Fréttir

Mikilvægi örveruflóru hafsins

Þann 5. febrúar síðastliðinn var gefin út sérstök stefnulýsing, eða vegvísir, fyrir rannsóknir á örveruflóru Atlantshafsins. AORA (Atlantic Ocean Research Alliance) stendur fyrir þessari útgáfu, en það eru samtök um hafrannsóknir í Atlantshafi sem Bandaríkin, Kanada og Evrópusambandið eru aðilar að.

Markmið AORA er að hlúa að heilbrigði og varðveislu Atlantshafs og jafnframt að velferð, farsæld og öryggi komandi kynslóða. AORA samstarfið er leitt af Fisheries and Oceans CanadaDirectorate General Research and Innovation hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og National Oceanic and Atmospheric Administration í Bandaríkjunum.

Í stefnulýsingu AORA segir að örverflóra hafsins gegni lykilhlutverki fyrir samfélag manna; fyrir heilsu, fæðu, iðnað og vistkerfi. Því sé mikilvægt að vísindasamfélagið, iðnaðurinn og stefnumótendur stilli saman strengi sína í því að hlúa að hafinu og rannsaka betur eiginleika örveruflórunnar og möguleg tækifæri sem hún hefur upp á að bjóða. Matís tók þátt í setja saman stefnulýsingu AORA.

Frekari upplýsingar um AORA samtökin má finna hér og sérstakt kynningarmyndband um vegvísinn má finna hér að neðan:

Fréttir

Alþjóðlegur dagur stúlkna og kvenna í vísindum

Alþjóðlegur dagur kvenna og stelpna í vísindum er í dag, 11. febrúar.

Sameinuðu þjóðirnar settu þennan dag á laggirnar til að vekja athygli á mikilvægi þess að auka þátttöku kvenna og stelpna í vísindum, en núna er hún tæplega 30%. Deginum hefur verið fagnað árlega síðan 2016 til að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni.

Til hamingju með daginn!

Fréttir

Matís auglýsir eftir starfsfólki í Vestmannaeyjum og á Akureyri

Matís ohf. leitar að tveimur sérfræðingum til starfa, annars vegar á Akureyri og hins vegar í Vestmannaeyjum. Starfið felur að mestu í sér vinnu við rannsóknar- og þróunarverkefni á starfssviði Matís.

Þessar ráðningar eru í samræmi við stefnu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis um eflingu starfsemi á landsbyggðinni. Um fullt starf er að ræða.
Starfssvið:

  • Efla samstarf Matís við atvinnulíf á sviði tækni og nýsköpunar.
  • Afla verkefna á sviði Matís í samvinnu við fyrirtæki á svæðinu.
  • Setja upp og stýra rannsóknarverkefnum.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Starfsreynsla og þekking á sjávarútvegi og/eða matvælaframleiðslu.
  • Háskólagráða sem nýtist í starfi – framhaldsmenntun er kostur.
  • Frumkvæði og sjálfstæði í vinnubrögðum.
  • Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum og tengslamyndun.
  • Færni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og ensku

Umsóknarfrestur er til og með 17. febrúar n.k.

Frekari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson, fagstjóri hjá Matís í síma 422 5000 eða tölvupósti jonas@matis.is

Fréttir

Meistaravörn í matvælafræði –Kaldhreinsun á olíu úr átu og uppsjávarfiskvinnslu

Jónas Baldursson, meistaranemi í matvælafræði, heldur opinn fyrirlestur í tengslum við meistaravörn sína á verkefninu „Kaldhreinsun á olíu úr átu og uppsjávarfiskvinnslu. Áhrif hitastigs á kaldhreinsun á verðmætum fitusýrum úr hliðarstraumum fiskmjöls og lýsisvinnslu”.

Fyrirlesturinn fer fram þriðjudaginn 30. janúar kl. 15:30 í stofu 312 hjá Matís að Vínlandsleið 14. Allir áhugasamir velkomnir!

Fréttir

Hvernig bragðast lax sem étur skordýr?

Í dag fer fram formleg smökkun á eldislaxi í húsakynnum Matís ohf. Það sem gerir þennan lax sérstaklega áhugaverðan er að hann var alinn á fóðurblöndu sem inniheldur skordýr.

Í verkefninu Metamorphosis, sem er leitt af Birgi Erni Smárasyni hjá Matís, er unnið að því að breyta lífrænum úrgangi í verðmætt hráefni til að nýta í fiskeldisfóður. Skortur á próteinríku fóðri hefur kallað eftir nýjum lausnum til að mæta vaxandi eftirspurn iðnaðarins. Yfir helmingur allra fisktegunda er nú ræktaður með fiskeldi og er líklegt að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu 15 árum.

Rannsóknir hafa sýnt að skordýr henta mjög vel í fóðurframleiðslu fyrir fisk, en margar skordýrategundir hafa þann eiginleika að geta breytt lífrænum úrgangi í fæðu sem er rík af fitum og próteinum. Verkefnið skoðar sérstaklega þróun á nýju fóðurhráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta til að bregðast við auknum próteinskorti í Evrópu með sjálfbærum hætti.

Nú fer þessu rannsóknarverkefni senn að ljúka og það eina sem er í raun eftir er athuga hvernig eldislax sem hefur verið fóðraður með þessari nýstárlegu fóðurblöndu smakkast.

Verkefnið er styrkt af EIT Food .

Fréttir

Kortlagning hitastigs í ferskfisksvinnslu við mismunandi forkæliaðferðir

Styrmir Svavarsson mun flytja meistarafyrirlestur sinn í vélaverkfræði í Matís í dag klukkan 14:30.

