Fréttir

Lífhagkerfi Snæfellsness

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Með stuðningi Snæfellsnessbæjar, Grundafjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar hefur Matís unnið að því að stuðla að bættri nýtingu hráefna úr lífríki Breiðafjarðar með aukna sjálfbæra verðmætasköpun einkum m.t.t. næringarefnaþarfar til fóðrunar fiska. Unnið hefur verið að vistvænni verðmætamyndandi nýsköpun innan lífhagkerfisins með framangreindum stuðningi sem hefur verið mikilvægur fyrir þá þróunarvinnu sem Matís tekur þátt í. 

Frá árinu 2014 hefur Matís unnið með Snæfellsnesbæ, Grundarfjarðarbæ og Stykkishólmsbæ að greiningu lífhagkerfis Snæfellsness, með sérstakri áherslu annarsvegar á vistvæna nýsköpun og fóðrun fiska annarsvegar og áhrif og þátt auðlinda á nýsköpun og uppgötvanir. Með samstarfinu hefur vinna Matís miðað að því að styrkja þekkingargrundvöll vistvænnar þróunar og stuðla að bættri nýtingu hráefna með aukna sjálfbærni og verðmætasköpun að leiðarljósi.

Lýsing nútímans sem tíma örra breytinga á ekki einvörðungu við hagnýtingu upplýsingatækni eða s.k. tækniumbyltingum. Mikil þróun hefur átt sér stað að undanförnu í þróun næringar fiska sem aldir eru á og við strendur landsins, sú þróun er í takt við það sem tíðkast í fiskeldi víða um heim. Viðleitni framleiðenda til að svara kröfum á neytenda markaði hafa bein áhrif á verklag og vöruþróun fyrirtækja. Fiskafóður hefur tekið miklum breytingum samhliða því að framleiðendur sækjast eftir því að selja sínar vörur með sem mestri verðmæta sköpun. Samsetning fóðurs hefur tekið breytingum eins er litið til þeirra vegalengda sem aðföng til fóðurgerðar eru flutt, rétt eins og flutningsmáta afurða á markaði. Í samstarfinu var þróun fóðrunar fiska því fyrirferðamikil.  

Samskipti fulltrúa Matís, sérfræðinga sem og nemenda, við hagaðila á Snæfellsnesi skiptu sköpum fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið innan Matís frá árinu 2014. Vinnan sem fram fór innan framangreinds samnings féll inn á allar þrjár faglegar áherslur rannsókna og nýsköpunarsviðs Matís, sem í gildi hafa verið frá fyrri hluta árs 2016, þ.e. könnun erfðaauðlinda, vöruþróun og örugg virðiskeðja matvæla. Samstarfið við sveitarfélögin þrjú hefur, má því segja, haft áhrif á starfsemi Matís í heild sinni.

Vísinda og þekkingarsamfélagið Matís nýtti samstarfsgrundvöllinn með sveitarfélögunum þremur m.a. til þess að samþætta þekkingarleit ungra vísindamanna, vilja sveitarfélaganna og hlutverk Matís sem aðstoðar viðskipta vini sína til aukinnar verðmætasköpunar, matvælaöryggis og lýðheilsu. Koma þar við sögu yfirstandandi doktorsnám Birgis Arnar Smárasonar við Háskóla Íslands og meistaraverkefni tveggja nemenda, annars vegar á sviði haf umhverfis og auðlinda við Háskólann í Baskalandi og hinsvegar við í nýsköpunar og frumkvöðlafræðum við Háskólann í Osló.

Áhugi er fyrir því á Snæfellsnesi að skoða grundvöll þess að halda áfram þessu samstarfi.

Skýrsla um verkefnið er aðgengileg á vefsíðu Matís: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/11-17-Greining-lifhagkerfis-Snaefellsness.pdf

Fréttir

Þróun sértæks bóluefnis fyrir bleikju

Matís, í samstarfi við Íslandsbleikju, Háskólann á Akureyri, Keldur og spænska bóluefnisframleiðandann Hipra vinna að þróun sértæks bóluefnis fyrir bleikju.

