Gærdagurinn var að mörgu leyti áhugaverður í sögu Matís en þá var síðasti bændamarkaður á Hofsósi þetta sumarið, en markaðurinn var samstarfsverkefni bænda í Skagafirði og Matís og var verkefnið stutt fjárhagslega af Framleiðnisjóði landbúnaðarins. Auk þess var í fyrsta skipti, eftir því sem best er vitað, örslátrað kjöt selt beint til neytenda þar sem framleiðslan og viðskiptin eru að öllu leyti gagnsæ.
Afurð þessa verkefnis var, eins og fram kemur hér ofar, mjög vinsælir bændamarkaðir sem og heimasíðan, www.matarlandslagid.is en þar er bitakeðjutæknin (Blockchain) nýtt til að tryggja rekjanleika upplýsinga frá bændum til neytenda. Bitakeðjutæknin í Matarlandslaginu er samstarfsverkefni Advania og Matís.
Til þess að skoða og skilja betur þessa bitakeðjutækni þá má smella á Matarlandslagið –> uppi hægra megin, smella á „BÆNDAMARKAÐUR“ –> smella á „Opna yfirlitskort“ –> smella á „6. Birkihlíð“ vinstra megin á síðunni og á síðunni sem þá birtist má sjá grænan flipa með þessum upplýsingum.
Þegar kemur að rekjanleika og gagnsæi þá má klárlega segja að um byltingu sé að ræða hvað varðar upplýsingagjöf frá bændum til neytenda.
Heimir, Gulli og Þráinn fengu Svein Margeirsson, forstjóra Matís, í viðtal vegna þessa í Bítið á Bylgjunni og kom fram í máli Sveins að gera þarf ákveðnar breytingar á lögum til þess að bændur geti skapað aukin verðmæti, sjálfum sér og þjóðinni allri til heilla.
Vinnustofan verður haldin í hátíðarsal Háskóla Íslands 1.-2. október
Matvæla- og næringarfræðideild HÍ heldur í samstarfi við Matís og Hafrannsóknastofnun vinnustofu um hagnýtingu átu og mesópelagískra tegunda í Hátíðarsal Háskóla Íslands dagana 1.-2. október. Vinnustofunni er ætlað að fara yfir stöðu þekkingar á rauðátu, ljósátu og miðsjávarfiskum með tilliti til framtíðarnýtingar.
Megináhersla verður lögð á þær áskoranir sem fylgja mögulegri nýtingu á rauðátu, ljósátu og miðsjávarfiskum og hvernig hægt sé að mæta þeim áskorunum.
Fulltrúar frá vísindasamfélaginu og iðnaðnum mæta ásamt fulltrúum rannsóknarsjóða og kynnt verður hvernig sjóðirnir geta komið að því að leysa þessar áskoranir í samstarfi við þá.
Sala afurða beint frá býli fer vaxandi. Haldast þar í hendur aukning ferðamanna, breytt neyslumynstur og vilji bænda til að sinna auknum óskum neytenda um staðbundna framleiðslu (e. local food). Sökum þessa er lagt til að reglur verði aðlagaðar þannig að bændum verði gert kleift að slátra, vinna og selja neytendum beint afurðir úr eigin bústofni.
Verði bændum gert kleift að slátra, vinna og selja neytendum beint mun það stuðla að aukinni nýsköpun í sveitum landsins og viðhalda mikilvægri verkkunnáttu fyrir fæðuöryggi Íslendinga. Því leggur Matís til að gefið verði upp á nýtt og tækifæri til verðmætasköpunar sett í hendur bænda.
Heimaslátrun er leyfileg á lögbýlum, þar sem afurðir úr slíkri slátrun er eingöngu ætlaðar til notkunar á býlinu sjálfu. Hverskyns dreifing eða sala er bönnuð. Það er alkunna að þær reglur eru sniðgengnar. Að teknu tilliti til fyrirkomulags í Þýskalandi og í fleiri löndum ætti að aðlaga reglur þ.a. heimaslátrun, þar sem dreifing og sala afurða fer fram sé möguleg. Kalla mætti slík sláturhús örsláturhús.
Við viljum öll neyta öruggra og heilnæmra matvæla áhyggjulaust
og er áhættumat forsenda þess. Auk þess tryggir áhættumat
framleiðendum þann sveigjanleika sem þarf til að stunda sjálfbæra nýsköpun.
