Fréttir

Jólakveðja frá Matís

Takk fyrir árið sem er að líða.

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fréttir

Áherslan verði á ný á aukna verðmætasköpun

Íslendingum hefur lánast að fylgja eftir aldargamalli ákvörðun og halda hér uppi frjálsu og fullvalda ríki. Verstöðin Ísland hefur eflst á umliðinni öld, það er þróun sem hófst með vélvæðingu útgerðar í upphafi 20. aldar. Meðal þorskafli var frá 1918 til og með 2017 var rétt rúmlega 238 þúsund tonn á ári. Á sama tíma minnkaði hlutfall þorsks úr ¾ heildarafla Íslendinga í 21%, en heildarafli hefur aukist úr 98 þúsund tonnum í 1176 þúsund tonn vegna sóknar í aðra stofna samhliða auknum afköstum og bættri tækni. Að meðaltali hefur þorskur verið um 26% af lönduðum afla í hinni fullvalda verstöð. Þorskur er enn sem fyrr mikilvægasta tegundin sem við veiðum, um 44% af verðmæti landaðs afla 2017 eru til komin vegna þorskveiða. Við stofnun fullveldisins var hlutur þorsks í heildaraflaverðmæti nærri 78%. Íslenskur sjávarútvegur er fjölbreyttur og hefur þróast með sérhverju skrefi sem stigið hefur verið. Óskandi er að við fáum að læra af sögunni og getum stigið fleiri en færri heillaskref í framtíðinni.

Ný stefna – ný hugsun

Íslendingar ákváðu á þrítugsafmæli fullveldis að láta vísindalega þekkingu vera grundvöll stjórnunar fiskveiða á Íslandsmiðum. Innan við þremur áratugum síðar höfðu Íslendingar óskoruð umráð yfir 200 mílna efnahagslögsögu umhverfis landið. Um líkt leyti rann smátt og smátt upp fyrir okkur að veiðigeta fiskiskipa okkar var umfram það sem fiskistofnarnir gætu borið og því þurfti að stilla saman veiðigetu skipastólsins og veiðiþol fiskistofnanna. Kröfur á mörkuðum eru að nýting fiskistofna sé með sjálfbærum hætti, að ekki sé gengið nær auðlindunum en þær þola.

Við Íslendingar mörkuðum stefnu, byggða á ríkjandi fiskveiðistjórnkerfi árið 2003 um að auka verðmæti sjávarfangs fremur en að auka magn sjávarfangs. Vaxandi kröfur, sem og vilji til að sýna ábyrgð í umgengni um auðlindir sjávar áttu þátt í ákvarðanatökunni. Við fylgdum henni eftir með aukinni áherslu á hagnýtar rannsóknir og þróunarvinnu með það að markmiði að auka verðmæti. Stórt skref í þeirri vegferð var stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Margvísleg samstarfsverkefni voru unnin til að sækja fram í þágu heildarinnar, þannig að útkoma einstakra verkefna gæti átt þátt í að bæta hag allra landsmanna.

Stöðug gæði skila verðmætari viðskiptum

Með hliðsjón af útflutningsverðmætum þess sem aflaðist á hverju ári má segja að það hafi tekist giska hratt að auka verðmæti sjávarfangs, með rannsóknum styrktum af AVS, eftir að ákvörðunin var tekin. Verðmætin ríflega tvöfölduðust frá 2003 fram til 2011, í erlendum myntum, þó lítið hafi þokast í þá átt á allra síðustu árum. 

Miðað við nálgun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna til að meta verðþróun í alþjóðlegum viðskiptum með sjávarafurðir (FAO Fish Price Index) jókst verðmæti íslensks sjávarfangs hraðar en gerðist og gekk. Verðmætasköpunin hefur áhrif á rekstur og rekstrarniðurstöður fyrirtækja í virðisneti sjávarútvegsins þ.m.t. framlegð sjávarútvegsfyrirtækja.

