Fréttir

Breytileiki á eiginleikum makríls eftir árstíma og geymsluaðstæðum

Makríll hefur á síðustu árum gengið í vaxandi mæli inn í íslenskra lögsögu en hingað kemur fiskurinn í ætisleit yfir sumarið.

Eiginleikar makríls eftir árstíma
Á þeim tíma sem makríllinn veiðist hér við land frá byrjun júní og fram á haust eiga sér stað umtalsverðar breytingar á efnasamsetningu og eiginleikum makríls. Við upphaf vertíðar er fituinnihald í vöðva um 7-10% en um miðjan ágúst er hlutfall nálægt 30%. Á sama tíma fer vatnsinnihald lækkandi á meðan próteininnihald er tiltölulega stöðugt.  Eftir miðjan ágúst fer fituinnihald að lækka aftur.  Breytileiki í hráefnisgæðum og afurðum er því mikill á þeim tíma sem fiskurinn veiðist hér við land sem aftur hefur áhrif á inn á hvaða markaði afurðir fara.

Til að byrja með var makríll nýttur í miklum mæli til mjöl- og lýsisvinnslu en hlutur þess afla sem frystur er til manneldis hefur farið vaxandi.  Því er mikilvægt að þekkja vel þær breytur sem áhrif hafa á hráefnisgæði og vinnslueiginleika aflans.  Á síðasta ári hófst verkefni þar sem aflað er upplýsinga um breytileika í makrílafla sem veiddur er í íslenskri lögsögu.  Sýnum var safnað í samvinnu við íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og mælingar gerðar á efnasamsetningu og gæðum makrílsins eftir árstíma og veiðisvæðum.  Fiskurinn er viðkvæmt hráefni yfir sumartímann, einkum í júlí þegar áta er mikil í fiskinum.  Hröð kæling á aflanum eftir veiði og lágt hitastig (0 til -2°C) við geymslu aflans er forsenda þess að hægja á þeim skemmdarferlum sem hefjast strax eftir dauða fisksins.  Þær breytingar sem verða á efnainnihaldi fisksins eru líklegar til að hafa áhrif á vinnslueiginleika hans og auka los.

Á komandi vertíð verður ráðist í frekar mælingar til að fá heilstæðari mynd af sveiflum í eiginleikum aflans.  Árstíðabundnar sveiflur er nokkuð auðvelt að meta en öðru máli gegnir um áhrif mismunandi veiðisvæða þar sem fiskurinn færir sig ört úr stað vegna fæðuleitar.  Auk þess sem veðurfar og aðrir þættir geta haft valdið breytileika á milli ára. 

Þátttakendur í verkefninu eru Síldarvinnslan hf, Ísfélag Vestmannaeyja hf, HB Grandi hf, Vinnslustöðin hf, Eskja hf, Skinney–Þinganes hf, Samherji hf, Gjögur hf, Loðnuvinnslan hf, Huginn ehf og Matís ohf.

Verkefnið er styrkt af AVS og er til 1 árs. Nánari upplýsingar veita Sigurjón ArasonÁsbjörn Jónsson og Kristín Anna Þórarinsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Nýr bæklingur frá Matís um öryggi íslensks sjávarfangs

Bæklingurinn „Valuable facts about Icelandic seafood“ er kominn út en þar er að finna mikilvægar upplýsingar um 10 verðmætustu fiskitegundirnar sem Íslendingar veiða.

Bæklinginn ætti enginn sem selur íslenskt sjávarfang að láta fram hjá sér fara enda sýna tölurnar í bæklingnum svo um munar að íslenskt sjávarfang er hreint og ómengað.

Bæklinginn „Valuable facts about Icelandic seafood“ má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir.

Fréttir

Matís tekur stórt skref í átt til vistvænna og heilsusamlegra samgöngumáta

Á vormánuðum gafst starfsmönnum Matís kostur á að skrifa undir samgöngusamning sem ætlunin er að stuðli að því að starfsfólk Matís noti vistvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta á leið sinni til og frá vinnu.