Ísland er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um fjögur þúsund tonna framleiðslu á ári. Engin lyf, önnur en fyrirbyggjandi bóluefni, hafa verið notuð í bleikjueldinu í meira en áratug og allri efnanotkun er haldið í lágmarki.  Sá sjúkdómur sem valdið hefur mestum afföllum í bleikjueldi undanfarin ár er kýlaveikibróðir. Bólusetning gegn sjúkdómnum, sem byggir á bóluefni þróað til notkunar í laxi, hefur ekki reynst nógu öflug til að verja bleikju þar til hún nær sláturstærð. Sjúkdómurinn veldur því umfangsmiklum afföllum og tekjutapi í greininni. 

Nú hafa þátttakendur verkefnisins, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóðnum, hafið þróun á sértæku bóluefni gegn kýlaveikibróður fyrir bleikju með það að markmiði að koma á markað öflugu bóluefni sem nýtist í bleikjueldi. Verkefninu er stýrt af Íslandsbleikju og munu niðurstöður verkefnisins liggja fyrir seinni hluta árs 2019.

Fréttir

Rjómabúið Erpsstöðum vekur athygli forseta Íslands

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var í heimsókn hjá Rjómabúinu Erpsstöðum í vikunni. Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir reka þar blómlegt bú en þau, ásamt börnum sínum, hafa stundað nýsköpun af kappi undanfarin ár og áratug. Þau eru sannarlega ímynd hins íslenska frumkvöðlabónda.

Forsetinn og föruneyti fengu leiðsögn um nýja skyrsýningu og brögðuðu á skyri og nýjum rabarbaramysudrykk við góðan orðstír. Skyrsýningin er unnin í samvinnu við Matís og verður opnuð síðla vetrar.

Ef þú hefur ekki nú þegar kíkt í heimsókn á Erpsstaði, þá mælir allt með því að þú kíkir næst þegar það er opið hjá þeim 😉

Fréttir

Nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu eru mjög mikilvæg fyrir sjálfbæran vöxt fiskeldis

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Matís var þátttakandi í verkefninu Aquaculture Innovation Network for northern Periphery and Arctic (AINNPA) sem styrkt var af Northern Periphery and Arctic Programme (NPA). Verkefnið, sem var forverkefni samstarfsaðilana fyrir undirbúning stærra verkefnis, snérist um að tengja saman lítil og meðalstór þróunarfyrirtæki á NPA svæðinu við fiskeldisiðnaðinn.

Nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu eru mjög mikilvæg fyrir sjálfbæran vöxt fiskeldis. Minni fyrirtæki í fiskeldisgeiranum hafa ekki alltaf aðgang að nýsköpunar- og þróunarfyrirtækjum sem geta hjálpað fiskeldisfyrirtækjum að vaxa. AINNPA verkefninu var ætlað að taka á þessu vandamáli með því að tengja saman aðila og flytja þekkingu að fiskeldisiðnaðinum og opna nýja markaði fyrir lítil- og meðalstór þróunarfyrirtæki sem hafa ekki áður verið í samstarfi við fiskeldisiðnaðinn.

Samstarfsaðilar verkefnisins, University of Stirling (Bretland), Aquaculture Research Station of the Faroes (Færeyjar), SINTEF (Noregur) og Indigo Rock Marine Research Station (Írland) hafa allir langa reynslu í rannsóknum og nýsköpun fyrir fiskeldi, hver á sínu sviði. Aðilarnir hittust á fyrsta fundi verkefnisins í höfuðstöðvum Matís snemma árs 2017 og lögðu línurnar fyrir komandi mánuði.

Niðurstöðum verkefnisins var skilað til NPA sjóðsins í september. Þeim er ætlað að vera grunnur fyrir áframhaldandi samstarf aðilanna.

Fréttir

Við þurfum gögn!

Til þess að geta tekið út og metið mataræði landsmanna þá þurfum við gögn. Þau eru ekki til staðar, a.m.k. ekki nýleg gögn. Sömuleiðis þurfum við gagnagrunn þar sem neysla landsmanna á matvælum er tengd við innihald þessara matvæla. Án þessa vitum við ekki hvar við stöndum þegar kemur að næringarefnum, aðskotaefnum né aukefnum! 

