Fréttir

Arsen er vel þekkt eiturefni sem og krabbameinsvaldandi efni

Nú fyrir stuttu birtist grein í ritrýndu vísindariti þar sem starfsmenn Matísar eru meðhöfundar.

Arsen er vel þekkt eiturefni sem og krabbameinsvaldandi efni, þó er eiturvirkni arsens háð á hvaða efnaformi það er. Arsenólípíð hafa hingað til fengið sáralitla athygli samanborið við önnur efnaform arsens, þrátt fyrir að geta verið umtalsverður hluti af heildararseni í sjávarfangi. Margt leikur enn á huldu, bæði um efnaformúlur og byggingar, sem og um eiturvirkni þessara arsensambanda. Greinin sýnir hvernig auðkenna má og magngreina arsenólípíð án þess að hafa sérstaka arsenólípíð staðla við höndina. Með því að nota merki frá ICP massagreini, fyrir þekktan arsenstaðal, mátti reikna út sérstakan viðbragðsfaktor. Þennan viðbragðsfaktor mátti síðan nýta til að magngreina óþekkt efnaform arsenólípíða. Meðal annars fannst ein fitusýra (C24H38AsO3) sem var auðkennd í fyrsta sinn. Hún er með sléttan fjölda kolefna, sem er óvenjulegt því allar áður fundnar arsenfitusýrur, hafa haft oddatölu fjölda af kolefnum.

Krækja í vísindagrein (hér).

Nánari upplýsingar veitir Ásta Heiðrún Pétursdóttir hjá Matís í síma 422-5000.

Fréttir

Norræna nýsköpunarmiðstöðin – nýsköpun í sjávarútvegi, 2. og 3. hluti

Norræna nýsköpunarmiðstöðin fyrir hönd norrænna samstarfsaðila í verkefninu „Innovation in the Nordic marine sector” auglýsir eftir verkefnaumsóknum í 2. og 3. hluta áætlunarinnar.

2. hluti
Verkefni í 2. hluta skulu stuðla að:
1. Nýjum og nýskapandi ráðningarferlum,
2. Nýjum og nýskapandi lausnum til að bæta og auka öryggi í starfsumhverfi,
3. Samræmingu og auknu gagnsæi fyrir sjávarafurðir og tengda þjónustu á norrænum markaði.

Dæmi um þátttakendur í verkefnahópi eru: Norræn sjávarútvegsfyrirtæki, þjónustaðilar við sjávarútveginn (sem selja tækni, þjónustu og/eða þekkingu), iðnaðarsamtök, nýsköpunar- og rannsóknastofnanir, opinberir aðilar, bæði svæðisbundnir og á landsvísu, og fyrirtæki sem búa yfir sérþekkingu á sviði markaðssetningar og almannatengsla.

Heildarupphæð til ráðstöfunar í þessum hluta er 6 milljónir norskra króna. Umsóknafrestur er til 8. ágúst 2011.Frekari upplýsingar er að finna hér: Hjá Sigríði Þormóðsdóttur, s.thormodsdottir@nordicinnovation.org.

3. hluti
Í þessu umsóknakalli er lögð áhersla á aðferðafræði notendadrifinnar nýsköpunar (user driven innovation) og samstarf milli fyrirtækja, fyrirtækja og rannsóknaraðila og fyrirtækja og notenda/neytenda.

Verkefni í 3. hluta skulu stuðla að a.m.k. einum af þremur þáttum:
1. Sjálfbærni í sjávarútvegi,
2. Meiri gæði úr sjávarafurðum og hráefni
3. Fjölbreytni sjávarfangs og afurða.

Dæmi um þátttakendur í verkefnahópi eru: Norræn sjávarútvegsfyrirtæki, þjónustaðilar við sjávarútveginn (sem selja tækni, þjónustu og/eða þekkingu), iðnaðarsamtök, nýsköpunar- og rannsóknastofnanir, opinberir aðilar, bæði svæðisbundnir og á landsvísu, og aðrir aðilar sem búa yfir sérþekkingu á sviðinu.

Heildarupphæð til ráðstöfunar í þessum hluta er 24 milljónir norskra króna. Umsóknafrestur er til 8. ágúst 2011.

Frekari upplýsingar er að finna hér: Hjá Sigríði Þormóðsdóttur, s.thormodsdottir@nordicinnovation.org.

