Fréttir

Tilkynning frá Matís vegna umfjöllunar um skýrslu sem félagið vann nýlega fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið

Vegna umfjöllunar um skýrslu sem Matís vann nýlega fyrir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið, og birst hefur á vef- og fréttamiðlum undanfarna daga, vill Matís taka skýrt fram að í skýrslunni er ekki tekin afstaða til eins útgerðarforms á kostnað annars. 

Skýrslunni er ætlað að draga fram staðreyndir um nýtingu hráefnis í íslenskum sjávarútvegi, svo mögulegt væri að móta skynsamlega stefnu um nýtingu sjávarafla til framtíðar og hvernig skapa megi sem mest verðmæti úr honum.

Það er lykilmál fyrir aukna verðmætasköpun á Íslandi að nýting sjávarafla verði með sem besta móti.  Það eru á hinn bóginn ýmsir aðrir þættir en nýting sem skipta máli varðandi verðmætasköpun, svo sem meðferð afla, val á vinnsluleiðum og afurðum, aðgengi að markaði og viðskiptasambönd.  Þá má ljóst vera að líta þarf til kostnaðar, til jafns við tekjur, enda er það arðsemi af veiðum, vinnslu og markaðssetningu sem standa þarf undir nauðsynlegri framtíðarfjárfestingu, t.a.m. vegna rannsókna og þróunar.

Íslenskur sjávarútvegur stendur vel á alþjóðlega vísu þegar kemur að samanburði á arðsemi og nýtingu afla.  Það er ánægjuefni að skýrslu Matís sé sýndur áhugi og hvet ég alla til að kynna sér efni hennar.  Það er von mín að í framhaldinu muni fara fram opin og heiðarleg umræða um þær leiðir sem mögulegar eru til að auka nýtingu, verðmætasköpun og arðsemi enn frekar.

Skýrsluna má nálgast hér: Bætt nýting sjávarafla, 2. útgáfa

Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís.

Fréttir

Norræn ráðstefna á Íslandi um mat – Matís skipuleggur

Matís skipuleggur ráðstefnu um skynmat 20. og 21. maí nk. á Hilton Reykjavík Nordica Hotel. Ráðstefnan fjallar um samskipti ólíkra hópa eins og matvælaframleiðenda, veitingamanna, markaðsfólks, vísindafólks og neytenda.

Meðal annars verður lögð áhersla á hvernig matvælafyrirtæki og veitingahús geta nálgast eða talað við sína viðskiptavini og neytendur og komast að því hvað þau vilja. Einnig verður fjallað um innri samskipti í fyrirtækjum, svo sem milli vöruþróunar- og markaðsfólksins.

Í umræðunni verða gæði matvæla mæld með skynmati, neytendarannsóknir og þýðing þeirra fyrir matvælafyrirtæki og veitingamenn.

Meðal fyrirlesara er Ulf Larsson frá Háskólanum í Örebro í Svíþjóð og hann mun fjalla um hversu miklu máli lýsing á mat getur skipt t.d. á matseðlum. Peter Kreiner frá NOMA Restaurant í Kaupmannahöfn mun tala um hvernig hægt er að koma norrænum gildum í matargerðarlist á framfæri. Valdimar Sigurðsson frá Háskólanum í Reykjavík ætlar að segja frá hegðun neytenda og hvernig markaðssetningu er háttað í verslunum. Johan Unuger frá Saltå Kvarn sem mun fjalla um hvernig hægt sé að nota fjölmiðla í samskiptum við neytendur. Nokkrir fyrirlesarar koma frá stórum norrænum fyrirtækjum, eins og Arla Foods og Valio og finnska markaðsrannsóknafyrirtækinu Taloustutkimus.

Ef fyrirtæki hafa á því áhuga þá er boðið upp á lógó-merkingar fyrirtækja á efni ráðstefnunnar þeim að kostnaðarlausu.

Nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu, ofl. má finna á ensku síðu Matís, www.matis.is/nsw2010.

Fréttir

Matís, ásamt fleirum, skoðar viðhorf neytenda til heilsufarsfullyrðinga um matvæli

Á Íslandi má einungis nota fullyrðingar um innihaldsefni matvæla ef það er heimilað í viðeigandi reglugerðum eða að leyfi fyrir slíku hafi fengist hjá Matvælastofnun (MAST).

