Fréttir

Ný tækni fyrir Norrænan fiskiskipaflota: veiðarfæri og aflameðferð

Þann 1. og 2. október nk. mun Matís í samstarfi við fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga standa fyrir vinnufundi sem ber titilinn „Ný tækni fyrir Norrænan fiskiskipaflota: veiðarfæri og aflameðferð“. Fundurinn fer fram í höfuðstöðvum Matís í Reykjavík að Vínlandsleið 12. Þátttaka er öllum opin og gjaldfrjáls, en fólk er þó beðið um að skrá sig með því að senda póst á jonas()matis.is.

Vinnufundur um rannsóknir og þróun er snýr að veiðarfærum og aflameðferðar

Markmið fundarins er að greina frá helstu nýungum á sviði rannsókna og þróunar er snúa að veiðarfærum og aflameðferð um borð í fiskiskipum. Fundurinn er styrktur af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum AG-fisk (Working group for fisheries co-operation), en AG hefur það að aðalmarkmiði að stuðla að samstarfi í sjávarútvegi á meðal Norrænna þjóða.

Á fundinum munu nítján sérfræðingar frá níu löndum kynna rannsóknir og helstu nýjungar í veiðarfæraþróun og tækni er snýr að aflameðferð. Fundinum er skipt upp í fjóra hluta og í lok hvers hluta fer fram verkefnavinna og pallborðsumræður. Von þeirra sem að fundinum standa er að hann muni stuðla að auknu samstarfi meðal fagaðila í Norrænum sjávarútvegi.

Allar upplýsingar um fundinn er að finna á www.fishinggearnetwork.net og mun sú síða verða nýtt til að deila upplýsingum um helstu nýjungar er varða veiðarfæri og aflameðferð í kjölfar fundarins.

Allar frekari upplýsingar gefur Jónas R. Viðarsson hjá Matís í síma 422 5107

Fréttir

Fisk í dag!

Matís er að fara af stað með herferð á landsvísu sem kallast Fiskídag og er ætlað að gera neytendur meðvitaðri um mikilvægi fiskneyslu og fisk tengdum afurðum svo sem lýsi og öðru sjávarfangi. Markmiðið með átakinu er að auka fiskneyslu Íslendinga en átakið er styrkt af AVS sjóðnum.

Fjölmargir koma að þessu jákvæða átaki. Nokkrir 5 mínútna innskotsþættir verða á RÚV, þar sem tekið verður á mýtum um sjávarafurðir og einnig útbúum við námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla um meðhöndlun sjávarfangs, næringu og matreiðslu. Stærsti þátturinn er þó í formi auglýsingaherferðar þar sem hamrað er á einstökum eiginleikum hvers kyns sjávarfangs og neytendur hvattir til að hafa fisk í matinn minnst tvisvar í viku og auðvitað að taka lýsi.

Fisk í dag átakið hefst með formlegum hætti núna um helgina og verður opnunarhátíð haldin í Smáralindinni laugardaginn 28. september milli kl. 12:00-16:00.

…og þegar krakkarnir spyrja: “hvað er í matinn?”, er svarið auðvitað: “við ætlum að hafa Fiskídag”!

Fréttir

Hefur þú smakkað mysudrykinn?

Vísindavaka Rannís fer fram í Háskólabíói föstudaginn 27. september nk. Úrval spennandi rannsóknaverkefna verða kynnt á Vísindavökunni í ár eins og undanfarin ár.

Boðið verður upp á að smakka mysudrykkurinn Íslandus en mysuklakinn Íslandus, sem drykkurinn byggir á, var valinn vistvænasta og vænlegasta nýsköpunarhugmynd Íslands á matvælasviði í nemendakeppni sem haldin var fyrir skömmu. Mysuklakinn er með beina vísun til lífshlaups Sölva Helgasonar og er Íslandus 100% náttúrulegur og lífrænn.

Þær Elín Agla Briem og Sigríður Anna Ásgeirsdóttir, nemendur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands eru höfundar Íslandus. Höfundarnir lögðu áherslu á bætta nýtingu afurða, hugmyndaríka notkun á staðbundnu hráefni og vistvæna framleiðsluhætti við sköpun klakans. Kjartan Þór Trauner, nemandi við Listaháskóla Íslands sá um vöruhönnunina.

Íslandus var framlag Íslands í Evrópukeppninni EcoTrophelia 2012 þar sem vistvænar hugmyndir frá ýmsum löndum í Evrópu kepptu sín á milli.

