Fréttir

Mælingar á vatni í lýsi, ný aðferð hjá Matís

Vatn í lýsi er ein af gæðamælingum í hrálýsi fyrir útflutning á lýsi og hefur verið mæld hjá Matís og áður Rf (Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins) í meira en 40 ár. Gamla mælingin byggði á eimingu með tolueni og mælingin tók 2-3 klukkustundir alls, en toluen er hvimleitt efni bæði hættulegt heilsu manna og umhverfi og þess vegna til mikils að vinna að losna við þessa mælingu.

Á síðasta ári var tekin í notkun önnur aðferð sem er fljótlegri og unnið er í lokuðu kerfi þar sem starfsmenn þurfa ekki að komast í tæri við hættuleg efni. Þetta er Karl-Fisher títrun með sjálfvirkum títrator (sjá mynd). Mælingin tekur mun styttri tíma og er hættu minni bæði fyrir starfsfólk og umhverfið auk þess er þetta liður í sjálfvirknivæðingu rannskóknastofunnar. Hægt er að mæla með mun meiri nákvæmni en áður hefur verið og meiri næmni. Þá er einnig hægt að mæla í öðrum vökva en lýsi með þessu tæki og venjulega er um að ræða ef óskað er vatn mælist ekki í miklu magni. Mælingin hentar best til mælinga á vatnsmagni frá 0,1%-1%.

Fréttir

Lagmetishandbókin komin á vefinn

Þekking og miðlun er órjúfanlegur hluti nýsköpunar og aukinna verðmæta. Hversu miklum verðmætum á hvert kílógramm afla hver fróðleikur skilar er ómetanlegt því það má hæglega fullyrða að án þekkingar og verkkunnáttu verða ekki til nein verðmæti.

Við hjá Matís höfum lagt heilmikið að mörkum þegar kemur að menntun í matvælafræðum og vinnslu afurða og nú birtist enn ein handbókin, að þessu sinni full af fróðleik um lagmetisvinnslu og lagmetisafurðir. Matís fjármagnaði gerð handbókarinnar með stuðningi frá AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í þessu samhengi er rétt að benda á að Ora hf, Akraborgin ehf og Hraðfrystihúsið Gunnvör lögðu sitt af mörkum til að þess að handbókin nýttist sem best lagmetisfyrirtækjum. 

Lagmetisvörur eru að mörgu leyti tæknilega flóknar vörur og þarf því virkilega góðan skilning á mikilvægi vinnsluþáttanna svo ekki skapist hætta fyrir neytendur. Til að ná þessu langa geymsluþoli lagmetisafurða má ekkert fara úrskeiðis, sem dæmi má nefna mikilvægi þátta eins og lokun dósa, suðuna sjálfa, hitastig og tíma, gerilsneyðingu, rotvörn og kælingu þegar það á við o.s.frv. Það má ekki gefa neinn afslátt í framleiðslu þessara afurða því lítil frávik geta haft mjög dramatískar afleiðingar.

Páll Gunnar Pálsson höfundur efnisins starfaði m.a. um árabil sem gæða- og framleiðslustjóri í niðursuðuverksmiðju Norðurstjörnunnar í Hafnarfirði, en þetta er sjöunda handbókin sem Páll Gunnar hefur tekið saman. Hægt er að nálgast þær allar endurgjaldslaust á heimasíðu Matís. 

Ómetanlegt var að fá Einar Þór Lárusson sérfræðing hjá ORA til að vera með í þessu verkefni til að miðla af sinni miklu reynslu og þekkingu. En Einar Lárusson hefur unnið í lagmetis og fiskvinnslufyrirtækjum í áratugi við framleiðslu, en síðast en ekki síst við fjölbreytt vöruþróunar- og nýsköpunverkefni.

Lagmetishandbókina, sem er nýjasta eintakið í handbókasafni Matís, má nálgast hér . Lagmetishandbókin var fjármögnuð af Matís, með stuðning AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi.

Fréttir

Hvernig sýnum við fram á öryggi og heilnæmi íslenskra sjávarafurða?

Íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn óæskilegra efna – en vísindaleg gögn um óæskileg efni í íslensku sjávarfangi eru lykilatriði til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t .t. öryggis og heilnæmis.

Út er komin skýrsla Matís þar sem teknar eru saman niðurstöður sívirkrar vöktunar á óæskilegum efnum í sjávarfangi úr auðlindinni 2018.

