Fréttir

NOMA útnefnt besta veitingahús í heimi – Framkvæmdastjórinn á leið til landsins

Peter Kreiner frá NOMA veitingahúsinu í Kaupmannahöfn er á leið til landsins til þess að vera viðstaddur og halda erindi á ráðstefnu sem Matís og fleiri standa fyrir 20. og 21. maí nk.

Peter mun tala um hvernig hægt sé að koma norrænum gildum í matargerðarlist á framfæri. Noma hefur það að markmiði að bjóða upp á persónulega nálgun á norrænni sælkera matargerð, þar sem hefðbundnar aðferðir við matreiðslu, norræn hráefni svo og sameiginleg matarhefð og arfleifð okkar er tengd nýrri og frumlegri matargerðarlist.

Frétt um viðurkenningu NOMA má finna hér.

Heimasíða NOMA: www.noma.dk

Fréttir

Matís tekur þátt í norrænni ráðstefna (workshop) um uppsjávarfiska

SINTEF í Noregi í skipuleggur ráðstefnu um uppsjávarfiska 30 ágúst nk í samstarfi við Matís á Íslandi, DTU í Danmörku og Chalmers í Svíþjóð.

Ráðstefnan verður haldin á Best Western Oslo Airport Hotel, Gardermoen í Noregi. Ráðstefnan fjallar um veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski, ásamt hagnýtum rannsóknum.

Áhersla verður meðal annars lögð á meðhöndlun afla um borð, vinnslutækni, gæðamál, heilbrigði og nýtingu aukafurða uppsjávarfisks.

Meðal fyrirlesara er Hanne Digre frá SINTEF í Noregi og mun hún fjalla um uppsjávarveiðar ásamt meðhöndlun afla um borð. Ingrid Underland frá Háskólanum Chalmers í Gautaborg mun tala um einangrun próteina úr uppsjávarfiskum og hliðarafurðum, ásamt þránun á fitu uppsjávarfiska.  Henrik H. Nielsen frá DTU Danmörku mun fjalla um í sínu erindi áhrif veiðisvæða og veiðitíma á gæði í ferskri og frystri síld. Sigurjón Arason frá Matís mun fjalla um meðhöndlun og kæliaðferðir varðandi uppsjávarfisk.  Ásbjörn Jónsson  mun fjalla um veiðiaðferðir ásamt gæða- og framleiðslustjórnun á uppsjávarfiski. Fyrirlesarar frá iðnaðinum á Norðurlöndum munu fjalla um tækifæri og framtíð varðandi  veiðar og vinnslu á uppsjávarfiski.

Nánari upplýsingar um dagskrá, skráningu ofl. má finna á heimasíðu SINTEF

Fréttir

Matís á vorráðstefnu FÍF

Líflegar umræður voru á vorráðstefnu Félags íslenskra fiskmjölsframleiðenda sem haldin var 8.-9. apríl síðastliðinn á Grand-hóteli. Matís lét ekki sitt eftir liggja og var með tvo fyrirlestra á sínum snærum þar.

Í fyrirlestri sínum fjallaði Lárus Þorvaldsson um kælingu uppsjávarafla til vinnslu í landi. Þar fór hann yfir þann árangur sem náðst hefur með sívirkum hitastigsmælingum og eftirfylgni um borð í uppsjávarskipum Síldarvinnslunnar en auk þess kynnti hann möguleika tölvuvæddrar varma- og straumfræði til hönnunar, vinnslustýringar og ákvarðanatöku við uppsjávarveiðar.

Þá fjallaði Sigurjón Arason um rannsóknir Matís á árstíðarbundnum sveiflum í fitu- og þurrefnisinnihaldi uppsjávarfisks, ásamt því sem hann kom inn á markaðsaðstæður og möguleika til nýtingar ýmissa uppsjávartegunda.  Sigurjón fjallaði einnig um starf Matís við smíði gæðavísis uppsjávarfisks,  en Matís hefur á síðustu misserum þróað skynmatsaðferðir til að leggja mat á ferskleika uppsjávartegunda.