Nánari upplýsingar um Vísindavökuna og Vísindakaffi, sem munu fara fram alla vikuna, má finna á vef Rannís, http://www.rannis.is/visindavaka/visindavaka/

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Nýtt myndband um starfsemi Matís á Akureyri

Á Akureyri stundar Matís rannsóknir, þróun og nýsköpun í samstarfi við Háskólann á Akureyri og aðrar stofnanir og fyrirtæki á Norðurlandi jafnt sem annars staðar á landinu.

Starfsemi Matís er til húsa í Rannsóknahúsinu að Borgum og hefur þar verið byggð upp aðstaða rannsókna á sviði sameindafræði en einnig fara þar fram rannsóknir m.a. á sviði örverufræði, efnarannsókna, ensímrannsókna, ónæmisvefjafræði og myndgreiningar matvæla.

Við uppbyggingu Matís á Akureyri hefur áhersla verið lögð á aðkomu nemenda í rannsóknatengdu meistaranámi í víðtæku samstarfi við innlenda jafnt og erlenda háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Að flestum verkefnum sem unnin eru hjá Matís á Akureyri koma ennfremur nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi til BSc prófs í líftækni eða sjávarútvegsfræðum.

Á starfsstöð Matís á Akureyri starfa 2 sérfræðingar auk rannsóknamanns og nemenda í rannsóknatengdu framhaldsnámi við verkefni sem unnin eru á vegum Matís.

Stöðvarstjóri Matís á Akureyri er Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri hjá Matís og dósent við Háskólann á Akureyri.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Starfsstöð Matís á Akureyri

Fréttir

Matís með enn eitt námskeiðið í Afríku

Um miðjan ágúst hélt Matís sex daga námskeið í Kenía um framleiðslu og gæði fisks og fiskafurða.  Námskeiðið var í skóla ríkisstarfsmanna í Kwale sýslu rétt sunnan við borgina Mombasa, sem stendur við Indlandshaf.

Þrjátíu verðandi þjálfara sóttu námskeiðið sem fjármagnað var af Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðabankanum.  Þátttakendur voru almennt ánægðir með námskeiðið og sér í lagi með verklega æfingu þar sem „Sigurjóns kofinn“ var notaður til að reykja fisk.  Þvílíka gæðaafurð höfðu þátttakendur aldrei smakkað fyrr og má segja að tekið hafi verið hraustlega til matarins.

Matís hefur á undanförnum árum verið með námskeið í löndum sem liggja að Viktoríu vatni og því verið lögð áhersla ferskvatnsfiska.  Námskeiðið í Kwale sýslu í Kenía er því fyrsta námskeið í austanverðri Afríku það fjallað er sérstaklega um sjávarfiska.  Gert er ráð fyrir að áframhald verði á því í náinni framtíð.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson hjá Matís.

Fréttir

Niðurstöður úr forrannsóknum á stofnerfðafræði makríls á Íslandsmiðum – ekki eingöngu evrópskur?

Fyrstu niðurstöður rannsókna á stofnerfðafræði makríls á Íslandsmiðum sýna að ekki sé hægt að útiloka að lítill hluti hans sé af öðrum uppruna en evrópskum. Á næstu mánuðum munu niðurstöður úr öflugri erfðafræðilegri greiningu skera úr um hvort og þá í hvaða hlutfalli makríllinn hér við land komi vestan að.

Fyrir stuttu tók Kjartan Stefánsson hjá Fiskifréttum áhugavert viðtal við Önnu Kristínu Daníelsdóttur, sviðsstjóra Öryggis, umhverfis og erfða hjá Matís. Viðtalið er hér í heild sinni en það hafði áður birst í Fiskifréttum.

Vísindamenn Hafrannsóknastofnunar, Matís og Háskóla Íslands ásamt norskum, færeyskum, grænlenskum og kanadískum vísindamönnum hófu rannsóknir á makríl í Norður Atlantshafi fyrir tveimur árum í samvinnu við nokkur fyrirtæki. Meðal þeirra eru Huginn ehf, Síldarvinnslan hf, Vinnslustöðin hf. og Framherji aps. Styrkur frá Verkefnasjóði sjávarútvegsins ýtti verkefninu úr vör árið 2011 og í kjölfarið fylgdu færeyski rannsóknasjóðurinn (Faroese Research Council) og norræni NORA sjóðurinn með fjármögnun. Einnig hefur Rannís veitt verkefninu styrk. Verkefnið heitir: „Stofnerfðafræði makríls í Norður-Atlantshafi – er stofninn eingöngu evrópskur?“

Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri hjá Matís ohf., er verkefnisstjóri í þeim hluta rannsóknanna sem styrktar eru af Verkefnasjóði sjávarútvegsins en Christophe Pampoulie, sérfræðingur í erfðafræði hjá Hafrannsóknastofnun, er verkefnisstjóri í NORA verkefninu.

