Fréttir

Íslensk sæbjúgnasúpa slær í gegn í Köln

Berglind Ósk Alfreðsdóttir, Helga Franklínsdóttir nemendur við Háskóla Íslands og Sigríður Hulda Sigurðardóttir nemandi við Listaháskóla Íslands hlutu sérstök verðlaun dómnefndar í Ecotrophelia, sem er keppni í vistvænni nýsköpun matvæla.

25 dómurum frá 18 þátttökulöndum og 7 frá stórfyrirtækjum og Evrópusambandinu fannst mikið til sæbjúgnasúpunnar koma og veittu íslensku þátttakendunum sérstök verðlaun fyrir að vera með áhugaverðustu nýju hugmyndina. Einn dómari var frá Íslandi en það var Ragnheiður Héðinsdóttir frá Samtökum iðnaðarins.

Óhætt er að segja að árangur Íslendinganna sé frábær þegar haft er í huga að um 120 lið tóku þátt í landskeppnum og 18 lið komust áfram í sjálfa aðal keppnina sem var haldin í Köln í Þýskalandi.

Þess má geta að í kínverskri matargerð séu sæbjúgu mest notuð í súpur en það geti tekið nokkra daga að elda hana þar sem undirbúningurinn er flókinn og tímafrekur. Því var hugmyndin að gera vöru sem myndi henta kínverskum markaði en yrði aðgengileg fyrir neytandann, fljótleg í eldun og myndi henta vel fyrir langa flutninga. Niðurstaðan var því bollasúpa með frostþurrkuðum sæbjúgum sem einungis þyrfti að hella soðnu vatni yfir og þá yrði hún tilbúin til neyslu en súpan ber nafnið Hai Shen.

Samstarf Ecotrofood verkefnis Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Matís og Háskóla Íslands gerir það að verkum að íslenskir nemendur taka þátt í Ecotrophelia nú annað árið í röð. Þá má nefna að Samtök iðnaðarins, Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og Nýsköpunarmiðstöð gáfu verðlaun í íslensku landskeppninni og að Vöruþróunarsetur sjávarafurða á Matís hefur stutt verkefnið fyrir keppnina í Köln.

Guðjón Þorkelsson, sviðsstjóri hjá Matís og dósent við Háskóla Íslands, hefur leiðbeint nemendunum og verið þeim til stuðnings ásamt mörgum starfmönnum Matís.  Auk þess hafa aðstandendur nemenda stutt dyggilega við bakið á þeim.

Nánari upplýsingar veitir Guðjón Þorkelsson hjá Matís, Helga Franklínsdóttir (690-5255) og Berglind Ósk Alfreðsdóttir (865-1125).

Fréttir

Engar deilur á Norðurlöndunum um þennan makríl

Nú er ný afstaðin Norðurlandakeppni í smáframleiðslu matvæla sem haldin var í Östersund í Svíþjóð. Til keppninnar bárust um 600 vörur í ýmsum flokkum.

Af þeim 40 verðlaunum sem veitt voru, unnu íslenskir framleiðendur þrenn verðlaun. Bronsið hlaut Klaus Kretzer frá Skaftafelli fyrir Jöklabita sem er ölpylsa unnin úr kindakjöti. Einnig fékk Klaus silfur verðlaun fyrir Hnjúk sem er þurrverkaður og reyktur kinda hryggvöðvi.

Besta varan í flokki heitreykts fisks, sem hlaut þar með gullverðlaunin, var heitreykur makríll frá Sólskeri á Hornafirði. Allar þessar vörur hafa verið þróaðar í Matarsmiðjum Matís sem sýnir enn og aftur mikilvægi þess að frumkvöðlum og smáframleiðendum í matarhandverki sé gert kleift að taka sín fyrstu skref á sem hagkvæmastan og öruggastan hátt sem síðar, ef vel gengur, getur leitt til fleiri atvinnutækifæra og fjölbreyttara vöruúrvals.

Nánar er fjallað um keppnina á heimasíðu Ny Nordisk Mat og heimasíðu Eldrimner.

Heimasíða Klaus Kretzer.

