Fréttir

Hvert verður hlutverk staðbundinna matvæla í ferðaþjónustu framtíðarinnar?

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Matarhefð er stór hluti af ímynd lands og þjóðar enda speglar hún menningu og sögu og markast af tíðarfari og náttúru. Matarupplifun er órjúfanlegur þáttur í lífi ferðamanna hvar sem þeir koma, hvort sem hún er megin tilgangur ferðalagsins eða ekki.

Á Norðurlöndum hefur orðið mikil vakning á þeim verðmætum sem liggja í staðbundinni matvælaframleiðslu og matargerð bæði fyrir heimamenn og erlenda gesti. Að sama skapi er aukin áhersla lögð á sjálfbærni í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu þannig að jafnvægi milli vaxtar og verndar sé gætt. Í því samhengi vakna spurningar um hvernig hreyfiöfl eins og loftslagsbreytingar og neysluhegðun móta ákvarðanir sem stuðla að meiri sjálfbærni og nýsköpun í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu framtíðarinnar. Þeim spurningum mun norrænn starfshópur sem starfar undir formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni reyna að svara.

Matarauður Íslands á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins leiðir verkefnið í samvinnu við Íslenska ferðaklasann og Matís og nýtur liðsinnis íslenskra sérfræðinga. Norrænir þátttakendur í verkefninu koma frá Noregi, Danmörku, Grænlandi, Færeyjum, Finnlandi, Álandseyjum og Svíþjóð. Með öflugu samstarfi, sem þegar er hafið, verður leitast við að draga fram samkeppnishæfni Norðurlandanna og styðja við stefnumótun um nýtingu staðbundinna matvæla í ferðaþjónustu sem byggja á jafnvægi milli eftirspurnar og umhverfisverndar. Verkefnið varir í 3 ár, frá 2019-2021.

Upplýsingar um verkefnið verður aðgengilegt á næstu mánuðum á vefsíðu Matarauðs Íslands. Þar verður hægt að nálgast upplýsingar um verkefnið, framvindu og niðurstöður.

Undir formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni er sjónum beint að málefnum ungs fólks, hafinu og sjálfbærri ferðamennsku. Undir hatti sjálfbærrar ferðaþjónustu eru auk ofangreinds verkefnis; ferðamennska og náttúruvernd og stafræn væðing ferðaþjónustunnar.

Fréttir

Opið fyrir tilnefningar til Embluverðlaunanna

Embluverðlaunin eru norræn matarverðlaun, en að þessu sinni verða þau afhent í Hörpu í Reykjavík 1. júní næstkomandi í tengslum við norrænt kokkaþing. Verðlaununum er ætlað að auka sýnileika og vekja áhuga almennings á norrænni matarhefð og matvælum sem framleidd eru á Norðurlöndunum. Embluverðlaunin eru veitt á tveggja ára fresti en þau voru fyrst afhent í Kaupmannahöfn árið 2017. Að verðlaununum standa norræn bændasamtök með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar.

Opnað var fyrir tilnefningar í byrjun mars á vefsíðunni www.emblafoodawards.com en frestur til að skrá tilnefningar er til og með 31. mars nk. Tilnefningum er safnað saman á öllum Norðurlöndunum en allir geta tilnefnt fulltrúa frá sínu landi. Þátttaka kostar ekkert. Þriggja manna dómnefnd í hverju landi fyrir sig ákveður hverjir verða tilnefndir sem fulltrúar hvers lands.

Verðlaunaflokkar Embluverðlaunanna eru sjö talsins:

Hráefnisframleiðandi Norðurlanda 2019
Verðlaunin verða veitt bónda, sjómanni, veiðimanni, safnara o.s.frv. sem stendur fyrir hráefni af miklum gæðum. Sem nýtir menningarlegar og náttúrulegar rætur sínar á Norðurlöndum og sem sjálfur framleiðir, veiðir eða safnar hráefninu.

Matvælafrumkvöðull Norðurlanda 2019
Veitt einstaklingi, fyrirtæki eða stofnun sem hefur þróað nýja aðferð með breiða skírskotun og markaðsmöguleika og sem gjarnan er byggð á gömlum hefðum.

