Fréttir

Sjávarskyr? Íslendingar fá fyrstir að bragða!

Vinnur ný alíslensk skyrafurð til verðlauna á Ecotrophelia Europe, sem vænlegasta og vistvænasta nýsköpunarhugmyndin á matvælasviði árið 2011?

Í samstarfi við Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri aðila hafa Jón Trausti Kárason, Kjartan Trauner, Jökull Vilhjálmsson og Andri Freyr Þórðarson þróað vöru sem sigraði í íslensku Ecotrophelia keppninni og eru þeir félagar því á leið í stóru keppnina sem fram fer í Köln 9. og 10. október nk.

Varan sem um ræðir er skyr sem inniheldur þara af tegundinni Marínkjarni úr Breiðafirði, en við hugmyndavinnu vöruþróunarinnar var þari útgangspunkturinn.

Auk Marínkjarnans inniheldur varan lífræna mjólk frá BioBú, íslensk aðalbláber, lífrænt blómahunang og ennfremur inniheldur hún engan viðbættan sykur né aukefni!

Öll vitum við um kosti skyrneyslu. Með þeim hráefnum sem nú eru sett í skyrið fær varan á sig alveg nýja hollustumynd. Andoxunareiginleikar bláberja eru þekktir og eins inniheldur þari fullt af vítamínum og steinefnum auk fjöldann allan af andoxunarefnum. Lífræna blómahunangið gefur vörunni svo mátulega sætan keim.

Skyrið verður kynnt og fólk getur smakkað á Sjávarútvegssýningunni í Kópavogi laugardaginn 24. september, kl. 13-15.

Ekki missa af þessu tækifæri!

Nánari upplýsingar veitir Jón Trausti Kárason í síma 663-7904 eða jon.trausti@matis.isGuðjón Þorkelsson eða Steinar B. Aðalbjörnsson.

Fréttir

EcoFishMan fundar með hagsmunaaðilum í Kaupmannahöfn

Matís fer með stjórn í Evrópuverkefninu EcoFishMan, sem ætlað er að þróa nýa aðferðafræði sem nýtast mun við umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfi Evrópusambandsins.

Verkefnið er þverfaglegt og nýtir upplýsingum um vistfræðilega-, félagslega-, hagfræðilega- og stjórnunarlega þætti fiskveiðistjórnunar, en markmiðið með verkefninu er að gera mönnum kleift að meta og bregðast við áðurnefndum þáttum við útfærslu á fiskveiðistjórnun. Mikil áhersla er lögð á samstarf við hagsmunaaðila á öllum stigum verkefnisins og sem partur af því ferli funduðu þátttakendur í verkefninu með hagsmunaaðilum frá veiðum, vinnslu, rannsóknastofnunum, neytendasamtökum og umhverfisverndarsamtökum víðsvegar að í Evrópu þann 8 september. Fundurinn fór fram í Kaupmannahöfn og var verkefnið þar kynnt fyrir hagsmunaaðilunum og leitað eftir framlagi frá þeim inn í áframhaldandi vinnu. Þátttakendur EcoFishMan héldu erindi til að skýra margvíslega þætti verkefnisins og síðan voru umræður um erindin. Í EcoFisMan verða fjögur mismunandi fiskveiðikerfi notuð sem sýnidæmi (case studies) við þróun kerfisins þ.e. íslenskar botnfiskveiðar, portúgalskar botnvörpuveiðarnar á krabbadýrum, botnvörpuveiðar í Norðursjónum og botnvörpuveiðar við Miðjarðarhafið. 

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á heimasíðu Matís (EcoFishMan) og á vefsíðu verkefnisins, EU_EcoFishMan.

Fréttir

Gæði strandveiðiafla 2011

Sumarið 2011 var þriðja sumarið sem frjálsar handfæraveiðar með takmörkunum á heildarmagni, svokallaðar strandveiðar, voru heimilaðar. Í pottinum voru 8.500 tonn og í heildina tóku 685 bátar þátt í veiðunum.

