Fréttir

Stefnumót atvinnulífs og Þekkingarseturs – Matís tekur þátt

Þekkingarsetur Vestmannaeyja býður fulltrúum atvinnulífsins og almenningi á opinn vinnufund þann 9.febrúar kl.17.00 í Alþýðuhúsinu.

Markmiðið með fundinum er að kynna almenningi og fulltrúum atvinnulífsins í Vestmannaeyjum fyrir starfsemi Þekkingarseturs Vestmannaeyja. Jafnframt verða settir upp umræðuhópar þar sem ræddar verða hugmyndir að verkefnum og hvernig slíkar hugmyndir geta orðið að veruleika.

Dagskrá:
A. Kynning starfsmanna ÞSV á sinni stofnun eða fyrirtæki
1.       Þekkingarsetur Vestmannaeyja
2.       Rannsóknarþjónustan
3.       Matís
4.       Atvinnuþróunarfélagið

Stutt hlé

5.       Náttúrustofa
6.       Surtseyjarstofa
7.       Hafrannsóknastofnunin
8.       Viska
9.       Nýsköpunarmiðstöð Íslands

B.      Kaffihlé, veggspjöld og myndasýning

C.      Umræðuhópar – Styrkjum samfélagið með góðu samstarfi
Sjávarútvegur og atvinnumál
Náttúra og ferðamennska
Menntun

Þrír vinnuhópar þar sem starfsmenn ÞSV og fulltrúar úr atvinnulífinu stýra umræðum  í hverjum hóp fyrir sig og setja niður hugmyndir, markmið, tillögur o.s.frv. Öllum er frjálst að taka þátt í umræðuhópum.

Í lok fundar verður stutt samantekt kynnt úr hverjum umræðuhópi.

Fundi slitið.

Fréttir

Fræðaþing landbúnaðarins 2009 – Matís með erindi og fleira

Fræðaþing landbúnaðarins 2009 fer fram dagana 12. og 13. febrúar nk. í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar (fyrri dagur, f.h.) og í ráðstefnusölum á 2. hæð Hótel Sögu.

Á þinginu verður boðið upp á fjölbeytt erindi og munu starfsmenn Matís flytja allmörg þeirra og koma með önnur innlegg svosem eins og einblöðunga ofl.

Upplýsingar um fræðaþingið frá skipuleggjendum þess:

Fyrir hönd stofnana okkar boðum við til Fræðaþings landbúnaðarins 2009 sem haldið verður samkvæmt meðfylgjandi dagskrá dagana 12. og 13. febrúar nk. í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar (fyrri dagur, f.h.) og í ráðstefnusölum á 2. hæð Hótel Sögu.

Þátttakendum á Fræðaþinginu, sem gista vilja á Hótel Sögu eða Hótel Íslandi eru boðin eftirfarandi kjör:

Gisting með morgunverði:
Hótel Saga
Eins manns herbergi – kr. 8.000
Tveggja manna herbergi – kr. 9.000
Park Inn
Eins manns herbergi – kr. 7.000
Tveggja manna herbergi – kr. 8.000

Gistingu þarf að panta með góðum fyrirvara og geta þess að um Fræðaþing sé að ræða. Pantanasími er 525 9900.

Ráðstefnugjald er kr. 12.000 og er innifalið í því fundargögn og kaffi/te.

Ráðstefnuritið kostar kr. 4.000 í lausasölu. Fyrirlesarar og fundarstjórar eru undanþegnir gjaldinu. Drög að dagskrá fundarins fylgja.

Að þessu sinni gefst þátttakendum á Fræðaþinginu kostur á að kaupa hádegisverðbáða þingdagana á Hótel Sögu. Þátttakendur eru beðnir að skrá sig til hádegisverðar um leið og þeir skrá þátttöku á þingið.          

Vakin er athygli á að skráning fer fram á heimasíðunni http://www.bondi.is/ og einnig í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, fimmtudaginn 12. febrúar kl. 8:15. Dagskráin byrjar stundvíslega kl. 9:00.