Matvælaiðnaðarmaður Norðurlanda 2019
Verðlaunin verða veitt matvælaiðnaðarmanni sem hefur þróað einstaka gæðaafurð sem byggist á norrænum hráefnum og aðferðum.

Matarblaðamaður/Miðlun um mat 2019
Veitt einstaklingi, sögumanni, miðli eða útgáfu sem ber út hróður norrænnar matarmenningar.

Norðurlandaverðlaun fyrir mat fyrir marga 2019
Veitt einstaklingi eða stofnun sem hefur unnið mikið starf til að auka gæði og efla norræna matarmenningu í opinberum máltíðum.

Mataráfangastaður Norðurlanda 2019
Veitt samtökum, stofnun eða samfélagi sem hefur sameinað hráefnisframleiðendur, veitingastaði og aðra viðkomandi í að efla tiltekinn stað með matarmenningu, samstarfi og samvinnu.

Norðurlandaverðlaun fyrir mat fyrir börn og ungmenni 2019
Verðlaunin verða veitt einstaklingi eða samtökum sem hafa þróað hugmynd eða hugmyndafræði sem stuðlar með marktækum hætti að því að auka þekkingu og kunnáttu komandi kynslóða hvað norræn matvæli og matarmenningu varðar.

Hægt er að skrá þátttakendur í Emblu til og með 31. mars. Skráningin er einföld og fljótleg á vefsíðunni www.emblafoodawards.com. Þar má einnig fræðast betur um verðlaunin og tilurð þeirra.

Fréttir

Sérstaða og samkeppnisforskot í matvælaframleiðslu

Samstarfsvettvangur um Matvælalandið Ísland efnir til ráðstefnu um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu miðvikudaginn 10. apríl kl. 10-12 á Hilton Hótel Nordica.

Yfirskrift ráðstefnunnar er Hvað má bjóða þér að borða? Sérstaða og samkeppnisforskot í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu. Á ráðstefnunni verður fjallað um gildi sérstöðunnar og þær áskoranir sem margar þjóðir standa frammi fyrir í sinni matvælaframleiðslu. Kröfur um örugg matvæli, fá sótspor, virðingu fyrir umhverfinu og auðlindum, bætta lýðheilsu og heilbrigt búfé munu hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu um heim allan á komandi árum. Matur skipar sífellt stærri þátt í upplifun fólks á ferðalögum og er því mikilvægt viðfangsefni ferðaþjónustu.

Henk Jan Ormel, ráðgjafi í stefnumótun dýralækninga, hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO), fjallar um tengsl milli matvælaöryggis og sjúkdóma í mönnum og dýrum og hvernig haga má baráttu gegn matarbornum sjúkdómum. Þá verður fjallað um sérstöðu íslenskrar matvælaframleiðslu og hvernig á að sýna fram á hana og gefin dæmi um hvernig sérstaða er nýtt í markaðssetningu. Í lokin verða pallborðsumræður.

Að Matvælalandinu standa Samtök iðnaðarinsBændasamtök ÍslandsMatísÍslandsstofaSamtök ferðaþjónustunnarSamtök fyrirtækja í sjávarútvegiMatarauður Íslands og Háskóli Íslands .

Hér er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Fréttir

Strandbúnaður 2019

Ráðstefnan Strandbúnaður 2019 fer fram dagana 21. og 22. mars á Grand Hótel Reykjavík, en um er að ræða stærsta árlega vettvang allra þeirra sem starfa í strandbúnaði.

Hér að neðan má sjá lista yfir málstofur ráðstefnunnar:

  • Meginstraumar í strandbúnaði: Tækifæri til vaxtar
  • Vinnsla, flutningur og markaðssetning eldisfisks
  • Áskoranir og tækifæri í skeldýrarækt á Ísland
  • Tækniþróun – Landeldi (keypt erindi)
  • Tækniþróun – Hafeldi (keypt erindi)
  • Umhverfis- og öryggismál í sjókvíaeldi
  • Þróun í fiskeldi
  • Framfarir í laxeldi
  • Þörungarækt á Íslandi – Tækifæri í framtíðinni eða iðnaður dagsins í dag?
  • Salmon Farming in the North Atlantic
  • Algae Culture Extension Short-course

