Fréttir

Beint frá býli og Matís undirrita samstarfssamning

Matís og Beint frá býli (BFB), félag heimavinnsluaðila, hafa gengið frá samstarfssamningi þess efnis að Matís framkvæmi efna- og örverumælingar fyrir félagsmenn Beint frá býli sem nauðsynlegar eru samkvæmt opinberum kröfum til lítilla matvælavinnslna, til að tryggja öryggi matvæla.

Á myndunum eru Þorgrímur Guðbjartsson frá Erpsstöðum, formaður Beint frá býli og Sveinn Margeirsson frá Mælifellsá, forstjóri Matís, við undirritun samningsins; og svo við lestur Bændablaðsins þar strax á eftir. 

Hvað annað!? 

Nánari upplýsingar veitir stjórn BFB, beint@beintfrabyli.is 

Beint frá býli og Matís undirrita samstarfssamning

Fréttir

Virkilega áhugaverð ráðstefna um málefni landbúnaðar

Íslenskur landbúnaður er staddur á krossgötum. Staðan er að einhverju leyti þannig að það er að hrökkva eða stökkva. Tækifærin eru til staðar með tækninýjungum, loftslagsbreytingum, auknum ferðamannafjölda ofl. en hætturnar eru einnig handan við hornið. 

Nú verður blásið til mikillar veislu fyrir alla þá sem vilja með einhverjum hætti taka þátt í íslenskum landbúnaði til framtíðar. Komdu, taktu þátt í Landsýn 2018 í Salnum í Kópavogi, föstudaginn 23. febrúar nk. Í boði eru virkilega áhugaverðir fyrirlestrar, góður matur og skemmtilegt fólk til að spjalla við, eins og sjá má í dagskránni.

Landbúnaðurinn er í dauðafæri!
Vertu með á LANDSÝN 2018

Skráning

Fréttir

Hvernig skynjum við matvæli?

Yfirskrift Nordic Sensory Workshop 2018 sem haldin verður í Reykjavík dagana 3. og 4. maí er að þessu sinni „Making Sense“, en þar verður fjallað um skynfærin okkar og samspil þeirra í tengslum við vöruþróun og matvælaframleiðslu.

Áherslan verður á vísindalegar niðurstöður og notagildi þeirra. Skoðuð verða dæmi um hvar, hvenær, hvernig og af hverju við ættum að nota skynmat við vöruþróun, framleiðslu og markaðssetningu. Fagfólk og vísindafólk sem vinna við skynmat, gæðamál og neytendamál á sviði matvæla fá þarna tækifæri til að hittast og bera saman bækur sínar.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu viðburðarins sem nálgast má með „Meira“ tenglinum hér að neðan.

Meira um „Making sense“

Fréttir

Látum hafrannsóknir skipta máli

Mjög athyglisverð ráðstefna stendur nú yfir í Brussel. Enskt heiti hennar er Making Marine and Maritime Research Count og vísar til þess, meðal annars, að við þurfum að yfirfæra niðurstöður rannsókna okkar á hafinu til mismunandi greina og hagaðila til þess að rannsóknirnar hafi raunveruleg áhrif. Forstjóri Matís, Sveinn Margeirsson, var boðið að sitja í pallborðsumræðuhóp ráðstefnunnar og er Matís þannig sýndur mikill heiður.

Upplýsingar um þessa athyglisverðu ráðstefnu má finna á heimasíðu COLUMBUS verkefnisins.

Fréttir

Áhrif pökkunaraðferða og geymsluhita á gæði cobia flaka í frystigeymslum

Hằng Nguyễn Thị mun halda fyrirlestur á Matís, stofu 312, Vínlandsleið 12, föstudaginn 26. janúar kl.11. Verkefnið hennar heitir:  Áhrif pökkunaraðferða og geymsluhita á gæði cobia (Rachycentron canadum) flaka í frystigeymslum.

Enska heitið er: “Effects of packaging methods and storage temperature on the quality of Cobia (Rachycentron canadum) fillets during frozen storage”

Markmiðið með þessu verkefni var að rannsaka gæði og stöðugleika cobia (Rachycentron canadum) flaka sem var pakkað á mismunandi hátt og síðan geymd við mismunandi aðstæður. Annars vegar voru flökin geymd í opnum plastpokum hinsvegar í lofttæmdum plastpokum. Flökin voru síðan geymd í frystigeymslu í allt að 5 mánuði annars vegar við -18 °C og hins vegar við -25 °C. Á mánaðarfresti út geymslutímann voru gerðar mælingar á suðunýtingu, vatnsinnihaldi, styrk köfnunarefnis í heildarmagni rokgjarnra niturbasa (TVB-N), magni fosfólípíða (PL), myndun frírra fitusýra (FFA) og oxun (PV og TBARS ) til að meta áhrif umbúða og geymsluhita á gæði cobia flakanna.