Í örsláturhúsum geta sauðfjárbændur nýtt möguleika sína til aukinnar verðmætasköpunar og lífvænlegra rekstrarumhverfis, sér og þjóðinni allri til heilla. Mikilvægt er þó að muna að allar breytingar sem þessar geta ekki átt sér stað án innleiðingar áhættumats, enda skal matvælaöryggis ávalt gætt.
Vísinda- og tækniráð býður öllum að taka þátt í mótun vísindastefnu Íslands | Vísinda- og tækniráð efnir til opins samráðs við íslenskt samfélag um skilgreiningu brýnustu samfélagslegu áskorana sem Ísland stendur frammi fyrir.
Öllum er boðið að taka þátt í samráðinu með því að svara nokkrum spurningum á síðunni www.samfelagslegaraskoranir.is.
Einnig býður Vísinda- og tækniráð öllum áhugasömum að heimsækja sýningarbás sinn á Vísindavöku Rannís 2018 sem haldin verður í Laugardalshöllinni föstudaginn 28. september 2018, kl. 16:30-22:00, fylla út könnunina og að ræða við fulltrúa Vísinda- og tækniráðs á staðnum.
Síðasti bændamarkaðurinn á Hofsósi fer fram nk. sunnudag, 30. september en samtals hafa markaðirnir verið fjórir þetta sumarið. Markaðurinn fer fram í Pakkhúsinu frá kl. 12-15.
Um bændamarkað Hofsósi
Markmiðið er að gera frumframleiðslu svæðisins aðgengilega heimafólki og jafnframt að stuðla að aðgengi ferðamanna að menningarsögu og hefðum svæðisins, sem matarmenning og handverk eru mikilvægur hluti af. Markaðurinn leggur áherslu á hefðbundnar skagfirskar afurðir. Markaðurinn er vettvangur þar sem umbúðalaus verslun afurða nærumhverfisins á sér stað, með áherslu á vistvænar og sjálfbærar aðferðir, allt í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni samfélaga sem og áherslur Slow Food.
Þar verður í boði margskonar góðgæti beint frá býli; lambakjöt af nýslátruðu, nautakjöt, geitakjöt, reykt kjöt, grafið kjöt, grænmeti, sumarblóm, afskornar rósir, siginn fisk, harðfisk, hákarl, kornhænuegg, andaregg, hænuegg, hunang, smyrsl, krem og fleira.
Auk þess munu gestir fá forsmekkinn af því hvernig bitakeðjan (blockhain) getur tryggt örugga upplýsingagjöf frá bændum til neytenda.
Verkefnið er tilraunaverkefni á vegum Matís, í samvinnu við bændur og framleiðendur í Skagafirði og Þjóðminjasafn Íslands, en Pakkhúsið tilheyrir Húsasafni Þjóðminjasafnsins.
Nánari upplýsingar um Bændamarkaðinn Hofsósi og opnunartíma eru aðgengilega á Facebook síðu markaðarins ( Bændamarkaður Hofsósi ) og á Facebook síðu Matís ( MatisIceland ).
Þörf er á því að vandað sé til verka við þróun atvinnulífsins. Þó Íslendingum hafi gengið vel að gera mikil verðmæti úr endurnýjanlegum auðlindum sjávar, sumpart betur en öðrum, er slíkt engin trygging fyrir Íslendingar skari fram úr á þessu sviði til frambúðar. Þess sáust skýr merki á síðasta ári. Því er mikilvægt að auka sókn fram á við með rannsóknum og þróun í tengslum við sjávarútveg frekar en að draga í land.
Íslendingar öfluðu meira úr sjó á árinu 2017, þrátt fyrir langt verkfall sjómanna, en þeir gerðu á árinu 2016. Á árinu 2017 nam magn útfluttra sjávarafurða um 52% af lönduðum heildarafla, árið áður var sambærilegt hlutfall 54%. Árið 2016 var að líkindum besta ár íslensk sjávarútvegs ef litið er til verðmætasköpunar í útflutningi fyrir hvert landað kg. Árið 2016 fengust 1,3 XDR útflutningsverðmæti fyrir hvert landað kg. Árið 2017 skilaði útflutningur sjávarafurða 1,13 XDR á hvert kg landaðs afla, lækkun um 13%. Svipaða þróun mátti sjá í 17% lækkun aflaverðmætis í íslenskum krónum milli áranna 2016 og 2017. Við veiddum um fjórðungi meira af uppsjávartegundum árið 2017 en árið 2016, en aflaverðmæti uppsjávartegunda var lægra í íslenskum krónum árið 2017 en 2016. Þorskafli var 5% minni árið 2017 en 2016, aflaverðmæti þorsks dróst saman um 16% milli ára.