Endanlegar niðurstöður úr verkefninu liggja ekki fyrir en niðurstöður úr forrannsóknum hafa verið kynntar fyrir þátttakendum. Þrátt fyrir að makríllinn sem gengur inn í íslensku lögsöguna sé að langstærstum hluta evrópskur eru vísbendingar um að hann sé að einhverju leyti af kanadískum uppruna, að því er Anna Kristín Daníelsdóttir sagði í samtali við Fiskifréttir. Hún tók þó fram að hæfni aðferðarinnar sem þessar niðurstöður byggja á til að greina milli stofna í vestur og austur Atlantshafi væri of veik til að gefa afdráttarlausar fullyrðingar um að kanadískan makríl sé að finna á íslensku hafsvæði og þá í hvaða hlutfalli.

Fjöldi sýna

Alls voru 1414 sýni erfðagreind innan þessa verkefnis. Viðmiðunargagnagrunnur samanstóð af sýnum af hrygningarslóð frá Frakklandi, Írlandi og Kanada og var stofngerð þessara sýna könnuð. Í heild var 471 sýni safnað á Íslandsmiðum árin 2010 og 2011 og þau erfðagreind með 15 völdum erfðamörkum sem hönnuð voru í verkefninu. Íslensku sýnin endurspegla dreifingu makríls hringinn í kringum landið.  Með því að nýta raðgreiningartækni frá Roche (454 flx) voru 30 ný svokölluð „microsatellite“ erfðamörk hönnuð. Búið er að birta ritrýnda vísindagrein þar sem aðferðafræði og einkennum þessara 30 erfðamarka er lýst.

Þrjár niðurstöður

Þessi rannsókn leiddi af sér þrjár megin niðurstöður: 1) Ekki fannst marktækur erfðafræðilegur munur á milli sýnanna tveggja frá Evrópu þegar þau voru rannsökuð með hlutlausum „microsatellite“ erfðamörkum. 2) Marktækur erfðafræðilegur munur fannst á milli sýna frá Evrópu og Kanada. Þrátt fyrir að genaflæði sé takmarkað yfir Atlantshafið þá er erfðafræðilegur munurinn minni (1,6%) en búist var við ef niðurstöðurnar eru bornar saman við aðrar uppsjávartegundir eins og síld. 3) Stærsti hluti makríls sem veiðist í íslenskri fiskveiðilandhelgi er af evrópskum uppruna eins og áður segir en þó er mögulega lítill hluti af kanadískum uppruna. Makríll sem flokkast til kanadísks uppruna virðist finnast á öllu hafsvæðinu kringum Ísland sem vekur upp ýmsar spurningar sem einnig verður leitað svara við.
Það skal áréttað að tölfræðilegur grunnur þessarar rannsóknar er veikur og frekari rannsóknir eru í gangi. Næstu skref í rannsóknunum snúa að því að finna næmari erfðamörk sem greina betur á milli stofneininga og beita þannig nýjustu erfðagreiningartækni í að þróa aðgreinandi erfðamörk undir vali (t.d. SNP erfðamörk).

Greinilegur munur milli makríls við Kanada og í Evrópu

Fram kom hjá Önnu að marktækur erfðafræðilegur munur væri á evrópska makrílnum vestur af Írlandi og í Biscayflóa annarsvegar og makríl við Kanada hins vegar. Þó væri þessi erfðafræðilegur munur minni en á síldarstofnum sem halda sig á samsvarandi hafsvæðum. Það skýrist væntanlega af fari og hegðun makrílsins en útbreiðslusvæði makrílsins er mjög víðfeðmt.

Staðan á verkefninu

Anna var í lokin spurð hver staðan væri á verkefninu. „Nú er unnið að frekari sýnaöflun, tölfræðigreiningu og verið að kanna sýni betur með nýjum erfðamörkum (SNPs). Með því verður hægt að fá gleggri og áreiðanlegri upplýsingar um erfðafræði makríls í íslensku lögsögunni. Fyrstu vísbendingar þar um eru væntanlegar í haust.