Matís  hvetur starfsfólk til að nýta sér vistvæna og heilsusamlega samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnustað.  Með vistvænum samgöngum er átt við allan ferðamáta annan en að ferðast til og frá vinnu í einkabílum, svo sem að ganga, hjóla eða ferðast með strætisvögnum.

Starfsfólk Matís, sem ferðast til og frá vinnu með vistvænum hætti að jafnaði í 60% tilvika (þrjá daga í viku), á rétt á samgöngustuðningi frá Matís frá undirritun samningsins. Matís greiðir fyrir kort í strætisvagna fyrir starfsfólk sem að jafnaði notar strætó í og úr vinnu.   Matís greiðir mánaðarlegt andvirði strætisvagnakorts  til starfsfólks í lok hvers mánaðar, sem að jafnaði hjólar eða gengur í og úr vinnu.  Þess má geta að Matís greiðir leigubílakostnað í neyðartilvikum á vinnutíma, t.d. vegna veikinda barna, fyrir starfsmenn sem að jafnaði nota vistvænan samgöngumáta.

Matís leggur mikinn metnað í heilsueflingu starfsmanna með margvíslegum hætti, t.d. geta starfsmenn sótt um s.k. heilsuræktarstyrk tvisvar á ári til starfsmannafélags Matís, líkamsræktarherbergi er í höfuðstöðvum Matís og auk þess býður starfsmannafélagið upp á margvíslegar heilsutengdar uppákomur á hverju ári. Starfsmenn eru vel upplýstir um mikilvægi þess að hreyfa sig reglulega og í átakinu Hjólað í vinnuna 2011 lenti Matís í 3ja sæti í fjölda km.

Nýverið var auk þess gengið til samstarfs við Örninn um að hjólaverslunin verði starfsmönnum innan handar þegar kemur að því að velja hjól sem henta, hvort sem það er fyrir starfsmann Matís eða meðlimi úr fjölskyldu hans. Auk þess mun Örninn ávalt sjá til þess að starfsmenn geti keypt reiðhjól og hluti tengda hjólreiðum á besta verðinu.

Nánari upplýsingar veita Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís og Jón Haukur Arnarson, mannauðsstjóri Matís.

Fréttir

Sjómenn hvattir til að bæta kælingu

Matvælastofnun og Fiskistofa fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla og láta sjómenn fá leiðbeiningar frá Matís um góða kælingu og rétta aflameðferð.

Matvælastofnun (MAST) og Fiskistofa hafa nú hafið átak í að fylgjast með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla. Fyrsta skrefið í að tryggja að íslenskar sjávarafurðir komist til neytenda sem hágæðavara er að sá afli sem komið er með að landi sé meðhöndlaður eins vel og kostur er. Þar gegnir góð og hröð kæling lykilhlutverki.

Af fyrstu mælingum virðist kæling vera betri en hún var í fyrra, meðalhiti allra mælinga er 2,4 gráður en í fyrra var meðalhitinn í júlí 5,3 gráður.

Eftirlitsmenn fiskistofu og MAST munu dreifa leiðbeiningum um kælingu og aflameðferð sem Matís ohf. hefur unnið. MAST vill hvetja alla sjómenn til að kynna sér þessar leiðbeiningar.

Eftirliti með aflameðferð og hitastigi í lönduðum afla mun halda áfram að fullum krafti í sumar og eru sjómenn hvattir til að byggja á þessari góðu byrjun og bæta kælingu og aflameðferð frekar.

Bæklingar og einblöðungar um þetta efni og aðra bæklinga og einblöðunga sem Matís hefur gefið út má finna hér.

Sjá nánar um átak MAST og Fiskistofu á vef Matvælastofnunar.

Fréttir

Búa til fiskisósu úr roði

Á Seyðisfirði eru nú gerðar tilraunir með að búa til fisksósu úr roði sem annars er urðað. Sósan er mikilvægur próteingjafi fólks í Suðaustur-Asíu. Eftirfarandi frétt birtist í Sjónvarpinu nú fyrir stuttu.