Dagskrá þingsins má finna á heimasíðunni http://www.bondi.is/  og verður hún uppfærð reglulega.

Fréttir

Frétt í Ægi – Af hverju borðar ungt fólk ekki meira af fiski?

Niðurstöður sem aflað var fyrir meistaraprófsritgerð Gunnþórunnar Einarsdóttur, starfsmanns Matís, á fiskneyslu ungs fólks voru fyrir stuttu birtar í tímaritinu Ægi.

Niðurstöður rannsóknar Gunnþórunnar sýndu í heild sinni að fiskneysla er undir viðmiðum og að þekking á fiski sé ekki góð. Virðist því vera þörf á aðgerðum til að fá ungt fólk til að borða meiri fisk.

Greinina í Ægi má í heild sinni sjá hér.

Fréttir

Mikill áhugi á námskeiðum Matís

Margeir Gissurarson, verkefnastjóri hjá Matís, hélt námskeið á Ísafirði nú fyrir stuttu. Námskeiðið snéri að rækjuvinnslum og var m.a. fjallað um hitun matvæla, skynmat og HACCP.

Námskeiðið fór fram við Fræðslusetur Vestfjarða dagana 15. og 16. jan. sl. Mikil og góð þátttaka var á námskeiðini og var mikil ánægja á meðal þáttakenda með hvernig til tókst.

Frekari upplýsingar um þetta námskeið og fleiri námskeið sem Matís býður upp á má finna á fræðsluvef Matís.

Fréttir

Marningskerfi

3X Technology á Ísafirði fékk á sl. ári styrk frá AVS sjóðnum til að þróa nýjan búnað til að vinna marning úr aukaafurðum. Megin áherslan er lögð á að ná fiskholdi af hryggjum án þess að marningurinn mengist blóði.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Matís ohf og Hraðfystihúsið Gunnvör hf og er markmið verkefnisins að vinna marning úr aukaafurðum svo sem hryggjum og öðrum afskurði sem til fellur við bolfiskvinnslu. Hannaður verður vélbúnaður sem tekur mið af því að hámarka bæði gæði og nýtingu hráefnisins.

Náðst hefur að framleiða ljósan marning með staðlað vatnsinnihald með því að þvo marningin í sérhannaðri þvottatromlu og til þess að minnka vatnsinnihaldið þá er marningurinn keyrður í gegnum marningspressu þar sem umfram vatnsmagn er pressað úr marningnum.

Á myndinni má sjá nýja tækið frá 3X Technology á ísafirði en það samanstendur af þvottatromlu og marningspressu. Verkefninu lýkur á þessu ári.

Fréttir

Matís leitar eftir starfskrafti

Matís ohf. óskar eftir að ráða matráð til að sjá um salatbar og súpu í hádeginu í starfstöð sinni að Gylfaflöt 5 í Grafarvogi. Auglýsing þess efnis birtist í Morgunblaðinu um helgina.

Um er að ræða 40% stöðu og vinnutíminn er frá 11 til 14.

Frekari upplýsingar:
Ragnar Jóhannsson í síma 422 5106 eða ragnar.johannsson@matis.is
Sigríður Hjörleifsdóttir í síma 422 5113 eða sigridur.hjorleifsdottir@matis.is

Umsóknir sendist á Jón H. Arnarson, mannauðsstjóra Matís, á póstfangið jon.h.arnarson@matis.is.

Smelltu hér til þess að sjá aulgýst störf hjá Matís og til þess að fylla út almenna atvinnuumsókn.

Fréttir

Stjórnendur frá Wholefoods Market í heimsókn hjá Matís

Stjórnendur Wholefoods Market verslunarkeðjunnar komu til Matís fyrir stuttu og kynntu sér starfsemi fyrirtækisins.