Markmið verkefnisins var að skoða áhrif krapaíss og tímabundinnar kæli- og frostgeymslu á hitastig í þorski í fersk fiskvinnslu.

Ófullnægjandi hitastýring í fersks fisks kælikeðju hefur mikil áhrif á gæði afurðar. Það skiptir því miklu máli að kælikeðjan sé óslitin frá veiði til neytenda til að viðhalda gæðum. Því þarf að forkæla afurðina hratt og örugglega niður að geymsluhitastigi og viðhalda því. Hitastig afurðar, kælimiðils og vinnslusalar voru kortlögð og tvær forkælitilraunir framkvæmdar. Fyrri tilraunin gekk út á að setja þorskhnakka í ker með krapaís og sú síðari gekk út á að geyma fullunna afurð í pakkningu inn í kæli og frysti.

Niðurstöður sýndu að hitastigið í afurðinni þegar henni er pakkað var of hátt miðað við ráðlagt geymsluhitastig fersks þorsks. Forkælitilraunirnar mynduðu hitaprófíla sem sýndu áhrif kæliaðferðarinnar sem hægt væri að nota til viðmiðunar við að ná réttu hitastigi afurðarinnar. Lokaniðurstöður eru þær að með því að forkæla afurðina stöðugt niður að skilgreindu geymsluhitastigi er hægt að bæta kælikeðjuna og auka gæði afurðarinnar.

Deild: Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild.

Umsjónarkennari: Fjóla Jónsdóttir, prófessor við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild.

Leiðbeinendur: Björn Margeirsson, dósent við Iðnaðarverkfræði, vélaverkfræði og tölvunarfræðideild og rannsóknarstjóri Sæplasts / Tempra.
Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís.

Prófdómari: Gísli Kristjánssonframleiðslustjóri hjá Brim.

Hvenær: 20. janúar 2020, 14:30 til 15:30

Hvar: Matís, Vínlandsleið 12

Fréttir

Þrjú verkefni leidd af Matís hljóta styrk frá Rannsóknasjóði

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur lokið við úthlutun styrkja til nýrra rannsókna­verkefna fyrir árið 2020.

Þrjú verkefni leidd af Matís hlutu styrki fyrir árið 2020 frá Rannsóknasjóði; tveir verkefnastyrkir og einn doktorsnemastyrkur.

Raunvísindi og Stærðfræði:

Heiti verkefnis: Dreifing arsentegunda eftir þanghlutum, sér í lagi arsenlípíða

Verkefnastjóri: Ásta Heiðrún Elísabet PétursdóttirStyrkur (þús.): 19.745 ISK

Verkfræði og tæknivísindi:

Heiti verkefnis: ThermoExplore – Lífverkfræðileg könnun á möguleikum loftháðra hitakærra örvera til framleiðslu verðmætra efna úr endurnýjanlegum lífmassa

Verkefnastjóri: Guðmundur Óli Hreggviðsson, Steinn Guðmundsson

Styrkur (þús.): 18.624 ISK

Doktorsnemastyrkur:

Heiti verkefnis: Könnun á neðanjarðarlífríki eldfjallaeyjunnar Surtseyjar

Verkefnastjóri: Pauline Anna Charlotte Bergsten

Styrkur (þús.): 6.630 ISK

Fréttir

Breyttur opnunartími á föstudögum

Frá og með 1. janúar 2020 verður opið til 15:00 á föstudögum hjá Matís.

Opnunartími mánudaga til fimmtudaga verður áfram frá 8:30 til 16:00.

Fréttir

Kynning frá laxeldisfundi aðgengileg

Í gær var fór fram vel heppnaður fyrirlestur í Matís um fyrirkomulag og áhrif laxeldis í norður-Noregi.

Kynning fundarins er aðgengileg hér.

Einnig má finna upptöku af fundinum hér.

Fréttir

Fiskolíur sem hluti af viðarvörn

Niðurstöður verkefnis sem unnið var að í Matís leiddu í ljós að fiskolíur og olíur úr uppsjávarfiski henta vel sem viðarvörn.

Árlega fellur til verulegt magn af lýsi sem aukahráefni. Við framleiðslu á fiskimjöli verður hluti framleiðslunnar að aukahráefni vegna hás sýrustigs af völdum frírra fitusýra eða ofhitunar. Við fullvinnslu á þorskalýsi falla til hundruð tonna af ónothæfu lýsi vegna framleiðslu á ómega 3 þykkni. Að auki falla til hundruð tonna af steríni vegna kaldhreinsunar á lýsi. Þessu lýsi hefur verið brennt sem eldsneyti og einnig notað til blöndunar við tjöru í malbiksgerð.

Árið 1941 byggði Tryggvi Ólafsson stofnandi Lýsis hf. sumarbústað með trépanel sem ytra byrði við Þingvelli. Notaði hann blöndu sem að meginhluta innihélt lýsi til að verja bústaðinn. Núna 75 árum síðar er ytra byrði hússins enn sem nýtt.

Markmið verkefnisins var að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem hluta af hráefni í viðarvörn. Þróaðir voru vinnsluferlar til að vinna óhreint hrálýsi og uppsjávarfisk í verðmæta viðarolíu.

Niðurstöður leiddu í ljós að fiskolíur og olíur úr uppsjávarfiski henta vel sem viðarvörn. Sterín var ekki hægt að nota þar sem það fellur út við herbergishita og blandast ekki öðrum hráefnum.

Tréborð með viðarvörn.

IS