Fréttir

Áframhaldandi samstarf Matís og Listaháskóla Íslands

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís og Listaháskóli Íslands undirrituðu samstarfssamning nú á dögunum. Aframhald verður því á því góða samstarfi sem verið hefur fram að þessu.

Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bætta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla og líftækni.

LHÍ er eini háskólinn á Íslandi með viðurkenningu yfirvalda á fræðasviðinu listir og er skólinn því leiðandi í innleiðingu akademískra rannsókna í uppbyggingu listnáms hér á landi.  LHÍ hefur gert það að yfirlýstu markmiði sínu að efla rannsóknir á sviði lista og vinnur nú að undirbúningi rannsóknatengds náms á meistarastigi.  Hér er átt við listrannsóknir (e. artistic research), sem byggja á aðferðum hinna ýmsu listmiðla við nýsköpun þekkingar og miðlun hennar.

Samning þennan gera samningsaðilar til að efla enn frekar samstarf sín á milli.

Markmiðið með samningnum

  • Efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur  til.
  • Auka rannsóknir á þeim fræðasviðum sem samningurinn nær til og vera jafnframt í fararbroddi og hafa faglega sérstöðu í nýsköpun á þessum fræðasviðum.
  • Laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Tryggja að gæði rannsókna samningsaðila séu sambærileg á við það sem gerist á alþjóðlegum vettvangi.
  • Stuðla að framþróun og auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu með því að stofna til samstarfsverkefna milli framleiðenda, starfsmanna og/eða nemenda LHÍ og Matís.
  • Sækja saman um styrki til nýsköpunar- og þróunarverkefna í innlenda og erlenda samkeppnissjóði.
  • Nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna.
  • Fjölga nemendum i grunn- og framhaldsnámi á fræðasviðum samningsins.
IS