Áður en fyrirtæki/einstaklingar dreifa matvælum sem merkt eru með fullyrðingum, t.d. fitusnautt, kólesterólfrítt, hitaeiningasnautt eða öðrum fullyrðingum, skal athuga hvort slíkt sé heimilt. Ef heimild er ekki að finna innan reglugerðarinnar þarf að sækja um fullyrðinguna til Matvælastofnunar á sérstökum eyðublöðum sem finna má á heimasíðu stofnunarinnar, www.mast.is. Leyfi hafa fengist fyrir nokkrum fullyrðingum hér á landi sem einnig má sjá á heimasíðu MAST.  

Matís tók þátt í norrænu verkefni þar sem markmiðið var að að Norðurlöndin kæmu fram með sameignlega skoðun á hvers konar merkingar yrðu leyfðar sem “jákvæðar merkingar”. Viðhorfskönnun var gerð meðal norrænna neytenda um heilsufullyrðingar, hvernig neytendur skilja þær og um merkingar matvæla og hvernig áhrif þær hafa í markaðssetningu.

Matís framkvæmdi könnunina á Íslandi og túlkaði niðurstöður ásamt því að halda  fundi með hagsmunaaðilum fulltrúum matvælafyrirtækja og neytendasamtaka. Í haust kom út ritrýnd grein sem skýrir frá niðurstöðum neytendarannsóknanna. Greinin nefnist  Perception of Health Claims Among Nordic Consumers og er birt í tímaritinu Journal  of Consumer PolicyGreinina má nálgast hér. 

Nú var að koma út önnur grein úr þessari rannsókn í tímaritið Food Policy sem nefnist Impact of helath-related claims on the perception of other product attributes. Greinina má nálgast hér.

Fréttir

Búnaðarþing 2010 – hátíðarræða Sjafnar Sigurgísladóttur forstjóra Matís

Búnaðarþing var sett við hátíðlega athöfn í Bændahöllinni í dag. Þar héldu ávörp Haraldur Benediktsson formaður BÍ, Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Brita Skallerud annar tveggja varaformanna norsku bændasamtakanna Norges bondelag og Sjöfn Sigurgísladóttir forstjóri Matís.

Einnig voru veitt landbúnaðarverðlaun sem ábúendurnir á bæjunum Hraun á Skaga og Grænhóli í Ölfusi hlutu að þessu sinni. Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi kom sá og sigraði með hressilega fiðlutóna.

Niðurstöður úr skoðanakönnun Capacent:
Framtíð íslensks landbúnaðar hefur áhrif á afstöðu fólks til aðildar Íslands að Evrópusambandinu, en 55,9% landsmanna eru andvígir inngöngu landsins í Evrópusambandið en 33,3% hlynntir aðild. Hátt í 60% landsmanna segjast ekki bera neitt eða lítið traust til sttjórnvalda þegar kemur að því að gæta hagsmuna þjóðarinnar í umsóknarferli um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þetta kom fram í ræðu Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands, við setningu Búnaðarþings 2010 fyrr í dag, en yfirskrift búnaðarþingsins  er „Aftur kemur vor í dal”.

Í ræðu sinni skýrði Haraldur frá niðurstöðum nýlegrar könnunar sem Capacent vann fyrir Bændasamtökin. Um var að ræða fimm spurningar í spurningavagni Capacent. Niðurstöður könnunarinnar undirstrikar mikilvægi íslensks landúnaðar og neikvæða afstöðu til aðildar Íslendinga að Evrópusambandinu.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru:

  • 95,7% svarenda telja að það skipti miklu máli að landbúnaður verði stundaður hér á landi til framtíðar.
  • 84,3% telja að það skipti miklu máli að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir.
  • 55,9% aðspurðra eru andvígir aðild Íslands að Evrópusambandinu, 33,3% eru hlynntir aðild Íslands að Evrópusambandinu og 10,8% óákveðin.
  • 62,8% segja að framtíð íslensks landbúnaðar hafi mikil eða nokkur áhrif á afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.
  • 57,9% svarenda segist treysta íslenskum stjórnvöldum illa eða alls ekki til að gæta hagsmunum þjóðarinnar í umsóknarferlinum um aðild Íslands að Evrópusambandinu, aðeins 26,8% segjast treysta stjórnvöldum vel eða að öllu leyti.