Það er fyrst og fremst þess vegna að Embætti landlæknis, Matvælastofnun, Matís og Rannsóknastofa í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala hafa lýst yfir eindregnum vilja til að hefja undirbúning og framkvæmd nýrrar landskönnunar á mataræði Íslendinga. Um leið var skorað á stjórnvöld að tryggja fjármagn í þennan mikilvæga þátt, bæði til framkvæmdar könnunarinnar sem og til uppbyggingar innviða, til dæmis gagnagrunns um efnainnihald matvæla, sem nauðsynlegir eru fyrir framkvæmd slíkrar könnunar.
Viljayfirlýsingin í heild sinni.

Fréttir

Kornrækt á norðlægum slóðum

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Þann  29. nóvember  var haldin ráðstefna um kornrækt á Íslandi í höfuðstöðvum Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Fram kom að mikilvægt er að auka kornrækt á norðlægum slóðum til að mæta þörfum mankynsins fyrir holl og næringarrík matvæli í framtíðinni.

Forstjóri Landgræðslunnar sagði frá því að á Íslandi væru stór svæði sem hægt væri að nýta til að auka ræktun á byggi. Íslenskir bændur hafa náð góðum tökum á byggræktinni og skila á hverju ári umtalsverðu magni af góðu byggi sem fyrst og fremst er notað sem fóður. Bygg hefur mjög sérstaka eiginleika og hollustugildi. Því er mikilvægt að auka virði byggframleiðslunnar með framleiðslu á hollum og góðum matvælum. Að þessu er unnið í verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætluninni og Matís og Landbúnaðarháskólinn taka þátt í ásamt erlendum samstarfsaðilum. Bygg hefur mikið hollustugildi vegna þess að það er auðugt af trefjaefnum, andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum. Trefjaefnin eru bæði vatnsleysanleg og óleysanleg. Meðal vatnsleysanlegu trefjaefnanna í byggi er betaglúkan en það er sérstaklega áhugavert vegna þess að það stuðlar að eðlilegu kólesteróli í blóði og dregur úr blóðsykursveiflum. Mikilvægt er að þekkja efnainnihald íslenska matvæla til að neytendur geti áttað sig á hollustu þeirra og valið matvæli sem falla að þörfum þeirra. Matís hefur yfir að ráða gagnagrunni (ÍSGEM) sem geymir upplýsingar um efnin í matnum. Því miður hefur vinna við uppfærslu þessa gagnagrunns legið niðri um nokkurra ára skeið vegna þess að ekki hefur fengist fé til vinnunnar. Matís vinnur nú að því að afla stuðnings til þess að hægt verði að hefja uppfærslu grunnsins og veita neytendum, atvinnulífi og heilbrigðisgeiranum upplýsingar.

Fréttir

Ógrynni tækifæra fyrir íslenskan sjávarútveg

Þann 17. nóvember sl. tók Skúli Halldórsson á Morgunblaðinu viðtal við Svein Margeirsson forstjóra Matís um framtíð íslensks sjávarútvegs. Víða var komið í þessu viðtali og meðal annars fjallað um spekileka á Íslandi vegna pólitískrar vitleysu.

Allar forsendur eru til að fullvinnsla ferskra sjávarafurða fari í auknum mæli fram hér á landi. Þetta segir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Fyrst þurfi þó að spyrja nokkurra lykilspurninga og svara þeim skýrt.

„Til dæmis þurfum við að spyrja okkur; erum við að selja hráefni eða erum við að selja sérvöru? Og erum við nógu öguð í virðiskeðjunni – í flutningakeðjunni?“ spyr Sveinn og heldur áfram:

„Nú kom nýr verslunaraðili, Costco, inn á íslenskan markað ekki alls fyrir löngu. Mikið hefur verið rætt um óvenju mikil gæði á vörum þar, einkum hvað varðar grænmeti og ávexti. En er einhver ástæða til að ætla að Costco fái betra grænmeti inn í sína virðiskeðju heldur en aðrir söluaðilar á Íslandi, ef við gefum okkur að þetta sé rétt? Ég tel að svo sé ekki,“ segir hann og bendir á þetta til dæmis um mikilvægi góðrar flutningakeðju.