Hvað svo sem veldur því að þróun verðmætasköpunar í sjávarútvegi hér á landi var ekki með sama hætti á þessum áratug og þeim sem á undan leið þá er brýnt að við tökum upp þráðinn og höldum áfram að þróa sjávarútveg með aukna verðmætasköpun að markmiði. Rétt er að taka fram að framangreindur mælikvarði er ekki eini hreini sannleikurinn sem segir hver sé staða sjávarútvegs á Íslandi, t.a.m. birtist aukin afkastageta hvers hlekks í virðiskeðju sjávarfangs ekki með beinum hætti í mælikvarðanum útflutningsverðmæti hvers aflaðs kílós af sjávarfangi. Aflasamsetning sem og heildarafli hafa sannarlega áhrif á framangreindan mælikvarða sem og það hvernig afli er höndlaður uns sjávarfang er selt úr landi, s.s. hvort siglt er með afla til löndunar í erlendri höfn, fiskur heilfrystur um borð, flakaður, flattur eða bræddur, svo eitthvað sé nefnt.  

Til að stuðla að verðmætasköpun til framtíðar í íslenskum sjávarútvegi þurfa Íslendingar að halda stöðu sinni með því að herða róðurinn, slá hvergi af gæðakröfum, jafnvel leggja meira upp úr vöruvöndun og viðbrögðum við óskum neytenda en gert hefur verið að undanförnu. Stöðug gæði geta gert verðmætari viðskipti möguleg.

Fyrir um ári síðan var hvatt til þess á Sjávarútvegsráðstefnunni að stefna að fimmföldun  þeirra verðmæta sem við vinnum úr sjávarfangi. Því miður hefur umræða um það markmið ekki undið uppá sig á spjallsvæðum nútímans.

Fjárfesting í rannsóknum skilar sér

Árið 1918 vógu útfluttar sjávarafurðir 29 þúsund tonnum sem nam um 29% af lönduðum afla. Til samanburðar fluttu Íslendingar árið 2017 út 609 þúsund tonn af sjávarafurðum sem nam tæpum 52% af lönduðum afla.

Aukin verðmætasköpun getur leitt til velsældar. Reynslan sýnir að fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun skiptir máli fyrir þróun atvinnugreina. Umgjörðin um nýsköpunina verður að vera fær um að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar. Stöðugt og til langs tíma. Það veit á gott að einstök fyrirtæki séu nægjanlega burðug til að greiða góð laun fyrir vel menntað og gott fólk með reynslu en það getur komið niður á heildinni að ekki sé unnið markvisst að því að lyfta gólfinu. Það kann að koma í bakið á okkur Íslendingum ef frumkvöðlar og smærri fyrirtæki hafa ekki aðgang að hæfum, menntuðum og reyndum sérfræðingum.

AVS var lykilsjóður sem skapaði andrúmslofti hvar mikið kapp var lagt í að auka verðmæti sjávarfangs, en sá sjóður virðist vera að fjara út. Fjárheimildir hans stefna í að verða um 40% af því sem var þegar mest var árið 2011 og ríkisframlagið á næsta ári til AVS verður undir helmingi ársins 2011. AVS skipti sköpum fyrir vel flest ef ekki öll þau fyrirtæki sem hvað mest hefur borið á í tengslum við breytta ímynd sjávarútvegsins, rétt eins og þau verkefni sem unnin hafa verið í samstarfi við hefðbundnari sjávarútvegsfyrirtæki.

Styrkir AVS eru um 4% af veltu Matís, styrkir sjóða Vísinda- og Tækniráðs, í umsjón Rannís, eru um 9% af veltu Matís. Aðrar tekjur en þjónustusamningur Matís um matvælarannsóknir við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, eins og rannsóknastyrkir, standa að mestu leiti (72%) undir þeirri nýsköpun sem Matís innir af hendi.

Árið 2015 bókfærði Matís tekjur vegna verkefna í tengslum við evrópskt rannsóknasamstarf að fjárhæð 215 milljónir króna og þá var ríkisframlag til AVS 217 milljónir króna. Síðan þá hefur Matís aflað meira á þessum evrópsku miðum en lagt hefur verið í AVS.