Magn fosfólípíða minnkaði verulega og styrkur FFA jókst yfir geymslutímann og sýnir það að ensímvirkni var talsverð hjá öllum tilraunahópunum. Talsverðar breytingar voru á PV- og TBARS-gildum á meðan á geymslu stóð. Val á geymsluhitastigi og lengd geymslutímans höfðu mikil áhrif á niðurbrot lípíða. Lípíðin voru stöðugri við lægra geymsluhitastigið (-25°). Enn fremur sýndu niðurstöður að pökkun cobia flaka í lofttæmdar umbúðir dró verulega úr oxun eða þránun flaka samanborið við loftpökkuðu flökin. Athyglisvert var að cobia flök í lofttæmdum umbúðum geymd við -18 °C höfðu nokkuð betri gæði miðað við flök í hefðbundnum umbúðum sem voru geymd við lægri hita -25 °C.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Matís.

Leiðbeinendur: Sigurjón Arason (HÍ/Matís), María Guðjónsdóttir (HÍ), Magnea Karlsdóttir (Matís), Tumi Tómasson (UNU-FTP). Nha Trang University (NTU) í Víetnam.

Prófdómari: Kristín Anna Þórarinsdóttir (Marel).

Fréttir

Fersk fiskflök í flutningi – burt með plastpokana!

Tengiliður

Sigurjón Arason

Yfirverkfræðingur

sigurjon.arason@matis.is

Meginniðurstaða tilraunar, sem gerð var í sumar í samstarfi Matís, Háskóla Íslands, Eurofins og Tempru er að ekki er nauðsynlegt að pakka ferskum fiskflökum í plastpoka fyrir pökkun í frauðplastkassa, sem geyma og flytja á við kældar og ofurkældar aðstæður. Um þetta má fræðast nánar í skýrslu Matís nr. 07-17, sem vistuð er á vefsíðu Matís.

Markmið tilraunarinnar var að rannsaka mögulegt flæði stýrens úr frauðplastkössum í fersk þorsk- og karfaflök, sem geymd eru við dæmigert hitastig í sjóflutningi á ferskum flökum frá Íslandi til Evrópu eða Ameríku. Amerískir kaupendur óska eftir því að fiskflökum sé pakkað í plastpoka fyrir pökkun í frauðplastkassa vegna mögulegrar stýrenmengunar úr frauði í fisk. Því var í þessu verkefni mælt stýren í fiski, sem geymdur hafði verið án plastpoka í frauðkössum, og magn stýrens borið saman við viðmið bandaríska matvæla- og lyfjaeftirlitsins (FDA). Í heildina voru 12 frauðkassar, sem innihéldu þorsk- eða karfaflök, geymdir í 4, 7 eða 13 daga við annaðhvort -1 °C eða 2 °C, sem samsvarar annars vegar ákjósanlegasta og hins vegar hæsta líklega hitastigi í sjóflutningi með fersk flök. Eitt 10-50 g sýni var tekið úr neðsta hluta neðsta fiskflaks í hverjum kassa og hafði þar með verið í beinni snertingu við frauðplast og því komið fyrir í glerflösku. Því næst voru sýnin 12 send til greiningar hjá Eurofins, alþjóðlegri rannsóknastofu í Þýskalandi. Niðurstöðurnar sýna að magn stýrens, sem og annarra óæskilegra efna líkt og bensens og tólúens, var undir 0,01 mg/kg fisks í öllum tólf fisksýnunum. Viðmið (hámark) FDA er 90 mg af stýreni í hverju kg af fiski á einstakling á dag, sem jafngildir skv. niðurstöðum þessarar tilraunar er að neytandi þarf að neyta daglega 9000 kg af fiski til að nálgast viðmið FDA sem er mjög óraunhæft magn.

Meginniðurstaða þessarar tilraunar er því að ekki er nauðsynlegt að pakka ferskum fiskflökum í plastpoka fyrir pökkun í frauðplastkassa, sem geyma og flytja á við kældar og ofurkældar aðstæður. Frekari upplýsingar veita dr. Björn Margeirsson rannsóknastjóri Sæplasts og Tempru og lektor við Háskóla Íslands (bjornm@hi.is)  og Sigurjón Arason yfirverkfræðingur Matís og prófessor við Háskóla Íslands (sigurjar@hi.is).

Fréttir

Íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn óæskilegra efna – en við þurfum að vita meira

Út er komin skýrsla Matís þar sem teknar eru saman niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs 2017. Vöktunin hófst árið 2003 fyrir tilstuðlan þáverandi Sjávarútvegsráðuneytis, núverandi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, og sá Matís um að safna gögnum og útgáfu á skýrslum vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar á tímabilinu 2003-2012.

Fyrstu mælingarnar frá 2013 – en ná bara utan um ætan hluta, ekki fóðurhlutann

Undanfarin ár hefur skort fjármagn til að halda áfram vinnu við þetta vöktunarverkefni og því var gert hlé á þessari mikilvægu gagnasöfnun sem og útgáfu niðurstaðna á tímabilinu 2013-2016. Verkefnið hófst aftur í mars 2017 en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu voru ekki gerðar efnagreiningar á PAH, PBDE og PFC efnum í þetta sinn.

Markmiðið með verkefninu er að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis og nýta gögnin við gerð áhættumats á matvælum til að tryggja hagsmuni neytenda og lýðheilsu. Verkefnið byggir upp þekkingargrunn um magn óæskilegra efna í efnahagslega mikilvægum tegundum og sjávarafurðum, það er skilgreint sem langtímaverkefni þar sem eftirlit og endurskoðun er stöðugt nauðsynlegt.

Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust 2017 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni.

Íslenskt sjávarfang er langt undir hámarksgildum ESB

Hámarksgildi ESB fyrir díoxín og díoxínlík PCB (DL-PCB) í matvælum og fóðri voru lækkuð 1. janúar 2012 (ESB reglugerð nr. 1259/2011) ásamt því að hámarksgildi voru í fyrsta sinn sett fyrir „ekki díoxínlík“ PCB (NDL-PCB). Nýju hámarksgildin eru notuð í þessari skýrslu til að meta hvernig íslenskar sjávarafurðir standast kröfur ESB. Niðurstöður ársins 2017 sýna að þrátt fyrir breytingu á hámarksgildum fyrir díoxín, DL-PCB og NDL-PCB eru öll sýni af sjávarafurðum til manneldis undir hámarksgildum ESB fyrir þrávirk lífræn efni og þungmálma. Þá reyndist styrkur svokallaðra ICES6-PCB efna vera lágur í ætum hluta fisks, miðað við ný hámarksgildi ESB. Sömuleiðis sýndu niðurstöðurnar að styrkur þungmálma, t.d. kadmíum (Cd), blý (Pb) og kvikasilfur (Hg) í íslenskum sjávarafurðum var alltaf undir hámarksgildum ESB.

Um mikilvægi vöktunar

Vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni í íslensku sjavarfangi eru lykilatriði til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t .t. öryggis og heilnæmis. Útflutningur íslenskra matvæla er háður því að unnt sé að sýna fram á að öryggi þeirra, með hliðsjón að lögum, reglugerðum og kröfum markaða. Vísindaleg gögn frá óháðum rannsóknaraðila eru sömuleiðis mikilvæg í markaðskynningum á sjávarafurðum fyrir væntanlega kaupendur og styrkir allt markaðsstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir. Gögnin nýtast ennfremur við áhættumat á matvælum og til að hafa áhrif á setningu hámarksgilda fyrir aðskotaefni í matvælum.

Viðbótarefni: Guðmundur Fertram Sigurjónsson um hvernig markaðsleyfi Kerecis í Bandaríkjunum er háð reglulegum Mælingum Hafró og Matís umhverfis landið. Morgunblaðið 18. janúar, bls. 98 (áskrift að Morgunblaðinu þarf til að lesa þessa grein).

Fréttir

Matís og Heimsmarkmiðin

Í upphafi sérhvers árs frá því árið 2011 hefur Matís glatt viðskiptavini sína, samstarfsaðila sem og aðra hagaðila með því að senda út, kl 09:30, 2. janúar, ársskýrslu um starfsemi félagsins á hinu ný liðna ári á rafrænu formi.

Í ár sendi Matís út nokkrar frásagnir af starfsemi félagsins á árinu 2017 og þar á meðal samantekt um það hvernig Markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, þ.e. Heimsmarkmiðin, tengjast starfsemi Matís. 

Heimsmarkmiðin 17 (e. Sustainable Development Goals; SDG 17) eru metnaðarfull, en metnaður er einmitt eitt fjögurra gilda Matís. Sérhverju Heimsmarkmiði fylgir jafnframt nokkur undirmarkmið sem skýra betur út að hvaða áfanga er stefnt fram til ársins 2030. Í heild eru áfangarnir 169. Heimsmarkmiðin greina ekki á milli þróunarlanda og þróaðri landa ólíkt þúsaldarmarkmiðunum frá 2000 til 2015, enda eru örlög allrar heimsbyggðarinnar undir. 

Matís er ekki bara Ma… eitthvað. Matvælarannsóknir eru lykilatriði fyrir þróun og verðmætasköpun matvælaiðnaðar; starfsemi Matís er því margslungin og víðtæk. Skemmst er frá því að segja að heimsmarkmiðin eru allt umlykjandi stefnu Matís og starfsemi þess.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Matís

Fréttir

Engin hugmynd of vitlaus – hún þarf bara að vera mjólkurtengd!

Nýr umsóknarfrestur í Mjólk í mörgum myndum er u.þ.b. að renna sitt skeið. Ef þú vilt fá aðstoð við að koma hugmynd þinni ennþá lengra endilega hafðu samband.

Komdu við á heimasíðunni fyrir nánari upplýsingar: www.mimm.is/

Fréttir

Áhugaverðar og góðar niðurstöður úr þjónustukönnun mæliþjónustu Matís

Könnun sem snéri að þjónustu mælingarþjónustu Matís var send út fyrir stuttu. Þátttakan var með ágætum og niðurstöður ánægjulegar.

Yfirgnæfandi hluti þeirra aðila sem áttu í viðskiptum við mæliþjónustu Matís voru Ánægðir með þjónustuna hjá Matís og flestir Mjög ánægðir. Við þessar niðurstöður er auðvelt að una en eftir sem áður þá getum við gert betur og við munum nota niðurstöður könnunarinnar til að bæta þjónustuna enn frekar.

IS