Jón Árnason, verkefnastjóri hjá Matís, verður með erindi á málstofunni Meginstraumar í strandbúnaði: Tækifæri til vaxtar sem ber heitið Þróun fiskeldisfóðurs. Þar gerir hann grein fyrir þróun fóðurs fyrir eldisfisk á norðurhveli með sérstakri áherslu á fóður fyrir lax. Einnig verður fjallað um ný hráefni sem gætu tryggt nægjanlegt fóður fyrir fyrirsjáanlegan vöxt sem verða þarf í fiskeldi til að mæta aukinni prótein þörf heimsins í framtíðinni.

Sigurjón Arason hjá Matís tekur þátt í málstofunni Vinnsla, flutningur og markaðssetning eldisfisks. Erindi hans ber yfirskriftina Vinnsla fyrir dauðastirðnun þar sem hann bendir á mikilvægi alls þess sem hefur áhrif á gæði afurða. Endanleg gæði afurða ráðast m.a. af því hvernig fiskurinn fer í og í gegnum dauðastriðnun. Fjallað verður um hvað er vitað um þessi áhrif og hvernig má stýra vinnslunni til að ná sem bestum árangri. M.a. meðhöndlun fisks og eins skiptir máli hvaða afurð á að framleiða t.d. hvort það eru flök eða heill, slægður fiskur.

Dagskrána má finna hér.

Fréttir

Er rafrænt eftirlit framtíðin?

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Jónas R. Viðarsson hjá Matís segir í viðtali við Fiskifréttir sem birtist 7. mars s.l. að hann telji einsýnt að á endanum verði rafrænt eftirlit með myndavélum það eina sem dugar til að koma í veg fyrir brottkast á fiski hjá Evrópuflotanum.

Fyrir fjórum árum samþykkti Evrópusambandið bann við brottkasti á fiski. Um svipað leyti var ákveðið að fá hóp fagmanna til að móta aðferðir, afla þekkingar og þróa tækni til að draga úr brottkasti í von um að smám saman mætti útrýma því alveg. Þessu verkefni, sem nefnt var DiscardLess, lauk nú í febrúar eftir fjögurra ára vinnu.

„Þetta verkefni verður til í tengslum við brottkastbannið sem verið er að innleiða í Evrópu,“ segir Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís. „Bannið átti að komast hægt og rólega til framkvæmda frá 2016 og til 1. janúar 2019.“

Jónas er fulltrúi eins af fjórum íslenskum fyrirtækjum sem tóku þátt í DiscardLess verkefninu. Auk Matís tóku Marel, Hampiðjan og SkipaSýn þátt, auk þess sem dótturfyrirtæki SkipaSýn í Póllandi var með.

Ekkert hefur breyst

Jónas segir brottkastsbann Evrópusambandsins í raun hafa runnið út í sandinn. Markmiðin hafi ekki náðst. Í staðinn fyrir löglegt brottkast, sem áður var heimild fyrir upp að ákveðnu marki en með skráningarskyldu, er væntanlega komið ólöglegt brottkast þar sem ekkert er skráð og því ekkert vitað um umfang þess lengur.

„Það hefur ekkert breyst,“ segir Jónas. „Það er enginn óæskilegur afli að koma í land núna sem þýðir væntanlega að það sem var skráð brottkast er bara ólöglegt brottkast í dag. Yfirvöld hafa í raun ákveðið að setja bara kíkirinn fyrir blinda augað.“ Í raun og veru geti þau lítið annað úr því sem komið er.

„Raunveruleikinn er bara sá að meðan sjómenn eru andsnúnir banninu og eftirlitið er ekki betra þá er brottkast. Niðurstaðan stóra er sú að þetta er ekkert að virka. Þeir eru búnir að vera að innleiða þetta í fjögur ár og það er sáralítið sem er að koma út úr þessu,“ segir Jónas.

Fjölmargar lausnir

Út úr DiscardLess verkefninu hafa engu að síður komið fjölmargar tillögur og lausnir sem ættu að geta hjálpað til við að draga úr brottkasti. Þær ganga annars vegar út á að forðast að veiða óæskilegan afla og svo að ná verðmætum út úr þeim afla sem ekki er unnt að forðast.

