Fréttir

Matís með námskeið fyrir nemendur í doktorsnámi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Vikuna 17.-24. ágúst stendur Matís fyrir námskeiði í samvinnu við Háskóla Íslands, fyrir nemendur í doktorsnámi. Yfirskrift námskeiðsins er “Samspil skynmats, neytenda- og markaðsþátta í vöruþróun”, og markmiðið er, eins og nafnið gefur til kynna, að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun. Námskeiðið er fullbókað og alls munu sitja það 24 nemendur frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi , Eistlandi Lettlandi og Litháen.

Sem fyrr segir er markmiðið að nýta upplýsingar um skynmat, neytendur og markaðsþætti í vöruþróun. Tilgangur námskeiðsins er að þjálfa doktorsnema í að nota skynmatsaðferðir og neytendakannanir í vöruþróun, nýsköpun og markaðssetningu. Verkefni námskeiðsins mun felast í að framleiða heilsusamlegri útgáfu af vöru sem þegar er á markaði. Heilsusamlegri vara getur t.d. verið vara með minna innihald af mettaðri fitu eða salti.

Fyrirlesarar verða norrænir og alþjóðlegir sérfræðingar. Á hverjum degi verða fræðilegir fyrirlestrar með verklegum æfingum til að varpa ljósi á efnið. Námskeiðið er því kjörið tækifæri fyrir norræna doktorsnema og aðra nemendur á þessu sviði.

Efni námskeiðsins er:

Vöruþekking– Bragð og lykt matvæla
• Hvers vegna er áhugi á bragði og lykt matvæla? Þáttur meðferðar hráefnis, vinnslu og áhrif nýrra innihaldsefna í myndun bragðs og lyktar er nauðsynleg þekking fyrir vísindamenn í vöruþróun. Margvísleg tækni og aðferðir eru notðar í matvælaiðnaði til að minnka fitu og salt í matvælum til að mæta óskum neytenda um hollari matvæli.

Skynmat og þjálfun dómara
• Í skynmati skipta skilgreiningar á þáttum sem lýsa útliti, lykt, bragði og áferð matvæla miklu máli. Farið verður fræðilega í myndrænar aðferðir (descriptive sensory analysis) og tengt við þjálfun, vöktun og mat á dómurum.

Þættir sem hafa áhrif á hvernig neytendur upplifa skynja matvælin.
• Væntingar hafa áhrif á hversu mikið neytendur njóta og líkar við ákveðin matvæli auk þeirrar upplifunar sem bragð af matnum hefur. Upplýsingar um heilsusamleg áhrif fæðu og uppruni henna eru mikilvæg skilaboð sem hafa áhrif á væntingar og upplifun neytenda. 

Mismunandi hópar neytenda (consumer segmentation) og smekkur þeirra (product acceptance)
• Ný matvara er oft hönnuð fyrir ákveðna hópa neytenda. Neytendum er hægt að skipta í hópa eftir mismunandi þáttum, t.d. eftir landfræðilegum þáttum, viðhorfum eða smekk.

Neytendakannanir og tengsl milli smekks og gæðaþátta (preference mapping)
• Unnt er að tengja smekk og val neytenda við skynmatsþætti vöru með aðferð sem nefnist preference mapping. Með þessari aðferð er skynmat með þjálfuðum hópi notað til að skýra og spá fyrir um val neytenda.

Neytendahegðun og markaðssetning
• Frá sjónarhóli markaðssetningar eru áhugaverðustu rannsóknaspurningarnar sem tengdar eru óskum og hegðun neytenda þessar: Að skilja hvernig smekkur neytenda myndast, hvernig geymist hann í minninu, og er hægt að hafa áhrif á hann, þ.e hvað ákveður hvort smekkur er ákveðinn eða ekki og hvenær hafa ytri aðstæður áhrif á val og hegðun.

Tölfræði

• Tölfræði er lykilatriði í skynmats og neytendarannsóknum. Ef tilraunahögun er ekki rétt unnin í upphafi tilrauna eru niðurstöður tilrauna mjög oft marklitlar bæði þegar greina á skynmatsþætti og kanna smekk neytenda. Við þjáflun skynmatsdómara er tölfræði og myndræn framsetning gagna nauðsynleg tól. Eftir að hafa safnað gögnum um skynmatsþætti og neytendur er rétt tölfræði og úrvinnsla gagna nauðsynleg til að tryggja að réttar upplýsingar fáist úr gögnunum. 


Frekari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir í síma 422 5032 eða í emilia.martinsdottir@matis.is