Fréttir

Nýjar greinar komnar út í Icelandic Agricultural Sciences

Tvær nýjar greinar voru að koma út í alþjóðlega vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Þá hafa alls 8 greinar komið út í hefti 30/2017.

Fyrri greinin, Áhrif sauðfjárbeitar á íslensk vistkerfi , er eftir Bryndísi Marteinsdóttur og tvo aðra höfunda. Höfundar gefa yfirlit yfir rannsóknir og skrif um áhrif sauðfjárbeitar á úthaga hérlendis og fóru í gegnum 347 greinar fyrir þá vinnu. Einungs 44 þeirra voru með haldbær töluleg gögn til að gera safngreiningu (e: meta analysis) á áhrifum beitar á ýmsa vistfræðilega þætti úthaga, en þessar greinar byggðu á 16 ólíkum rannsóknum. Hin gögnin greindu frá of einföldum athugunum, voru endursagnir úr nothæfum gögnum eða voru meira og minna skoðanir viðkomandi höfunda. Niðurstaðan var sú að fyrir flestar vistfræðibreytur voru birtar rannsóknir of fáar til að draga mætti almennar ályktanir útfrá þeim með safngreiningu. Marktæk áhrif sem fundust voru að á beittu landi bar meira á rofi í gróðurþekjunni og að beit hafði marktæk áhrif á gróðursamfélögin.

Það vekur vissulega athygli hversu mörg göt eru í fræðilegri þekkingu á áhrifum úthagabeitar á Íslandi með tilliti til þess hversu löng hefð er á sauðfjárbeit. Hér er greinilega þörf á miklu átaki til að umræða um beit geti farið fram á traustari fræðilegum grunni þar sem byggt er á staðreyndum og mögulegt er að taka upplýstar ákvarðanir.

Í þessari stuttgrein, Áhrif jarðvegsgerðar á bygguppskeru í íslenskum yrkjatilraunum, nota Hrannar Smári Hilmarsson og meðhöfundar niðurstöður úr fjölda byggtilrauna á Tilraunastöðinni á Korpu við Úlfarsá og sýna að talsverður munur er á uppskeru byggyrkja eftir jarðvegsgerð. Hjá sumum arfgerðum virtist ekki skipta máli hvort um mýra- eða móajarðveg var að ræða en hjá öðrum hafði jarðvegsgerð allnokkur áhrif. Svo virðist sem seinþroska afbrigði gefi mjög litla uppskeru í mýrarjarðvegi á meðan snemmþroska 6-raða bygg hefur tilhneigingu til að fella korn í roki sé það ræktað á móajarðvegi, en nái minni þroska en gefi einnig meiri uppskeru á mýrajarðvegi. Í það heila er kornþungi meiri í þurrlendis- en á mýrajarðvegi.

Þessi grein er þannig samantekt sem mun nýtast ræktendum við val á sáðvöru og sýnir að gerð ræktunarlandsins skiptir miklu máli.

Fréttir

Þorskráðstefna á Nýfundnalandi

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Áherslusviðsstjóri

jonas@matis.is

Í lok nóvember 2017 var haldinn tveggja daga vinnufundur í bænum Gander á Nýfundnalandi þar sem til umfjöllunar var hvernig Nýfundlendingar geti undirbúið sig fyrir auknar þorskveiðar, en væntingar standa til að þorskstofninn muni ná sér á strik aftur á allra næstu árum. 

Eins og flestir vita varð algjört hrun í Kanadíska þorskstofninum fyrir aldafjórðungi síðan, sem endaði með því að allar þorskveiðar voru bannaðar árið 1992. Fóru þá veiðar úr um 300 þúsund tonnum á ári niður í ekkert, því sem næst yfir nótt. Veiðar úr stofninum höfðu verið enn meiri áratug fyrr, þegar árlegar veiðar fóru upp í 800 þúsund tonn, þegar mest var. Í kjölfarið fylgdu uppsagnir og atvinnuleysistölur sem ekki hafa sést fyrr né síðar á Nýfundnalandi.