Gæði strandveiðiafla hafa nokkuð verið til umræðu á síðustu misserum og því óskaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir því við Matís, Matvælastofnun og Fiskistofu að gerð yrði úttekt á gæðum strandveiðiaflans. Margvíslegum gögnum var safnað við framkvæmd úttektarinnar og má þar meðal annars nefna:

  • Mælingar á hitastigi í afla við löndun víðsvegar um land, alls um 2.500 mælingar.
  • Mælingar fiskmarkaðanna á hitastigi afla í sumar, alls um 10.000 mælingar.
  • Vettvangskannanir þ.s. farið var um borð í 405 strandveiðibáta til að kanna ýmis atriði er snúa að meðferð afla.
  • Viðtöl við þá aðila sem höndla mest með afla strandveiðibáta þ.e. kaupendur, seljendur, fiskmarkaðir, slægingarþjónustur, flutningsaðilar, fiskverkendur o.fl. alls um 30 manns.
  • Heimsóknir í fiskmarkaði víðsvegar um land til að kanna verklag, auk þess sem rætt var við fulltrúa fiskmarkaða.

Niðurstöður úttektarinnar sýna að strandveiðifiskur er mjög misjafn að gæðum. Strandveiðibátar stunda sínar veiðar yfir heitasta árstímann þegar fiskur er í slæmu ástandi af náttúrulegum orsökum, þeir halda sig gjarnan nærri landi þar sem fiskur er smár, meira er um orm og liturinn á roðinu er dekkri (svokallaðir þaraþyrsklingar); þeir landa jafnan óslægðum afla og stærðardreifing er mikil. Aðgengi að ís er takmarkað í sumum höfnum, slægingarþjónusta er almennt ekki lengur fyrir hendi og flutningur á óslægðum afla milli landshluta á þessum árstíma getur farið illa með hráefnið ef aflameðferð hefur ekki verið fullnægjandi. Það er því ýmsum vandkvæðum bundið fyrir strandveiðiflotann að tryggja gæði aflans og sérstaklega mikilvægt að aflameðferð sé til fyrirmyndar.

Í úttektinni er farið yfir þau atriði sem helst hafa áhrif á gæði afla, kannað er hvernig strandveiðiaflinn kom út í sumar varðandi þau atriði í samanburði við aðra dagróðrabáta og loks eru settar fram tillögur um hvernig stuðla megi að úrbótum.

Sá áhrifaþáttur sem hefur hvað mest að segja um gæði strandveiðiafla er kæling. Almennt má segja að strandveiðiflotinn komi vel út í samanburði við hina hefðbundnu dagróðrabáta hvað kælingu varðar og er ekki hægt að greina marktækan mun á milli þessara útgerðaflokka. Einnig benda niðurstöður úttektarinnar til að kæling strandveiðiafla hafi batnað mikið frá fyrra ári. Þess ber þó að gæta að þörf er á að bæta kælingu enn frekar, bæði hjá strandveiðibátum og öðrum dagróðrabátum, til að fullnægja kröfum sem settar eru fram í reglugerðum þ.e. að hitastig í afla sé komið undir 4°C innan 6 klst. eftir veiði.

Aðstaða til blóðgunar er takmörkuð um borð í strandveiðibátum þ.e. aflanum er yfirleitt látið blæða út í ís eða krapa í þeim kerum sem hann berst í land í. En þar sem handfærafiskur er jafnan mjög sprækur þegar hann er dregin um borð gengur blóðtæming betur en ella og því eru kaupendur yfirleitt sáttir við blóðgun aflans. Forsvarsmenn fiskmarkaðanna segjast aldrei hafa fengið kvörtun vegna slælegrar blóðgunar og því má draga þá ályktun að blóðgun sé ekki teljandi vandamál hjá strandveiðiflotanum.

Flokkun og slæging eru einnig atriði sem áhrif hafa á gæði strandveiðiafla. Mikilvægt er að fiskmarkaðir og viðskiptavinir þeirra finni ásættanlegar leiðir til að tryggja að kaupendur fái afhenta þá stærð af fiski sem þeir telja sig vera að kaupa, en talsvert hefur borið á því í sumar að kaupendur hafi verið ósáttir við stærðarflokkun. Þetta er hins vegar vandi sem tengist sérstaklega fjarsölunum, enda getur verið erfitt að upplýsa um flokkun afla sem ekki hefur enn verið landað. Slæging á afla dagróðrabáta hefur einnig verið nokkuð til vandræða í sumar og er mælst til að yfirvöld hugi að breytingum á reglugerðum um slægingu fyrir upphaf næsta strandveiðitímabils.