Vöktunin hófst árið 2003 fyrir tilstuðlan þáverandi Sjávarútvegsráðuneytis, núverandi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, og sá Matís um að safna gögnum og útgáfu á skýrslum vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar á tímabilinu 2003-2012. 

Vegna skort á fjármagni var gert hlé á þessari mikilvægu gagnasöfnun sem og útgáfu niðurstaðna á tímabilinu 2013-2016. Verkefnið hófst aftur í mars 2017, en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu voru heldur ekki gerðar efnagreiningar á PAH, PBDE og PFC efnum í þetta sinn.

Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum, það er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem útvíkkun og endurskoðun er stöðugt nauðsynlegt.

Vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni í íslensku sjávarfangi eru lykilatriði til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t .t. öryggis og heilnæmis. Útflutningur íslenskra matvæla er háður því að unnt sé að sýna fram á að öryggi þeirra, með hliðsjón að lögum, reglugerðum og kröfum markaða. Vísindaleg gögn frá óháðum rannsóknaraðila eru sömuleiðis mikilvæg í markaðskynningum á sjávarafurðum fyrir væntanlega kaupendur og styrkir allt markaðsstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir. Gögnin nýtast ennfremur við áhættumat á matvælum og til að hafa áhrif á setningu hámarksgilda fyrir aðskotaefni í matvælum.

Í þetta sinn voru tekin 18 sýni af sjávarfangi úr auðlindinni, í fyrsta sinn voru tekin sýni af beitukóng og sæbjúgum, einnig voru tekin 2 sýni af rækju og 1 af þorsklifur auk 13 sýna af hefðbundnum matfiski.

Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust 2018 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012 sem og 2017. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda almennt óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni.

Í þessari skýrslu voru hámarksgildi Evrópusambandsins (ESB) fyrir díoxín, díoxínlík PCB (DL-PCB) og ekki díoxínlík PCB (NDL-PCB) í matvælum samkvæmt reglugerð nr. 1259/2011 notuð til að meta hvernig íslenskar sjávarafurðir standast kröfur ESB. Niðurstöður ársins 2018 sýna að öll sýni af sjávarafurðum til manneldis voru vel undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta sjávarfangs, miðað við hámarksgildi ESB samkvæmt reglugerð nr. 1259/2011. Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíum (Cd), blý (Pb) og kvikasilfur (Hg) í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB.

Ljósmynd: Stefán Þór Eysteinsson

Fréttir

Matarsmiðjan á Höfn

Nýtt samkomulag liggur fyrir um áframhald á samstarfi Matís og Sveitarfélagsins Hornafjarðar. Það felur í sér samstarf um rekstur Matarsmiðju Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Matís – Matarsmiðjunnar – þróun og kennslu í tengslum við smáframleiðslu matvæla.

Matís hefur afhent sveitarfélagi Hornafjarðar tækin sem voru í matarsmiðjunni og hefur sveitarfélagið yfirtekið rekstur Matarsmiðjunnar sem hefur verið flutt af Álaleiru í húsnæði við Höfnina að Heppuvegi 6. Húsið er í eigu Sláturfélagsins Búa, en það þykir hentugra fyrir starfsemina en fyrra húsnæði. 

Tilgangurinn með nýju samkomulagi er:

  • Aukin nýsköpun og starfhæfni við vinnslu og sölu á matvælum.
  • Að tryggja smáframleiðendum og frumkvöðlum aðgengi að matarsmiðju, sem gerir þeim mögulegt að þróa og framleiða matvæli í viðunandi húsnæði og með búnað við hæfi.
  • Að auka starfshæfni og nýsköpun við vinnslu og sölu matvæla.
  • Að efla matarhandverk á Íslandi.
  • Að bjóða innlendum og erlendum samstarfsaðilum upp á að nýta aðstöðuna á Höfn í sínum verkefnum.
  • Efla þekkingu smáframleiðenda á svæðinu með fræðslu og námskeiðum.

Sveitarfélagið hefur auk þess samið við Nýheima Þekkingasetur um utanumhald pantana o.fl., en pantanir og óskir um notkun Matarsmiðjunnar eiga að berast á netfangið matarsmidjan@hornafjordur.is

Matís stefnir á áframhaldandi samstarf með frumkvöðlum og hagaðilum innan sveitarfélagsins Hornafjarðar á nýjum forsendum, eins og segir í samkomulaginu sem Oddur Már Gunnarsson starfandi forstjóri Matís  og Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar undirrituðu nýlega. 