Báðir fyrirlestrarnir vöktu mikinn áhuga meðal ráðstefnugesta og ljóst að grannt er fylgst með rannsóknum Matís til hagsbóta fyrir íslenskan sjávarútveg.

Fréttir

Áhætta og ávinningur við neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda

Dagana 14.-15. apríl verður haldinn alþjóðlegur vinnufundur (Workshop) um „Aðferðir  til að greina áhættu og ávinning vegna neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda„ í nýju höfuðstöðvum Matís.

Þessi vinnufundur er liður í SAFEFOODERA EraNet verkefni um áhættu- og ávinningsmat.  Samtals er gert ráð fyrir að 23 sérfræðingar frá 8 löndum taki þátt í fundinum.

Markmið verkefnisins er  að þróa aðferðir  til að greina áhættu og ávinning vegna neyslu matvæla og miðlun upplýsinga til neytenda. Til þess að ná þessu markmiði er ætlunin að nýta þekkingu og reynslu á áhættu-og ávinningsgreiningu sem byggð hefur verið upp á öðrum fræðasviðum s.s. læknis- og lyfjafræði, örverufræði, umhverfisfræðum, félags- og hagfræði og  yfirfæra sem og aðlaga þær aðferðir að matvæla- og næringarfræði. Ætlunin er að safna gögnum og nýta sér reynslu sem byggð hefur verið upp á þeim fræðasviðum sem nota áhættu-og ávinningsgreiningu í dag og yfirfæra þessa þekkingu og þróa aðferðir sem henta á sviði matvæla. 

Hlutverk Matís er að safna gögnum og nýta sér þá reynslu sem byggð hefur verið upp á sviði örverufræði um áhættumat og yfirfæra þessa þekkingu til að þróa aðferðir fyrir áhættu-og ávinningsgreiningu í matvælum. Vinnan í verkefninu byggist á öllum þáttum áhættu- og ávinningsgreiningar þ.e.a.s. áhættu- og ávinningsmati ,áhættu- og ávinningsstjórnun, áhættu- og ávinningskynningu.

Á ráðstefnunni taka meðal annars til máls Hans Verhagen sem er mikils metinn fagmaður á sviði áhættu- og ávinningsgreiningu matvæla (risk-benefit analysis) í matvælum. Hans stýrir  45-50 manna deild sem vinnur á þessu sviði hjá RIVM National Institute for Public Health and the Environment í Hollandi. Auk þess gegnir hann prófessorstöðu við Maastricht University í Hollandi. Fundurinn á þessa daga er því gott tækifæri til að fræðast um þessi mál frá þeim sem er meðal þeirra fremstu á sínu sviði.  

Dagskrá fundarins má sjá hér.

Fréttir

Áhugaverð ráðstefna í húsakynnum Matís

Miðvikudaginn 21. apríl nk. verður haldin daglöng ráðstefna í húsakynnum Matís að Vínlandsleið um framþróun í greiningum á matvælum og umhverfi.

Nánari upplýsingar, s.s. um skráningu á ráðstefnuna, má finna hér

Fréttir

Mennt er máttur

Fyrir stuttu lauk námskeiði sem Matís hélt ásamt öðrum á Höfn í Hornafirði. Hönnun námskeiðsins var unnin í samvinnu Þekkingarnetsins, Skinneyjar-Þinganess og FAS (Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu).

Kennt var að jafnaði tvisvar í viku í húsnæði Skinneyjar-Þinganess sem sérstaklega var útbúið sem kennslustofa. Markmiðið með námskeiðinu var m.a. að auka þekkingu starfsfólks á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust og auka faglega hæfni þess. Námskeiðsþættir voru m.a. samvinna og liðsheild, stjórnun, gæði í fiskvinnslu, matvælaöryggi og vinnuvernd.

Nánari upplýsingar veitir Margeir Gissurarson, margeir.gissurarson(at)matis.is.

Upplýsingar um námskeið sem Matís býður upp á má finna hér.