Þráðurinn verði tekinn upp að nýju

Margt hefur áunnist á undangenginni öld en við þurfum að hafa okkur öll við til þess að geta státað okkur af því að starfa í samkeppnishæfri atvinnugrein til framtíðar. Sorgin í sjávarútvegi dagsins í dag er sú að við virðumst hafa horfið frá hinu víðtæka samstarfi og hinum einlæga ásetningi sem tókst um það að auka verðmætasköpun við veiðar, vinnslu og sölu sjávarfangs. Vissulega verða til verðmæti við sölu þekkingar eða búnaðar sem þróaður hefur verið með þekkingu á eðli og inntaki íslensk sjávarútvegs í samstarfi sem oft á tíðum hefur verið stutt af innlendum rannsókna- og þróunarsjóðum.

Ég vonast til að við berum gæfu til að fylgja eftir ákvörðunum sem bera árangur inn í framtíðina, innleiða þær í daglegt atvinnulíf til að stuðla að bættum hag okkar allra, en hætta ekki í miðju kafi.

Grein þessi sem Arnljótur Bjarki Bergsson skrifaði birtist fyrst á blaðsíðum 48 og 49 í 7.-8. tölublaði 111. árgangs Ægis í tilefni af aldarafmæli fullveldisins í lok nóvember.

Fréttir

Niðurstöður erfðagreininga Matís í fréttum

Í kjölfar frétta sem birst hafa í Iceland Review og í Stundinni á undanförnum dögum, má skilja sem svo að Matís hafi staðið fyrir rannsókninni sem til umfjöllunar er.

Í viðkomandi máli kemur Matís einvörðungu að því að erfðagreina sýni fyrir viðskiptavin, en viðskiptavinurinn stóð að öðru leyti sjálfur að rannsókninni. Matís er fyrirtæki sem selur ýmiskonar þjónustu og ráðgjöf á sviði matvælaframleiðslu, erfðafræði, líftækni sjávarútvegs og landbúnaðar, auk þess að stunda margvísleg matvælatengd rannsóknarverkefni. Þeir sem kaupa mælingar eða greiningar af Matís eru eigendur niðurstaðnanna og það er undir þeim komið sem þjónustuna kaupa hvað þeir gera með niðurstöðurnar, hvort svo sem þjónustan er á formi efnamælinga, erfðagreininga eða örverumælinga svo dæmi séu tekin.

Matís sinnir ekki eftirliti, þó eftirlitsaðilar s.s. Matvælastofnun, Hafrannsóknarstofnun eða heilbrigðiseftirlit kaupi þjónustu af Matís.

Innan fyrirtækisins Matís er öflugt vísinda og þekkingarsamfélag sem byggir á sterkum rannsóknainnviðum og samstarfi til þess að hámarka áhrif fjárfestinga í rannsóknum og nýsköpun, þannig getur Matís aðstoðað viðskiptavini sína við að auka verðmætasköpun, matvælaöryggi og lýðheilsu.

Fréttir

Norrænt samstarf um fiskimjöl og lýsi

Í ljósi sívaxandi próteinþarfar á heimsvísu hefur orðið til mikil þörf á aukinni þekkingu á gæðaeiginleikum fiskimjöls og lýsi fyrir dýrafóður til að hægt að sé auka verðmæti þessara afurða. Um miðjan nóvember síðastliðinn var því haldin vinnustofa í tengslum við norræna framleiðslu á fiskmjöli og lýsi í Kaupmannahöfn.

Þátttakendur vinnustofunnar voru 75 talsins og komu víðs vegar að úr Evrópu. Hópurinn samanstóð af vísindafólki, framleiðendum, söluaðilum og viðskiptavinum sem tóku þátt í fimm vinnulotum þar sem ákveðnir þættir framleiðslunnar voru skoðaðir sérstaklega.