„Matvælaframleiðslan er svo ótrúlega spennandi að þessu leyti – eðliseiginleikar vörunnar breytast eftir því hvernig hún er meðhöndluð. Það þýðir að ef þú ert virkilega agaður og ert búinn að innleiða aga í þína virðiskeðju, þá kemurðu vörunni til neytandans í því ástandi sem hann vill fá hana. Ef þig skortir aga, muntu alltaf lenda í gæðavandamálum.“

Þetta skipti einkum máli þegar ferskvara sé annars vegar.

„Ég held að við megum ekki gleyma því í þessu samhengi, að ákveðinn hluti af íslensku sjávarfangi er seldur fullunninn og þá er ég að vísa til ferskra bita. Og það er tvennt sem gerir það að verkum að við getum flutt út ferskan fisk, eitthvað sem við gátum ekki áður. Annars vegar er það vegna tæknilegrar þróunar, svo sem betri kælingar um borð, en hins vegar er það vegna meiri aga í virðiskeðjunni. Meiri agi hefur í för með sér betri meðhöndlun á fiskinum, sem tryggir betra hráefni í vinnslurnar sem hafa tekið stórstígum framförum og loks eru flutningar betri á afurðum til lokakaupandans,“ segir Sveinn.

„Ef við ætlum okkur að selja dýra sérvöru og ef við treystum okkur til að fara inn í það ferli með þann aga sem þörf er á, þá sé ég enga ástæðu fyrir því að við getum ekki framleitt vöruna í lokapakkningum hér á landi.“

Óstöðugt gengi krónunnar leiki þó alltaf hlutverk.

„Vissulega þarf að fyrirbyggja það, að gengissveiflur krónunnar aftri ekki fullvinnslu í neytendaumbúðir. Það krefst miklu meiri langtímahugsunar og –fjárfestingar, að vera í þessum bransa, heldur en að draga fisk að landi og koma honum í gám sem fyrst og beint til útlanda.“

Sveinn bætir við á þessum nótum, að ef beita eigi líftækni til að framleiða afurðir úr auðlindum hafsins, svo sem ensím úr þorski fyrir lækningavörur (Zymetech) eða fiskiroð fyrir sáraumbúðir (Kerecis), þá verði að fara vel með hráefnið.

„Þar er ekki hægt að vinna með lélegt hráefni. Beiting líftækni og þeir nýju möguleikar sem felast í henni gera það að verkum að við verðum að auka agann í virðiskeðjunni.“

Sveinn flutti í gær fyrirlestur á Sjávarútvegsráðstefnunni um útflutningsverðmæti bláa lífhagkerfisins og hvað þurfi til að fimmfalda það á næstu tíu árum. Í samtali við 200 mílur nefnir hann að frá árinu 2003, þegar rannsóknarsjóðurinn AVS (Aukið virði sjávarfangs) var stofnaður, og árinu 2004, þegar Tækniþróunarsjóður var stofnaður í núverandi mynd, hafi verðmæti sjávarafurða á hvert kílógramm afla aukist um 151% fram til ársins 2016.

„Og þetta gerist að mínu mati vegna þess að á þessum tíma fer saman sæmilega stöðugt umhverfi,, það er að minnsta kosti ekki verið að kollvarpa því með mjög reglubundnum hætti,, um leið og kerfið hefur verið hvetjandi til framþróunar og ræktað metnað manna til að gera betur,“ segir Sveinn.

„Í rauninni lít ég svo á að allar forsendur séu til að þessi þróun geti haldið áfram. Það sem skiptir kannski mestu máli er að það verði áfram horft á stærri myndina í þessu, að pólitíkin sé ekki að fara í þann gír að horfa bara á eigin kjördæmi og einhverja sérhagsmuni, sem bæði til lengri og skemmri tíma skaða atvinnugreinina, og geta gert það enn meira nú en áður.“

Mikilvægast sé enda að huga að því hvernig hæfasta fólkið fáist til að starfa innan hagkerfisins.