NORA samstarfsverkefnið er nú á öðru ári af þremur. Eftir ár teljum við að unnt verði að svara með meiri vissu hvort og þá hve hátt hlutfall makríls hér við land kemur að vestan. Það tekur tvö til þrjú ár að þróa aðferðarfræði, safna sýnum og koma á samstarfi. Við erum líka að horfa á þetta verkefni sem grunn að frekari rannsóknum og að niðurstöðurnar megi nýta í stofnmati, fiskveiðistjórnun og við veiðar í framtíðinni,“ sagði Anna Kristín Daníelsdóttir.

Nánari upplýsingar veitir Anna Kristín Daníelsdóttir.

Fréttir

Verðmætasköpun og nýsköpun lykilinn að því að skapa fleiri og betri störf

Sveinn Margeirsson, ásamt fleiri starfsmönnum Matís, var fyrir stuttu í viðtali í blaði Samtaka Iðnaðarins, Fleiri störf – betri störf. í blaðinu tekur Sveinn m.a. fram að tækifærin á Íslandi felast í að hagnýta hreina náttúru til að búa til heilnæm matvæli með jákvæða eiginleika.

Í viðtalinu kom Sveinn sér beint að kjarna málsins þegar SA spyrja hvað þurfi til að skapa fleiri og betri
störf? „Verðmætasköpun er lykillinn að því. Markmið Matís er að auka verðmæti þess sem landið og miðin gefa af sér og beita til þess þekkingu.”

Sókn í sjávarútvegi

Matís á mikið samstarf við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. „Við erum inni á gólfi hjá þeim og um borð í skipunum. Fyrirtækin skynja að við búum yfir þekkingu sem þau geta nýtt og vilja nýta”, segir Sigurjón
Arason, yfirverkfræðingur. „Það er t.d. hægt að nýta slóg sem til skamms tíma hefur verið hent í sjóinn. Ef það kemur nógu ferskt í land má draga úr því lífefni sem nýta má í lyfjagerð, fitusýrur og áburð.“

Viðtölin má finna hér.

Fréttir

Innlent korn – Ný tækifæri fyrir kornbændur og fyrirtæki

Það er vel þekkt að miklar framfarir hafa orðið í kornrækt á Íslandi vegna framtaks bænda og framfara í ræktuninni. Ræktunartilraunir og kornkynbætur Landbúnaðarháskóla Íslands og forvera hans skipta hér miklu máli. Íslenskt korn er orðið mikilvægt í fóðrun og það hefur einnig í vaxandi mæli verið nýtt til manneldis.

Bændur fá hærra verð fyrir matkorn en fóðurkorn og það er því ein leið til að auka tekjur bænda að hafa aðgang að sem fjölbreytilegustum mörkuðum fyrir kornið. Aukin vinnsla á korni í dreifðum byggðum getur aukið atvinnu og ber sérstaklega að nefna ferðamannaiðnaðinn. Markaður með matvörur fyrir ferðamenn fer vaxandi og það geta bændur nýtt sér.

Ísland er á norðurmörkum kornræktarbeltisins og því er eðlilegt að spurt sé hvort íslenskt bygg sé nægjanlega þroskað fyrir hagnýtingu í matvælaiðnaði. Margvíslegar prófanir hafa verið gerðar á framleiðslu matvæla úr íslensku byggi og hafa þær gefið jákvæðar niðurstöður. Efna-mælingar á íslenska bygginu hafa einnig sýnt að samsetning þess er eðlileg og sterkjuhlutfall allhátt.

Áhugi á innlendum vörum óx greinilega í kjölfar banka-kreppunnar. Verulegur áhugi kom fram á matvörum úr íslensku byggi. Landssamband bakarameistara beitti sér fyrir notkun á byggi til brauðgerðar og talsverður fjöldi bakaría bauð upp á brauð úr byggi. Kornax beitti sér fyrir samkeppni um byggbrauð og átti það þátt í áhuganum. Stærsta bakarí landsins, Myllan, markaðssetti nýtt brauð úr byggi frá Eyrarbúinu og gengur það undir heitinu Eyrarbrauð. Notkun á innlendu korni í bökunariðnaði hefur nú nokkuð dregist saman og því er ástæða til að hvetja til þróunar á matvörum úr innlenda korninu.