Flestar virðast þessar hugmyndir þó ætla að verða erfiðar í framkvæmd, enda aðstæður um margt ólíkar því sem við þekkjum hér.

„Það er alltaf einhver hængur á þeim einhvers staðar. Sumt er erfitt að láta ganga upp fjárhagslega, eða virðist vera það. Við komum meðal annars með þrívíddarteikningar af bátum og skipum, og reiknivélar sem eiga að geta sýnt að þetta svari kostnaði, en útgerðin er mjög hörð á því að það sé ekki hægt að gera þetta. Á meðan menn komast upp með að halda áfram brottkasti þá er þetta erfitt.“

Chile í fararbroddi

Hann segir því vonir helst bundnar við rafrænt eftirlit og myndavélar. Mikil vinna sé lögð í þróun á slíku og kostnaðurinn ætti í raun ekki að verða neinum ofviða. Danir hafa sýnt töluverðan metnað til að verða í fararbroddi þegar kemur að þróun á rafrænu eftirliti, en lengst er sú þróun sennilega komin í Chile.

„Þar er verið að innleiða þetta núna. Öll skip yfir 15 metrum sem stunda atvinnuveiðar eiga þar að vera með myndavélaeftirlit.

Þeir hafa þetta þannig að einkafyrirtæki tekur að sér eftirlitið. Þeir taka úrtök þar sem horft er á allt að 10% af upptökunum og ríkið borgar kostnaðinn. Ef það hins vegar sést eitthvað í úrtökum sem þarf að skoða betur, þá þurfa fyrirtækin að fara að borga.“

Jónas segist ekki sjá annað en að rafrænt eftirlit verði á endanum það eina sem dugar til að koma endanlega í veg fyrir brottkast innan Evrópuflotans, og það á sennilega einnig við hér á landi.

„Það næst svo lítil dekkun öðru vísi og kostnaður við aðrar lausnir er einnig allt of mikill. Myndavélarnar hafa líka fælingarmátt og kostnaðurinn er ekki svo mikill.“ Sem dæmi um kostnað við uppsetningu og rekstur myndavélakerfis, þá hafa Danir reiknað út að meðal fjárfestingakostnaður í búnaði sé um 8 þúsund EUR (1,1 mill. ISK) á hvert skip og að rekstrarkostnaður á ári sé um 4 þúsund EUR (550 þús. ISK) miðað við að horft sé á um 10% af öllum upptökum. Við þessa úrteikninga var kostnaður greindur fyrir 396 skip og eru áðurnefndar upphæðir meðaltal.

Gögnin vantar

Hvað varðar ástandið hér á landi þá hefur mikil vinna verið lögð í að fullnýta aflann sem hefur skilað meiri verðmætum. Kvótakerfið og möguleikinn á framsali aflaheimilda hefur líka skapað sveigjanleika í veiðunum. Hvort það hefur skilað sér í minna brottkasti er þó ekki auðvelt að fullyrða um með tölulegum gögnum.

„Flest okkar teljum við að þetta sé alveg í þokkalegu standi hér á landi í samanburði við aðra, en við höfum í sjálfu sér eiginlega ekkert til að bakka það upp. Eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir þá er eftirlitið ekki nægilega gott hjá okkur. Það eina sem maður getur gert er að reyna að fá einhverja tilfinningu fyrir þessu.“

Jónas hefur árum saman rætt við fjölda fólks um brottkast, bæði hér á landi og annars staðar, og lesið flest sem skrifað hefur verið um það á prenti. Í viðtali við Fiskifréttir haustið 2017 fullyrti hann að sjómenn væru almennt andsnúnir brottkasti. Það væri í raun og veru úr sögunni að stórum hluta.

„Eftir að þetta viðtal birtist fór ég að fá töluvert af upphringingum þar sem menn voru að segja mér allt aðra sögu. Þeir fullyrtu að umtalsvert brottkast væri í gangi, meðan meginþorrinn sem maður heyrir í sagði manni samt að brottkast sé ekkert eða í algjöru lágmarki.“

Strax í kjölfarið kom síðan Kveikur með ítarlega umfjöllun sína um brottkast, þar sem dregin var upp ófögur mynd.