Norðurlöndin tóku nýverið höndum saman og settu á laggirnar svokallað norrænt gæðaráð fyrir fiskimjöl og olíu, e. Nordic Centre of Excellence in Fishmeal and –oil sem hefur það að marki að styrkja norrænt samstarf og auka þekkingu á gæðaeiginleikum fiskimjöls og lýsis. Ætlunin er að koma norrænni framleiðslu á fiskimjöli og lýsi í fremstu röð og tryggja þannig framboð af öruggu og gæða fiskimjöli og lýsi til fóður- og fæðugerðar.

Nordic Centre of Excellence Network sá um skipulagningu og EUfishmeal sá um að hýsa viðburðinn og tók Matís virkan þátt í viðburðinum. 

Fréttir

Eru vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi raunhæfur kostur?

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Veiðar á beitukóngi hafa verið stundaðar hér á landi um langt skeið og verið nýttur bæði í beitu og til manneldis. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar frá 1772 er greint frá því að beitukóngur hafi þótt mikill herramansmatur meðal íbúa í Breiðafirði. Það var hins vegar ekki fyrr en 1996 sem beitukóngsveiðar og vinnsla til útflutnings hófst fyrir alvöru hér á landi, en fyrirtækið Sægarpur á Grundarfirði ruddi þar veginn. Frá þeim tíma hefur veiðin hér við land verið nokkuð misjöfn milli ára, en þar hafa markaðsaðstæður haft mest áhrif. Veiðarnar hafa nær eingöngu verið stundaðar í Breiðafirði og það eru aðallega tvö fyrirtæki sem hafa stundað veiðar og vinnslu af krafti þ.e. Sægarpur á Grundarfirði og Royal Iceland í Reykjanesbæ. Rekstur Sægarps fór í þrot árið 2013 og síðan hefur Royal Iceland verið eitt um að sinna þessum veiðum.

Heimsafli beitukóngs hefur verið um 30-35 þúsund tonn á ári, þar sem Bretland og Frakkland eru stærstu veðiþjóðirnar. Ágætir markaðir eru fyrir beitukóng víða í mið- og suður Evrópu, sem og víðsvegar í Asíu. Íslenska framleiðslan hefur þó að lang mestu farið á markaði í Asíu s.s. Kína, Kóreu og Japan.

Þekkt er að á ákveðnum markaðssvæðum er töluverð eftirspurn eftir lifandi beitukóngi og í sumum tilvikum er greitt hærra verð fyrir slíka vöru. Aðstandendur Sægarps á Grundarfirði ákváðu því að kanna hvort veiðar, vinnsla og útflutningur á lifandi beitukóngi væri raunhæfur kostur. Þeir fengu því Matís með sér í lið og með dyggum stuðningi frá AVS sjóðnum var farið í umfangsmiklar rannsóknir og tilraunastarfsemi.

Framkvæmdar voru tilraunir með mismunandi aflameðferð um borð í veiðiskipi og geymslu eða flutning, sem gaf vísbendingar um að með réttri meðhöndlun og frágangi væri hægt að halda beitukóngi á lífi í u.þ.b. viku. stefnt hafði þó verið að því að tryggja a.m.k. 10 daga lifun til að það teldist raunhæft að ætla sér að flytja út lifandi beitukóng. Niðurstöður tilraunanna sýndu hins vegar að þegar meira en vika var liðin frá veiði dró hratt úr lifun og kjötið var orðið óhæft til neyslu á tíunda degi. Mögulega væri hægt að þróa þessa ferla betur til að tryggja betri lifun, en miðað við þessar niðurstöður er geymsluþolið ekki nægjanlega langt til að þetta geti talist álitlegur kostur að sinni.