Ný verkefni

Nú er að hefjast vinna við tvö norræn verkefni um korn og er þeim ætlað að auka verðmæti kornframleiðslunnar og efla atvinnulíf í dreifbýli á norðurslóðum. Einkum er hugað að aukinni svæðisbundinni framleiðslu korns til matvælaframleiðslu. Matís mun stýra þessum verkefnum en mikið samstarf verður við Landbúnaðarháskóla Íslands. Kornkynbætur Landbúnaðarháskólans skiptu miklu máli fyrir öflun samstarfsaðila í öðrum löndum. Auk Landbúnaðar-háskólans munu taka þátt í verkefninu aðilar frá Norður-Noregi og Færeyjum. Samstarfið hefur verið víkkað út fyrir Norðurlöndin og munu aðilar í Orkneyjum og á Nýfundnalandi taka þátt.

Fyrra verkefnið er styrkt af Norræna Atlantshafssamstarfinu (NORA). Í verkefninu verður farið ofan í saumana á framleiðslu-aðstæðum fyrir korn í hverju landi, yrki verða prófuð, leiðbeiningar teknar saman og gæðamál krufin. Síðara verkefnið er forverkefni sem miðar að því að undirbúa stórt verkefni um framleiðslu matvara úr korni.

Í verkefnunum mun bygg njóta forgangs en einnig verður unnið með hveiti, hafra og rúg eftir því sem á við í hverju landi. Ætlast er til þess að verkefnin opni nýja möguleika sem tengjast korni og úrvinnsla þess aukist hjá kornbændum og fyrirtækjum. Innlent korn á að koma í stað innflutts korns á sem flestum sviðum og þannig eru staðbundnir framleiðslukostir nýttir í þágu dreifbýlisins. Innlent korn á að ná fótfestu á vannýttum mörkuðum og nýjum mörkuðum. Bökunariðnaðurinn er vannýttur markaður enda er flutt inn mikið af korni fyrir þann iðnað.

Talið er að kornrækt megi auka umtalsvert á Íslandi. Í Orkneyjum er er kornrækt einnig stunduð með allgóðum árangri þótt í smáum stíl sé. Í Færeyjum hefur kornrækt legið niðri í 50 ár þótt Færeyjar liggi um 300 km sunnar en kornræktarsvæði syðst á Íslandi. Í Norður-Noregi stendur til að rækta korn á svæðum sem eru miklu norðar en Ísland. Það er því ljóst að skilyrði til kornræktar eru mjög ólík hjá samstarfsaðilum í verkefninu. Einn megintilgangur verkefnanna er að auka samstarf milli landanna og miðla þekkingu og reynslu milli aðila.  

Hvers konar nýting?

Bygg er fjölhæf korntegund og hentar sem hráefni í margs konar matvæli. Einkum má nefna margs konar bökunarvörur eins og brauð, flatkökur, kex, hrökkbrauð og kökur. Bygg eins og annað korn getur hentað í morgunkorn. Loks er maltað bygg eitt mikilvægasta hráefnið í áfenga drykki. Bygg hefur þó á seinni árum verið notað ómaltað í bjór en þá er byggt á ensímtækni. Litlar bjórgerðir á Íslandi hafa ekki enn nýtt innlenda byggið sem skyldi.

Mikil tækifæri eru innan bökunariðnaðarins til að nýta bygg. Bygg myndar þó veikari glútennetju en hveiti í hefuðum bökunarvörum og því þarf að blanda saman byggi og hveiti í slíkum vörum. Hins vegar hefur bygg vissa hollustueiginleika umfram hveiti og er það mikilvægt til að vinna bygginu stærri sess. Þessir hollustueiginleikar byggsins eru einkum mikið magn trefjaefna og beta-glúkanar sem lækka blóðkólesteról og draga úr blóðsykursveiflum. Þetta hefur nú fengið opinbera viðurkenningu með því að heilsufullyrðingar um bygg eru leyfðar á umbúðum matvæla samkvæmt nýrri reglugerð. Þetta skiptir matvælaiðnaðinn miklu máli og getur orðið drifkrafturinn á bak við stóraukna notkun byggs í matvælaframleiðslu.

Tækifæri í dreifbýli

Ferðamannastraumur til Íslands hefur farið mjög vaxandi á síðustu árum. Talið er að ferðamönnum haldi áfram að fjölga og nauðsynlegt verði að beina þeim til sem flestra landshluta. Ferðamenn sem telja hundruð þúsunda þurfa mikinn mat og margir þeirra hafa áhuga á að prófa mat úr héraði. Hér er því upplagt tækifæri fyrir aðila í dreifðum byggðum að auka matvælaframleiðslu. Nefna má smáframleiðslu í sveitum og lítil matvælafyrirtæki geta útvíkkað starfsemi sína.