Fréttir

Lífríki undir 300 metra þykkum ís Skaftárkatla

Fyrir stuttu birtust niðurstöður rannsóknar sem starfsmenn Matís tóku þátt í, m.a. ásamt bandarísku geimferðastofnuninni (NASA), að rannsaka lífríki í Skaftárkötlum.

Þarna eru fyrstu upplýsingar um lífríki Skafárkatla sem er undir 300 m þykkum ís.  Þessi grein lýsir lífríkinu í vestari katlinum en verið var að rannsaka nú lífríki í eystri Skaftárkatli en þeir eru tveir og Skaftárhlaup koma frá þeim. 

Rannsóknin er hluti af verkefninu „Leyndadómar Skaftárkatla“.

Til að greina fjölbreytileika lífríkisins var 454 FLX raðgreini notaður en Matís hefur slíkan búnað í húsnæði sínu í Reykjavík. Með þessum búnaði er hægt að skoða fjölbreytileika örvera mun betur og hraðar en áður.

Nánari upplýsingar veitir ViggóMarteinsson, viggo.th.marteinsson@matis.is.

Auk þess má sjá upplýsingar um greinina hér.

Fréttir

Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis

Föstudaginn 9. apríl nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Rannveig Björnsdóttir, starfsmaður Matís, doktorsritgerð sína „Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis“.

Doktorsvörn í líf- og læknavísindum frá Læknadeild á Heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands.

Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis

Föstudaginn 9. apríl nk. fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Rannveig Björnsdóttir doktorsritgerð sína „Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis“ (The bacterial community during early production stages of intensively reared halibut (Hippoglossus hippoglossus L.). Andmælendur eru dr. Brian Austin, prófessor og forstjóri Fiskeldisstofnunarinnar við Háskólann í Stirling í Skotlandi og dr. Gunnsteinn Ægir Haraldsson fagstjóri rannsóknartengds náms við Læknadeild Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og aðjúnkt við Læknadeild HÍ, en auk hennar sátu í doktorsnefnd þau dr. Eva Benediktsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ, dr. Helgi Thorarensen, prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum, dr. Jakob K Kristjánsson, forstjóri Prokazyme Ltd. og dr. Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís ohf.

Dr. Guðmundur Þorgeirsson prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í stofu 132 í Öskju og hefst klukkan 13:00.

Ágrip úr rannsókn
Niðurstöður doktorsverkefnisins varpa skýrara ljósi á þróun bakteríuflóru á fyrstu stigum lúðueldis og hugsanleg áhrif samsetningar flórunnar á lifun og þroska frá frjóvgun eggja til loka startfóðrunar. Mikil og skyndileg afföll eru vandamál á þessum fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins og ekki hvað síst fyrstu vikurnar í fóðrun þegar lirfurnar þurfa á lifandi fóðurdýrum að halda. Niðurstöður sýna enn fremur að breytingar á umhverfisþáttum höfðu veruleg áhrif á fjölda og samsetningu bakteríuflórunnar þar sem unnt reyndist að örva ósérhæft ónæmi lirfa við meðhöndlun fæðudýra með vatnsrofnum fiskipróteinum og bætt lifun fékkst við meðhöndlun fóðurdýra með bakteríustofnum sem voru ríkjandi í meltingarvegi lirfa með góða afkomu. Niðurstöður benda einnig til þess að ríkjandi hluti flóru lirfa og fóðurdýra þeirra geti að stórum hluta verið ræktanlegur.

Verkefnið var unnið í samstarfi Matís ohf. og Háskólans á Akureyri og í nánu samstarfi við Fiskey hf. Aðrir samstarfsaðilar voru Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, Háskólinn í Tromsø í Noregi, Iceprotein ehf. og Háskólinn á Hólum.

Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís, AVS rannsóknasjóði í sjávarútvegi, Líftæknineti í auðlindanýtingu, Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri og Háskólasjóði KEA. 

