Fréttir

Töluverð umfjöllun um stöðu íslenskra bænda

Tengiliður

Óli Þór Hilmarsson

Verkefnastjóri

oli.th.hilmarsson@matis.is

Undanfarið hefur verið töluverð umfjöllun um stöðu íslenskra bænda, þá sérstaklega sauðfjárbænda, og var til dæmis mjög góð frétt á RÚV fyrr í vikunni. Lágt afurðaverð og erfitt rekstrarumhverfi gerir það að verkum að margir bændur ná ekki endum saman með því fyrirkomulagi sem nú er við lýði hér á landi.

Í þessu ljósi er mikilvægt að líta til þess hvað bændastéttin sjálf getur gert og ekki síður hvað íslensk stjórnvöld geta gert til þess að bændur hafi betri tækifæri til að stunda sinn rekstur með ábátasömum og sjálfbærum hætti. Ýmislegt er hægt að gera, sem ekki þarf að kosta íslenska ríkið nokkuð, og má þar nefna fyrst breytingar á íslensku laga- og reglugerðaumhverfi.

Bændur hafa lengi kallað eftir rýmri reglum er snúa að heimaslátrun og vinnslu verðmætra afurða heima á býli. Heimaslátrun er leyfði í dag en ekki er heimilt að selja eða dreifa afurðum af þeim dýrum sem slátrað hefur verið heima. Nýtt hugtak, örslátrun, er heimaslátrun sem er tiltölulega lítil í umfangi, en heimilt er að selja og dreifa verðmætum afurðum til almennings. Slíkt mun skapa heilmikla tekjumöguleika fyrir bændur, ekki síst fyrir þær sakir að ferðamenn sem sækja Ísland heim hafa mikinn áhuga á því að kaupa afurðir milliliðalaust af bændum. Til þess að breytingar á lögum og reglum sem heimila slíkt geti átt sér stað er mjög mikilvægt að áhættumat sé framkvæmt. Neytandinn á alltaf að njóta vafans og því er mikilvægt að fá upplýsingar um mögulega hættu sem fylgir því að leyfa örslátrum heima á býli með dreifingu eða sölu í huga. Reyndar er það svo að slík slátrun er nú þegar leyfð til dæmis í Þýskalandi með góðum árangri.

Matís hefur í gegnum tíðina stutt við bakið á bændum í viðleitni bænda til nýsköpunar og hafa fjölmörg verkefni verið unnin með fjárstuðningi frá hinum ýmsu opinberum sjóðum.

Má þar nefna sem dæmi:

Til að tryggja gæði kjötsins:

  • Áhrif kynbóta og meðferðar fyrir og eftir slátrun á gæði lambakjöts. Í samstarfi við LBHÍ; RML og H.Í (og SLU).
  • Ráðgjöf um rétta meðhöndlun frá fjalli á borð neytenda til að tryggja að gæði kjötsins.

Vöruþróun og aukin verðmæti kindakjöts:

  • Þróun á hráum og gerjuðum pylsum úr kindakjöti
  • Ráðgjöf fyrir Markaðsráð kindakjöts
  • Vöruþróun sem liður í nýsköpun norræna lífhagkerfisins
  • Aðkoma að uppbyggingu handverksláturhúss að Seglbúðum

Fræðsla og starfsþjálfun

Kjötbókin – www.kjotbokin.is Matís fræðsla á netinu – matis.online/

  • Heimavinnsla kindakjöts. Allur pakkinn

Sjö afmörkuð námskeið:

  • Örverur í kjöti
  • Slátrun og kjötmat
  • Sögun, úrbeining og marinering
  • Söltun og reyking
  • Hráverkun og pylsugerð
  • Umbúðamerkingar matvæla og pökkun
  • Leyfismál, gæðahandbók, innra eftirlit og stofnun fyrirtækja

Kennsla við LBHÍ

  • Búvísindadeild – Gæði og vinnsla búfjárafurða
  • Bændadeild – Heimavinnsla

Til að tryggja öryggi neytenda

  • Rannsókn á magni Fjölhringa kolvetnasambanda (PAH) í hefðbundnu reyktu hangikjöti

Magn og áhrif vinnsluþátta á magn fjölhringa kolvetnasambanda (PAHs) var rannsakað.  Mæliaðferð var breytt svo hún varð áreiðanlegri, fljótlegri og hagkvæmari. Styrkur benzo[a]pyrene (BaP) and ∑PAH4 í sneiðum af hangikjötslærum var í öllum tilvikum undir hámarksgildum í reglugerð Evrópusambandsins (EU) 835/2011. Engin munur var í styrk PAHs í hangikjöt úr kjötvinnslum og frá smáframleiðendum. Hægt er að minnka áhættuna á að komast í snertingu við PAH efni í hangikjöti með því reykja í stuttan tíma, skera yfirborð kjötsins frá fyrir neyslu og með því að sía reykinn með grisju. Samsetning reykgjafa og reykaðferð hafði mest áhrif á breytileikann í styrk PAH efna í hangikjöti.