Fréttir

Atlantshafsþorskur – hverjar eru próteinþarfir fyrir hámarksvöxt?

Nýlega birtust niðurstöður úr rannsókn sem sérfræðingar Matís ofl. stóðu að og var framkvæmd í þeim tilgangi að varpa ljósi á próteinþörf Atlantshafsþorsksins þannig að vöxtur hans yrði sem mestur.

Auk þess fór fram fyrirlestur um sama efni á í XIII International Symposium on Fish Nutrition and Feeding sem haldi var í Florianópolis í Brasilíu fyrir stuttu. Boðsfyrirlestrar voru 7 og auk þess voru valdir til flutnings 81 fyrirlestur af hugmyndum sem sendar voru inn um sjálfvalið efni. Einn af þessum fyrirlestrum var fyrrnefndur fyrirlestur sem bar heitið “Protein requirements of Atlantic cod Gadus morhua L” haldinn af starfsmanni Matís, Jóni Árnasyni.

Fréttir

Áhrif söltunarferla á eiginleika saltfisks

Föstudaginn 19.2.2010, fór fram doktorsvörn við Háskólann í Lundi, Svíþjóð.  Þá varði Kristín Anna Þórarinsdóttir fagstjóri hjá Matís doktorsritgerð sína „The influence of salting procedures on the characteristics of heavy salted cod“.

Föstudaginn 19.2.2010 fór fram doktorsvörn við Háskólann í Lundi, Svíþjóð (Department of Food Technology, Engineering and Nutrition, Faculty of Engineering, LTH).  Þá varði Kristín Anna Þórarinsdóttir, fagstjóri hjá Matís doktorsritgerð sína „The influence of salting procedures on the characteristics of heavy salted cod“.  Verkefnið var að stærstum hluta unnið á Matís ohf. 

Andmælandi var
KristinLauritzsen, Utviklingschef Norske Sjömatbedrifters Landförening, Þrándheimi, Noregi.

Matsnefnd skipuðu
Prófessor Erik Slinde, Institute of Marine Research, Nordnes, Bergen, Noregi
Dr. Hörður G. Kristinsson, Matís ohf,
Prófessor Björg Egelandsdal, Universitet för miljö och biovetenskap UMB, Ási, Noregi

Doktorsnefnd skipuðu
Prófessor Eva Tornberg, Lund University, Svíþjóð
Dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, Matís ohf
Sigurjón Arason, Matís ohf, Háskóla Íslands

Ágrip ritgerðarinnar
Verkun saltfisks hefur þróast mikið undanfarna áratugi, frá því að vera einföld stæðusöltun yfir í nokkra þrepa verkunarferil.  Fjöldi þrepa og val aðferða er mismunandi eftir því hver framleiðandinn er.  Almennt hefst verkunin með forsöltun sem framkvæmd er með sprautun og pæklun eða pæklun/pækilsöltun sem fylgt er eftir með þurrsöltun (stæðusöltun).  Eftir þurrsöltun er afurðum pakkað í viðeigandi umbúðir eftir afurðaflokkum og mörkuðum.  Fyrir matreiðslu, eru afurðir útvatnaðar til að lækka saltinnihald þeirra.     

Markmið þessarar rannsóknar var að dýpka þekkingu á áhrifum mismunandi verkunarferla með tilliti til vatnsheldni og nýtingar saltaðra þorskflaka.  Fylgst var með breytingum á nýtingu, efnainnihaldi, afmyndun próteina og vöðvabyggingu þorsks í gegnum ferillinn; frá hráefni í gegnum forsöltun, þurrsöltun, geymslu og útvötnun. 

Nýting sprautaðra afurða hélst hærri í gegnum allan ferilinn samanborið við aðrar aðferðir.  Nýting afurða sem eingöngu voru pæklaðar í upphafi verkunar var óháð pækilstyrk að því undanskildu að áhrif voru merkjanleg við sjálfa pæklunina.  Hins vegar voru áhrif á gæði neikvæð ef pækilstyrkur fór yfir 20%.  Notkun fosfats jók nýtingu eftir söltun en ekki eftir útvötnun.  Áhrif af viðbættu fosfati á gæði voru metin í tveimur tilraunum en niðurstöðum bar ekki saman á milli þeirra.  Almennt er fosfat þó talið hafa jákvæð áhrif á blæ afurða og bæta þannig gæði.  Áhrif fosfats á nýtingu samanborið við sprautun voru óveruleg.     