Fréttir

Ný heimasíða Norrænu Nýsköpunarmiðstöðvarinnar

Nú nýverið tók Norræna Nýsköpunarmiðstöðin nýja heimasíðu í gagnið (www.nordicinnovation.org). Miðstöðin vinnur að því að efla nýsköpun á Norðurlöndum með samstarfi nýskapandi aðila, bæði innan og utan heimshlutans.

Matís hefur átt í mjög góðu samstarfi við Norrænu Nýsköpunarmiðstöðina en hún er vettvangur norræna ríkja og fyrirtækja og stofnanna í ríkjunum við að þróa vistkerfi nýsköpunar í heimsgæðaflokki til þess að styðja við vöxt viðskiptalífsins og samkeppishæfni Norðurlanda til lengri tíma litið.

Vel starfandi og samhæfð vistkerfi nýsköpunar eru nauðsynleg til þess að geta hlúð að og stutt við þróun nýrrar viðskiptastarfsemi á Norðurlöndum. Skilvirk vistkerfi nýsköpunar þurfa að vera samræmd markaðsþörfum til þess að tryggja öflugan og samkeppnishæfan vöxt. Þróun fyrirtækja og iðngreina eru nauðsynleg forsenda þess að viðhalda samkeppnishæfi á komandi árum. Öflug vistkerfi nýsköpunar gegna auk þess lykilhlutverki í því að gera samfélagið sjálfbærara um leið og þau hafa fram að færa mikilsverða viðskiptamöguleika í því að skapa ný «græn» fyrirtæki.

Norræna Nýsköpunarmiðstöðin hafur staðið fyrir mörgum rannsóknum á stefnumörkun um nýsköpun og opinberar nýsköpunaráætlanir á Norðurlöndum.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Þormóðsdóttir, s.thormodsdottir@nordicinnovation.org.

Fréttir

Ert þú með framúrstefnuhugmynd til að efla íslenskan sjávarútveg og tengdar atvinnugreinar?

Sjávarútvegsráðstefnan kallar eftir framúrstefnulegum nýsköpunarhugmyndum, sem veita á viðurkenningu fyrir á næstu ráðstefnu vettvangsins. Markmiðið er að hugmyndirnar séu framsæknar og frumlegar og skapi umræðugrundvöll eða nýja hugsun.

Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2011

Það sem þarf að hafa í huga

Framúrstefnuhugmynd skal setja fram á hnitmiðaðan hátt þar sem fram kemur lýsing á hugmynd, tillaga að framkvæmd, væntanlegur afrakstur og áhrif til góðs fyrir ímynd íslenskra afurða (hámark 2 bls). Einstaklingar geta sent inn eigin hugmyndir og /eða tilnefnt hugmyndir annarra í umboði þeirra. Allar hugmyndir þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Hugmyndin er framúrstefnuleg
  • Hugmyndin er raunhæf

Tímafrestur

Frestur til að skila inn umsóknum er 23. maí 2011.

Hvert á að senda hugmyndina?

Eingöngu er gert ráð fyrir að frammúrstefnuhugmyndin verði send inn rafrænt. Sendið hugmyndina sem viðhengi (word eða pdf skjal) á tölvupóstfang ráðstefnunnar: info@sjavarutvegsradstefnan.is Bíðið eftir staðfestingu um móttöku og ef hún berst ekki innan sólahrings, hringið þá í síma 695 2269.

Mat á hugmynd

Við mat á hugmyndum verður m.a. litið til eftirfarandi þátta: Frumleika, virðisauka, sjálfbærni, og ímyndar landsins eða greinarinnar út á við.

Í matsnefnd sitja: Ásgeir Ásgeirsson, Guðrún Ólafsdóttir, Lúðvík Börkur Jónsson, Hjálmar Sigurþórsson og Halldór Ármannsson. Varðandi vanhæfi er stuðst við reglur RANNÍS sem eru að finna Hér.

Verðlaun og kynning

Veitt verður verðlaunafé að upphæð kr. 400 þús., en auk þess fá hugmyndirnar kynningu og sérstaka viðurkenningu á Sjávarútvegsráðstefnunni 13.-14. október 2011.

Nánari upplýsingar á www.sjavarutvegsradstefnan.is.