Fréttir

BlueBio ERA-NET auglýsir eftir umsóknum

ERA-NET Cofund Blue Bioeconomy – Unlocking the Potential of Aquatic Bioresources (BlueBio) er samstarfsnet 16 Evrópuþjóða til að efla samvinnu og ýta undir rannsóknir og nýsköpun á bláa lífhagkerfinu og er Ísland aðili að netinu í gegnum Rannís.

BlueBio ERA-NET auglýsir eftir forumsóknum á eftirfarandi áherslusviðum:

Priority area 1: Exploring new bio-resources

Priority area 2: Exploring improvements in fisheries and aquaculture

Priority area 3: Exploring synergies across sectors

Priority area 4: Exploring Biotechnology and ICT

Umsóknaferlið er tveggja þrepa. Í fyrra þrepi er send inn forumsókn. Þær umsóknir sem standast mat á fyrsta þrepi fá boð um að senda inn umsókn á seinna þrepi.

Frestur til að skila inn forumsókn er til 17. mars 2019.

Nánari upplýsingar má má finna á BlueBio.eu.

Styrkur til íslenskra aðila í samþykktum verkefnum eru fjármagnaður af Tækniþróunarsjóði.

Frekari upplýsingar um kallið veita Lýður Skúli Erlendsson og Sigurður Björnsson hjá Rannís.

Skýrslur

Næringargildi geitaafurða – Kjöt og mjólk

Útgefið:

11/01/2019

Höfundar:

Ólafur Reykdal, Óli Þór Hilmarsson, Svanhildur Hauksdóttir

Styrkt af:

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Næringargildi geitaafurða – Kjöt og mjólk

This report on the nutrient content of goat meat and goat milk is a part of the project “Added value and special status of goat products”. The project is supported by the Agricultural Productivity Fund and carried out at Matis in cooperation with the Association of Goat Farmers in Iceland. Goat carcasses were cut into legs, loin, forequarters and flanks. Proportions of meat, bones and waste were determined. On the average meat was 66% of the carcasses, bones 31% and waste 3%. The meat was analysed for proximates. The protein content was high (21% protein for meat from the whole carcass). Fat content was generally low (4-24%). Goat milk was sampled from spring until autumn 2018. Each milk sample was collected from composite milk from 3-57 animals. Fat content was on the average 3,9%, protein 3,7% and lactose 3,9%. The contents of polyunsaturated fatty acids and omega-3 fatty acids were higher than in Icelandic cow milk. The results should be valuable for promotion of goat products, work on nutrient declarations and product development.

Skoða skýrslu

Fréttir

Matvælasvik og sjávarafurðir

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Vörusvik í viðskiptum með matvæli er stórt alþjóðlegt vandamál og eru sjávarafurðir meðal þeirra matvæla sem mest er svindlað með. Rannsóknir benda meðal annars til þess að tegundasvik eigi sér stað með um þriðjung sjávarafurða sem seld eru í mörgum af okkar helstu viðskiptalöndum. Það er því ljóst að hér er um að ræða mikið hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur þar sem íslenskt sjávarfang á í samkeppni við „svikin matvæli“, auk þess sem „svikin matvæli“ eru hugsanlega seld sem íslensk framleiðsla.

Fimmta ráðstefnan í tengslum við verkefnið FoodIntegrity var haldin í Nantes í Frakklandi um miðjan nóvember síðastliðinn. Á ráðstefnunni voru kynntar nýjustu rannsóknir og lausnir til að takast á við matvælasvik. Þátttakendur voru rúmlega 300 talsins, frá 40 löndum. Dagskráin samanstóð af 57 kynningum, tveimur vinnustofum og einum umræðufundi.

Matís er þátttakandi í FoodIntegrity verkefninu og í þeim hluta ráðstefnunnar sem snéri að matvælasvikum í tengslum við sjávarafurðir var Matís í lykilhlutverki. Þar var skoðað sérstaklega af hvaða toga slík svik eru helst, hvernig svikin fara fram, hversu mikil þau eru og hvernig má greina þau og koma upp um þau.

