Tengiliður
Jónas Rúnar Viðarsson
Áherslusviðsstjóri
jonas@matis.is
Jónas R. Viðarsson hjá Matís segir í viðtali við Fiskifréttir sem birtist 7. mars s.l. að hann telji einsýnt að á endanum verði rafrænt eftirlit með myndavélum það eina sem dugar til að koma í veg fyrir brottkast á fiski hjá Evrópuflotanum.
Fyrir fjórum árum samþykkti Evrópusambandið bann við brottkasti á fiski. Um svipað leyti var ákveðið að fá hóp fagmanna til að móta aðferðir, afla þekkingar og þróa tækni til að draga úr brottkasti í von um að smám saman mætti útrýma því alveg. Þessu verkefni, sem nefnt var DiscardLess, lauk nú í febrúar eftir fjögurra ára vinnu.
„Þetta verkefni verður til í tengslum við brottkastbannið sem verið er að innleiða í Evrópu,“ segir Jónas R. Viðarsson, faglegur leiðtogi hjá Matís. „Bannið átti að komast hægt og rólega til framkvæmda frá 2016 og til 1. janúar 2019.“
Jónas er fulltrúi eins af fjórum íslenskum fyrirtækjum sem tóku þátt í DiscardLess verkefninu. Auk Matís tóku Marel, Hampiðjan og SkipaSýn þátt, auk þess sem dótturfyrirtæki SkipaSýn í Póllandi var með.
Ekkert hefur breyst
Jónas segir brottkastsbann Evrópusambandsins í raun hafa runnið út í sandinn. Markmiðin hafi ekki náðst. Í staðinn fyrir löglegt brottkast, sem áður var heimild fyrir upp að ákveðnu marki en með skráningarskyldu, er væntanlega komið ólöglegt brottkast þar sem ekkert er skráð og því ekkert vitað um umfang þess lengur.
„Það hefur ekkert breyst,“ segir Jónas. „Það er enginn óæskilegur afli að koma í land núna sem þýðir væntanlega að það sem var skráð brottkast er bara ólöglegt brottkast í dag. Yfirvöld hafa í raun ákveðið að setja bara kíkirinn fyrir blinda augað.“ Í raun og veru geti þau lítið annað úr því sem komið er.
„Raunveruleikinn er bara sá að meðan sjómenn eru andsnúnir banninu og eftirlitið er ekki betra þá er brottkast. Niðurstaðan stóra er sú að þetta er ekkert að virka. Þeir eru búnir að vera að innleiða þetta í fjögur ár og það er sáralítið sem er að koma út úr þessu,“ segir Jónas.
Fjölmargar lausnir
Út úr DiscardLess verkefninu hafa engu að síður komið fjölmargar tillögur og lausnir sem ættu að geta hjálpað til við að draga úr brottkasti. Þær ganga annars vegar út á að forðast að veiða óæskilegan afla og svo að ná verðmætum út úr þeim afla sem ekki er unnt að forðast.
Flestar virðast þessar hugmyndir þó ætla að verða erfiðar í framkvæmd, enda aðstæður um margt ólíkar því sem við þekkjum hér.
„Það er alltaf einhver hængur á þeim einhvers staðar. Sumt er erfitt að láta ganga upp fjárhagslega, eða virðist vera það. Við komum meðal annars með þrívíddarteikningar af bátum og skipum, og reiknivélar sem eiga að geta sýnt að þetta svari kostnaði, en útgerðin er mjög hörð á því að það sé ekki hægt að gera þetta. Á meðan menn komast upp með að halda áfram brottkasti þá er þetta erfitt.“
Chile í fararbroddi
Hann segir því vonir helst bundnar við rafrænt eftirlit og myndavélar. Mikil vinna sé lögð í þróun á slíku og kostnaðurinn ætti í raun ekki að verða neinum ofviða. Danir hafa sýnt töluverðan metnað til að verða í fararbroddi þegar kemur að þróun á rafrænu eftirliti, en lengst er sú þróun sennilega komin í Chile.
„Þar er verið að innleiða þetta núna. Öll skip yfir 15 metrum sem stunda atvinnuveiðar eiga þar að vera með myndavélaeftirlit.
Þeir hafa þetta þannig að einkafyrirtæki tekur að sér eftirlitið. Þeir taka úrtök þar sem horft er á allt að 10% af upptökunum og ríkið borgar kostnaðinn. Ef það hins vegar sést eitthvað í úrtökum sem þarf að skoða betur, þá þurfa fyrirtækin að fara að borga.“
Jónas segist ekki sjá annað en að rafrænt eftirlit verði á endanum það eina sem dugar til að koma endanlega í veg fyrir brottkast innan Evrópuflotans, og það á sennilega einnig við hér á landi.
„Það næst svo lítil dekkun öðru vísi og kostnaður við aðrar lausnir er einnig allt of mikill. Myndavélarnar hafa líka fælingarmátt og kostnaðurinn er ekki svo mikill.“ Sem dæmi um kostnað við uppsetningu og rekstur myndavélakerfis, þá hafa Danir reiknað út að meðal fjárfestingakostnaður í búnaði sé um 8 þúsund EUR (1,1 mill. ISK) á hvert skip og að rekstrarkostnaður á ári sé um 4 þúsund EUR (550 þús. ISK) miðað við að horft sé á um 10% af öllum upptökum. Við þessa úrteikninga var kostnaður greindur fyrir 396 skip og eru áðurnefndar upphæðir meðaltal.
Gögnin vantar
Hvað varðar ástandið hér á landi þá hefur mikil vinna verið lögð í að fullnýta aflann sem hefur skilað meiri verðmætum. Kvótakerfið og möguleikinn á framsali aflaheimilda hefur líka skapað sveigjanleika í veiðunum. Hvort það hefur skilað sér í minna brottkasti er þó ekki auðvelt að fullyrða um með tölulegum gögnum.
„Flest okkar teljum við að þetta sé alveg í þokkalegu standi hér á landi í samanburði við aðra, en við höfum í sjálfu sér eiginlega ekkert til að bakka það upp. Eins og skýrsla Ríkisendurskoðunar sýnir þá er eftirlitið ekki nægilega gott hjá okkur. Það eina sem maður getur gert er að reyna að fá einhverja tilfinningu fyrir þessu.“
Jónas hefur árum saman rætt við fjölda fólks um brottkast, bæði hér á landi og annars staðar, og lesið flest sem skrifað hefur verið um það á prenti. Í viðtali við Fiskifréttir haustið 2017 fullyrti hann að sjómenn væru almennt andsnúnir brottkasti. Það væri í raun og veru úr sögunni að stórum hluta.
„Eftir að þetta viðtal birtist fór ég að fá töluvert af upphringingum þar sem menn voru að segja mér allt aðra sögu. Þeir fullyrtu að umtalsvert brottkast væri í gangi, meðan meginþorrinn sem maður heyrir í sagði manni samt að brottkast sé ekkert eða í algjöru lágmarki.“
Strax í kjölfarið kom síðan Kveikur með ítarlega umfjöllun sína um brottkast, þar sem dregin var upp ófögur mynd.
„Þessar myndir sem við sáum í Kveik voru alveg hræðilegar, og svo heyrir maður jafnvel sögur um að menn séu að losa frá pokanum uppi á dekki, beint í sjóinn, ef mönnum lýst ekki á aflann. Aðrir og í raun flestir fullyrða samt við mann ennþá að eina brottkastið sé bara einhverjir tittir sem tekur því ekki að gera að. Vandinn er bara sá að okkur vantar gögn. Síðan má auðvitað spyrja hve mikið er mikið?“