Hafið samband

Verkefnin sem voru nefnd að framan byggja á nánu samstarfi við kornbændur og fyrirtæki og aðila sem vilja framleiða matvörur úr innlendu korni. Á fyrstu stigum er einkum um að ræða upplýsingasöfnun og í kjölfarið miðlun hagnýtra upplýsinga um nýtingu korns. Í kjölfarið er vonast til að margvísleg framleiðsla verði að veruleika. Ætla má að helstu þróunarsvæðin verði Suðurland (undir Eyjafjöllum og uppsveitir), Fljótsdalshérað, Vesturland, Skagafjörður og Eyjafjörður. Óskað er eftir að kornbændur og fyrirtæki sem hafa áhuga á framleiðslu matvæla úr innlendu korni og samstarfi í verkefnum hafi samband við Ólaf Reykdal hjá Matís. Aðilar þurfa ekki að vera innan svæðanna sem nefnd voru að framan.   

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal.

Fréttir

Matarsmiðja Matís á Flúðum; fyrir fólk með gómsætar hugmyndir

Í matarsmiðjunni á Flúðum er frábær aðstaða fyrir alla þá sem hafa áhuga á að framleiða hverskonar matvörur. Hún er vel tækjum búin og býður upp á allar helstu vinnsluaðferðir. Í tengslum við Matís er gott aðgengi að sérfræðingum sem geta leiðbeint einstaklingum í framleiðslu sinni. Ingunn Jónsdóttir, stöðvastjóri á Flúðum, svaraði nokkrum spurningum um matarsmiðjuna.

Fyrir hverja er Matarsmiðjan?

„Matarsmiðjan er ætluð öllum þeim sem vilja koma og taka góða hugmynd á næsta stig. Hún er kjörið tækifæri fyrir frumkvöðla sem eru alltaf að fá hugmyndir en vantar aðstoð og aðstæður til að koma þeim af stað, en það getur gert útaf við góða hugmynd ef frumkvöðullinn þarf að byrja á því að koma sér upp rándýru framleiðslueldhúsi.“

Hverjir hafa helst verið að nýta sér matarsmiðjuna?

„Einstaklingar, lítil fyrirtæki og smáframleiðendur. Að koma með vöruna í matarsmiðjuna er byrjunin. Hingað hafa líka komið einstaklingar sem eru með ferðaþjónustu og vilja selja t.d. heimagerðar sultur. Þá koma þau og leigja aðstöðuna í kannski fjóra daga en bæta við þrettánda mánuðinum í tekjum.“

„Við styðjum smáframleiðendur og frumkvöðla og hjálpum þeim að gera söluvæna vöru. Við getum boðið upp á ýmiskonar aðstoð en hjá Matís er fullt hús sérfræðinga og fullkominn tækjabúnaður til rannsókna. Við getum einnig boðið upp á skynmat, þar sem varan er smökkuð og eiginleikar hennar metnir af sérstökum skynmatshóp. Slíkt getur gefið frumkvöðlinum hugmynd um það hvort hann sé með söluvæna vöru í höndunum eða hvort það þurfi að gera einhverjar úrbætur.“

Hafa vörur framleiddar á Flúðum skilað sér í verslanir?

„Já, síðan um áramótin hafa t.d. tvær vörur skilað sér á markað. Annarsvegar drykkurinn B.OKAY og kjötsoð sem selt er veitingahúsum og framleiðslueldhúsum. Aðrar vörur sem hafa verið þróaðar og markaðssettar eru t.d. sultur, samlokur, pestó, lúpínuseyði, brjóstsykur, forunnið grænmeti og þurrkað grænmeti svo eitthvað sé nefnt.“

En hvers vegna rekur Matís Matarsmiðju?

„Matarsmiðjan á Flúðum er rekin í samstarfi við sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu og stuðlar að atvinnusköpun heima í héraði á sama tíma og hún stuðlar að fæðuöryggi á Íslandi. Eitt af markmiðum Matís er að efla lýðheilsu og það gerum við meðal annars í gegnum Matarsmiðjurnar þar sem áhersla er lögð á að framleiða vandaðar vörur. Annað markmið Matís er að bæta matvælaöryggi og það gerum við með því að bjóða fólki að vinna vörurnar hér hjá okkur. Þetta leiðir svo allt til aukinnar verðmætasköpunar sem er jafnframt eitt af markmiðum Matís. Matarsmiðjan sjálf er rekin án gróða og sú litla leiga sem greiða þarf fyrir aðgang að henni fer í raun bara í að halda rekstrarkostnaðinum niðri.“

„Við viljum hvetja alla sem eru með hugmynd að koma og prófa þær áfram. Sá hinn sami þarf ekki að vera hrávöruframleiðandi. Það er nóg að vera með hugmynd sem vilji er fyrir að vinna áfram.“

Nánari upplýsingar veitir:

Ingunn Jónsdóttir og einnig má finna upplýsingar á vefsíðum Matarsmiðjunnar á Flúðum:

Fréttir

Hvað er matarsmiðja?