Í fiskivinnslu Brimbergs á Seyðisfriði er verið að flaka Ufsa. Roðið sem inniheldur mikla næringu og prótein rennur í burt og nýtist ekki. En það kann að breytast. Matís og Brimberg að gera tilraunir. Þeir eru búnir að saxa roð og hita það upp. Svo er hvarfefnum bætt út í. Það er í raun ekkert annað en hrísgrjón og bygg. Þetta kemur af stað gerjun og markmiðið er að búa til afurð sem mikið er notuð í asískri matargerð; fisksósu. Tegundirnar eru nokkrar allt eftir því hvað er notað, makríll, síld eða roð af ufsa, þorski og ýsu. Fyrsta gerjunin frá því í vetur hefur verið smökkuð og lofar góðu. 

Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri hjá Matís segir að fisksósa sé mikilvæg próteinuppspretta einkum í suðaustur-Asíu. ,,Það er metið að fisksósumarkaðurinn í heiminum hafi verið eitthvað í kringum milljón tonn; einn milljarður lítra af fisksósu var framleiddur í heiminum árið 2005. Það má segja að það sé töluverður markaður og vonandi getum við Íslendingar gert okkur mat úr því,“ segir Arnljótur Bjarki.

Fréttin á RÚV má finna hér.

Fréttir

Stjórn Matís í Skagafirði

Matís er með mikla starfsemi í Matarkistu Skagafjarðar, nánar tiltekið á Sauðárkróki.

Fyrir stuttu var stjórnarfundur Matís haldinn í Skagafirði enda ekki úr vegi að halda stjórnarfund þar sem mikilvæg starfsemi fyrirtækisins fer fram. Auk þess fóru stjórn og starfsmenn Matís um svæðið en Matís er einmitt með starfstöð sína í Verinu á Sauðárkróki. Jón Eðvald framkvæmdastjóri FISK situr í stjórn Matís og hann  smellti mynd af félögum sínum þar sem þau voru stödd á Reykjum á Reykjaströnd ásamt Jóni Drangeyjarjarli og hans mönnum.

Matís Skagafjörður 5.2011
Stjórn Matís og starfsmenn með góðu fólki í Skagafirði. Frá vinstri: Helgi Rafn Viggósson,
Dr. Sveinn Margerisson, Dr. Ágústa Guðmundsdóttir, Friðrik Friðriksson, Einar Matthíasson,
Laufey Haraldsdóttir, Arnljótur B. Bergsson, Jón Eiríksson „Drangeyjarjarl“, Kristinn Kolbeinsson og
Gísli Svan Einarsson.

Líftæknismiðja Matís er staðsett á Sauðárkróki. Starfsemi Matís í Líftæknismiðjunni er margþætt. Í fyrsta lagi hefur Matís komið upp sérhæfðri rannsóknastofu á sviði líftækni og lífefna.  Í öðru lagi starfrækir Matís tilraunaverksmiðju í vinnslusal Líftæknismiðjunnar, þar sem fyrirtækið Iceprotein ehf. hefur byggt upp starfsemi sína.   Að lokum vinnur starfsfólk Matís í Líftæknismiðjunni með fyrirtækjum í Skagafirði og NV-landi að ýmsum umbóta-og hagræðingarverkefnum.