Einnig voru gerðar tilraunir til að halda beitukóngi lifandi í hringrásarkerfi í fiskikeri. Markmiðið með þeim tilraunum var að kanna hvort hægt væri að geyma lifandi beitukóng á „lager“ fyrir vinnslu í landi. Útbúið var hringrásarkerfi með síubúnaði sem dugði til að hald lífi í beitukóngi í viku. Ekki er ólíklegt að hægt sé að lengja þann tíma með öflugri síubúnaði en notaður var í þessum tilraunum. Þessar niðurstöður verða að teljast jákvæðar og til þess fallnar að þær gætu verið teknar upp hjá fyrirtækjum sem standa að vinnslu á beitukóngi.
Markaðir fyrir lifandi beitukóng voru einnig skoðaðir, en segja má að sú könnun hafi endanlega fært heim sanninn um að útflutningur á lifandi beitukóngi væri ekki raunhæfur kostur. Það sé einfaldlega betri kostur að vinna beitukónginn hér heima. Breytist markaðsaðstæður hins vegar er ekki loku fyrir það skotið að hægt sé að bæta ferla svo að slíkur útflutningur verði mögulegur.

Lokaskýrsla þessa verkefnis er nú aðgengileg hér.

Fréttir

Nýbylgju bragð – um nýjar leiðir til þróunar og vinnslu á bragðefnum úr þörungum

Tengiliður

Rósa Jónsdóttir

Fagstjóri

rosa.jonsdottir@matis.is

Nú nýlega fór af stað virkilega áhugavert verkefni hjá Matís í samstarfi við Háskóla Íslands, verkefni sem hefur fengið nafnið Nýbylgju bragð. Markmið verkefnisins er að þróa verðmæt heilsusamleg bragðefni úr stórþörungum sem geta komið í stað salts og nýtt sem bragðbætandi einingar þ.e. efni/efnasambönd eða náttúrulegar blöndur þess. Einstakir eiginleikar bragðefnanna verða nýttir til að þróa saltminni og bragðmeiri matvæli.

Væntingar eru um að bragðefnin verði nýtt til að minnka notkun á salti í mat og einnig sem bragðbætandi innihaldsefni fyrir matvæli. Þrívíddar (3D) matvælaprentari verður notaður til að þróa nýjar heilsusamlegar vörur með lágt saltinnihald, flott útlit og gott bragð.

Verkefnið er hluti af meistaraverkefni í Matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands.

Þess má geta að verkefnið byggir á fyrri verkefnum sem unnin hafa verið hjá Matís; innlendum, norrænum og evrópskum verkefnum.

Verkefnið er styrkt af AVS.

Fréttir

Fréttatilkynning stjórnar Matís

Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, hefur látið af störfum eftir 8 ára starf. Matís er öflugt félag með sterkan mannauð. Stjórn Matís þakkar Sveini fyrir hans framlag til félagsins. Undir hans stjórn og með aðkomu öflugs starfsfólks, hugviti þeirra og þekkingu, hefur Matís vaxið.

Oddur Már Gunnarsson er starfandi forstjóri frá og með deginum í dag. Frekari upplýsingar veitir Sjöfn Sigurgísladóttir, stjórnarformaður Matís.

Fréttir

Eru smáþörungar og stórþörungar framtíðin?

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Miðvikudaginn 12. desember 2018 verður Dr. Ira Levine, forseti Algae Foundation og prófessor við University of Southern Maine með kynningu á þörungum og þörungaræktun.

Eitt af markmiðum heimsóknar Dr. Ira Levine til Íslands er að koma á tengslum milli aðila í þörungarræktun í Maine og Íslandi. Algae Foundation býður upp á frítt kennsluefni sem hann mun kynna sem og miðla af reynslu sinni. Haldnir verða tveir fyrirlestrar, annar með áherslu á stórþörunga og hinn á smáþörunga.

Nánari upplýsinar um viðburðinn má finna hér.

Fréttir

Plastmengun er raunveruleg ógn við lífríki jarðarinnar

Nú rétt í þessu lauk mögnuðum þætti í fréttaskýringaþættinum Kveik sem sýndur er á RÚV á þriðjudagskvöldum. Að þessu sinni var fjallað um plast, bæði örplast og plast sem til að mynda fuglar og önnur dýr hafa étið.