Ljóst er að svik með sjávarfang eru stórt vandamál, en rannsóknir hafa leitt í ljós að tegundasvindl með sjávarafurðir er allt að 30%. Það telst einnig til matvælasvika þegar fiskur er seldur undir fölsku flaggi, þar með talið afli frá sjóræningjaveiðum, ef nauðungavinna er stunduð við framleiðsluna og þar sem hreinlætiskröfum/matvælaöryggis er ekki gætt.

Mikið hagsmunamál fyrir Ísland

Matvælasvik í sjávarafurðum er mikið hagsmunamál fyrir íslenska framleiðendur þar sem íslensk framleiðsla á í samkeppni við „svikin matvæli“ og auk þess eru „svikin matvæli“ hugsanlega seld sem íslensk framleiðsla.

Í tengslum við FoodIntegrity verkefnið var framkvæmd könnun víðsvegar um Evrópu þar sem farið var í fjölda veitingahúsa og sýni tekin til tegundagreiningar, með erfðagreiningu. Niðurstöðurnar komu nokkuð á óvart, en íslensku veitingastaðir sem lentu í úrtakinu komu ekki vel út. Niðurstöður þessarar könnunar má sjá hér.

FoodIntegrity verkefninu er nú lokið og mun afrakstur verkefnisins skipta sköpum í að takast á við matvælasvindl í framtíðinni. Margar þjóðir innan ESB hafa tekið málið föstum tökum og hafa komið á fót eftirlitseiningum sem einbeita sér að baraáttunni gegn svikum í matvælageirum. Eitt helsta framlag FoodIntegrity verkefnisins í þeirri baráttu eru gagnagrunnar þar sem hægt er að fá upplýsingar um matvælasvindl og hvaða tól og tæki eru til staðar til að koma upp um slík svik. Auk þess er búið að gefa út sérstaka handbók og smáforrit.

FoodIntegrity verkefnið er gott dæmi um það hvernig alþjóðlegt rannsóknarsamstarf, sem Matís er hluti af, hefur gert Íslendingum kleift að taka þátt í rannsóknum og þróun sem skiptir íslenska hagsmuni og íslenskt samfélag verulegu máli.

Fréttir

Jólakveðja frá Matís

Takk fyrir árið sem er að líða.

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fréttir

Áherslan verði á ný á aukna verðmætasköpun

Íslendingum hefur lánast að fylgja eftir aldargamalli ákvörðun og halda hér uppi frjálsu og fullvalda ríki. Verstöðin Ísland hefur eflst á umliðinni öld, það er þróun sem hófst með vélvæðingu útgerðar í upphafi 20. aldar. Meðal þorskafli var frá 1918 til og með 2017 var rétt rúmlega 238 þúsund tonn á ári. Á sama tíma minnkaði hlutfall þorsks úr ¾ heildarafla Íslendinga í 21%, en heildarafli hefur aukist úr 98 þúsund tonnum í 1176 þúsund tonn vegna sóknar í aðra stofna samhliða auknum afköstum og bættri tækni. Að meðaltali hefur þorskur verið um 26% af lönduðum afla í hinni fullvalda verstöð. Þorskur er enn sem fyrr mikilvægasta tegundin sem við veiðum, um 44% af verðmæti landaðs afla 2017 eru til komin vegna þorskveiða. Við stofnun fullveldisins var hlutur þorsks í heildaraflaverðmæti nærri 78%. Íslenskur sjávarútvegur er fjölbreyttur og hefur þróast með sérhverju skrefi sem stigið hefur verið. Óskandi er að við fáum að læra af sögunni og getum stigið fleiri en færri heillaskref í framtíðinni.

Ný stefna – ný hugsun

Íslendingar ákváðu á þrítugsafmæli fullveldis að láta vísindalega þekkingu vera grundvöll stjórnunar fiskveiða á Íslandsmiðum. Innan við þremur áratugum síðar höfðu Íslendingar óskoruð umráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu umhverfis landið. Um líkt leyti rann smátt og smátt upp fyrir okkur að veiðigeta fiskiskipa okkar var umfram það sem fiskistofnarnir gætu borið og því þurfti að stilla saman veiðigetu skipastólsins og veiðiþol fiskistofnanna. Kröfur á mörkuðum eru að nýting fiskistofna sé með sjálfbærum hætti, að ekki sé gengið nær auðlindunum en þær þola.