Matarlandslagið

Matís vinnur nú að verkefni sem felst í kortlagningu á matarlandslagi Íslands á veflægu formi. Í því felst að unnin er heildarskrá yfir frumframleiðslu á Íslandi og mun kallast Matarlandslagið á íslensku en EatIceland á ensku. Skráin mun sýna fjölda frumframleiðenda og dreifingu þeirra um landið myndrænt á vefnum og hægt verður að flokka þá eftir ýmsum breytum og skoða frekari upplýsingar um hvern þeirra. Matarlandslagsvefurinn fer í loftið fljótlega. 

Stefnumót hönnuða og bænda

Stefnumót hönnuða og bænda var nýsköpunarverkefni Listaháskóla Íslands, í samstarfi m.a. við Matís, þar sem vöruhönnuðum og bændum var teflt saman með það að markmiði að þróa matarafurðir í hæsta gæðaflokki.

Rannsóknarverkefnið byggðist á þverfaglegri samvinnu þar sem hönnunarteymið og býlið vinna með sérfræðingum Matís, matreiðslumeisturum og Innovit. Í ferlinu er mikið lagt upp úr því að skapa vörunni sterka sérstöðu og heildarupplifun.

Stefnumót hönnuða og bænda

Og fleira

Ítarefni um landbúnaðartengd verkefni unnin í samstarfi við Matís

Fréttir

Bygg er sérstakt

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Bygg er forn korntegund sem hentar til ræktunar á norðlægum slóðum. Byggið býður upp á aukna sjálfbærni í landbúnaði og matvælaframleiðslu. 

Neytendur og ekki síst ferðamenn sækjast eftir vörum úr héraði, uppruninn og sagan skiptamáli. Matvælaframleiðendur leita að sérstöðu, vörum sem skera sig úr fjöldanum. Byggið getur þjónað þessum tilgangi. 

Meira um bygg á norðlægum slóðum.

Fréttir

Kanna hagkvæmni vinnslu á lýsi um borð

Í Matís er unnið að verkefninu „Sjóvinnsla á þorskalýsi”. Markmið verkefnisins er að kanna hagvæmni þess að vinna lifur í hágæða þorskalýsi beint eftir vinnslu um borð.

Forskot þessarar vinnslu samanborið við landvinnslu er sá að hráefnið gæti ekki verið ferskara en beint eftir veiðar, á móti landvinnslunni sem þarf oftar en ekki að vinna með 3-4 daga gamalt hráefni. Þetta gæti einnig gert frysti- og ískfisktogurum kleift að fá hærra verð fyrir lifrina. 

Verkefnið stendur yfir í júní – september 2018 og er styrkt af AVS.

Fréttir

Finnast sníkjudýr í öllum innfluttum hundum og köttum á Íslandi?

Ný grein var  að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural SciencesÞar kemur fram að sníkjudýr hafi verið staðfest í innfluttum hundum og köttum á Íslandi á árunum 1989 – 2017.

Innflutningsbanni á hundum var aflétt 1989 og síðan er innflutningur á hundum og köttum leyfður að uppfylltum skilyrðum um heilbrigði og einangrun í ákveðinn tíma. Frá 1989 fram til ársloka 2017 voru 3822 hundar og 900 kettir fluttir til landsins.

Dýrin hafa komið frá 67 löndum í öllum heimsálfum. Leit að innsníklum leiddi í ljós eina eða fleiri tegundir sníkjudýra í 10,6% hunda og 4,2% katta, óværa hefur fundist við komuna til landsins á 0,2% hunda og 0,2% katta. Alls hafa 18 tegundir innri sníkjudýra og sex tegundir óværu fundist í eða á innfluttum gæludýrum. Talið er að sex þeirra (þráðormur og fimm óværutegundir) hafi borist yfir í innlenda hunda eða ketti með gæludýrum sem enn voru smituð þegar einangrunarvist lauk. Tvær eða þrjár tegundanna virðast hafa náð fótfestu á Íslandi en talið er að tekist hafi að útrýma þremur þeirra.