Útflutningsverðmæti, nýting og heildarveiði
Síðastliðið haust var bent á það að frá árinu 2010 hefur flökt frekar einkennt verðmætasköpun í sjávarútvegi hérlendis frekar en aukning sem mátti sjá með meira afgerandi hætti frá stofnun AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi, 2003, og Tækniþróunarsjóðs Vísinda- og tækniráðs, 2004, fram til 2010 eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Stuðningur þessara lykilsjóða við nýsköpunarverkefni hefur stuðlað að þróun virðiskeðju íslensks sjávarfangs, nýjar aðferðir og lausnir byggðar á þekkingu hafa verið innleiddar í daglegan rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Markaðsaðstæður og aflasamsetning hafa jafnframt mikil áhrif á verðmætamyndun við veiðar og vinnslu sjávarfangs.
Fyrirtæki sem veiða, verka, flytja og selja fiskafurðir sem og fyrirtæki, sem þjónusta framangreind fyrirtæki m.a. með þróun tækjabúnaðar, hafa í samstarfi við Matís unnið með stuðningi AVS sjóðsins, Verkefnasjóðs sjávarútvegsins og/eða Tækniþróunarsjóðs að verkefnum sem stuðlað hafa að auknum verðmætum.
Fiskverðvísitala FAO og útflutningsverðmæti kg í afla í XDR
Borið saman við fiskverðsvísitölu Matvæla og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (e. FAO Fish Price Index) má sjá vísbendingar um mun á þróun verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi og þróunar fiskverðs skv. FAO og til frekari glöggvunar er hér að neðan jafnframt dregin upp lína sem sýnir þróun útflutningsverðmæta færeysks sjávarútvegs m.v. landaðan afla.
Afli og útflutningsverðmæti í XDR á kg afla
Ef litið er til aflamagns og útflutningsverðmætis í SDR (XDR) er ljóst að mikill afli er ekki ávísun á mikil verðmæti fyrir hvert landað kg. Jafnframt má sjá að frá því að lagt er upp með að auka verðmæti sjávarfangs með hagnýtingu rannsókna og þróunar við stofnun AVS Rannsóknasjóðs í sjávarútvegi árið 2003 og Tækniþróunarsjóðs árið 2004, fremur en að kappkosta það að auka magn sjávarfangs virðist sem meiri útflutningsverðmæti fáist fyrir hvert kg sem dregið er úr sjó.
Árið 2011 var hæstri fjárheimild veitt af fjárlögum í AVS. Sama ár hófst niðurskurður á fjárframlögum til matvælarannsókna á föstu verðlagi af fjárlögum. Á fjárlögum yfirstandandi árs er fjárheimild AVS innan við 44% af því sem mest var, árið 2011. Í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár (2019) er lagt upp með 12% niðurskurð á framlögum til matvælarannsókna (grunnur þjónustusamnings Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við Matís), 9% skerðingu á framlögum úr ríkissjóði til AVS, rannsóknasjóðs í sjávarútvegi og 55% samdrætti á heildargjöldum Verkefnasjóðs sjávarútvegsins. Í frétt á vef Fiskifrétta sagði um lækkun tekna Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins að Hafrannsóknastofnun ráðgerði 340 milljón króna lækkun á tekjuáætlun sinni. Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 323 milljón króna lækkun á gjöldum Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins. Í framlögðu fjárlagafrumvarpi er boðaður niðurskurður á framlögum til matvælarannsókna (Matís) 12%. Tekjur Matís af styrkjum AVS við rannsóknaverkefni hafa numið um 27% af framlagi til matvælarannsókna. Tekjur Matís af styrkjum Verkefnasjóðs Sjávarútvegsins hafa numið um 12% af framlagi til matvælarannsókna. Það er því ekki tryggt að við getum búist við viðlíka fjölda af nýjungum í tengslum við íslenskan sjávarútveg á næstunni, sem mun eflaust koma niður á kynningarstarfi Íslenska Sjávarklasans.