„Öll svona pólitísk vitleysa, leyfi ég mér að segja, hún veldur spekileka í greininni. Langstærsta tækifærið fyrir Ísland, en að sama skapi er þar úr háum söðli að detta, felst í að vera spekisegull, bæði innanlands, einkum gagnvart ungu fólki, og einnig gagnvart fólki með bakgrunn erlendis, hvort sem það eru Íslendingar með reynslu af mörkuðum úti eða útlendingar sem hafa áhuga á að koma hér til starfa.

Ég er þeirrar skoðunar að við þurfum að leggja mikla áherslu á að sjávarútvegur, og bláa lífhagkerfið allt, sé spennandi og að fólk geri sér grein fyrir tækifærunum sem felast í greininni, bæði fyrir sjálft sig og líka til að láta gott af sér leiða, hérlendis sem erlendis. Það skiptir nefnilega ekki síst máli hverjir eru um borð í rútunni, svo vitnað sé til Jim Collins, höfundar From Good to Great.“

Sveinn leggur áherslu á að hægt sé að meta árangur í atvinnugreininni með hliðsjón af raunverulegum gögnum.

„Þar er mjög margt sem getur áunnist. Við erum ekki nógu vel í stakk búin, með núverandi kerfi, til að greina til dæmis hvað við erum að flytja út. Það er ennþá þannig að þriðja eða fjórða stærsta útflutningstegundin er svokallaður „annar afli“. Þangað til að við erum komin á þann stað, að við getum í öllu falli sagt hvað það er sem við erum að flytja út, þá eru augljóslega ónýtt tækifæri þarna.“

Enn fremur felist í fjórðu iðnbyltingunni, sem Sveinn segir að sé í raun löngu hafin, ótrúleg tækifæri.

„Í hverri fiskvinnslu á Íslandi er verið að búa til mynd af miðunum á hverjum degi; hvaða fiskur kom upp úr sjónum, stærð og holdafari. Og við veiðarnar er verið að mæla hitastig sjávar, lofthitastig, og í raun gætu skipin verið að mæla miklu fleira. Í vinnslu verður til mikið af upplýsingum um gæði og eðliseiginleika. Með því að nýta betur upplýsingarnar sem verða til við veiðar og vinnslu getum við aflað mun meiri þekkingar á lífríki sjávar og tengst umhverfismeðvituðum neytendum sterkari böndum á sama tíma. Slíkt er mikilvægt fyrir sjálfbæra nýtingu íslenskra sjávarauðlinda en það eru ekki síður útflutningsvara að beita íslenskri þekkingu og aðferðafræði á heimsvísu og þannig stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda allra heimshafanna.“

Sveinn kallar eftir því að fleiri aðilar innan sjávarútvegs fái að koma að heildarstefnumótun atvinnugreinarinnar.

„Ef við lítum á virðiskeðju sjávarfangs, þá er langt síðan við hættum að horfa á hana bara sem veiðar, góðu heilli, og mörg skref verið stigin í þá átt að virða þetta sem heildarhagkerfi, þar sem tæknifyrirtækin, vísindarannsóknir og markaðsmálin leika stór hlutverk og tengjast nánum böndum. Það sem vantar núna er að allir þessir hagaðilar hafi sína rödd við stefnumótun sjávarútvegs. Við eigum að móta skýra stefnu, með það að markmiði að verða fremsta sjávarútvegsland í heimi. Mér finnst í raun augljóst að við getum gert það.“

Þá nefnir Sveinn menntakerfið sem dæmi um eitthvað sem færa mætti nær kröfum nútímans.

„Menntun tengd sjávarútvegi er lykilatriði fyrir vöxt greinarinnar, og allt menntakerfið, en einkum háskólaumhverfið, þarf að átta sig betur á því að tímarnir hafa breyst mjög mikið síðustu tíu ár. Við megum ekki vera föst í þeim hugsanagangi í háskólumhverfinu að birta vísindagreinar einungis vísindagreinanna vegna. Það verður að vera sterk tenging á milli menntunar og rannsókna annars vegar og hagsmuna samfélagsins hins vegar, sem á Íslandi eru nátengdir sjávarútvegi.“

Og Sveinn er með hugann við fleiri þætti í sjávarútvegi.