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir,  gunna@matis.is (858-5049) og Óli Þór Hilmarsson olithor@matis.is (858-5099).

Fréttir

Matvæladagur MNÍ 2013

Dagurinn verður að þessu sinni helgaður umfjöllun um ráðleggingar um mataræði og næringarefni og hvernig þær nýtast í daglegu lífi.

Titill ráðstefnunnar verður:

Ráðleggingar um mataræði og næringarefni – nýjar áherslur

Meginmarkmiðið með ráðstefnunni er að skýra hvað býr að baki ráðleggingum um mataræði og næringarefni, hvernig þær verða til og hvernig þær nýtast í forvörnum og við vöruþróun í matvælaiðnaði. Norræna skráargatið og notkunarmöguleikar þess verða kynntir en til stendur að taka það upp hér á landi.

Á þessu ári verða teknar upp nýjar norrænar ráðleggingar um næringarefni sem verða kynntar á ráðstefnunni. Endurskoðun hefur staðið yfir í fjögur ár með aðkomu fjölda íslenskra sérfræðinga og fræðimanna, sem flestir eru akademískir starfsmenn Háskóla Íslands og virkir í rannsóknum á sviði næringarfræði. Íslenskar ráðleggingar um mataræði og næringarefni byggja að stórum hluta á þeim norrænu og verða þær endurskoðaðar í kjölfarið.

Matvæladagurinn er haldinn á alþjóðlegum fæðudegi FAO sem  er haldinn 16. október ár hvert. Í tilefni af Matvæladeginum gefur Matvæla- og næringarfræðafélagið út veglegt fréttabréf Matur er mannsins megin þar sem fjallað er um alþjóðlega fæðudaginn auk ýmissa áhugaverðra málefna á sviði matvælaiðnaðar og manneldis.

Á Matvæladegi verður Fjöregg MNÍ afhent en það er veitt fyrir lofsvert framtak á sviði matvælaframleiðslu og manneldis. Fjöreggið er veglegur verðlaunagripur, hannaður og smíðaður af Gleri í Bergvík og hefur frá upphafi verið gefinn af Samtökum iðnaðarins. Orri Hauksson, framkvæmdastjóri SI afhendir Fjöreggið.

Frá: 16 október 2013 12:00
Til: 16 október 2013 17:00

Dagskrá matvæladags MNÍ 2013

Skráning á matvæladag MNÍ 2013

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Tíðni Salmonella og Campylobacter mengunar í neytendavöru

Nú liggja fyrir niðurstöður rannsóknar sem var framkvæmd yfir 12 mánaða tímabil með það að markmiði að kanna tíðni sýklanna Salmonella og Campylobacter í íslenskum ferskum kjúklingaafurðum á markaði. 

Forsendur rannsóknarinnar var sú að Ísland hefur nú tekið upp megin hluta af matvælareglum og matvælalöggjöf ESB og því ljóst að innflutningur á ferskum kjötafurðum til Íslands gæti orðið að veruleika, en hingað til hafa stjórnvöld lagt algert bann á slíkan innflutning. Því var því þörf á öflun gagna til að meta stöðuna á öryggi íslenskra ferskra afurða á markaði með tilliti til örverumengunar og voru kjúklingaaurðir valdnar þar sem mengun þessara sýkla er þar helst að finna.

Yfirgripsmikil gögn eru til um tíðni Salmonella og Campylobacter í kjúklingaeldi á Íslandi og við slátrun undanfarinna ára en vöntun hefur verið á upplýsingum um stöðu mála á neytendamarkaði. Í rannsókninni voru tekin 537 sýni frá Maí 2012 til Apríl 2013 frá þremur stærstu framleiðendum landsins. Teknar voru til rannsóknar 183 neytendapakkningar af heilum kjúklingum, 177 pakkningar af bringum og 177 pakkningar af vængjum. Öll sýnin í rannsókninni reyndust neikvæð bæði fyrir Salmonella og Campylobacter. Því er ljóst að staða þessara mála er mjög góð hér á landi og jafngóð eða betri en gengur og gerist í öðrum ríkjum.

Skýrslu rannsóknarinnar má finna hér.