Nýting þorks 2017
Árið 2017 nýttu Íslendingar um 72% af þorskafla til framleiðslu á vörum sem fluttar voru úr landi eða neytt hér heima, skv. Hagtölum. Nýting Íslendinga á þorski árið 2017 var í takti við nýtingu ársins 2013 en nokkru minni en árið 2015 þegar sambærilegt hlutfall var um 77%.
Afli og verðmæti þorsks 1981 og 2017
Til gamans má varpa fram mynd sem sýndi hvaða verðmæti Íslendingar sköpuðu með veiðum og vinnslu á þorski á árinu 1981 og svo aftur í fyrra. Árið 2017 skapaði þorskafli Íslendinga útflutningsverðmæti sem nam um 565 milljónum í XDR, umtalsvert meiri verðmæti en árið 1981, þó þorskafli ársins 2017 hafi verið um 55% af þorskafla ársins 1981. Hvert aflað kg árið 1981 skilaði um 0,54 XDR í útflutningsverðmætum en árið 2017 skilaði hvert aflað kg, m.v. hagtölur 2,23 XDR í útflutningsverðmætum. Óskandi er að Íslendingum takist að skapa enn meiri verðmæti úr fiskistofnunum sem þrífast á hafsvæðunum umhverfis landið í framtíðinni.
Í þessu samhengi má geta þess að á morgun, miðvikudaginn 26. september 2018, fer fram í Hörpu Sjávarútvegsdagurinn, milli klukkan 08:00 og 10:00, í samstarfi Deloitte, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Samtaka atvinnulífsins.
Lofbornar bakteríufrumur sem falla niður úr andrúmsloftinu taka þátt sem fyrstu landnemar í samfélögum sem myndast á yfirborði jarðar. Umhverfi sem innihalda lítinn bakteríuþéttleika, eins og eldfjallasvæðin á Íslandi, fá einkum loftbornar bakteríur. Andrúmsloft er aðal dreifingarleið baktería en um 1016 bakteríur fara upp í andrúmsloftið frá yfirborði jarðar á hverri sekúndu.
Árangur dreifingarinnar ræðst af: (i) getu baktería til að lifa af og til að fjölga sér í flutningum í andrúmsloftinu, og (ii) af hæfileika þeirra til að keppa við samfélög baktería sem eru þar fyrir um aðföng.
Fjölbreytileiki örvera í andrúmsloftinu yfir Íslandi hefur enn ekki verið rannsakaður. Að auki er ekki vitað hvort lífeðlisfræðilegt- og efnaskiptaástand baktería í dreifingu hafi áhrif á getur þeirra til að nema land í nýju umhverfi.
Markmið rannsókna sem nú eru í gangi hjá Matís, og styrktar eru af Rannís, er í fyrsta lagi að skilgreina fjölbreytileika og uppruna örverusamfélaga í andrúmslofti og rannsaka samband fjölbreytileikans við eldfjallasvæði. Í öðru lagi verður rannsakað hvernig lífeðlisfræðilegt- og efnaskiptaástand loftborinna baktería hefur áhrif á getu þeirra til að nema land í tilteknum eldfjallasvæðum.
Niðurstöður rannsóknanna munu stuðla að auknum skilningi á lögmálum sem hafa áhrif á mynstur dreifinga örvera og auka skilning okkar á útbreiðslu þeirra á jörðinni.
Nú er í gangi verkefni hjá Matís sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís. Verkefnið nefnist Súrþang og vitnar til þeirra möguleika sem eru til staðar í meðhöndlun þangs með mjólkursýrubakteríum og öðrum gerjunarörverum.
Markmið verkefnisins er að þróa og staðla verkunaraðferð þangs sem byggir á meðhöndlun mjólkursýrubaktería og annarra gerjunarörvera. Mjólkursýrubakteríurnar brjóta niður fjölsykrur í þanginu, gera það meltanlegra og nothæft sem fóðurbæti sem ríkur er af fásykrum og fjölfenólum með margvíslega lífvirkni og bætibakteríuörvandi (prebiotic) eiginleika.
