Fréttir

AMSUM 2007: Lífríki Íslandsmiða í góðu ástandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mengun þungmálma í hafinu umhverfis landið er almennt vel undir alþjóðlegum viðmiðunarmörkum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Matís um breytingar á lífríki sjávar við landið. Þungmálmar eru frumefni sem eru upprunnir í náttúrunni en styrkur þeirra getur aukist vegna aðgerða manna (t.d. námuvinnslu).

Síðan 1989 hefur verið í gangi árlegt vöktunarverkefni á mengunarefnum í lífríki hafsins við Ísland. Verkefnið er fjármagnað af umhverfisráðuneytinu en svokallaður AMSUM hópur, sem starfar á vegum ráðuneytisins, heldur utan um það. Aðilar í þessum starfshópi eru frá Matís, Geislavörnum ríkisins, Veðurstofu Íslands, Umhverfisstofnun Íslands, Hafrannsóknastofnun og Umhverfis-ráðuneytinu.

Ýmis mengandi efni í hafinu geta borist í sjávarlífverur eða lífverur sem nærast á sjávarfangi. Í mörgum tilfellum stafar þessi mengun af mannavöldum og eru vaxandi áhyggjur af þeirri þróun. Hvorki mengun né dýr virða landamæri og hingað berast mengandi efni með loft- og sjávarstraumum, hvort sem við kærum okkur um það eða ekki. Það er því mikilvægt að fylgjast með magni mengandi efna hér við land, hvort heldur er í lofti, á láði eða í legi og ekki síður í þeim lífverum sem lifa við landið. Þá er ennfremur mikilvægt að geta borið stöðu okkar saman við ástand í öðrum löndum. Það er ekki síst áríðandi vegna mikilvægis sjávarafurða fyrir þjóðina.

Sem fyrr segir hefur vöktunin staðið yfir frá árinu 1989 og er tilgangur hennar þríþættur:.

? Í fyrsta lagi að kanna hvort magn mengandi efna fari vaxandi í hafinu við Ísland.
? Í öðru lagi að meta hvort heilsu manna sé hætta búin af neyslu sjávarfangs.
? Í þriðja lagi að meta hvort lífríki sjávar stafi hætta af mengun.

Til að kanna þetta eru tekin sýni af þorski og sandkola á fjórum stöðum í kringum landið ár hvert og kræklingi er safnað á 11 stöðum í kringum landið.

Þorskur er valinn til vöktunar vegna mikillar útbreiðslu og mikilvægis í veiðum. Þorskar í almennri vöktun eru á lengdarbilinu 30-45 cm (3-6 ára) og eru veiddir fyrir hrygningu í mars ár hvert. Sandkoli er botnlæg fisktegund sem lifir á tiltölulega afmörkuðu svæði og hentar því vel til vöktunar. Sýnin eru á lengdarbilinu 20-35 cm og tekin í mars eins og þorsksýnin. Kræklingur er staðbundin tegund og endurspeglar tilvist mengandi efna á því strandsvæði þar sem hann lifir, en sýni eru tekin fyrir hrygningu í ágúst/sept.

Í þessum sýnum eru mæld ólífræn (þungmálmar) og lífræn snefilefni. Mældir eru þungmálmarnir blý, kadmín, kvikasilfur, kopar og sink, þrávirku lífrænu efnin HCH, HCB, PCB, klórdan, DDT og TBT og geislavirka efnið Cs-137. Matís mælir þungmálma í ofangreindum sýnum og sér um að þrávirk lífræn efni séu einnig mæld í þeim.

Í skýrslu Matís eru birtar niðurstöður vöktunarverkefnisins fyrir árin 2006 og 2007. Markmiðið með vöktunarverkefninu er að bera kennsl á breytingar sem kunna að verða á styrk snefilefna í lífríki sjávar umhverfis landið á ákveðnu tímabili og á milli ólíkra haf- og strandsvæða. Rannsóknin skiptir meðal annars miklu máli fyrir sölu á íslensku sjávarfangi á erlendum mörkuðum þar sem hægt er að sýna fram á með vísindalegum gögnum að íslenskur fiskur sé veiddur í ómenguðu umhverfi.

Fram kemur í skýrslunni (Monitoring of the marine biosphere around Iceland in 2006 – 2007) að styrkur þungmálma eins og kvikasilfurs er afar lágur. Hins vegar hefur styrkur kadmín stundum mælst hærri í lífríki sjávar hér við landi en á suðlægari slóðum. Magn kadmíns er þó lágt í þeim lífverum sem rannsökuð eru t.d. á bilinu 0,1-1 mg/kg í kræklingi. Hár styrkur kadmíns hér við land er talinn eiga sér náttúrulegar orsakir þar sem ekkert hefur komið fram sem bendir til kadmínmengunar af manna völdum. Þannig hefur t.d. kadmínstyrkur í kræklingi á undanförnum árum mælst hærri á ýmsum stöðum sem eru fjarri íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi, eins og t.d. í Mjóafirði, heldur en í Hvalfirði og Straumsvík.

Lesa skýrslu

Á meðfylgjandi mynd er Dr. Sasan Rabieh, starfsmaður Efnarannsóknadeildar Matís og aðalhöfundur skýrslunnar.