„Þessar myndir sem við sáum í Kveik voru alveg hræðilegar, og svo heyrir maður jafnvel sögur um að menn séu að losa frá pokanum uppi á dekki, beint í sjóinn, ef mönnum lýst ekki á aflann. Aðrir og í raun flestir fullyrða samt við mann ennþá að eina brottkastið sé bara einhverjir tittir sem tekur því ekki að gera að. Vandinn er bara sá að okkur vantar gögn. Síðan má auðvitað spyrja hve mikið er mikið?“

Fréttir

Nýr bæklingur um meðferð sláturlamba og lambakjöts

Nýverið kom út ritið „Frá fjalli að gæðamatvöru“ um meðferð sláturlamba og lambakjöts sem Óli Þór Hilmarsson hjá Matís og Eyþór Einarsson hjá Ráðgjafarmiðastöð landbúnaðarins settu saman. Myndskreytingar eru eftir Sólveigu Evu Magnúsdóttur.

Í ritinu eru teknar saman gagnlegar leiðbeiningar fyrir þá sem koma að því ferli að gera lamb að gæða matvöru. Leiðbeiningarnar eru m.a. byggðar á rannsóknum og þekkingu frá Matís, Landbúnaðarháskóla Íslands, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins og forverum þeirra, sem sýna fram á mikilvægi réttrar meðhöndlunar sláturfjár, frá smölun af fjalli og allt þar til tilbúin vara er komin í kjötborð verslana eða í veitingahús. Aðstæður og meðferð fyrir og eftir slátrun hafa áhrif á gæði og eiginleika kjötsins.

Ritið má nálgast hér.

Fréttir

Lokafundur Discardless

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Verkefninu DiscardLess lauk formlega nú fyrir skemmstu með lokafundi verkefnisins sem haldinn var í húsakynnum DTU í Lyngby í Danmörku. Verkefnið stóð yfir í fjögur ár og tóku alls 31 fyrirtæki og stofnanir frá 12 löndum þátt í því.

Helsta markmið DiscardLess var að greiða fyrir innleiðingu á brottkastsbanni sem Evróusambandið hefur verið að reyna að koma á síðastliðin fjögur ár, með takmörkuðum árangri. Nú í upphafi árs 2019 átti brottkastbannið að vera að fullu innleitt á öllum hafsvæðum sem hin sameininlega fiskveiðistjórnun Evrópusambandsins (CFP – Common Fisheries Policy) nær til, en ljóst er þó að langt er enn í land að bannið geti talist hafa skilað þeim árangri sem að var stefnt. Meðal þátttakenda í verkefninu voru fyrirtækin Matís, SkipaSýn, Hampiðjan og Marel, og átti ekkert land jafn marga fulltrúa og Ísland í verkefninu. Í DiscardLess verkefninu var sjónum meðal annars beint að löndum sem hafa nú þegar reynslu af brottkastbönnum, með það fyrir augum að reyna að miðla af reynslu þeirra og ljóst er að horft er til Íslands hvað það varðar.

Á fundinum var farið yfir helstu áfanga verkefnsins, hindranir og næstu skref.

Hér má nálgast kynningarnar og niðurstöður sem kynntar voru á lokafundinum. 

Fréttir

Matís á North Atlantic Seafood Forum í Bergen

North Atlantic Seafood Forum, sem haldin í Bergen í Noregi, er ein stærsta sjávarútvegsráðstefna heims.

Þeir sem sækja ráðstefnuna eru áhrifafólk í alþjóðlegum sjávarútvegi sem og kaupendur, framleiðendur, sérfræðingar o.fl. Reikna má með að fjöldi gesta sé um 900 manns frá 30 löndum og u.þ.b. 300 fyrirtækjum. Á ráðstefnunni eru rædd málefni sem snerta einkum hagsmuni landa við Norður Atlantshaf. Þar er m.a. fjallað um nýsköpun, sjálfbærni, framboð og markaðsmál; 16 málstofur og 150 fyrirlestrar.