Saltinnihald í vöðva var almennt >20% eftir söltun óháð verkunarferlum.  Breytingar (afmyndun) á próteinum voru því miklar en mismunandi eftir söltunaraðferðum.  Bygging myósíns virtist raskast minna við söltun í sprautuðum afurðum.  Það var talið tengjast vægari hækkun á saltstyrk við upphaf söltunar sem leiddi til sterkari „salting-in“ áhrifa en með öðrum aðferðum. 

Breytingar á bandvef við söltun voru einnig mismunandi eftir söltunaraðferðum.  Millifrumubil eftir söltun var meira í afurðum sem voru sprautaðar og pæklaðar samanborið við afurðir sem eingöngu voru pæklaðar í upphafi verkunar.   Aftur á móti var flatarmál fruma sambærilegt.  Mismunur á vatnsheldni vöðvans og nýtingu eftir verkunarferlum var því tengdur breytileika í afmyndun bæði kollagens og myósíns en hingað til hafa niðurstöður fyrri rannsókna fyrst og fremst verið túlkaðar úr frá breytingum á vöðvatrefjum.    

Tap þurrefnis við verkun var meira í sprautuðum og pækluðum afurðum.  Fyrst og fremst var um „non protein nitrogen“ að ræða   Hlutfall próteina sem tapaðist var lágt og því voru áhrif þurrefnistaps á vatnsheldni vöðvans talin óveruleg. Áhrifin voru fremur talin felast í breytileika í bragði og lykt afurða, vegna  eðlis og eiginleika „non protein nitrogen“ efna en ekki var gerður samanburður á þessum eiginleikum í ritgerðinni.

Hinn nýbakaði doktor, Kristín Anna Þórarinsdóttir er fædd árið 1971, foreldrar hennar eru Þórarinn Snorrason og (Elisabet Charlotte) Johanna Herrmann.  Kristín lauk námi í BS-gráðu í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 1998 og M.Sc.-gráðu frá HÍ árið 2000.  Síðan þá hefur hún starfað hjá Matís (www.matis.is).

Kristín er gift Baldvini Valgarðssyni og eiga þau tvö börn, Þorfinn Ara og Valgerði Báru.

Nánari upplýsingar veitir Kristín Anna Þórarinsdóttir, kristin.a.thorarinsdottir@matis.is.

Fréttir

Búnaðarþing 2010 – Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, flytur hátíðarræðu

Árlegt Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands hefst sunnudaginn 28. febrúar og stendur til miðvikudagsins 3. mars.

Búnaðarþing verður sett með viðhöfn á sunnudaginn en yfirskrift setningarathafnarinnar er „Aftur kemur vor í dal“. Í vikunni verða hefðbundin þingstörf þar sem m.a. verður fjallað um mál sem tengjast umsókn stjórnvalda að Evrópusambandinu, jarðalögum, fjármálum bænda og uppbyggingu félagskerfis þeirra.

Setning Búnaðarþings fer fram í Súlnasal Hótels Sögu sunnudaginn 28. febrúar og hefst kl. 13:30. Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, heldur setningarræðu og Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra flytur ávarp og veitir árleg landbúnaðarverðlaun. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, flytur hátíðarræðu og Þjóðlagasveit Tónlistarskólans á Akranesi tekur lagið. Aðgangur er öllum opinn meðan húsrúm leyfir og í boði eru kaffiveitingar.

Búnaðarþingi verður gerð skil á vefnum bondi.is þegar þingstörf hefjast. Á vefnum verður birt dagskrá þingsins, ræður, fundargerðir og upplýsingar um afgreiðslu mála um leið og þær berast.

Nánari upplýsingar veita:

Magnús Sigsteinsson, skrifstofustjóri Búnaðarþings, gsm: 863-3184 , netfang: ms@bondi.is
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, gsm: 861-7740, netfang: hb@bondi.is
Eiríkur Blöndal, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, gsm: 895-6254 , netfang: ebl@bondi.is

Fréttir

Matvælamiðstöð Austurlands auglýsir eftir verkefnum

Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að því að koma á fót aðstöðu fyrir Matvælamiðstöð Austurlands í húsakynnum Mjólkurstöðvarinnar en Matvælamiðstöðin var sett á laggirnar haustið 2009 en hún er samstarfsverkefni Matís, Þróunarfélags Austurlands, Fljótsdalshéraðs, Búnaðarfélags Austurlands og Auðhumlu.