Fréttir

Bændamarkaðurinn á Sveitasælunni 18. ágúst

Tengiliður

Rakel Halldórsdóttir

Sérfræðingur

rakel@matis.is

Boðið verður upp á fjölbreytt úrval úr matarkistu Skagafjarðar svo sem kornhænuegg, hunang, hákarl, kryddjurtir, pestó og nýsprottið útiræktað grænmeti auk alls konar fisk- og kjötmetis svo eitthvað sé nefnt. 

Bændamarkaðurinn sem hefur verið í Pakkhúsinu á Hofsósi í sumar, verður á stórsamkomunni Sveitasælunni í reiðhöllinni Svaðastöðum í Skagafirði frá kl. 10–17 laugardaginn 18. ágúst.  

Verkefnið er tilraunaverkefni á vegum Matís, í samvinnu við bændur og framleiðendur í Skagafirði. Sveitasælan er landbúnaðarsýning og bændahátíð og segir Rakel Halldórsdóttir, ráðgjafi hjá Matís sem kom bændamarkaðinum á fót í sumar.

Dagskráin verður hin glæsilegasta og allir ættu að finna eitthvað við hæfi. Þar má nefna húsdýragarð, Leikhópinn Lottu, Gunna og Felix, Hvolpasveitina, heitjárningar, smalahundasýning, kálfasýning, hrútadómar/hrútaþukl, og véla og fyrirtækjasýning, að ógleymdum Bændamarkaðnum sem vakið hefur athygli víða.           

Veitingasala verður á vegum Kiwanisklúbbsins Freyju, en allur ágóði rennur til góðra málefna í heimabyggð.

Allir eru velkomnir og er aðgangur ókeypis!

Fréttir

Á meðal helstu frumkvöðla og brautryðjenda í Evrópu í sjálfbærri þróun

Verkefnið Metamorphosis er tilnefnt til EIT Innovators Awards 2018

Nýverið tilkynnti EIT (The European Institute og Innovation and Technology) þau verkefni og einstaklinga sem hlutu tilnefningu í ár til EIT verðlaunanna. Þar er horft sérstaklega til verkefna sem stuðla að nýsköpun með nýstárlegum vörum, verkefnum og þjónustu þar sem tekist er á við alþjóðlegar áskoranir eins og loftlagsmál, orkumál, matvæli og heilsu. Á meðal tilnefninga í ár er verkefnið Metamorphosis sem Birgir Örn Smárason hjá Matís leiðir.

Í verkefninu Metamorphosis er unnið að því að breyta lífrænum úrgangi í verðmætt hráefni til að nýta í fiskeldisfóður. Skortur á próteinríku fóðri hefur kallað eftir nýjum lausnum til að mæta vaxandi eftirspurn iðnaðarins. Yfir helmingur allra fisktegunda er nú ræktaður með fiskeldi og er líklegt að framleiðslan muni tvöfaldast á næstu 15 árum. Rannsóknir hafa sýnt að skordýr henta mjög vel í fóðurframleiðslu fyrir fisk, en margar skordýrategundir hafa þann eiginleika að geta breytt lífrænum úrgangi í fæðu sem er rík af fitum og próteinum. Verkefnið skoðar sérstaklega þróun á nýju fóðurhráefni sem unnið er úr skordýrum sem hægt væri að nýta til að bregðast við auknum próteinskorti í Evrópu með sjálfbærum hætti.


Verðlaunaafhendingin fer fram í Búdapest þann fjórða október næstkomandi á hinu árlega fumkvöðlamálþingi EIT, INNOVEIT . Tilnefningarnar eru alls 41 og samanstanda þær af helstu frumkvöðlum og brautryðjendum í Evrópu í sjálfbærri þróun.


Hér má sjá lista yfir allar tilnefningarnar í ár.

Fréttir

Rannsóknir í Surtsey

Tengiliður

Viggó Marteinsson

Fagstjóri

viggo@matis.is

Breytingar á nýju eldfjalli hafa ekki verið rannsakaðar annarstaðar í heiminum en í Surtsey. Þátttaka Matís í samstarfinu hverfist um rannsókn á landnámi lífvera einkum örvera.

Vísindamenn Matís voru í hópi vísindafólks sem fór í seinni leiðangurinn af tveimur í Surtsey sumarið 2018, og er nú unnið úr niðurstöðum en gögnin nýtast til margvíslegra rannsókna.