Wholefoods Market (www.wholefoodsmarket.com/) er stór bandarísk verslunarkeðja sem hóf starfsemi í Texasríki árið 1980. Verslunarkeðjan er með starfsemi í yfir 270 búðum í Bandaríkjunum og á Englandi og er hún hvað þekktust fyrir sölu á matvælum sem eins lítið hefur verið átt við í framleiðslu og mögulegt er. Til dæmis er úrval verslunarkeðjunnar á lífrænt ræktuðum matvælum með því allra mesta sem þekkist í heiminum. Einnig hefur fyrirtækið lagt mikla áherslu á að vita hvaðan matvæli koma og haft sérstakan áhuga á upprunamerkingum. Heimsókn Wholefoods Market til Matís var m.a. einmitt í þeim tilgangi að kynnast betur upprunamerkingum á matvælum en Matís hefur skipað sér í fremstu röð í rannsóknum í þessum málaflokki.

WFM_1-1
WFM_2-1
WFM_3-1

Daginn eftir hélt svo Baldvin Jónsson, sem er tengiliður Íslendinga við Wholefoods Market, mjög áhugaverðan fyrirlestur fyrir starfsmenn Matís um starfsemi verslunarkeðjunnar og gildi fyrirtækisins. Vakti fyrirlestur þessi mikinn áhuga á fannst nokkrum sem á hlustuðu að margt í starfsháttum og gildum Wholefoods Market mætti taka til fyrirmyndar hér á landi.

Baldvin_Jonsson_1-1
Baldvin_Jonsson_2-1

Meðfylgjandi eru myndir frá heimsókninni.

Fréttir

Stjórnendur frá Wholefoods Market í heimsókn hjá Matís

Stjórnendur Wholefoods Market verslunarkeðjunnar komu til Matís fyrir stuttu og kynntu sér starfsemi fyrirtækisins.

Sjávarútvegsfyrirtækið Cumbrian Seafoods tók í gagnið fyrr tæpum tveim árum síðan nýtt fiskvinnsluhús í Seatham á austurströnd Bretlands.  Húsnæðið er sérlega tæknivætt á breskan mælikvarða, en þetta 250 manna fyrirtæki sér mörgum af stærstu smásölum Bretlands fyrir sjávarfangi.

Cumbrian seafood leggur mikið upp úr því að framleiðsla þeirra samræmist sem best kröfum nútímans um sjálfbærni alls lífferils vörunnar sem þeir framleiða og því hafa þeir nú ákveðið að setja upp vindmillur sem muni sjá fiskvinnsluhúsinu fyrir öllu því rafmagni sem það þarf.  Á þennan hátt sjá þeir fram á að geta því sem næst máð út „sótspor“ (carbon footprint) vinnslunnar.

Krafa smásala og neytenda í Bretlandi um bætt upplýsingastreymi varðandi kolefnismyndun við framleiðslu á hinum ýmsu vörum hefur aukist gífurlega á síðustu misserum og því hefur Cumbrian Seafoods ákveðið að fara út í þessa fjárfestingu, þrátt fyrir að þeir telji að raforkukostnaður þeirra muni aukast af þeim sökum.

Í framhaldi af því er spurning hvort við ættum ekki í meira mæli en gert hefur verið fram að þessu að innleiða hugsun lífferilsgreiningar (LCA) við framleiðslu og merkingar á sjávarfangi.  Þetta er málefniefni sem Matís hefur látið sig mikið varða á undanförnum misserum og er fyrirtækið áhugasamt um að stuðla að innleiðingu lífferilsgreiningar við framleiðslu á íslenskum matvælum.

Fréttir

Birting ritrýndrar greinar frá vísindamönnum Matís

Nýverið birti ISI tímaritið Aquaculture grein eftir Rannveigu Björnsdóttur, fagstjóra fiskeldis og lektor við Háskólann á Akureyri. Fjórir sérfræðingar hjá Matís eru meðhöfundar að greininni sem ber titilinn “Survival and quality of halibut larvae (Hippoglossus hippoglossus L.) in intensive farming: possible impact of the intestinal bacterial community”.