Nú er stofninn farinn að sýna merki um að hann sé eitthvað að koma til og eru leyfðar veiðar upp á um 10 þúsund tonn í ár. Það hafa hins vegar orðið litlar breytingar á flotanum og vinnslunni frá því veiðibannið tók gildi og því er greinin alls ekki reiðubúinn fyrir auknar veiðar. Á vinnufundinum, sem sóttur var af um 200 manns, var fjallað um hvernig best verði staðið að uppbyggingu greinarinnar – eins og fram kemur í titli vinnufundarins sem var „þorskur – uppbygging greinarinnar til framtíðar“ (e. Cod – Building the Fishery of the Future). Meðal annars voru fengnir til sérfræðingar frá Noregi og Íslandi til að kynna stöðu mála í þeirra veiðum, vinnslu og markaðssetningu. Auk þess voru kallaðir til ýmsir sérfræðingar í markaðssetningu og greiningu á mörkuðum, til að gefa góð ráð. Frá Íslandi voru kallaðir til þeir Ögmundur Knútsson frá Háskólanum á Akureyri, Axel Helgason frá Landssambandi smábátaeigenda og Jónas R. Viðarsson frá Matís. Samhljómur var í þeirra nálgun að Nýfundlendingar þurfi að fjárfesta gífurlega í veiðum og vinnslu til að tryggja rétt gæði og að þeir þurfi ekki að finna upp hjólið þegar komi að því. Íslensk fyrirtæki búi yfir þekkingu og lausnum sem þeir geti nýtt sér. Einnig hvöttu þeir Nýfundlendinga til að líta ekki á aðrar þorskveiðiþjóðir sem samkeppnisaðila, það sé hagur okkar allra að Nýfundlendingar nái að framleiða þorskafurðir í hæstu gæðum og að það muni í raun styrkja og stækka markaðinn fyrir afurðir allra framleiðenda. Muni Nýfundlendingar hins vegar ekki standa undir sinni ábyrgð að framleiða þorskafurðir af réttum gæðum muni það mögulega hafa slæm áhrif á markaðinn fyrir aðrar þorskveiðiþjóðir.

Fréttir

AstaLýsi – lýsi og astaxanthin

Nýsköpunarfyrirtækin KeyNatura og Margildi hafa hafið formlegt samstarf sín á milli og hafa undirritað samning þess efnis. Fyrirtækin starfa bæði á sviði framleiðslu og sölu á íslenskum hollustuefnum sem eru m.a. astaxanthin og síldarlýsi en Margildi hefur meðal annars átt í samstarfi við Matís. 

Nýsköpunarfyrirtækin KeyNatura og Margildi hafa hafið formlegt samstarf sín á milli og hafa undirritað samning þess efnis. Fyrirtækin starfa bæði á sviði framleiðslu og sölu á íslenskum hollustuefnum sem eru m.a. astaxanthin og síldarlýsi. Þau hafa þróað saman nýja einstaka blöndu á sviði hollustuvara sem ber heitið AstaLýsi. AstaLýsi er fáanlegt í helstu apótekum og heilsuvörubúðum, s.s. Lyfju, Heilsuhúsinu, Mamma Veit Best og Lyf & Heilsu. Fleiri útsölustaðir eru væntanlegir á næstu misserum.

KeyNatura

KeyNatura er þróttmikið líftæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í ræktun þörunga fyrir fæðubótar- og lyfjamarkaðinn. Fyrirtækið hóf starfsemi sína árið 2014 og framleiðir efnið Astaxanthin, sem er náttúrulegt andoxunarefni framleitt úr þörungum. Fyrirtækið býður neytendum hágæða vörur sem styrkja heilsu og eru þrjár vörur nýkomnar á markað; AstaOrkaAstaOmega og núna AstaLýsi. Astaxanthin er eitt af öflugustu andoxunarefnum náttúrunnar og hefur margvísleg áhrif á líkamann. Astaxanthin er þekkt fyrir jákvæð áhrif á húð, hjarta- og æðakerfi, þrek og endurheimt orku eftir álag.