Augu ráðamanna víðs vegar um heiminn hafa verið að opnast hvað varðar ógnina sem okkur stafar af plasti. Til að mynda stefnir Evrópusambandið á stórátak í þessum málum og ljóst þykir að næstu rannsóknaáætlanir, þá sérstaklega sú sem hefst 2021, muni taka mið af þessum áherslum.

Það fór sjálfsagt ekki framhjá neinum hversu mikið áfall það var fyrir Sigríði Halldórsdóttur hjá RÚV að sjá niðurstöður rannsókna Matís á vatni frá þvottavélum, vatni sem fer beinustu leiði niður í niðurföllin hjá okkur og út í sjó. Matís hefur verið öflugur þátttakandi í rannsóknum og umfjöllun um þessi mál undanfarin ár og hefur fyrirtækið, ásamt samstarfsaðilum, beitt sér fyrir því að málefni plastmengunar, þá sérstaklega örplasts, fái aukið vægi.

Matís hefur byggt upp öfluga innviði og þekkingu til rannsókna á plasti í umhverfinu, tekið þátt í rannsóknaverkefnum á plasti, er þátttakandi í samráðsvettvangi stjórnvalda um aðgerðaráætlun í plastmálefnum og mun leiða verkefni innan formenskuáætlunar Íslands í Norrænu ráðherranefndinni 2019-2021 en það verkefni mun fjalla um að byggja upp grunn til að stunda rannsóknir og vöktun á plasti, svo fátt eitt sé nefnt.

Plastmengun er raunveruleg ógn við lífríki sjávar. Við Íslendingar eigum mikið undir lífríki sjávar enda hefur sjávarútvegur verið okkar helsta atvinnugrein undanfarna áratugi. Það er því mikilvægt að þekking sem til staðar er sé nýtt til hins ýtrasta til að vinna gegn þeirri miklu vá sem plastmengun í sjó er. Ætlum við okkur að nýta auðlindir hafsins með þeim hætti sem verið hefur og jafnvel betur? Til þess að það sé hægt þarf að stunda rannsóknir á öllum þáttum virðiskeðju sjávarafurða, frá lífríki hafsins til veiða og vinnslu og á borð neytenda og svo það sem fellur til frá fiskvinnslum.

Hér byggir Matís á góðum grunni enda hefur fyrirtækið og forveri þess (Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins) unnið þrekvirki ásamt samstarfsaðilum í greininni, í því að auka virði sjávarfangs með sjálfbærum hætti.

Oft var þörf en nú er nauðsyn að taka höndum saman og beita vísindunum til þess að koma í veg fyrir að lífríki sjávarins í kringum Ísland beri varanlegan skaða af. Við þurfum að rannsaka stöðuna, meta hættuna sem til staðar er og sjá jákvæðu tækifærin sem til staðar eru ef við stígum öflugt skref fram á við.

Áfram gakk!

Fréttir

Aukin þekking á loðnu og dreifingu hennar

Tengiliður

Guðbjörg Ólafsdóttir

Sérfræðingur

gudbjorg.olafsdottir@matis.is

Nýtt verkefni er nú rétt nýhafið hjá Hafrannsóknastofnun og Matís. Verkefnið nefnist eCAP og snýr að því að rekja loðnu með umhverfis erfðagreininum (eDNA).

eCAP miðar að því að nota DNA sem finnst í umhverfinu (hafinu) til að finna og rekja loðnu til að auka þekkingu á breyttri dreifingu hennar og til að bæta stofnstærðarmat og fiskveiðar á íslenskum hafsvæðum. Það mun gagnast íslenskum sjávarútvegi, veita nýjar og betri aðferðir við mat á stofnstærð og hjálpa til við að meta heildar leyfilegan afla. Einnig mun eCAP leiða til minni kolefnislosunar hjá íslenska flotanum þar sem reikna má með því að sigla þurfi minna í leit að loðnunni, ef markmið verkefnisins nást.  

Hafrannsóknastofnun, Rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, stýrir verkefninu.

Verkefnið er styrkt af Tækniþróunarsjóði.

IS