Við Íslendingar mörkuðum stefnu, byggða á ríkjandi fiskveiðistjórnkerfi árið 2003 um að auka verðmæti sjávarfangs fremur en að auka magn sjávarfangs. Vaxandi kröfur, sem og vilji til að sýna ábyrgð í umgengni um auðlindir sjávar áttu þátt í ákvarðanatökunni. Við fylgdum henni eftir með aukinni áherslu á hagnýtar rannsóknir og þróunarvinnu með það að markmiði að auka verðmæti. Stórt skref í þeirri vegferð var stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Margvísleg samstarfsverkefni voru unnin til að sækja fram í þágu heildarinnar, þannig að útkoma einstakra verkefna gæti átt þátt í að bæta hag allra landsmanna.

Stöðug gæði skila verðmætari viðskiptum

Með hliðsjón af útflutningsverðmætum þess sem aflaðist á hverju ári má segja að það hafi tekist giska hratt að auka verðmæti sjávarfangs, með rannsóknum styrktum af AVS, eftir að ákvörðunin var tekin. Verðmætin ríflega tvöfölduðust frá 2003 fram til 2011, í erlendum myntum, þó lítið hafi þokast í þá átt á allra síðustu árum. 

Miðað við nálgun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna til að meta verðþróun í alþjóðlegum viðskiptum með sjávarafurðir (FAO Fish Price Index) jókst verðmæti íslensks sjávarfangs hraðar en gerðist og gekk. Verðmætasköpunin hefur áhrif á rekstur og rekstrarniðurstöður fyrirtækja í virðisneti sjávarútvegsins þ.m.t. framlegð sjávarútvegsfyrirtækja.

Hvað svo sem veldur því að þróun verðmætasköpunar í sjávarútvegi hér á landi var ekki með sama hætti á þessum áratug og þeim sem á undan leið þá er brýnt að við tökum upp þráðinn og höldum áfram að þróa sjávarútveg með aukna verðmætasköpun að markmiði. Rétt er að taka fram að framangreindur mælikvarði er ekki eini hreini sannleikurinn sem segir hver sé staða sjávarútvegs á Íslandi, t.a.m. birtist aukin afkastageta hvers hlekks í virðiskeðju sjávarfangs ekki með beinum hætti í mælikvarðanum útflutningsverðmæti hvers aflaðs kílós af sjávarfangi. Aflasamsetning sem og heildarafli hafa sannarlega áhrif á framangreindan mælikvarða sem og það hvernig afli er höndlaður uns sjávarfang er selt úr landi, s.s. hvort siglt er með afla til löndunar í erlendri höfn, fiskur heilfrystur um borð, flakaður, flattur eða bræddur, svo eitthvað sé nefnt.  

Til að stuðla að verðmætasköpun til framtíðar í íslenskum sjávarútvegi þurfa Íslendingar að halda stöðu sinni með því að herða róðurinn, slá hvergi af gæðakröfum, jafnvel leggja meira upp úr vöruvöndun og viðbrögðum við óskum neytenda en gert hefur verið að undanförnu. Stöðug gæði geta gert verðmætari viðskipti möguleg.

Fyrir um ári síðan var hvatt til þess á Sjávarútvegsráðstefnunni að stefna að fimmföldun  þeirra verðmæta sem við vinnum úr sjávarfangi. Því miður hefur umræða um það markmið ekki undið uppá sig á spjallsvæðum nútímans.

Fjárfesting í rannsóknum skilar sér

Árið 1918 vógu útfluttar sjávarafurðir 29 þúsund tonnum sem nam um 29% af lönduðum afla. Til samanburðar fluttu Íslendingar árið 2017 út 609 þúsund tonn af sjávarafurðum sem nam tæpum 52% af lönduðum afla.

Aukin verðmætasköpun getur leitt til velsældar. Reynslan sýnir að fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun skiptir máli fyrir þróun atvinnugreina. Umgjörðin um nýsköpunina verður að vera fær um að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar. Stöðugt og til langs tíma. Það veit á gott að einstök fyrirtæki séu nægjanlega burðug til að greiða góð laun fyrir vel menntað og gott fólk með reynslu en það getur komið niður á heildinni að ekki sé unnið markvisst að því að lyfta gólfinu. Það kann að koma í bakið á okkur Íslendingum ef frumkvöðlar og smærri fyrirtæki hafa ekki aðgang að hæfum, menntuðum og reyndum sérfræðingum.

