigrún segir að meistaraverkefni hennar snúist að stórum hluta um að finna nýjar leiðir til að nýta það fiskprótein sem Iceprótein vinnur úr, í sem mest verðmæti.
Meðal annars sé stefnt að því að framleiða lífvirk peptíð með ensímtækni úr efniviði sem fæst úr Iceprótein á þann hátt að þau séu heppileg sem íblöndunarefni í heilsufæði. Að sögn Sigrúnar er svo framtíðardraumurinn að vinna grunn í t.d. heilsudrykk, blanda þessum lífvirku peptíðum í og setja á markað. Einnig að búa til alls kyns annars konar heilsufæði sem inniheldur þessi peptíð – eins konar vörulína.

Lesa skýrsluna

Fréttir

Íslenskur fiskur mjög lítið mengaður – jákvæðar niðurstöður skýrslu

Út er komin skýrsla frá Matís ohf. sem ber heitið Undesirable substances in seafood products – results from the monitoring activities in 2006. Skýrslan sýnir niðurstöður mælinga á magni eitraðra mengunarefna í íslenskum sjávarafurðum á árinu 2006 og er hluti af sívirku vöktunarverkefni sem styrkt er af sjávarútvegsráðuneytinu og hefur verið í gangi frá árinu 2003. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2006 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt.

Gögnin sem safnað er ár frá ári í þessu verkefni fara í að byggja upp sífellt nákvæmari gagnagrunn um ástand íslenskra sjávarafurða m.t.t. mengunarefna. Skýrslan er á ensku og er aðgengileg á vef Matís þannig að hún nýtist framleiðendum, útflytjendum, stjórnvöldum og öðrum við kynningu á öryggi og heilnæmi íslenskra fiskafurða.

Í þessari skýrslu er ítarlegri úttekt á þungmálmum og fjölda annarra ólífrænna snefilefna í ætilegum hluta fisks en áður hefur verið gerð hér á landi, en Matís hefur komið sér upp fullkomnari tækjabúnaði til slíkra mælinga en áður var. Með þessum tækjabúnaði, s.k. ICP-MS er á tiltölulega einfaldan hátt hægt að greina mikinn fjölda ólífrænna snefilefna með meiri nákvæmni en áður. Niðurstöður mælinga á þungmálmum sýna að ætilegur hluti fisksins var ávalt langt undir leyfilegum hámörkum Evrópusambandsins fyrir blý, kvikasilfur og kadmíum. Niðurstöður mælinga á þeim ólífrænu efnum sem flokkast sem nauðsynleg snefilefni í fæðu manna verða notaðar í næringarefnagagnagrunn Matís, ISGEM sem aðgegnilegur er á vef Matís, en einnig til að meta gildi fiskafurða sem uppsprettu slíkra efna í fæðu Íslendinga. Líkt og fyrri ár vöktunarinnar sýna niðurstöður ársins 2006 að ætilegur hluti fisks sem veiddur er á Íslandsmiðum inniheldur mjög lítið magn af lífrænum mengunarefnum eins og díoxíni, díoxínlíkum PCB efnum og varnarefnum (skordýraeitri og plöntueitri), samanborið við þau hámörk sem Evrópulöndin hafa viðurkennt.

Niðurstöður mælinga á fiskimjöli og lýsi til fóðurgerðar staðfesta nauðsyn þess að fylgjast vel með magni þrávirkra lífrænna efna eins og díoxína, PCB efna og varnarefna í þessum afurðum á vorin. Styrkur efnanna er háður næringarlegu ástandi uppsjávarfiskistofnanna sem afurðirnar eru unnar úr og nær hámarki á hrygningartíma.  Þá hættir magni díoxína og díoxín-líkra PCB efna auk einstakra varnarefna til þess að fara yfir leyfileg mörk Evrópusambandsins.  Þetta á sérstaklega við um afurðir unnar úr kolmunna sem kemur frá hafsvæðinu vestan og norðan við Skotland.

