Fréttir

Mæði-visnuveira og HIV: margt er líkt með skyldum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Ný grein var  að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Greinin, sem er yfirlitsgrein, heitir Mæði-visnuveira og HIV: Margt er líkt með skyldum og er eftir Valgerði Andrésdóttur. Í yfirliti greinarinnar segir: Mæði-visnuveira sýkir kindur og veldur aðallega lungnabólgu (mæði) og heilabólgu (visnu). Veiran er lentiveira, sem veldur hæggengum sjúkdómi, og er náskyld alnæmisveirunni HIV. 

Veirurnar eiga margt sameiginlegt, svo sem skipulag erfðaefnis, virkni og gerð veirupróteina, fjölgunarferli, viðbrögð hýsils við sýkingu og dvalasýkingu, sem hýsillinn losnar aldrei við. Báðar veirur sýkja frumur ónæmiskerfisins; mæði-visnu veira sýkir átfrumur, en HIV sýkir bæði átfrumur og T-eitilfrumur. Í yfirlitsgreininni eru ýmis líkindi með þessum veirum reifuð.  

Visna og mæði eru sauðfjársjúkdómar sem bárust til landsins með innflutningi á Karakúlfé árið 1933 og ollu miklum búsifjum í íslenskum sauðfjárbúskap. Þetta varð til þess að árið 1948 var Tilraunastöðin á Keldum stofnuð til þess að hafa með höndum rannsóknir á þessum og öðrum dýrasjúkdómum en visnu og mæði var útrýmt með niðurskurði sem lauk 1965. Björn Sigurðsson, fyrsti forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar stjórnaði rannsóknum á þessum sjúkdómum, og setti fram kenningar um nýjan flokk smitsjúkdóma, hæggenga smitsjúkdóma. Mæði-visnu veiran er í þessum flokki en einnig HIV veiran og hafa rannsóknir á mæði-visnu veirunni gefið mikilsverðar upplýsingar um líffræði HIV.

Það er mikill fengur að hafa fengið þessa yfirlitsgrein sem í grunninn byggir á einhverjum merkilegustu rannsóknum og uppgötvunum sem komið hafa frá íslenskum fræðimönnum.