Í leiðangrinum var m.a. skoðað hvernig samfélag örvera verður til og þróast í berginu langt undir yfirborði jarðar við háan hita allt, eða að 80 gráðum.

Í þetta skiptið fóru vísindamenn frá NáttúrufræðistofnunLandbúnaðarháskólanum , Jarðvísindastofnun, Matís og ÍSOR auk meistara- og doktorsnema, tveggja erlendra vísindamanna og ljósmyndara.

Friðlandið Surtsey var samþykkt á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna árið 2008. Mikið er lagt upp úr því að raska ekki lífríki Surtseyjar við rannsóknirnar. Allir aðilar sem að verkefninu koma hafa fengið nákvæmar leiðbeiningar varðandi undirbúning og þær aðstæður sem þar eru til að tryggja lágmarks rask í aðdraganda þess að þeim var leyft að stíga í land í Surtsey.

Fréttir

Jákvæð áhrif þangextrakts í matvæli og húðkrem

Tengiliður

Kolbrún Sveinsdóttir

Verkefnastjóri

kolbrun.sveinsdottir@matis.is

Þriggja ára norrænu verkefni um lífvirkni bóluþangs sem styrkt var af Nordic Innovation er að ljúka um þessar mundir. Verkefninu (Seaweed bioactive ingredients with verified in-vivo bioactivities) var stýrt af Matís og unnið í samvinnu við rannsóknastofnunina VTT í Finnlandi, Háskóla Íslands, Háskólanum í Kristianstad og fyrirtækin Marinox (framleiðandi extrakts úr bóluþangi), FinnSnack (framleiðandi rúgvara), Pharmia (þróun og framleiðsla fæðubótaefna) og UNA skincare (framleiðandi húðvara).

Aðdragandi verkefnisins var að fyrirtækið Marinox hafði þróað nýjar aðferðir til að framleiða extrakt úr bóluþangi (Fucus vesiculosus), með mikla lífvirkni samkvæmt prófunum í tilraunaglösum (in-vitro). Þetta skapaði tækifæri innan matvæla og snyrtivöruiðnaðar, en fyrst þurfti að staðfesta lífvirknina með frekari prófunun, þ.e.a.s. hvort þangextraktið hefði mælanleg áhrif á heilsu manna. Í verkefninu var því lögð áhersla á að rannsaka áhrif þess að taka inn þangextraktið og nota húðkrem sem inniheldur þangextrakt. Vörur sem innihalda þangextraktið voru þróaðar og prófaðar innan verkefnisins, og viðbrögð neytenda við þangextrakti og notkun þess sem fæðubótaefni og sem innihaldsefni í matvörum voru rannsökuð.  

Niðurstöður prófana sýndu fram á jákvæð áhrif þess að nota þangextraktið og í heildina má segja að þangextraktið hafi góða möguleika sem fæðubótaefni, sem innihaldsefni í matvæli og húðkrem. Markaðsrannsókn sem framkvæmd var innan verkefnisins veitti einnig frekari innsýn í markaðsþróun og markaðstækifæri fyrir þang, og sem ásamt öðrum niðurstöðum verkefnisins, mun styðja fyrirtækin innan verkefnisins í þeirra næstu skrefum.

Sjá nánar myndband

Fréttir

Matís mjög virkt í fiskveiðirannsóknum

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Mikilvægt er að ný þekking sé hagnýtt svo auka megi verðmæti og hagkvæmni. Í kjölfar mikillar rannsókna og þróunarvinnu er þýðingarmikið að fara yfir þau atriði sem standa upp úr og vinna að innleiðingu nýrrar þekkingar í verklag fyrirtækja sem og annarra hagaðila það á við um sjávarútveg eins aðra þætti atvinnulífsins. Í þeim anda var sérstaklega rætt um sjálfbærni, nýtingu, nýsköpun við fiskveiðistjórnun sem og félagsleg og efnahagsleg áhrif sjávarútvegs í ljósi rannsókna og þróunarverkefna sem eru í vinnslu og hafa verið unnin með stuðningi Rannsóknaáætlana Evrópu.