Rannsóknin var samstarfsverkefni Matís og Matvælastofnunar (MAST).

Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Reynisson hjá Matís.

Fréttir

Hver er munurinn á matvælaöryggi og fæðuöryggi

Getur Ísland gegnt hlutverki í bæði matvælaöryggi og fæðuöryggi okkar sjálfra? En hvað með þegar litið er til annarra landa? Getur landið leikið hlutverk annars staðar en á Íslandi?

Hér fyrir neðan má sjá myndband þar sem Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, útskýrir m.a. muninn á matvælaöryggi og fæðuöryggi.

Myndband sem m.a. fjallar um höfuðstöðvar Matís sem staðsettar eru í Reykjavík

Fréttir

Íslenskur neðansjávarbor fer víða

Sprotafyrirtækið Hafbor á Siglufirði hefur hannað og smíðað neðansjávarborvél sem setur festingar í sjávarbotn fyrir ýmsan búnað. Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði og NORA- Norræna tækniþróunarsjóðnum í samstarfi við Matís ofl.

Vélakosturinn hefur þegar verið notaður hér innanlands og er á leið í verkefni erlendis.

Hafbor ehf var stofnað í maí 2012. Vélin setur festingar í sjávarbotn fyrir m.a. fiskeldisbúnað, flotbryggjur og hvað eina sem þarf að festa í sjávarbotn á allt að 100 metra dýpi, án aðstoðar kafara.

Að sögn Ingvars Erlingssonar, framkvæmdastjóra Hafbors, var vélin alfarið þróuð hér á landi og hefur þegar sinnt nokkrum verkefnum hér heima. Samningagerð stendur yfir við dreifingaraðila í Svíþjóð og vélin fer til Bandaríkjanna í lok mánaðarins.

Nánari upplýsingar og myndband með fréttinni má finna hér.

Ofangreind frétt birtist fyrst á vefsvæði Morgunblaðsins, www.mbl.is.

Fréttir

Ný tækni fyrir Norrænan fiskiskipaflota: veiðarfæri og aflameðferð

Þann 1. og 2. október nk. mun Matís í samstarfi við fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga standa fyrir vinnufundi sem ber titilinn „Ný tækni fyrir Norrænan fiskiskipaflota: veiðarfæri og aflameðferð“. Fundurinn fer fram í höfuðstöðvum Matís í Reykjavík að Vínlandsleið 12. Þátttaka er öllum opin og gjaldfrjáls, en fólk er þó beðið um að skrá sig með því að senda póst á jonas()matis.is.

Vinnufundur um rannsóknir og þróun er snýr að veiðarfærum og aflameðferðar

Markmið fundarins er að greina frá helstu nýungum á sviði rannsókna og þróunar er snúa að veiðarfærum og aflameðferð um borð í fiskiskipum. Fundurinn er styrktur af Norrænu ráðherranefndinni í gegnum AG-fisk (Working group for fisheries co-operation), en AG hefur það að aðalmarkmiði að stuðla að samstarfi í sjávarútvegi á meðal Norrænna þjóða.

Á fundinum munu nítján sérfræðingar frá níu löndum kynna rannsóknir og helstu nýjungar í veiðarfæraþróun og tækni er snýr að aflameðferð. Fundinum er skipt upp í fjóra hluta og í lok hvers hluta fer fram verkefnavinna og pallborðsumræður. Von þeirra sem að fundinum standa er að hann muni stuðla að auknu samstarfi meðal fagaðila í Norrænum sjávarútvegi.

Allar upplýsingar um fundinn er að finna á www.fishinggearnetwork.net og mun sú síða verða nýtt til að deila upplýsingum um helstu nýjungar er varða veiðarfæri og aflameðferð í kjölfar fundarins.

Allar frekari upplýsingar gefur Jónas R. Viðarsson hjá Matís í síma 422 5107

Fréttir

Fisk í dag!

Matís er að fara af stað með herferð á landsvísu sem kallast Fiskídag og er ætlað að gera neytendur meðvitaðri um mikilvægi fiskneyslu og fisk tengdum afurðum svo sem lýsi og öðru sjávarfangi. Markmiðið með átakinu er að auka fiskneyslu Íslendinga en átakið er styrkt af AVS sjóðnum.