„Til að mynda er fjöldi tækifæra sem tengjast nýjum flutningaleiðum til og frá landinu, bæði í lofti og á legi,“ segir hann og bætir við að flugsamgöngur mótist af sparneytnari flugvélum en áður, sem opni möguleikann á meiri útflutningi til Asíu. Breytingar á siglingaleiðum til norðurs geti líka opnað fleiri markaði þar sem tækifærin séu ekki einungis í matvælum, heldur einnig í dreifingu, þróun og markaðssetningu á heilsuvörum.

„Þarna er í rauninni mjög lítt plægður akur og gríðarlegir möguleikar,“ segir Sveinn.

„Þá hefur neysla á sjávarfangi innanlands aukist en við höfum þó ekki verið að nota ferðamenn sérstaklega við ímyndarsköpun. Tenging ferðamennsku, matvæla og hreinnar óspilltrar náttúru Íslands – ég held að þar liggi mikil tækifæri.“

Hann horfir einnig til Parísarsáttmálans.

„Sjávarútvegurinn hefur náð mjög góðum árangri í umhverfismálum og þeim langbesta af öllum atvinnugreinum á Íslandi. Nú þurfum við að hugsa það alveg kalt; borgar sig að ráðstafa mjög ódýrri raforku til álvera, þegar það er skortur á raforku til þurrkunar á fiskmjöli og, það sem er framtíðin, að koma uppsjávarfiski úr fóðri yfir í manneldi. Borgar það sig að ráðstafa raforkunni á þennan hátt?“

Þá þurfi að metahvernig fjárfestingu sé forgangsraðað til nýsköpunarverkefna.

„Við höfum náð ágætis tökum á auðlindastýringu að mínu mati, enda erum við mjög rík af auðlindum. Ef maður horfir á virðiskeðju kjötvara þá er hagnaðurinn alla jafna mun minni við hráefnisöflun en við vinnslu og sölu. Í sjávarútvegi er þessu öfugt farið, almennt séð. Hagnaður í fiskvinnslu er þannig tiltölulega lítill miðað við vinnslu annarra matvæla.

Vegna þessa þurfum við að velta því fyrir okkur, er það forgangsatriði að ná enn betur utan um stýringu auðlindanna, með þeim aðferðum sem við höfum verið að beita? Eða felast  tækifærin frekar í því að beina athyglinni í auknum mæli að vinnslunni og tengingu hennar við markaðssetningu, þar sem vinnslan er miðpunktur virðiskeðjunnar?

Um leið og þú gerir það ertu ekki einungis að þróa vöru, og taka ákvörðun um hráefnisöflun út frá því hver eftirspurn markaðarins er, heldur ertu líka að ná utan um gögnin um eðliseiginleika vörunnar. Þannig nærðu að bæta fiskveiðistjórnun og líka markaðssetninguna. Þetta er eitthvað sem mér finnst skipta verulegu máli að skoða.“

Markaðssetning á netinu er annað mál sem Sveinn segir að horfa þurfi til í auknum mæli.

„Mjög margir þrjátíu ára og yngri gera meirihluta sinna innkaupa á netinu í ýmsum vöruflokkum. Sala á svarta föstudeginum vestanhafs á síðasta ári var til að mynda meiri á netinu en í hefðbundnum verslunum. Þetta er þróun sem er að eiga sér stað í matvælum og í sjávarfangi. Ég er þess algjörlega fullviss að tæknilegar umbyltingar eiga eftir að hafa veruleg, ef ekki virkilega róttæk áhrif, á umhverfi sjávarútvegs á Íslandi næstu tíu árin eða svo,“ segir hann og bætir við:

„Við eigum alls ekki að vera hrædd við þessa þróun heldur líta á þetta sem tækifæri. Þetta getur verið næsta stóra stökk fram á við fyrir íslenskan sjávarútveg, að fagna tæknilegum umbyltingum og nýta kosti þeirra til þess að búa til nýjar vörur, ná til nýrra viðskiptavina og nýta hráefnin með öðrum hætti, og mögulega minnka áhersluna á samskipti við hefðbundna smásala og fara að selja sjálf, ná sambandi við neytandann beint og fara að segja söguna af Íslandi, tengja vöruna við óspillta náttúru og hreina orku.