Höfundur skýrslunnar er Ásta Margrét Ásmundsdóttir, verkefnastjóri.

Lesa skýrsluna

Fréttir

Náttúruleg ensím og andoxunarefni unnin úr fiskslógi og -hryggjum

Á Líftæknisviði Matís er nú unnið að verkefni sem miðar að því að þróa og rannsaka mismunandi nýjar próteasablöndur úr þorskslógi í þeim tilgangi að nota blöndurnar til framleiðslu á hydrolýsötum (niðurbrotnum próteinum) og peptíðum úr fiski með mjög mikla andoxunarvirkni. Forrannsóknir hafa sýnt fram á að ensímblöndur úr þorskslógi geta framleitt peptíð með mjög mikla andoxunarvirkni, mun meiri en peptíð fengin úr niðurbroti annarra algengra ensímblandna sem hafa verið kannaðar.

Með því að stilla af styrk og virkni lykilensíma í próteasablöndunni sem unnin er úr slógi er markmiðið að hægt sé að stýra framleiðslunni á hydrolýsötum og peptíðum til að framleiða náttúrulegar afurðir með mjög mikla sértæka andoxunarvirkni. Þessar afurðir yrðu unnar úr protein isolati einangruðu úr vannýttu hráefni (hryggjum).

Framtíðarsýnin er að í lok þessa verkefnis muni hefjast framleiðsla á stórum skala og sala á mismunandi einstökum iðnaðarensímblöndum unnum úr þorskslógi sem yrðu sérstaklega markaðsett til framleiðslu á lífvirkum peptíðum. Einnig er séð fram á að fyrirtæki í próteinvinnslu hér á landi komi til með að nýta sér þessi einstöku ensím til framleiðslu á náttúrulegum andoxunarefnum bæði til nota í matvælum en einnig markaðsetja þau sem heilsusamleg fæðubótarefni með vísindalega staðfesta virkni.

Samstarfsaðilar Matís – Prokaria í rannsókninni eru Norðurbragð hf., MPF Ísland, Iceprotein, University of Florida og stjórnandi rannsóknarinnar er dr. Hörður G. Kristinsson, deildarstjóri Lífefnadeildar Líftæknisviðs Matís – Prokaria.

Fréttir

Framleiðsla hjóldýra fyrir þorskeldi – Matís tekur þátt í sam-norrænu verkefni

Matís er þátttakandi í verkefninu “Framleiðsla hjóldýra fyrir þorskeldi” sem nú er hafið og hefur að markmiði að stuðla að öruggri, stöðugri og hagkvæmri framleiðslu fæðudýra fyrir þorsk í eldi. Markmið verkefnisins er jafnframt að efla samstarf þorskseiðaframleiðenda á Norð-urlöndunum.

Markmið þessa verkefnis er sem fyrr segir þróun framleiðslukerfis sem stuðlar að öruggri, stöðugri og hagkvæmri framleiðslu fæðudýra fyrir þorsk í eldi. Settar verða saman leiðbeiningar um framleiðslu og fóðrun sem skilar hjóldýrum af hámarksgæðum m.t.t. samsetningar næringarefna og örveruflóru. Sintef hefur þróað endurtnýtingarkerfi fyrir framleiðslu hjóldýra og verður í verkefninu byggt áfram á því kerfi (Aquatic Ecosystem Resirkulerings-anlegg). Vonir standa til að verkefnið muni að efla samstarf þorskseiðaframleiðenda á Norðurlöndunum í bráð og lengd, en auk Matís koma að verkefninu SINTEF (Noregur), Fiskaaling
(Færeyjar), IceCod (Ísland), Stofnfiskur (Ísland) og Nordland Marin Yngel (Noregur).

Í verkefnahópnum eru Rannveig Björnsdóttir, Jónína Jóhannsdóttir og Eydís Elva Þórarinsdóttir. Verkefnisstjóri er Gunvor Öie hjá SINTEF.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, deildarstjóri hjá Matís, í síma 422 5108.

IS