Með Líftæknismiðjunni hefur skapast rannsóknaraðstaða með tilheyrandi vinnsluaðstöðu þar sem vísindamenn og frumkvöðlar í líftækni geta þróað vörur sínar og vinnsluferla í samvinnu við Matís. Á rannsóknastofu Líftæknismiðjunnar er unnið að mælingu á lífvirkum eiginleikum lífefna úr íslenskri náttúru. Líftæknismiðjan er opin öllum landsmönnum og þar geta einstaklingar og fyrirtæki fengið aðstöðu til skemmri tíma til framleiðslu afurða. Smiðjan verður nokkurs konar klakstöð nýrra sprotafyrirtækja í líftækni og mikilvæg í styttingu ferlis frá hugmynd til markaðar. Með vali á staðsetningu Líftæknismiðjunnar er litið til nærumhverfisins sem matarkistan Skagafjörður er.Markviss uppbygging á rannsóknaaðstöðu á sér stað í Líftæknismiðju Matís, sem nú þegar er þátttakandi í víðtæku fjölþjóðlegu samstarfi. Líftæknismiðjunni er ætlað að leggja af mörkum sérhæfða rannsóknaraðstöðu, þróunaraðstöðu með vinnsluleyfi og sérfræðiþekkingu í samstarfsverkefnum framtíðarinnar. Í vinnslusal Líftæknismiðjunnar er m.a. aðstaða til að einangra protein og þurrka. Líftæknismiðjunni er ætlað að vinna í nánu samstarfi við matvælafyrirtækjum á landinu.

Stöðvarstjóri Matís á Sauðárkróki er Arnljótur Bjarki Bergsson, sviðsstjóri Vinnslu, virðisauka og eldi.

Fréttir

Viltu starfa hjá framsæknu og skemmtilegu fyrirtæki?

Matís óskar eftir að ráða drífandi og duglegan sérfræðing til starfa hjá fyrirtækinu í Reykjavík

Starfssvið

Starfið felst í umsjón með rannsóknum og efnagreiningum í matvælum og ýmsum öðrum efnarannsóknum sem gerðar eru hjá fyrirtækinu.

Hæfniskröfur

  • M.Sc. eða Ph.D. í efnafræði eða skyldum greinum.
  • Æskilegt er að umsækjendur hafi starfsreynslu við rannsóknir með gas-massagreini eða vökvamassagreini
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • Lipurð í mannlegum samskiptum
  • Metnaður til að ná árangri í starfi

Umsóknir ásamt upplýsingum um menntun og starfsreynslu, auk meðmæla, skal senda til Matís ohf., Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík eða á netfangið atvinna@matis.is, merkt “Sérfræðingur – efnagreiningar”.

Umsóknarfrestur er til og með 27. júní nk.

Æskilegt er að viðkomandi geti hað störf sem fyrst.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir, helga.gunnlaugsdottir(at)matis.is, og í síma 422-5000.

Nánari upplýsingar um Matís má finna hér.

Fréttir

Reglur um notkun á merki (lógói) Matís á umbúðum matvæla

Mjög hefur færst í vöxt að fyrirtæki og einstaklingar sem framleiða, dreifa og selja matvæli nefni samstarf við Matís. Mikilvægt er að notkun á merki Matís (lógói) og öðrum þáttum tengdum Matís sé innan ramma samstarfsins.

Matís heimilar notkun á merkinu að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

  • Haft hafi verið samband við Matís og notkunin verið samþykkt fyrir viðkomandi vöru og pakkningu
  • Merki Matís sé birt með næringargildismerkingu eða innan ramma fyrir slíka merkingu
  • Merking næringargildis sé í samræmi við gildandi reglugerð og hafi verið útbúin eða yfirfarin af Matís
  • Allar merkingar á umbúðum vörunnar séu í samræmi við gildandi reglugerðir og Matís hafi fengið þær til skoðunar í endanlegri gerð fyrir prentun (próförk)

Til greina kemur að leyfa eftirfarandi texta undir næringargildismerkingu: Matís hefur rannsakað næringargildi vörunnar. Vefslóð (www.matis.is) getur komið fram í tengslum við merki Matís eða upplýsingar um Matís.

Upplýsingar um hvernig má nálgast rétta útgáfu af merki Matís má fá hjá starfsmönnum Matís og á heimasíðu fyrirtækisins, www.matis.is.

Fréttir

Makríll – veiðar og vinnsla

Markvissar makrílveiðar hér við land hófust árið 2007 en árið 2009 voru heimildir til makrílveiða fyrst takmarkaðar.