Hvað varðar aðra þætti sem áhrif hafa á gæði strandveiðiafla þá er eðlilegast að markaðslögmál fái að ráða þ.e. að verð og gæði fari saman, en til að svo megi fara þarf að auka sýnileika gæðaþátta hjá fiskmörkuðunum og auka kynningu. Fyrirkomulag strandveiðanna, þ.e. ólympískar veiðar, getur stuðlað að því að sótt sé í afla af lakari gæðum og því er mikilvægt að haldið sé á lofti fræðslu til sjómanna, jafnt sem annarra í virðiskeðjunni. Átak var gert í fræðslu, mælingum og eftirliti hjá dagróðrabátum sumarið 2011 og er ljóst að það hefur borið nokkurn árangur. Því er mikilvægt að stjórnvöld tryggi að haldið verði áfram á þeirri braut næsta ár.

Við erum á réttri leið, en betur má ef duga skal!

Skýrslu um gæði strandveiðiafla 2011 má nálgast hér.

Fræðsluvefur fyrir smábátasjómenn: www.alltummat.is/fiskur/smabatar/

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Nýr einblöðungur um Matarsmiðju Matís á Flúðum

Matarsmiðja er það kallað þegar útbúin hefur verið aðstaða til fjölbreyttrar matvælavinnslu, sem hefur fengið leyfi þar tilbærra yfirvalda til rekstursins.

Aðstaðan getur verið mismunandi frá einni smiðju til annarar, en sammerkt með þeim öllum er að til staðar er fjölbreytt úrval matvinnslutækja og áhalda og önnur aðstaða sem vinnslan krefst. Notendur fá kennslu á tækin og frjálsan aðgang til framleiðslu á þeim vörum sem gerlegt er m.t.t. aðstöðu og tækjabúnaðar og útgefnu leyfi  heilbrigðisyfirvalda.

Í matarsmiðjunum eru reglulega haldin námskeið um framleiðslu og verkun ýmissa framleiðsluvara auk námskeiða um innra eftirlit. Matarsmiðjur Matís eru á Flúðum og á Höfn í Hornafirði.

Nánari upplýsingar um Matarsmiðjuna á Flúðum má finna í nýjum bæklingi hér.

Nánari upplýsingar um starfsstöðvar og Matarsmiðjur Matís má finna hér.

Fréttir

Nýr norrænn matur – Þang og þari í matvæli

Í síðustu viku var haldinn fundur í Kaupmannahöfn um möguleika á nýtingu þangs og þara í mat, innan verkefnisins Nýr norrænn matur.  Matþörungar er vannýtt auðlind hér á norðurslóðum og miklir möguleikar í þróun nýrra matvæla úr þangi og þara.

Á meðal þátttakenda voru matreiðslumeistarar, vísindamenn,  þangræktendur og framleiðendur frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi, Danmörku, Noregi og Svíþjóð.  Nánari upplýsingar um fundinn má finna á heimasíðu Ny Nordisk Mad (sjá hér).

Nánari upplýsingar veitir Rósa Jónsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Ný sjónvarpsþáttaröð í bígerð – Taste the North Atlantic

Matís er þátttakandi í nýrri sjónvarpsþáttaröð sem mun fjalla matarmenningu á Norður-Atlantshafssvæðinu og matreiðslu á afbragðs hráefni frá þessum heimshluta.

Þessi þáttaröð hefur nú þegar vakið talsverða athygli og má sjá umfjöllun hérhér og hér.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Gunnþórunn Einarsdóttir.

Fréttir

Matís tekur þátt í hátíðinni FULL BORG MATAR

FULL BORG MATAR / Reykjavík Real Food Festival

er matar- og uppskeruhátíð tileinkuð íslenskum mat og matarmenningu. Matís tekur þátt og býður m.a. gestum og gangandi að koma í höfuðstöðvar Matís að Vínlandsleið 12 (Grafarholt) fimmtudaginn 15. sept. kl. 14-17 (auglýsing).

Á opnu húsi hjá Matís verða örfyrirlestrar um smáframleiðslu matvæla og um þau verkefni sem Matís hefur komið að með einstaklingum, t.d bændum og fyrirtækjum um allt land. Einnig verða nokkur fyrirtæki og frumkvöðlar með kynningu á starfssemi sinni og munu bjóða upp á “smakk” á þeim vörum sem hafa verið framleiddar. Matís mun svo einnig opna nýtt vefsvæði, www.kjotbokin.is, en það er allsherjar upplýsingaveita um allt sem snýr að kjöti.