Í gegnum árin hafa rammaáætlanir Evrópu um rannsóknir og nýsköpun fjármagnað nokkurn fjölda rannsóknarverkefna er snúa sérstaklega að fiskveiðum og fiskveiðistjórnun á sviði sjávarútvegs (e. fisheries topics). Þann 23. mars síðastliðinn var þeim verkefnum sem falla undir þann hatt innan Sjöundu rammaáætlunar (FP7) og Horizon 2020 (H2020) boðið til vinnufundar í Brussel, þar sem markmiðið var að kynna verkefnin fyrir hinum ýmsu einingum innan stjórnkerfis Evrópusambandsins á sviði rannsókna og nýsköpunar og ræða hverjar áherslur slíkra verkefna ættu að vera í framtíðinni. Stjórnendur frá EMFF (European Maritime and Fisheries Fund) kynntu einnig þau verkefni sem sá sjóður hefur styrkt á síðustu árum.

Alls voru 14 FP7 og H2020  verkefnum boðið á fundinn þ.e. EcoKnowsEcoFishManFACTSMy FishBENTHISMareFrameDiscardLessMINOUWClimeFishCERESFarFishSmartFishSYMBIOSIS og SAF21. Virkni Matís á þessum vettvangi hefur vakið athylgi víða. Matís stýrir þrem þessara verkefna (EcoFishManMareFrame og FarFish) og er meðal lykilþátttakenda í þrem öðrum (DiscardLess, ClimeFish og SAF21). Fyrir hönd Matís sóttu þau Anna Kristín Daníelsdóttir, Oddur Már Gunnarsson og Jónas R. Viðarsson fundinn.

Að kynningum og umræðum loknum var fundargestum skipt upp í fjóra vinnuhópa þar sem fjallað var um afmarkaðar rannsóknaráherslur, helstu áskoranir og tækifæri, sem og ráðleggingar um hverskonar rannsóknar og nýsköpunar verkefni ætti að styrkja í nánustu framtíð. Hóparnir fjórir ræddu um fullnýtingu (zero waste), félagsleg og efnahagsleg áhrif fiskveiða (social and economic aspects of fisheries), nýsköpun í fiskveiðistjórnun (innovation in fisheries management) og sjálfbærar fiskveiðar (sustainable fisheries). Jónasi R. Viðarssyni hjá Matís hlotnaðist sá heiður að leiða hópinn sem fjallaði um fullnýtingu í sjávarútvegi.

Frekari upplýsingar veita Jónas R. Viðarsson  jonas@matis.is og Anna K. Daníelsdóttir  annak@matis.is

Fréttir

Draga á úr notkun plasts

Í anda almennrar stefnu umhverfis- og auðlindaráðherra um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun, stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar og áætlun umhverfisráðherra Norðurlandanna um að draga úr umhverfisáhrifum plasts var samráðsvettvangur um aðgerðaáætlun í plastmálefnum skipaður í nýliðnum júlímánuði.

Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri mæliþjónustu og rannsóknainnviða hjá Matís var skipuð eftir tilnefningu Matís í samráðsvettvanginn ásamt tilnefndum fulltrúum fjölmargra hagaðila. Hlutverk vettvangsins er að koma með tillögur um hvernig draga megi úr notkun plasts, hvernig megi bæta endurvinnslu þess og hvernig takast eigi á við plastmengun í hafi. Samráðsvettvangurinn á einnig að leggja fram tillögur um hverskonar rannsóknir og hvaða vöktun þurfi að ráðast í, varðandi plast og notkun þess, ásamt því að leggja fram tillögur varðandi stjórnvaldsaðgerðir sem gætu orðið æskilegar. Aukinheldur er samráðsvettvangnum ætlað að tæpa á því hvernig megi stuðla að nýsköpun sem leitt getur til minni plastnotkunar, s.s. með þróun á vörum sem gætu komið í stað fyrir þekktar plast vörur dagsins í dag.

Í þessu samhengi er rétt að geta þess að Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um tillögu að viðauka við hina almennu stefnu um úrgangsforvarnir, Saman gegn sóun.  Viðaukinn felur í sér m.a. mælanleg árleg markmið um hámarks magn plastumbúða á íbúa, fjölda burðarplastpoka á íbúa, fjölda drykkjarvöru umbúða á íbúa og úrgangshlutfall við fisk og kjötvinnslu.

Hrönn er með doktorsgráðu í umhverfisefnafræði og hefur unnið að og stýrt rannsóknum á óæskilegum efnum í umhverfi og matvælum. Hrönn stýrir m.a. tilvísunarrannsóknarstofu Matís og er sérfræðingur í áhættumati varðandi efnamengun í matvælum og mun Hrönn leggja til sína sérfræðiþekkingu í umhverfismálum og rannsóknum á plasti í umhverfi ásamt áhættumati inn í vinnu samráðsvettvangsins sem áætlað er að ljúki störfum fyrir 1. nóvember 2018.

IS