Fjölmargir koma að þessu jákvæða átaki. Nokkrir 5 mínútna innskotsþættir verða á RÚV, þar sem tekið verður á mýtum um sjávarafurðir og einnig útbúum við námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla um meðhöndlun sjávarfangs, næringu og matreiðslu. Stærsti þátturinn er þó í formi auglýsingaherferðar þar sem hamrað er á einstökum eiginleikum hvers kyns sjávarfangs og neytendur hvattir til að hafa fisk í matinn minnst tvisvar í viku og auðvitað að taka lýsi.

Fisk í dag átakið hefst með formlegum hætti núna um helgina og verður opnunarhátíð haldin í Smáralindinni laugardaginn 28. september milli kl. 12:00-16:00.

…og þegar krakkarnir spyrja: “hvað er í matinn?”, er svarið auðvitað: “við ætlum að hafa Fiskídag”!

Fréttir

Hefur þú smakkað mysudrykinn?

Vísindavaka Rannís fer fram í Háskólabíói föstudaginn 27. september nk. Úrval spennandi rannsóknaverkefna verða kynnt á Vísindavökunni í ár eins og undanfarin ár.

Boðið verður upp á að smakka mysudrykkurinn Íslandus en mysuklakinn Íslandus, sem drykkurinn byggir á, var valinn vistvænasta og vænlegasta nýsköpunarhugmynd Íslands á matvælasviði í nemendakeppni sem haldin var fyrir skömmu. Mysuklakinn er með beina vísun til lífshlaups Sölva Helgasonar og er Íslandus 100% náttúrulegur og lífrænn.

Þær Elín Agla Briem og Sigríður Anna Ásgeirsdóttir, nemendur í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands eru höfundar Íslandus. Höfundarnir lögðu áherslu á bætta nýtingu afurða, hugmyndaríka notkun á staðbundnu hráefni og vistvæna framleiðsluhætti við sköpun klakans. Kjartan Þór Trauner, nemandi við Listaháskóla Íslands sá um vöruhönnunina.

Íslandus var framlag Íslands í Evrópukeppninni EcoTrophelia 2012 þar sem vistvænar hugmyndir frá ýmsum löndum í Evrópu kepptu sín á milli.

Nánari upplýsingar um Vísindavökuna og Vísindakaffi, sem munu fara fram alla vikuna, má finna á vef Rannís, http://www.rannis.is/visindavaka/visindavaka/

Nánari upplýsingar veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís.

Fréttir

Nýtt myndband um starfsemi Matís á Akureyri

Á Akureyri stundar Matís rannsóknir, þróun og nýsköpun í samstarfi við Háskólann á Akureyri og aðrar stofnanir og fyrirtæki á Norðurlandi jafnt sem annars staðar á landinu.

Starfsemi Matís er til húsa í Rannsóknahúsinu að Borgum og hefur þar verið byggð upp aðstaða rannsókna á sviði sameindafræði en einnig fara þar fram rannsóknir m.a. á sviði örverufræði, efnarannsókna, ensímrannsókna, ónæmisvefjafræði og myndgreiningar matvæla.

Við uppbyggingu Matís á Akureyri hefur áhersla verið lögð á aðkomu nemenda í rannsóknatengdu meistaranámi í víðtæku samstarfi við innlenda jafnt og erlenda háskóla, rannsóknastofnanir og fyrirtæki. Að flestum verkefnum sem unnin eru hjá Matís á Akureyri koma ennfremur nemendur í rannsóknatengdu framhaldsnámi til BSc prófs í líftækni eða sjávarútvegsfræðum.

Á starfsstöð Matís á Akureyri starfa 2 sérfræðingar auk rannsóknamanns og nemenda í rannsóknatengdu framhaldsnámi við verkefni sem unnin eru á vegum Matís.

Stöðvarstjóri Matís á Akureyri er Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri hjá Matís og dósent við Háskólann á Akureyri.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Starfsstöð Matís á Akureyri
IS