Matís er með öfluga starfssemi um allt land og á nokkrum stöðum má finna s.k. Matarsmiðjur Matís.Matarsmiðja er það kallað þegar útbúin hefur verið aðstaða til fjölbreyttrar matvælavinnslu, sem hefur fengið leyfi þar tilbærra yfirvalda til rekstursins. Aðstaðan getur verið mismunandi frá einni smiðju til annarrar, en sammerkt með þeim öllum er að til staðar er fjölbreytt úrval matvinnslutækja og áhalda og önnur aðstaða sem vinnslan krefst. Notendur fá kennslu á tækin og frjálsan aðgang til framleiðslu á þeim vörum sem gerlegt er m.t.t. aðstöðu og tækjabúnaðar og útgefnu leyfi  heilbrigðisyfirvalda.

Í matarsmiðjunum eru reglulega haldin námskeið um framleiðslu og verkun ýmissa framleiðsluvara auk námskeiða um innra eftirlit. Matarsmiðjur Matís eru á Flúðum og á Höfn í Hornafirði.

Nánari upplýsingar um starfsstöðvar og Matarsmiðjur Matís má finna hér.

Hátíðin FULL BORG MATAR verður haldin í fyrsta sinn dagana 14. – 18. september með von um að hún öðlist fastan sess í árlegu matardagatali þjóðarinnar.  Fjölmörg tækifæri eru fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök að tengjast hátíðinni auk þess sem neytendur ættu flestir að finna þar eitthvað sem freistar bragðlaukanna.

Markaður, veisluréttir veitingastaðanna og opið viðburðadagatal
Boðið verður upp á sölu og markaðstorg fyrir matvörur og veitingar í miðborg Reykjavíkur en þar verður hægt að selja og kynna vörur og þjónustu beint til neytenda. Veitingastaðir munu bjóða upp á hátíðarmatseðla úr íslenskum hráefnum á meðan hátíðinni stendur en þeir veitingastaðir sem standa að best útfærðu matseðlunum fá sérstaka viðurkenningu í lok hátíðar.  Fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök geta tengst hátíðinni með því að setja upp viðburði sem kynntir verða í sameiginlegu dagatali hátíðarinnar. Lögð er áhersla á að fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir finni farveg fyrir vörur sínar og þjónustu og að hátíðin verði bæði aðgengileg og spennandi fyrir neytendur. 

Hátíðin er opinn vettvangur um allt sem tengist mat og matarmenningu þjóðarinnar og allar hugmyndir eru vel þegnar. Ef þú ert með hugmynd að viðburði eða efni sem fróðlegt væri að tengja hátíðinni þá endilega hafðu samband. 

Samstarfaðilar
Hátíðina væri ekki hægt að halda nema fyrir stuðning samstarfsaðila sem lagt hafa mikla aðstoð og vinnu í undirbúning.

Bakhjarlar hátíðarinnar eru ReykjavíkurborgSamtök IðnaðarinsMarkaðsráð KindakjötsIceland Responsible FisheriesSölufélag Garðyrkjumanna og Svínaræktarfélag Íslands. 

Haft hefur verið samstarf og samráð við fjölda einstaklinga, samtaka og stofnana við undirbúning hátíðarinnar en helst má þar nefna Íslandsstofu, Samtök Ferðaþjónustunnar, Beint frá býli, Matís og Matvís félag iðnaðarmanna í matvæla og veitingagreinum. 

Skrifstofa verkefnastjórnar
Skrifstofa verkefnastjórnar er staðsett í húsnæði Nýsköpunar og frumkvöðlasetursins Innovit í Tæknigarði, Dunhaga 5, 107 Reykjavík

Sími: 820 1980; netfang: info@fullborgmatar.is.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri.

Fréttir

Hraðfrystihúsið Gunnvör – mikilvægt samstarf!

Hraðfrystihúsið Gunnvör er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Vestfjarða og rekur bæði öfluga útgerð og fiskvinnslu í landi, auk þess að hafa náð talsverðum árangri í uppbyggingu þorskeldis. Fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við Matís og nálægðina við starfsstöð Matís á Ísafirði.

Framfarir sýnilegar í þorskeldinu
„Við höfum notið góðs af starfsstöð Matís á Ísafirði á undanförnum árum í ýmsum verkefnum, fyrst og fremst hvað varðar vinnslu- og eldistengd verkefni,” segir Kristján Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri hjá Hraðfrystihúsinu
Gunnvöru.