Hagsmunir landbúnaðar, sjávarútvegs og ferðaþjónustu, og þar með íslensku þjóðarinnar, fara algjörlega saman í þessu máli. Ég held það séu mikil tækifæri í því að sjávarútvegurinn taki forystu í þessum efnum. Sjávarútvegur er öflug atvinnugrein sem stendur styrkum fótum og gæti í rauninni leitt þessa umræðu áfram. Að virkilega sé horft á Ísland sem náttúruperlu sem sé hagnýtt til að byggja upp ímynd sem styrkir markaðssetningu á netinu. Um leið er ferðamaðurinn orðinn nokkurs konar sendiherra Íslands, þar sem hann upplifir hér gott sjávarfang og aðrar vörur úr hafinu og fer með þá reynslu aftur til sinna heimaslóða.“

Að lokum segir Sveinn að þróunin sé á þann veg að færri ungir koma inn á vinnumarkaðinn og miklu meiri samkeppni sé um vinnuafl en áður.

„Þessi lýðfræðilega þróun, ásamt fjórðu iðnbyltingunni gerir það að verkum að það eru miklu hraðari breytingar núna en voru fyrir bara tíu árum síðan. Þess vegna held ég að menn þurfi að hugsa út fyrir kassann. Rekstur bókabúða var til dæmis örugglega ekki svo slæmur fyrir tíu til fimmtán árum. Síðan þá hafa átt sér stað ótrúlegar breytingar,“ segir hann.

„Matís er til að mynda í verkefni núna á vegum rannsóknaáætlunar Evrópu, Horizon 2020, sem nefnist EIT FOOD, og er upp á fjögur hundruð milljón evra. Matís er í þessu verkefni vegna sérþekkingar á auðlindum hafsins, ásamt fyrirtækjum á borð við Nestlé og PepsiCo, en markmið verkefnisins er að umbylta evrópskum matvælaiðnaði á sjö árum.

Það skiptir okkur verulegu máli að skilja áhrif þessara umbyltinga og ég held að við getum leitt þessa þróun hvað varðar auðlindir hafsins, ef við erum framsýn og hæfilega áræðin, án þess þó að vera að taka einhverja heimskulega áhættu eins og gert var á árunum fyrir hrun. Við höfum allar forsendur til þess að vera mjög leiðandi á sviði nýtingar auðlinda hafsins og vera þekkt fyrir það.

En til þess þarf skýra stefnu. Ég var ósáttur við það stefnuleysi sem mér fannst einkenna fráfarandi ríkisstjórn í málefnum auðlinda hafsins. Ég skildi ekki hvert hún var að fara. Mér fannst lítið þokast og umræðan ekki fara í rétta átt. Ég hefði viljað sjá lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland samþykkta á þessum tíma,“ segir Sveinn og bætir við að mjög fín stefnumótunarvinna hafi farið fram hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á síðasta ári og fram undir síðastliðið vor. Ekkert hafi þó orðið úr því starfi og fjárlagatillögur fyrir 2018 endurspegli ekki útkomuna.

„Við verðum að horfast í augu við að það eru hagsmunir þjóðarinnar að bláa hagkerfið á Íslandi gangi ekki bara vel, heldur mjög vel. Til þess að svo megi verða þarf skýra stefnu“

Fréttir

Lúpínan – skaðvaldur eður ei?

Ný grein, sú fjórða í röðinni í hefti 30/2017, alþjóðleg vísindaritsins Icelandic Agricultural Sciences er komin út.