Íslenskum aðilum, fyrirtækjum í framleiðslu, sölu og þjónustu við sjávarútveg, aðilum í stuðningsumhverfi greinarinnar gefst tækifæri á að taka þátt, kynna vörur sínar og þjónustu á alþjóðavettvangi, en Matís er einmitt á meðal þátttakenda þarna.

Matís á North Atlantic Seafood Forum

Fréttir

Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu

Tengiliður

Margrét Geirsdóttir

Verkefnastjóri

mg@matis.is

Matís hefur ásamt sprotafyrirtækinu Codland unnið að verkefnum þar sem markmiðið er að nýta roð í verðmætar afurðir.

Kollagen er að verða sífellt vinsælla sem virka efnið í ýmsum neysluvörum en rannsóknir benda til að tengsl séu á milli reglulegar neyslu efnisins og jákvæðra áhrifa á húð og liði. Heimsmarkaður fyrir fæðubótarefni sem innihalda kollagen er stór og þá aðallega unnið úr svínum. Áætlanir gera ráð fyrir aukinni eftirspurn fyrir kollagenpeptíðum sem unnið eru úr villtum fiski og er því hér um tilvalið tækifæri að ræða fyrir íslenska framleiðslu.

Verkefninu Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu lauk nýverið, en það var styrkt af Norrænu Nýsköpunarmiðstöðinni og unnið í samstarfi við norska fyrirtækið Biomega, danska tækniháskólann (DTU) og Biosustain einnig í Danmörku ásamt Matís og Codland. Markmið verkefnisins var meðal annars að þróa ný ensím til að vinna kollagen úr aukahráefni frá hvítum villtum fiski svo sem þorski og feitum fiski eins og laxi.

Myndskeið um verkefnið má finna hér.

Vatnsrofið kollagen úr aukahráefni fiskvinnslu

Skýrslur

Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2018

Útgefið:

26/02/2019

Höfundar:

Sophie Jensen, Natasa Desnica, Branka Borojevic, Svanhildur Hauksdóttir, Helga Gunnlaugsdóttir

Styrkt af:

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Tengiliður

Sophie Jensen

Verkefnastjóri

sophie.jensen@matis.is

Niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2018

This report summarises the results obtained in 2018 for the screening of various undesirable substances in the edible part of Icelandic marine catches.

The main aim of this project is to gather data and evaluate the status of Icelandic seafood products in terms of undesirable substances and to utilise the data to estimate the exposure of consumers to these substances from Icelandic seafood and risks related to public health. The surveillance program began in 2003 and was carried out for ten consecutive years before it was interrupted. The project was revived in March 2017 to fill in gaps of knowledge regarding the level of undesirable substances in economically important marine catches for Icelandic export. Due to financial limitations the surveillance now only covers screening for undesirable substances in the edible portion of marine catches for human consumption and not feed or feed components. The limited financial resources have also required the analysis of PAHs, PBDEs and PFCs to be excluded from the surveillance, providing somewhat more limited information than in 2013. However, it is considered a long-term project where extension and revision is constantly necessary.

In general, the results obtained in 2018 were in agreement with previous results on undesirable substances in the edible part of marine catches obtained in the monitoring years 2003 to 2012 and 2017.

In this report from the surveillance programme, the maximum levels for dioxins, dioxin-like PCBs and non-dioxin-like PCBs in foodstuffs (Regulation No 1259/2011) were used to evaluate how Icelandic seafood products measure up to limits currently in effect.

The results show that in regard to the maximum levels set in the regulation, the edible parts of Icelandic seafood products contain negligible amounts of dioxins, dioxin like and non-dioxin-like PCBs. In fact, all samples of seafood analysed in 2018 were below EC maximum levels.

Furthermore, the concentration of ICES6-PCBs was found to be low in the edible part of the marine catches, compared to the maximum limits set by the EU (Commission Regulation 1259/2011).

The results showed that the concentrations of heavy metals, e.g. cadmium (Cd), lead (Pb) and mercury (Hg) in the edible part of marine catches were always well below the maximum limits set by the EU.

Skoða skýrslu
IS