Fréttir

Matís og Landssamband smábátaeigenda halda námskeið um allt land um aflameðferð fyrir smábátasjómenn

Landssamband smábátaeigenda (LS) og Matís standa fyrir námskeiðum um allt land um bætta aflameðferð. Þar munu sérfræðingar Matís halda fyrirlestra og kynna nýjustu vísindin í meðferð afla, hvernig skal umgangast hann þannig að hæsta verð fáist við sölu hans og neytendur verði ánægðir með gæðin.

Afli smábáta er ferskasta hráefni sem völ er á, en til að tryggja enn betur að fiskvinnslan og neytendur fái sem bestan fisk í hendurnar er mikilvægt að smábátasjómenn þekki vel hvaða þættir hafa helst áhrif á gæðin.

Afli smábáta vegur þungt í heildaraflamagni og aflaverðmæti landsmanna.  Bátar í þessum útgerðaflokki veiddu til dæmis rúmlega 75 þúsund tonn á kvótaárinu 2009/10 að verðmæti 19,1 milljarðar króna og er áætlað að þessi afli hafi skilað um 38 milljörðum króna til þjóðarbúsins í útflutningsverðmætum.

Sökum þess að útgerðamunstur og aðstaða um borð í smábátum er öðruvísi en hjá stærri bátum þá eru helstu áhersluatriði er snúa að aflameðferð sértæk fyrir smábátaflotann.  Af þeim sökum mun Matís ásamt Landssambandi smábátaeigenda standa fyrir námskeiðum víðsvegar um landið þar sem kennd verða ýmiss grundvallaratiði er snúa að aflameðferð.  Námskeiðin verða á eftirtöldum stöðum:

Næstu námskeið:

  • Húsavík – Salur verkalýðsfélaganna (Garðarsbraut 26) – 25. maí kl 20:00
  • Patreksfjörður – Sjóræningjahúsinu – 25. maí kl 20:00
  • Skagaströnd – Kántrýbær – 26. maí kl 20:00
  • Ísafjörður – Hótel Ísafjörður – 26. maí kl 20:00
  • Grindavík – Sjómannastofan Vör – 26. maí kl 20:00
  • Hornafjörður – Nýheimar – 27. maí kl 20:00
  • Egilsstaðir – Hótel Hérað – 30. maí kl 20:00
  • Drangsnes – Malarkaffi – 30. maí kl 20:00
  • Önnur námskeið auglýst síðar 

Námskeiðin eru öllum opin. Ekkert þátttökugjald.
Hvert námskeið tekur u.þ.b. 2 klst.

LS hvetur félagsmenn sína til að nýta sér þetta tækifæri
og auka þannig þekkingu sína á þessu sviði!


Á síðunni, www.alltummat.is/fiskur/smabatar, verða birtar ýmsar upplýsingar um aflameðferð sem eiga sérstak erindi til smábátasjómanna, ásamt því sem birtur verður listi yfir þá sem setið hafa námskeiðin.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Matarsmiðjan á Flúðum opnuð að viðstöddu fjölmenni

Rúmlega 70 manns komu sér vel fyrir í gær í nýjustu Matarsmiðju Matís sem staðsett er á Flúðum.

Í gær var Matarsmiðjan á Flúðum opnuð formlega með pompi og prakt. Margir góðir gestir mættu og einstaklingar þeirra hagsmunaaðila sem standa að Matarsmiðjunni tóku til máls. Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, tók síðastur til máls og opnaði Matarsmiðjuna formlega á táknrænan hátt með borðaklippingu ásamt Vilberg Traustasyni stöðvarstjóra frá Matís, Ragnari Magnússyni oddviti Hrunamannahrepps og Gunnfríði Elínu Hreiðarsdóttur, aðstoðarmanni ráðherra (sjá mynd).

Frá árinu 2010 hefur verið unnið að undirbúningi nýrrar starfsstöðvar Matís á Flúðum, sem þar með er sú áttunda utan höfuðstöðvanna í Reykjavík. Um er að ræða svokallaða matarsmiðju en smiðjur sem þessar hefur Matís byggt upp með góðum árangri á Höfn í Hornafirði og á Egilsstöðum.

Matarsmiðjan er rekin af Matís í samstarfi við sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands og Háskóla Íslands og er staðsett að Iðjuslóð 1.

Tilgangur Matarsmiðjunnar er m.a.