Hugmyndin með Matvælamiðstöðinni er að aðstoða fólk með hugmyndir að matvælaframleiðslu með faglegri aðstoð og aðstöðu.  Möguleikarnir eru margir, hægt er að leigja aðstöðuna til framleiðslu fyrir þá sem eru með framleiðsluvöru en ekki aðstöðu, einnig er hægt að fá aðstoð aðstöðu fyrir vöruþróun.  Með þessu móti er  hægt að  prófa hugmyndir að framleiðslu og markaðssetja vöru án þess að leggja út í mikinn kostnað við aðstöðu og útvegun nauðsynlegra framleiðsluleyfa.  Nú er Matvælamiðstöðin komin með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands og getur því tekið við verkefnum.  Þegar hafa tveir aðilar nýtt sér aðstöðuna og láta vel af.

Áhugasamir endilega hafði samband við Hrund í síma 858 5060 eða með því að senda póst á mma@matis.is

Nánar um Matvælamiðstöðina má finna á www.matis.is/um-matis-ohf/starfsstodvar-matis/egilsstadir/

Fréttir

Þrjár greinar frá vísindamönnum Matís birtar í sömu útgáfu vísindarits

Nú fyrir stuttu birtust greinar eftir vísindamenn Matís í Journal of Sensory Studies.

Vert er að minnast á að í útgáfu þessara ritrýnda vísindarits eru hvorki fleiri né færri en þrjár greinar eftir vísindamenn Matís. Leiða má líkum að því að það sé einsdæmi að svo margar greinar komi frá sama fyrirtæki/stofnun í einni og sömu útgáfunni af ritrýndu fagriti.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir, emilia.martinsdottir@matis.is.

Fréttir

Arctic Tilapia

Nú nýverið lauk verkefninu Arctic Tilapia sem styrkt var af Tækniþróunarsjóði en að verkefninu komu Matís, Arctic Tilapia hf., Iceprotein hf. of Fisk-Seafood hf. Markmið verkefnisins var að þróa framleiðsluvörur sem gera eldi á hvítfisknum tilapia í lokaðri eldisstöð sem nýtir kælivatn frá stórri gufuafls virkjun hagkvæmt hérlendis.

Til þess að svo megi verða verða markaðsleiðir fyrir afurðir að vera til staðar og tryggar.

Tæknileg markmið voru í fyrsta lagi þau að þróa kælingar- og geymsluaðferð fyrir fersk flök sem viðheldur ljósroðleitum blæ og ferskeika flaka og í öðru lagi að þróa vinnsluaðferð fyrir saltaða afurð fyrir Spánarmarkað.

Verkefnisstjóri var Emilía Martinsdóttir, Matís ohf.

Markmið verkefnisins var að þróa framleiðsluvörur sem gera eldi á hvítfisknum tilapia í lokaðri eldisstöð sem nýtir kælivatn frá stórri gufuafls virkjun hagkvæmt hérlendis. Til þess að svo megi verða verða markaðsleiðir fyrir afurðir að vera til staðar og tryggar.

Tæknileg markmið voru í fyrsta lagi þau að þróa kælingar- og geymsluaðferð fyrir fersk flök sem viðheldur ljósroðleitum blæ og ferskeika flaka og í öðru lagi að þróa vinnsluaðferð fyrir saltaða afurð fyrir Spánarmarkað. Nílartilapía (Oreochromis niloticus) var alin í endurnýtanlegu vatnshringrásarkerfi og flökuð og pökkuð í 100% lofti og loftskiptum pakkningum fyrir geymslu við 1˚C og -1˚C. Niðurstöður skynmats og örverutalninga sýndu að flök sem pakkað var í lofti höfðu geymsluþol 13-15 daga við 1˚C og 20 daga við -1˚C. Í flökum í loftskiptum pakkningum var heildarfjöldi örvera mjög lítill eftir 27 daga geymslu bæði við 1˚C og -1˚C. Samt sem áður höfðu loftskiptar aðstæður slæm áhrif á lit flaka skömmu eftir pökkun en litur flaka hefur veruleg áhrif á val kaupenda. Bestu geymsluaðstæður fyrir tilapíuflök er pökkun í lofti og geymsla við stöðugt lágt hitastig -1°C. Könnuð voru áhrif sprautunar og pæklunar á nýtingu, geymsluþol og eiginleika tilapiuflaka. Framleiddir voru þrír afurðaflokkar: kældar afurðir, frystar afurðir (með óverulegum breytingum á saltinnihaldi) og léttsaltaðar, frystar afurðir. Nýting jókst við sprautun og pæklun, verulegur munur var á þyngdarbreytingum á frystum flökum og léttsöltuðum flökum vegna mismunar í saltinnihaldi þessara tveggja afurðaflokka.