„Ef við horfum á vinnsluþáttinn þá snúa verkefnin sem við höfum unnið með Matís til að mynda að þróun á nýjum vinnsluaðferðum, vinnslutækni og þróun nýrra afurða. Í þorskeldinu höfum við líka nýtt okkur þekkingu og aðstöðu Matís til að hjálpa okkur en vissulega hafa margir fleiri komið að því verkefni með okkur. Þorskeldið er langhlaupsverkefni sem þumlungast áfram og ekkert sem bendir til annars en það haldi áfram á sömu braut. Við erum að sjá ýmis jákvæð skref í þorskeldinu og því er hægt að tala um framfarir. Hins vegar spila mjög margir þættir inn í árangur í þessari grein, s.s. fóðrun, kynbætur, sjúkdómar, markaðsmál, vöruþróun og fleira mætti telja. Hvað varðar marga af þessum þáttum getum við leitað til Matís að vinna með okkur,” segir Kristján.

„Staðsetning starfsstöðvar Matís hér á Ísafirði skiptir okkur máli og í raun fyrir báða aðila í svona samstarfi. Boðleiðirnar eru styttri og árangur skilar sér betur. Og með nálægðinni í samstarfsverkefnum er líka líklegra að nýir fletir og nýjar hugmyndir komi fram. Við komum því til með að nýta okkur áfram þjónustu starfsstöðvar Matís líkt og verið hefur. Með þeim fyrirvara
þó að sú óvissa sem er í sjávarútveginum og hefur verið að undanförnu dregur úr möguleikum okkar til að efna til nýrra verkefna á sviði rannsókna og þróunar. Það er staðreynd,” segir Kristján Jóakimsson.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri Vinnslu, virðisaukningar og eldi.

Fréttir

Samgöngusamningur Matís vekur athygli

Matís býður starfsmönnum sínum upp á samgöngusamning sem felst í að þeir fá greitt fyrir að nota vistvænan ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu.

Í vor gafst starfsmönnum Matís kostur á að skrifa undir samgöngusamning og fá greitt frá fyirtækinu fyrir að ganga, hjóla eða fara með strætisvögnum til og frá vinnu. Greiðir fyrirtækið þá sömu upphæð og strætókort kostar á mánuði, hvort sem starfsmaður nýtir sér strætó eða velur annan vistvænan ferðamáta.

„Verkefnið gekk bara virkilega vel. Það tóku mun fleiri þátt í þessu en við bjuggumst við. Hjá Matís starfa um 100 manns og um 45 manns tóku þátt í þannig að þetta er bara mjög gott þáttökuhlutfall,” sagði Jón Haukur Arnarsson mannauðsstjóri hjá Matís.

Jón segir að ávinningurinn fyrir fyrirtækið sé margvíslegur þótt beinn fjárhagslegur ávinningur sé kanski ekki augljós.
„Megin ávinningurinn er ánægt starfsfólk og það kemur fram á margvíslegan hátt, til dæmis er þetta tímasparnaður fyrir fólk, það er búið að taka út sína heilsurækt og þarf ekki að fara á líkamsræktastöð eftir að það kemur heim. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á að veikindadögum fækkar með heilsueflingu og það er náttúrulega beinn hagur fyrir fyrirtækið,” sagði Jón Haukur.

Jón Haukur segir að áfram verði boðið upp á samgöngusamninga hjá Matís en upphaflega hafi hugmyndin komið frá Umhverfisráðuneytinu. Þar fengust þær upplýsingar að síðan þá hefðu fjölmörg önnur ráðuneyti og ríkisstofnanir tekið upp sama hátt.

Frétt af www.ruv.is.

Nánari upplýsingar veiti Jón Haukur Arnarsson.

Fréttir

Þorskurinn kominn í tísku hjá landanum

Sala á þorski til neyslu innanlands er mun meiri það sem af er ári en allt árið 2008. Fréttablaðið var með skemmtilega frétt um þetta og viðtal við Gunnþórunni Einarsdóttur hjá Matís og við Svein Kjartansson hjá Fylgifiskum.

Fréttina má sjá með því að smella hér.

Nánari upplýsingar veitir Gunnþórunn Einarsdóttir hjá Matís.

IS