Um doktorsefnið
Rannveig Björnsdóttir er fædd árið 1959. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum  að Laugarvatni árið 1980, Cand. mag. prófi  frá Sjávarútvegsháskólanum í Tromsø í Noregi árið 1988 og Cand.scient. prófi í ónæmisfræði og sjúkdómum fiska frá sama skóla árið 1990. Rannveig hefur frá árinu 1991 starfað í hlutastarfi sem sérfræðingur við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og síðar sem deildarstjóri og fagstjóri fiskeldis hjá Matís ohf. og í hálfu starfi sem lektor og síðan dósent við Sjávarútvegsdeild og síðar Auðlindadeild Háskólans á Akureyri. Rannveig hóf doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands árið 2004. Rannveig er dóttir hjónanna Björns Benediktssonar heitins, sem stóð fyrir uppbyggingu Silfurstjörnunnar hf. í Öxarfirði og Ástu Björnsdóttur, húsfreyju. Rannveig á eina uppkomna dóttur, Hugrúnu Lísu.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, sími 858 5108, netfang: rannveig.bjornsdottir@matis.is eða rannveig@unak.is

Fréttir

Fiskmarkaðir fyrir almenning

Því ekki fiskmarkaði, rétt eins og grænmetismarkaði og bændamarkaði? Matur, saga, menning 25. mars kl. 17.

Ísland er þekkt fyrir frábæran fisk og góð fiskimið, en einhverra hluta
vegna tíðkast ekki hér á landi að almenningur geti keypt ferskan fisk á
hafnarbakkanum eða á fiskmarkaði. Þótt margir hafi sýnt hugmyndinni um
fiskmarkað áhuga, hefur henni ekki verið fylgt eftir í framkvæmd hingað
til. Nú lítur út fyrir að hreyfing sé að komast á málið bæði í Reykjavík
og víðar, og að þess sé ekki lagt að bíða að gestir og gangandi geti
nálgast ferskan fisk á þennan lifandi og skemmtilega hátt.

Þær Þóra Valsdóttir, matvælafræðingur hjá Matís ohf og Brynhildur
Pálsdóttir, matarhönnuður hjá Listaháskóla Íslands, kynna áhugaverða
samantekt um möguleika fiskmarkaða á Íslandi á fundi félagsins Matur saga
menning, fimmtudaginn 25. mars kl 17.00 í húsnæði ReykjavíkurAkademíunnar,
Hringbraut  121, 4. hæð.

Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Á undan fundinum, þ.e. frá kl 16.30-17.00 verður aðalfundur
félagsins haldinn samkvæmt áður boðaðri dagskrá.

Fréttir

Matís á sænska orkuþinginu í Stokkhólmi

Matís hefur verið virkt nú um nokkurt skeið í orkulíftækni og hefur sviðið Líftækni og Lífefni hjá Matís fengið styrki frá ýmsum aðilum til að leita að sérstökum ensímum og örverum sem nýta má í orkulíftækni.

Nú eru í gangi verkefni styrkt af Tækniþróunarsjóði og Nordic-Energy sjóðnum til að finna og endurbæta hitakærar örverur með erfðatækni til framleiðslu á etanóli úr lífmassa.  Lífmassinn inniheldur fjölsykrur eins og sellulósa og xylan sem hefðbundnar gerjunarbakteríur er ekki færar um að nýta en slíkur lífmassi fellur til í iðnaði og landbúnaði í miklum mæli og er vannýttur í dag.  Hitakærar örverur get brotið og gerjað slíkan lífmassa niður og markmiðið með vefefninu er að gera þær öflugri, m.ö. o. arðbærar.

Í byrjun þessa árs fékk Matís og Háskólinn í Lundi stóran styrk frá sænska rannsóknasjóðnum FORMAS til viðbótar áðurnefndum styrkjum til að þessa verkefnis.  Í framhaldi af því var Matís boðið að kynna verkefnið á sænska orkuþinginu

Þingið er árlegur viðburður í Svíþjóð með yfir 500 fyrirlestrum sem snerta öll svið orkunýtingar og öflunar.  Verkefni Matís fékk  góð viðbrögð og þess má geta að bás FORMAS skartaði meðal annar stórri mynd af hverasvæði sem var eins konar tilvitnun í verkefni Matís.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Óli Hreggviðsson, gudmundur.o.hreggvidsson@matis.is.

IS