Nú er búið að sýra mismunandi þang með mismunandi bakteríum við mismunandi aðstæður. Sömuleiðis er búið að greina súrþangið með tilliti til efna- og örveruinnihalds. Allt hefur þetta verið gert fram að þessu á litlum skala og hafa niðurstöðurnar reynst áhugaverðar. Næst á dagskrá er að skoða fleiri gerðir þangs og framkvæma tilraunir á stærri skala.
Þess má að lokum geta að afurðir úr þessu verkefni munu verðar teknar áfram í öðru verkefni innan EIT Food.
Örsláturhús eru til umfjöllunar í Bændablaðinu í dag í viðtali við Hrönn Ólínu Jörundsdóttur, sviðstjóra hjá Matís. Hugmyndin um örsláturhús hefur komið sífellt oftar til tals að undanförnu, en um er að ræða nýjan möguleika fyrir bændur til að þjónusta viðskiptavini sína milliliðalaust með heimaslátruðum afurðum.
viðtalinu bendir Hrönn á að heimaslátrun sé leyfð samkvæmt lögum, þegar bóndi slátrar heima á bæ og til eigin nota. Aftur á móti er sala og dreifing heimaslátraðra afurða bönnuð, þ.e. sala og dreifing afurða út fyrir býlið. Hrönn bendir á að sala á heimaslátruðum afurðum tíðkist töluvert á bak við tjöldin og það sé í raun lítið mál að nálgast heimaslátrað kjöt.
„Ástæðan fyrir því að bannað er að selja afurðir af heimaslátruðu er að dýrunum er slátrað […] án nokkurs eftirlits og í aðstöðu sem er í flestum tilfellum ekki samþykkt til matvælaframleiðslu,“ segir Hrönn. „Í framhaldi af því má svo spyrja sig hvort afurðirnar séu ekki jafnmikil ógn við heimafólk á bænum þar sem slátrunin fór fram og aðra, komi eitthvað upp.“
Hrönn bendir á að staða sauðfjárbænda í dag sé erfið og að ekki sé útlit fyrir að það muni breytast mikið á næstunni. „Við hjá Matís teljum að nýsköpun sé lykillinn að uppbyggingu landbúnaðar, nýliðunar í greininni og eflingu byggða. Hugmynd okkar hjá Matís er að bændum verði gert kleift að stunda nýsköpun heima fyrir og að í stað þess að þeir þurfi að kaupa þá þjónustu sem felst í að aflífa dýrin leggjum við að þeim verði gert mögulegt samkvæmt reglugerð að koma upp eins konar örsláturhúsi. Slíkt myndi gera bændum kleift að slátra heima, vinna afurðir úr hráefninu og selja þær beint frá býli.“Viðtalið birtist í Bændablaðinu í dag.
Nýverið lauk vinnu við verkefnið „Sjóvinnsla á þorskalýsi“. Verkefnið var styrkt af AVS og unnið af Matís undir handleiðslu Marvins Inga Einarssyni. Markmið verkefnisins var að kanna hagvæmni þess að vinna lifur í hágæða þorskalýsi beint eftir vinnslu um borð og bera saman ávinning á slíkri vinnslu við löndun á heilli lifur.
Niðurstöður verkefnisins gáfu til kynna að ekki sé arðbært að vinna einungis þorsklifur um borð í togurum en meiri hagnaður er af því að landa henni ferskri. Hins vegar er hægt að auka hagnað verulega með því að vinna saman alla þorsk-, ufsa- og ýsulifur og hagnaður getur orðið enn meiri sé allt slóg unnið, þ.m.t. lifrin.
Meiri hagnaður reyndist vera af vinnslu lýsis um borð í frystitogurum samanborið við ísfisktogara sé horft til þess að ísfisktogarar munu verða af tekjum byrji þeir að framleiða lýsi um borð. Það eru tekjur af lifur sem annars væri landað. Þetta á ekki við um frystitogara en þeir nýta almennt ekki lifur.
Marvin segir niðurstöðurnar sýna, að framleiðsla á slóglýsi um borð í frystitogurum geti verið hagkvæmur kostur, sérstaklega þegar horft er til eldri togara sem ekki hafa pláss fyrir mjölvinnslu. Umræddur búnaður tekur um 9 fermetra og gera þarf ráð fyrir geymslutönkum undir lýsi upp á u.þ.b. 15 rúmmetra.