Árið 2006 veiddust 232 tonn en 2010 var aflinn kominn í 121.000 tonn.  Í upphafi fór stór hluti aflans í bræðslu og samtímis hefur geymslutæknin og vinnslan verið þróuð í þá átt að nýta aflann til manneldis. Makríll er veiddur hér við land á þeim árstíma sem hann er viðkvæmastur vegna bráðfitunar. Árið 2010 var um 70% aflans frystur.

Í mars 2011 kom út lokaskýrsla úr verkefni sem Matís vann ásamt Ísfélagi Vestmannaeyja og Huginn ehf. Skýrslan nefnist „Veiðar, flokkun, vinnsla og markaðir fyrir makríl veiddan af uppsjávarskipum“ og var styrkt af AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi. Í skýrslunni er fjallað um veiðar og vinnslu á makríl, búnað sem þarf við makrílvinnslu til manneldis, meðhöndlun afla, mælingar á makríl sem veiðist í íslenskri lögsögu og markaði.

Mælingar
Sumrin 2008 og 2009 var makrílsýnum safnað af þremur uppsjávarfiskiskipum. Á sýnunum voru gerðar mælingar á lögun og þyngd, sýnin voru kyngreind og fitu- og vatnsinnihald mælt  eftirfarandi þættir í lögun makríls voru mældir: Heildarlengd, staðallengd, hauslengd, bollengd, stirtla, breidd/þvermál, hæð, ummál, þyngd og kyn.

Makrill_hlutfall

Heildarlengd makrílsins var nokkuð breytileg, minnstu fiskarnir voru 29 cm og þeir stærstu 44 cm. Langmest var af makríl sem var 35-40 cm eða 71% af sýnunum. Léttustu makrílarnir sem komu með sýnunum voru milli 200 og 300 grömm en þeir þyngstu yfir 700 grömm. Langflest sýnin voru 300 – 600 grömm eða 84% af heildinni, þá voru hlutfallslega flest sýni 400-500 grömm eða 33%.

Makríllinn var hausskorinn og slógdreginn og því skiptir hauslengdin máli þegar fundin er besta stilling fyrir hausarann. Af sýnunum voru 92% með hauslengd 8 og 9 cm. Flest sýnin voru 6,0-6,9 cm á hæð eða 57%. Mesta hæð sýna var 7,8 cm.

Flest sýnin voru 4,0-4,9 cm á breidd eða 53%. Af sýnunum voru 98% milli 4,0 og 5,9 cm á breidd. Mesta breidd sýna var 6,5 cm. Við kyngreiningu kom í ljós að hængar voru meirihluti aflans eða 72% og hlutfall hrygnu 28%. Fituinnihald sýnanna var 18 – 31%. Vatnsinnihald sýnanna var 53 – 63%. Innihald fitufría þurrefnis sýnanna var 11 – 23%.

Flokkun
Vinnsluskip sem vinna makríl þurfa að vera sérstaklega útbúin til að tryggja rétta meðhöndlun og vinnslu á viðkvæmu hráefni. Fyrsta skrefið er flokkari sem flokkar makríl frá síld. Style flokkarar hafa reynst vel en þeir hafa stillanlegt bili milli banda og flokkast fiskurinn því eftir þvermáli.

Greiður eru notaðar til að halda flokkunarrásum Style flokkara í sundur. Þegar einungis makríll er unninn úr síldarblönduðum afla eru makrílgreiður notaðar og dettur síld þá strax niður á færiband en makríll dettur seinna niður á færibönd sem flytja hann til vinnslu, þó getur  mjög smár makríll flokkast með síldinni. Hægt er að vinna bæði makríl og síld samtímis og þarf þá að breyta greiðunum sem halda flokkunarrásunum í sundur. Síld dettur þá niður á fremstu færiböndin sem flytja hana áfram til vinnslu eða í geymslutanka en makríllinn á öftustu færiböndin og fer þaðan áfram til vinnslu.

Markaðir
Stærstu útflytjendur frosins makríls, með hrognum og lifur, eru Noregur og Bretland/Skotland, en velta þessara landa er samanlagt yfir 60% af útflutningsverðmæti makríls á heimsvísu. Stærsti markaðurinn fyrir frosinn makríl er í Japan, Rússlandi, Kína, Nígeríu, Tyrklandi.