Matarsmiðju má skilgreina sem húsnæði, sem ætlað er fyrir matvælavinnslu af einhverju tagi og hefur tilskilin leyfi frá eftirlitsaðilum sveitarfélaga um að í húsnæðinu megi framleiða matvæli. Til þess að það leyfi fáist þarf að tryggja að mengun angri ekki nágranna, fráveitur séu í lagi, neysluvatn  sé öruggt og frágangur úrgangs sé samkvæmt skilyrðum, svo fátt eitt sé nefnt. 

Framleiðslunni í matarsmiðjum má skipta í tvo hluta, blautvinnslu og þurrvinnslu. Fisk-, kjöt- og grænmetisvinnsla falla undir blautvinnslu en t.d. mölun korns, bakstur og pökkun undir þurrvinnslu. Í kjöt- og fiskvinnslu er krafa um að hitastig hráefnis, meðan á vinnslu stendur, fari ekki yfir ákveðin mörk. Til þess að það sé framkvæmanlegt á viðráðanlegan hátt, þarf að halda vinnslurýminu kældu. Móttaka hráefnis til vinnslunnar þarf að vera með viðunandi hætti, kælivörur fara í kæli, frosnar í frysti og þurrar á þurrefnislager. Ef hitun, suða eða bakstur er hluti ferilsins við framleiðslu vörunnar þarf líka að vera hægt að kæla vöruna á viðeigandi hátt. Geymsla á fullunninni vöru getur verið með ýmsum hætti, allt eftir eðli hverrar vörur fyrir sig. Viðkvæmastar eru þær vörur, sem að framleiðslu lokinni, eru tilbúnar til neyslu, án undangenginnar hitunar. Varast þarf smit einnar vöru yfir í aðra og að geymsluhitastig sé í samræmi við kröfur.

Hreinlæti í matarsmiðjunum er mjög mikilvægt og því þarf að gera þrifaáætlun fyrir húsnæðið og öll tæki auk þess þarf að skrá hvaða hreinsiefni eru notuð og hvernig. Hvort sem umræðir blaut- eða þurrvinnslu þarf að vera hægt að þrífa gólf, veggi, tæki og þann húsbúnað sem í vinnslurýminu er.

Notkun og tilgangur hvers rýmis þarf að vera skýr og því þurfa teikningar af húsnæðinu að vera til staðar, þar sem fram kemur notkun rýmisins s.s. „vinnslusalur“, „umbúðageymsla“, „móttaka“ o.s.frv. Einnig þarf að vera ljóst hvar og hvernig hreinlætisaðstöðu er háttað og hvort vaskur sé ætlaður til handþvotts eða t.d. hreinsunar á matvælum.

Meindýravarnir þurfa einnig að vera til staðar til að tryggja öryggi matvæla. Til dæmis skulu vera flugnabanar við opnanleg gluggafög og útidyr sem og gildrur fyrir nagdýr bæði innandyra og utan. Eftirlit með meindýravörnum er framkvæmt af viðurkenndum aðilum og það skráð. Eftirlit með tækjum, búnaði og húsnæði skal vera til staðar þar sem almennt viðhald er skráð og svo viðgerðir eða endurbætur.

Það sem talið hefur verið upp hér að framan eru dæmi um þau almennu skilyrði sem sett eru fyrir hverskyns matvælaframleiðslu, ef ætlunin er síðan að dreifa vörunni til neytenda. Auk þess þarf framleiðandinn að afla sér framleiðsluleyfis. Fyrir matarsmiðjur er það Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna, HES, sem veitir slíkt leyfi, óháð því hvert hráefnið er.

Skilyrði sem sett eru til framleiðslu fer eftir eðli hverar vöru fyrir sig, hvert hráefnið er, framleiðsluaðferð og á hvaða framleiðslustigi vörunni er dreift til neytenda. Kröfur eru í samræmi við þá áhættu sem hugsanlega getur orðið við neyslu vörunnar, sé ekki farið eftir viðurkenndum framleiðslulýsingum í einu og öllu.