Þetta er stuttgrein og á íslensku mundi hún nefnast „Möguleg áhrif útbreiðslu lúpínu á samfélög frjóbera á Íslandi“. Athugunin var gerð í Heiðmörk sumarið 2015 á svæði sem einkennist af mósaík af innlendu skóglendi, mólendi og þéttum lúpínubreiðum. Frjóberandi skordýr sem sáust voru m.a. af hunangsfluguætt, hármýsætt, svarmfluguætt, húsafluguætt, sveifflugur (randaflugur) og bjöllur. Rannsóknin leiddi í ljós að marktækt fleiri einstaklingar af þessum sex algengustu ættum frjóberandi skordýra fundust á innlendum gróðri en í lúpínubreiðunum í Heiðmörk. Þetta er einföld athugun en höfundar álykta að lúpínan bjóði upp á verra búsvæði fyrir frjóberaandi skordýr í íslenskri náttúru en innlendu gróðurhverfin. 

Þessa áhugaverðu grein má nálgast á vef IAS.

Fréttir

Hvernig viltu hafa kjötið þitt? Áhugaverður opinn fundur á Hvanneyri

Þann 14. nóvember síðastliðinn úrskurðaði EFTA dómstóllinn að íslenskum yfirvöldum væri óheimilt að banna innflutning á fersku kjöti og eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk frá Evrópu til Íslands.  Ljóst er að þessi dómur mun hafa veruleg áhrif á íslenskan landbúnað. 

Landbúnaðarháskóli Íslands (Lbhí) og Bændasamtök Íslands (BÍ) bjóða til opins fundar á Hvanneyri föstudaginn 24. nóvember kl. 14:00 – 16:30 í Ásgarði.

Mikilvægt er að umræða um þetta mál byggist á faglegum grunni. Því boða LbhÍ og BÍ til opins fundar til að fjalla um niðurstöður dómsins og hugsanleg áhrif hans. Fundurinn er öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Boðið verður upp á kaffi í fundarhléi.

Hvernig viltu hafa kjötið þitt?   

Opinn fundur Lbhí og BÍ á Hvanneyri í tilefni af dómi EFTA dómstólsins um innflutning á fersku kjöti og eggjum og afurðum úr ógerilsneyddri mjólk.

  • 14:00 – 14:10    Setning – Sæmundur Sveinsson rektor LbhÍ
  • 14:10 – 14:30    Innflutningur á ferskum landbúnaðarafurðum til Íslands – staðan og horfur – Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ
  • 14:30 – 14:50    Innflutningseftirlit – hlutverk MAST og mismunur á eftirliti eftir uppruna innflutnings  – Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri inn- og útflutningsmála hjá Matvælastofnun 
  • 14:50 – 15:10    Kaffihlé
  • 15:10 – 15:30    Smitsjúkdómar sem geta borist með innfluttum ferskum landbúnaðarafurðum – Vilhjálmur Svansson dýralæknir, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum á Keldum
  • 15:30 – 15:50    Lýðheilsa – áhrif á heilbrigði manna og dýra – Karl G. Kristinsson yfirlæknir  Sýklafræðideildar Landspítalans
  • 15:50 – 16:30    Umræður og fyrirspurnir

Nánari upplýsingar má fá hjá Lbhí.

Fréttir

Áhrif fiskveiðilöggjafar á búsetu á Íslandi, í Noregi og í Færeyjum

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Matís, Nofima í Noregi og Syntesa í Færeyjum vinna nú að verkefni sem ætlað er að kanna áhrif fiskveiðilöggjafa á störf og búsetu á Íslandi, í Noregi og í Færeyjum.

Verkefnið er fjármagnað af Norrænu ráðherranefndinni og er ætlað að veita grunnupplýsingar um efnahagsleg og félagsleg áhrif fiskveiðilöggjafa á sjávarútveg landanna og þá sérstaklega á hinar dreifðari byggðir.

Vonast er til þess að niðurstöður liggi fyrir um mitt ár 2018 og muni þá nýtast Norrænu ráðherranefndinni og öðrum hagaðilum til að átta sig betur á áhrifum fiskveiðilöggjafa á búsetu í þessum löndum.

IS