Þegar markaðir fyrir makríl sem veiddur er yfir sumartímann eru skoðaðir er ljóst að markaðurinn í Japan hentar ekki vegna fituinnihalds makrílsins og vegna þess hve makríllinn er laus í sér.  Japansmarkaður er að endurskipuleggja gæðakröfur og hafa þeir sýnt makríl frá íslandi mikinn áhuga.  Fyrirtækin sem stunda makrílveiðar og vinnslu hafa notað ofurkælingu um borð í skipunum og í vinnslu og þess vegna hefur þeim tekist að fá góðan makríl í vinnsluna. Mismunandi gæðakröfur til makrílafurða eru gerðar á mörkuðum.  Fyrirtækin sem stunda veiðar og vinnslu á makríl hafa þróað og endurbætt vinnsluaðferðir bæði í landi og á sjó til að geta mætt kröfum kaupenda og unnið sig inn á nýja markaði.  Til að ná góðum árangri við að vinna sem mest af makrílnum til manneldis þá þarf að vera góð samvinna milli framleiðenda og kaupenda um sameiginlegan skilning á gæðum afurða.

Fréttir

Matís í Stykkishólmi í sumar

Matís verður með starfsmenn í sumar staðsetta í Stykkishólmi tilbúna til að aðstoða matvælaframleiðendur og aðila sem hafa hug á að reyna fyrir sér með framleiðslu og vöruþróun. 

Matís hefur lagt mikla áherslu á það að vera í góðu sambandi við smáa og stóra matvælaframleiðendur um allt land og er þetta liður í því að byggja upp góð tengsl við matvælaframleiðendur í Stykkishólmi og nágrenni.

Matís er stærsta matvælarannsóknafyrirtæki landsins og hefur yfir að ráða starfsmönnum sem hafa víðtæka þekkingu á vinnslu og þróun matvæla og geta því aðstoðað hvern þann sem hefur hug á að reyna fyrir sér með nýja framleiðslu og vöruþróun. Hægt er að aðstoða við vinnslutilraunir og fyrstu framleiðslu en ekki verður sérstök aðstaða sett upp í Stykkishólmi að sinni heldur mun aðstaða Matís annars staðar verða nýtt eða aðstaða sem fyrir er hjá væntanlegum samstarfsaðilum.

Að mörgu er að hyggja þegar unnið er að vöruþróun eða ný framleiðsla er undirbúin og því mikilvægt að fara vel og vandlega yfir alla þætti allt frá aðstöðu til markaðar og nauðsynlegt að fá aðgang að góðri aðstoð sem starfsmenn Matís eru tilbúnir til að veita. Við munum leggja okkur fram um að veita alla þá aðstoð sem þörf er á til að hugmyndir að nýjum vörum verði að veruleika og erum við tilbúin til að vinna jafnt með einstaklingum sem eru að stíga sín fyrstu skref og þeim sem eru lengra komin með sínar hugmyndir.

Sérfræðingar Matís hafa unnið að mörgum verkefnum með smærri framleiðendum undanfarin ár og hefur orðið til mikilvæg þekking og reynsla innan fyrirtækisins við að ýta nýjum hugmyndum úr vör. Við munum að sjálfsögðu taka við öllum hugmyndum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og gæta fyllsta trúnaðar svo endilega hafðu samband ef þú lumar á vænlegri hugmynd og þarft á aðstoð færustu sérfræðinga að halda.

Stykkishólmsbær hefur útvegað okkur fyrirtaks aðstöðu í Egilshúsi Aðalgötu 3 og er stefnt að því að starfsfólk á vegum Matís dvelji þar í sumar.

Hægt er að hafa samband við Pál Gunnar Pálsson verkefnisstjóra verkefnisins með því að senda póst á netfangið pall.g.palsson@matis.is eða hringja í 422 5102 / 858 5102.

IS