Í greininni er fjallað um fjölda og samsetningu bakteríuflóru lúðulirfa tengt vexti, gæðum og afföllum lirfa á fyrstu stigum eldisins. Lúða er hágæða fiskur sem gott verð fæst fyrir á mörkuðum og er því mikilvæg tegund í eldi. Mikil afföll verða á fyrstu stigum eldisins og hafa þau m.a. verið tengd bakteríuálagi þótt áhrif einstaka tegunda séu lítt skilgreind og því umdeilanleg. Því var ákveðið að ráðast í kortlagningu bakteríuflóru lúðulirfa í öllum framleiðslueiningum hjá Fiskey hf. á ákveðnu tímabili. Helstu niðurstöður sýndu mikinn breytileika í fjölda og samsetningu baktería í lirfunum og vísbendingar voru um að ákveðnar tegundir væri einungis að finna í lirfum úr eldiseiningum þar sem lifun og gæði lirfa voru yfir meðallagi. Einnig fundust bakteríutegundir sem ekki hafa áður verið greindar í lúðu. Rannsóknin syndi ennfremur að tengsl voru á milli fjölda ræktanlegra baktería og ákveðins galla sem gerir það að verkum að lirfurnar ná ekki að nærast.

Greinina í heild sinni má nálgast hér.

Aðrar greinar frá starfsmönnum Matís sem og önnur rit, skýrslur, einblöðunga ofl. má finna hér.

Fréttir

Frauðplast einangrar betur en bylgjuplast

Í rannsóknum Björns Margeirssonar doktorsnema hjá Matís kom í ljós að frauðplastkassar hafa töluvert meira einangrunargildi en sambærilegir kassar úr bylgjuplasti. Miklu máli skiptir að umbúðir verji vöruna fyrir hitasveiflum á leið hennar á markað.

Verkefnið „Hermun kæliferla“ er styrkt af AVS sjóðnum, Tækniþróunarsjóði RANNÍS og Rannsóknasjóði HÍ og er ætlunin að bæta hitastýringu í vinnslu- og flutningaferlum fyrir fiskafurðir. Að undanförnu hafa verið gerðar umfangsmiklar tilraunir með tvenns konar pakkningar fyrir fersk fiskflök þ.e. bylgjuplastkassa annars vegar og frauðplastkassa hinsvegar. Sett voru fersk flök í báðar gerðirnar ásamt hitasíritum, einnig voru kassarnir með og án ísmotta. Kælimotturnar (ísmotturnar) reyndust afar áhrifaríkar til að verja fiskflökin fyrir hitaálagi. Jafnframt sýndu niðurstöður fram á yfirburði varmaeinangrunar frauðplastkassa umfram bylgjuplastkassa óháð notkun kælimotta. Mismunur einangrunargildis er reyndar enn sýnilegri þegar kælimottur eru notaðar. Tilraunir með fullstaflað bretti af fiskikössum (u.þ.b. 300 kg á bretti) sýndu að meðalhitahækkun flaka getur verið tvöföld fyrir bylgjuplastkassa m.v. frauðplastkassa, að því gefnu að loftið umhverfis sé 10 °C heitt og á töluverðri hreyfingu.

Hitastig-flaka-og-umhverfis
Græna, granna línan sýnir lofthitann umhverfis pakkningarnar en hinar línurnar hita flaka inni í kössum.

Að lokum var sýnt fram á að nokkurra klst. sveiflur í lofthita umhverfis heil fiskibretti geta valdið mjög ójafnri hitadreifingu innan stæðunnar á brettinu. Í verkefninu “Hermun kæliferla” verða þróuð varmaflutningslíkön, sem nota má til að meta áhrif þess hitaálags, sem pakkaðar fiskafurðir verða óhjákvæmilega fyrir í flutningaferlum. Einnig verða skoðaðir möguleikar á endurhönnun á pakkninga til að tryggja betri vöru.

Nálgast má hér skýrslu verkefnisstjóra: Thermal Performance of Corrugated Plastic boxes and Expanded Polystyrene Boxes

IS