AVS var lykilsjóður sem skapaði andrúmslofti hvar mikið kapp var lagt í að auka verðmæti sjávarfangs, en sá sjóður virðist vera að fjara út. Fjárheimildir hans stefna í að verða um 40% af því sem var þegar mest var árið 2011 og ríkisframlagið á næsta ári til AVS verður undir helmingi ársins 2011. AVS skipti sköpum fyrir vel flest ef ekki öll þau fyrirtæki sem hvað mest hefur borið á í tengslum við breytta ímynd sjávarútvegsins, rétt eins og þau verkefni sem unnin hafa verið í samstarfi við hefðbundnari sjávarútvegsfyrirtæki.

Styrkir AVS eru um 4% af veltu Matís, styrkir sjóða Vísinda- og Tækniráðs, í umsjón Rannís, eru um 9% af veltu Matís. Aðrar tekjur en þjónustusamningur Matís um matvælarannsóknir við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, eins og rannsóknastyrkir, standa að mestu leiti (72%) undir þeirri nýsköpun sem Matís innir af hendi.

Árið 2015 bókfærði Matís tekjur vegna verkefna í tengslum við evrópskt rannsóknasamstarf að fjárhæð 215 milljónir króna og þá var ríkisframlag til AVS 217 milljónir króna. Síðan þá hefur Matís aflað meira á þessum evrópsku miðum en lagt hefur verið í AVS.

Þráðurinn verði tekinn upp að nýju

Margt hefur áunnist á undangenginni öld en við þurfum að hafa okkur öll við til þess að geta státað okkur af því að starfa í samkeppnishæfri atvinnugrein til framtíðar. Sorgin í sjávarútvegi dagsins í dag er sú að við virðumst hafa horfið frá hinu víðtæka samstarfi og hinum einlæga ásetningi sem tókst um það að auka verðmætasköpun við veiðar, vinnslu og sölu sjávarfangs. Vissulega verða til verðmæti við sölu þekkingar eða búnaðar sem þróaður hefur verið með þekkingu á eðli og inntaki íslensk sjávarútvegs í samstarfi sem oft á tíðum hefur verið stutt af innlendum rannsókna- og þróunarsjóðum.

Ég vonast til að við berum gæfu til að fylgja eftir ákvörðunum sem bera árangur inn í framtíðina, innleiða þær í daglegt atvinnulíf til að stuðla að bættum hag okkar allra, en hætta ekki í miðju kafi.

Grein þessi sem Arnljótur Bjarki Bergsson skrifaði birtist fyrst á blaðsíðum 48 og 49 í 7.-8. tölublaði 111. árgangs Ægis í tilefni af aldarafmæli fullveldisins í lok nóvember.

Fréttir

Niðurstöður erfðagreininga Matís í fréttum

Í kjölfar frétta sem birst hafa í Iceland Review og í Stundinni á undanförnum dögum, má skilja sem svo að Matís hafi staðið fyrir rannsókninni sem til umfjöllunar er.

Í viðkomandi máli kemur Matís einvörðungu að því að erfðagreina sýni fyrir viðskiptavin, en viðskiptavinurinn stóð að öðru leyti sjálfur að rannsókninni. Matís er fyrirtæki sem selur ýmiskonar þjónustu og ráðgjöf á sviði matvælaframleiðslu, erfðafræði, líftækni sjávarútvegs og landbúnaðar, auk þess að stunda margvísleg matvælatengd rannsóknarverkefni. Þeir sem kaupa mælingar eða greiningar af Matís eru eigendur niðurstaðnanna og það er undir þeim komið sem þjónustuna kaupa hvað þeir gera með niðurstöðurnar, hvort svo sem þjónustan er á formi efnamælinga, erfðagreininga eða örverumælinga svo dæmi séu tekin.

Matís sinnir ekki eftirliti, þó eftirlitsaðilar s.s. Matvælastofnun, Hafrannsóknarstofnun eða heilbrigðiseftirlit kaupi þjónustu af Matís.

Innan fyrirtækisins Matís er öflugt vísinda og þekkingarsamfélag sem byggir á sterkum rannsóknainnviðum og samstarfi til þess að hámarka áhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun, þannig getur Matís aðstoðað viðskiptavini sína við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og lýðheilsu.

IS