  • að efla smáframleiðslu matvæla á Suðurlandi með því að bjóða um á aðstöðu, fræðslu og ráðgjöf
  • að efla háskólamenntun og atvinnutækifæri í rannsóknum og vöruþróun matvæla og tengdra greina

Nánari upplýsingar veitir Vilberg Tryggvason hjá Matís en einnig má finna upplýsingar um starfsstöðina á Flúðum hér.

Fréttir

Gæði neysluvatns í Heiðmörk

Mánudaginn 16. maí 2011, kl. 16:00 mun Hrólfur Sigurðsson frá Matís halda meistaraprófsfyrirlestur við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands um verkefni sitt: „Greining mæligagna í gæðaeftirliti kalds vatns“

Meistaraprófsfyrirlestur í matvæla- og næringarfræðideild/Hrólfur Sigurðsson

Hefst: 16/05/2011 – 16:00
Lýkur: 16/05/2011 – 17:00
Staðsetning: Háskólatorgi
Nánari staðsetning: Stofu HT-101

Mánudaginn 16. maí 2011, kl. 16:00 mun Hrólfur Sigurðsson halda meistaraprófsfyrirlestur við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands um verkefni sitt:

„Greining mæligagna í gæðaeftirliti kalds vatns“

Leiðbeinendur: Franklín Georgsson, Loftur Reimar Gissurarson

Prófdómari: Eyjólfur Reynisson

Guðjón Þorkelsson dósent, stjórnar athöfninni.

Ágrip
Viðfangsefni verkefnis er örveru-, efna og eðlisfræðileg gæði neysluvatns í Heiðmörk.  Verkefninu er skipt í þrjá hluta.  Í verkhluta eitt er gerð greining á tiltækum mæligögnum úr opinberu eftirliti og innra eftirliti með vatnsveitu Orkuveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu frá tímabilinu 1997 – 2009.  Með úrvinnslu gagnanna var leitast við að svara spurningum um hvort marktækar breytingar hafi orðið á ýmsum örveru-, efna- og eðlisfræðilegum eiginleikum neysluvatnsins á síðustu 13 árum og gerður samanburður við gögn frá fyrri tímabilum.  Í verkhluta tvö var gerð rannsókn á örveru- og eðlisgæðum neysluvatns frá vatnstökusvæði til nokkurra staða í dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu.  Einnig var sérstaklega gerð rannsókn á mismunandi tegundum ræktunaræta við ákvörðun á heildargerlafjölda.  Tilgangur með þessu var að sjá áhrif dreifikerfisins á gæði neysluvatnsins og sannreyna þær niðurstöður sem komu úr verkhluta eitt.  Í verkhluta þrjú voru bakteríur í neysluvatninu tegundagreindar með sameindalíffræðilegum aðferðum til að fá grunnupplýsingar um örveruflóruna og fjölbreytileika hennar í neysluvatninu frá Heiðmerkursvæðinu.

Nánari upplýsingar veitir Hrólfur Sigurðsson hjá Matís.

Fréttir

Formleg opnun á Matarsmiðjunni á Flúðum

Frá árinu 2010 hefur verið unnið að undirbúningi nýrrar starfsstöðvar Matís á Flúðum, sem þar með er sú áttunda utan höfuðstöðvanna í Reykjavík. Um er að ræða svokallaða matarsmiðju en smiðjur sem þessar hefur Matís byggt upp með góðum árangri á Höfn í Hornafirði og á Egilsstöðum. Nú er komið að formlegri opnun þó svo að starfsemi hafi verið þar nú um skeið.

Matarsmiðjan á Flúðum opnar formlega fimmtudaginn 12. maí 2011 kl. 14. Matarsmiðjan er rekin af Matís í samstarfi við sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Háskólafélag Suðurlands og Háskóla Íslands og er staðsett að Iðjuslóð 1.

Tilgangur Matarsmiðjunnar er

  • að efla smáframleiðslu matvæla á Suðurlandi með því að bjóða um á aðstöðu, fræðslu og ráðgjöf
  • að efla háskólamenntun og atvinnutækifæri í rannsóknum og vöruþróun matvæla og tengdra greina

Auglýsingu má finna hér.

Nánari upplýsingar veitir Vilberg Tryggvason hjá Matís en einnig má finna upplýsingar um starfsstöðina á Flúðum hér.

Fréttir

Notkun viðmiðunarefna í efnagreiningum – Námskeið á vegum Norrænu matvælarannsóknarnefndarinnar 25. maí 2011

Námskeið á vegum Norrænu matvælarannsóknarnefndarinnar 26. maí 2011.