Þegar sótt er um leyfi til HES þarf að útbúa gæðahandbók fyrir framleiðsluna, þar sem með skýrum hætti kemur fram hver sé ábyrgur fyrir framleiðslunni, hvers eðlis hún sé, hráefni sem notuð eru, framleiðsluferlar, flæðirit, áhættugreining og viðbrögð við frávikum. Eftirlitsskýrslur um hráefni, umbúðir, framleiðslu og sölu þar sem nafn, sími og heimilisfang móttakanda kemur fram, ef um sölu til annarra seljanda er að ræða, til að hægt sé með skjótum hætti innkalla vöruna sé þess þörf. Til staðar þarf að vera þrifaskýrsla, með með undirritun viðkomandi starfsmanns til staðfestingu á þrifum húsnæðis og tækja. Það þurfa að vera til sönnun á heilnæmi vatns, hreinlætisprófanir á snertiflötum matvæla og örverumælingar á vörum unnið af viðurkenndum aðila sem staðfestir ákvörðun um geymsluþol matvælanna. Næringarinnihald matvæla þarf að vera til staðar, annaðhvort útreiknaðar eða mældar niðurstöður. Umbúðamerkingar með öllum nauðsynlegum upplýsingum s.s. nafn vöru, innihaldi, þyngd, óþolsefni, næringarinnihald, salt innihald, framleiðandi, geymsluhitastig, framleiðsludag og upplýsingar um geymsluþol.

HES gefur út starfsleyfi fyrir hvern framleiðanda fyrir sig í matarsmiðjum, að uppfylltum þeim skilyrðum sem til framleiðslunnar eru gerðar. Kostnaður vegna starfsleyfis getur verið mismunandi á milli HES en sem dæmi þá er kostnaður við starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur kr. 23.750 (leyfisgjald) og kr. 47.500 (eftirlitsgjald), samtals kr. 71.250 án vsk. fyrsta árið. Síðan er eftirlitsgjald eftir hverja heimsókn fyrir sig. Löggjöf í dag heimilar ekki að starfsleyfi sé skipt upp á milli þeirra sem matarsmiðjuna reka og svo framleiðendanna sem nær alltaf eru frumkvöðlar og smáframleiðendur ef ekki, örframleiðendur.

Þar sem hagnaður frumkvöðla og smáframleiðenda af framleiðslunni stendur varla eða ekki undir leyfisgjöldum er brýnt að breyta reglum á þann hátt að viðunandi sé. Vel má hugsa sér að eigendur matarsmiðjunnar fái vottun á þá þætti sem eru sameiginlegir öllum framleiðendum án tillits til framleiðsluvaranna. Þar má nefna leyfi byggingarfulltrúa um húsnæðið og heilbrigðiseftirlits með neysluvatni, frárennsli mengun, úrgangi og umhverfi. Einnig má hugsa sér að matarsmiðjan fá staðfestingu heilbrigðiseftirlits á að tilteknir vinnsluferlar séu mögulegir í húsnæðinu s.s. vinnsla í kældu rými, möguleiki til reykingar matvæla osfrv. Framleiðendur fái þá leyfi til sinnar framleiðslu í slíku vottuðu húsnæði þegar þeir, að mati matvælamenntaðs starfsmanns matarsmiðjunnar, eru hæfir í matvælaframleiðslu og kunni til verka og með framvísun gæðahandbókar og niðurstöðum gæðamælinga á hollustu sinna matvæla geti staðfest að þeirra matvæli séu örugg. Með þessu móti væri hægt að lækka verulega þann kostnað sem framleiðendur þurfa að bera.

Í matarsmiðjum Matís eru nú þegar starfandi frumkvöðlar og smáframleiðendur sem fengið hafa starfsleyfi útgefnu af heilbrigðiseftirliti fyrir sína framleiðslu. Þar starfa þeir undir handleiðslu starfsmanna Matís sem hafa farið í gegnum alla þætti framleiðslunnar með viðkomandi og veitt leyfi til vinnslu í matarsmiðjunni. Matís veitir ráðgjöf um alla þætti matvælavinnslu, veitir upplýsingar um næringarútreikninga, aðstoðar við ákvörðun geymsluþols, hönnun umbúða, markaðssetningu og jafnvel öflun styrkja.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson.

IS