Tilapia frá Kanada og Kína var notuð í fyrstu tilraunir verkefnisins. Tilapiueldi hófst á Íslandi í byrjun verkefnistímans eftir að gerð hafði verið úttekt á þeim stofnum sem tiltækir eru, því mikilvægt er að hafa góðan eldisstofn. Valinn var stofn sem er ræktaður í stöðinni North American Tilapia INC. (NATI) í Kanada. Tilraunastöðin var gangsett 15. maí 2008 þegar seiðin komu til landsins. Seiðin voru komin í sláturstærð í nóvember 2008 og var fiskurinn nýttur til tilrauna eftir það. Þær niðurstöður að hægt var að ná geymsluþoil allt að 20 daga við stöðugt lágt hitastig í geymslu og að ekki varð teljandi breyting á rauðum lit holdmegin í flaki á því tímabil gefa möguleika bæði á að bæði senda vöruna sem fersk, undirkæld flök með skipi á Evrópumarkað einnig til USA. Samhliða þessu rannsóknaverkefni hefur verið lögð mikil vinna í hagkvæmnisathuganir og vinnu við viðskiptaáætlanir og samskipti við væntanlega fjárfesta og samstarfsaðila á markaðssviði. Verið er að leggja lokahönd á viðskiptaáætlun.

Listi yfir afrakstur verkefnisins, sem og skýrslur, greinar og handrit.
Tilraunaskýrsla 1 – Tilapia fillets protein injection Cyprian Ogombe-september 2008

Tilraunaskýrsla 2 – Preliminary shelf life studies of iced Canadian tilapia (Oreochromis niloticus) Cyprian Ogombe – ágúst  2008

Úttskrifaður nemandi í matvælafræði við Háskóla Íslands Cyprian Ogombe Odoli frá Kenya fyrrum nemandi við Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU) lauk prófi í júni 2009. Meistaraprófsritgerð: Optimal storage conditions for fresh farmed tilapia (Oreochromis niloticus) fillets.

Veggspjald á TAFT 2009 ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.  3rd Joint Trans-Atlantic Fisheries Technology Conference Copenhagen, 15-18 September 2009 –  “Arctic” tilapia (Oreochromis niloticus): Optimal storage and transport conditions for  fillets. Emilía Martinsdóttir, Cyprian Ogombe Odoli, Hélène L. Lauzon, Kolbrún Sveinsdóttir, Hannes Magnússon, Sigurjón Arason og Ragnar Jóhannsson. Veggspjaldið hlaut verðlaun sem besta veggspjald ráðstefnunnar.

Skýrsla Matís 39-09.  Sprautun og pæklun tilapíuflaka. Kristín Anna Þórarinsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Þóra Valsdóttir, Irek Klonowski, Aðalheiður Ólafsdóttir, Hannes Magnússon, Arnljótur Bjarki Bergsson, Ragnar Jóhannsson, Emilía Martinsdóttir (lokuð). Skýrsluágrip.

Skýrlsa Matís 38-09.  Optimal storage conditions for fresh farmed tilapia (Oreochromis niloticus) fillets.  Emilía Martinsdóttir, Cyprian Ogombe Odoli, Hélène L. Lauzon, Kolbrún Sveinsdóttir, Hannes Magnússon, Sigurjón Arason and Ragnar Jóhannsson (opin).

Birtar verða tvær vísindagreinar úr efninu og liggur fyrir handrit að annarri þeirra.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir. emilia.martinsdottir@matis.is.

IS