Námskeiðið er ætlað starfsmönnum á rannsóknastofum, gæðastjórum og öllum þeim sem kaupa efnagreiningarþjónustu. Viðmiðunarefni eru notuð við allar tegundir efnagreininga og er aðferðafræði við notkun þeirra sú sama óháð viðfangsefni hverju sinni.

Leiðbeinandi: Lars Jorhem, National Food Administration, Uppsala, Sweden. Hann mun ferðast um öll Norðurlöndin og halda námskeiðið.  Á Íslandi verður námskeiðið haldið á ensku.

Staður og dagsetning:    Fimmtudagurinn 26. maí 2011 á Nýsköpunarmiðstöð Íslands (austurhús)
Tímasetning:                    10:00 – 16:00 (skráning frá kl 09.30)

Á námskeiðinu verður fjallað um eftirtalin atriði:

  • Reference Materials (RMs) versus Certified Reference Materials (CRMs): What is the difference?
  • ISO Guides and CRMs, EU legislation, CODEX requirements
  • Interlaboratory studies: Differences and similarities between certification, validation and proficiency testing
  • How are CRMs made?
  • Recovery and bias: Relation to CRMs
  • Selection, use and misuse of CRMs
  • Estimation of bias using NMKL Procedure No. 9 (2007)
  • A short introduction to measurement uncertainty
  • Where to find CRMs and PT programmes?

Skráning fer fram í gegnum Norrænu mavælarannsóknarnefndina og óskast sendar á netfangið: nmkl@vetinst.no fyrir þriðjudaginn 10. maí. Námskeiðið kostar 2000 NOK og greiðist upphæðin beint til Norrænu Matvælarannsóknarnefndarinnar.  Innifalið í námskeiðsgjaldi: Hádegismatur, kaffi og námskeiðsgögn.

Tengiliður vegna námskeiðs á Íslandi er Guðjón Atli Auðunsson, netfang: gudjonatli@nmi.is

Fréttir

Ný norræn matargerð – enduruppgötvun þörunga

Þörungar eru mikilvægur hluti af matarræði almennings í mörgum löndum Asíu. Notkun þeirra í matargerð hefur hinsvegar ekki náð fótfestu á vesturlöndum nema að litlu leyti.

Fræðslufundur félagsins Matur-saga-menning í samvinnu við Nýpuhyrnu, Ólafsdalsfélagið og ReykjavíkurAkademíuna

Ný norræn matargerð – enduruppgötvun þörunga
Fimmtudaginn 28. apríl n.k. heldur Ole G. Mouritsen prófessor við Syddansk Universitet opinn fyrirlestur um nýtingu þörunga í matargerð.

Þörungar eru mikilvægur hluti af matarræði almennings í mörgum löndum Asíu. Notkun þeirra í matargerð hefur hinsvegar ekki náð fótfestu á vesturlöndum nema að litlu leyti.

Þörungar geta verið afbragðs matvæli, bragðgóð, stútfull af mikilvægum steinefnum, snefilefnum, vítamínum, próteinum, joði og heilsusamlegum fjölómettuðum fitusýrum. Þar að auki innihalda þörungar gnótt af trefjum og þar af leiðandi fáar hitaeiningar. Þörungar munu án efa verða stærri hluti af matarræði okkar í framtíðinni. Það sem er ekki síður mikilvægt er að þetta “sjávargrænmeti” getur hjálpað okkur að endurnýja og ná jafnvægi í matarræði okkar til að vinna á móti aukningu í lífstílstengdum sjúkdómum, einkum hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini, offitu auk geðsjúkdómum.

Ole G. Mouritsen, er höfundur bóka um matargerðalist og vísindin á bak við hana. Rannsóknir hans tengjast breiðu sviði grunnvísinda og nýtingu þeirra í líftækni og líflæknisfræði. Hann er virtur félagi í danska vísindasamfélaginu og hefur hlotnast fjöldi af virtum verðlaunum fyrir verk sín.

Fyrirlesturinn verður  í sal Norræna Hússins, kjallara,
 fimmtudag 28. apríl 2011 kl. 19:30.

Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Fyrirlesturinn verður fluttur á ensku.

Nánar á www.matarsetur.is og www.nordichouse.is

IS