Margildi

Margildi framleiðir bragðgott síldarlýsi sem fæst t.d. í Hagkaupum, fiskisjoppu Fisherman og Frú Laugu undir merkjum Fisherman en hefur einnig verið selt til Bandaríkjanna og Evrópu. Síldarlýsi Margildis fékk alþjóðleg gæðaverðlaun “The Superior Taste Award” iTQi sl. sumar og er neysla þess talin ánægjuleg upplifun skv. umsögnum neytenda.

Margildi hefur ennfremur í samstarfi við Matís og nokkra íslenska matvælaframleiðendur þróað lausnir til að nýta síldarlýsið sem Omega-3 uppsprettu í matvæli s.s. fiskibollur, ferskt pasta, hnetusmjör, skyr, smjör, hummus, kaldar sósur og ídýfur, smúðinga og brauð. Með þessum hætti verður næringargildi þessara matvæla enn hærra en annars væri.

Nánari upplýsingar veita

Fréttir

Alls staðar hægt að selja þekkingu

Svavar Hávarðsson hjá Fiskifréttum birti um daginn grein um Lava Seafood en fyrirtækið er ört vaxandi fyrirtæki þar sem starfsmenn hafa að stórum hluta fengið menntun sína hjá Matís.

Lava Seafood er ungt fyrirtæki sem sérhæfir sig í útflutningi sjávarfangs og hefur vaxið hratt. Nú starfa hjá fyrirtækinu tíu starfsmenn en þriðjungur þeirra hefur hlotið menntun í matvælafræði með aðkomu Matís. Á næstunni bætist starfsmaður í starfslið Lava Seafood sem hlaut mikilvæga þjálfun hjá einum af forverum Matís, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Lava Seafood hóf rekstur með útflutningi sjávarfangs til Nígeríu árið 2014.

Þróunarstarfið lykillinn

Kristmann Pálmason, framkvæmdastjóri Lava Seafood, varð vitni að mikilvægi og þýðingu rannsókna og þróunarstarfs í tengslum við viðskiptahagsmuni Íslands þegar fyrirtækið steig sín fyrstu skref ytra. Kunnugt er að lækkandi olíuverð hefur haft mikil áhrif á kaupgetu almennings í löndum á borð við Nígeríu. Í ofanálag gripu Nígerísk stjórnvöld til aðgerða sem miða að aukinni sjálfsbjörg Nígeríumanna til matvælaframleiðslu. Þar á meðal voru aðgerðir til að takmarka innflutning á matvælum s.s. þurrkuðu sjávarfangi frá Íslandi. Gengisskráning, aðgengi að gjaldmiðlum og tollar höfðu áhrif, magn og verðmæti útflutnings héðan dróst saman. Slíkt hafði áhrif bæði efnahagslega og ímyndarlega, þar sem minni sala á sérstökum sjávarafurðum minnkar nýtingu Íslendinga á sjávarafla.

Að sögn Kristmanns er staðreyndin sú að þó menn vilji koma á fullkomnum markaði með vörur og þjónustu þá eru víðast það miklir hnökrar á, að hvergi er í raun hægt að tala um fullkominn markað. Víða eru gáttir sem einungis opinberir aðilar geta opnað.

Uppbygging þekkingar

Því fór viðskiptasendinefnd til Nígeríu í fyrra undir forystu Lilju Alfreðsdóttur, þáverandi utanríkisráðherra, en þó sendinefndin kæmist inn um gátt sem áður var lokuð, var samtalið við gestgjafana takmarkað.

„Samtalið við nígerísk stjórnvöld, fjármálaráðherra Nígeríu, komst fyrst af stað þegar mennta- og rannsóknasamstarf um nýtingu auðlinda sjávar, sem Matís og Sjávarútvegsskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna (UNU-FTP) hafa lagt grunn að, barst í tal. Fjármálaráðherra Nígeríu opnaði dyrnar fyrir íslenska ráðamenn hjá Tollstjóra Nígeríu í beinu framhaldi af umræðu um rannsókna- og þróunarsamstarfið,“ segir Kristmann og bætir við að Matís og UNU-FTP hafi tekið stór skref í þróa rannsóknir Íslendinga á sjávarafurðum. Mjög mikilvægt sé að nýta það sem komið er og byggja upp þekkingu á því hvað við erum með í höndunum í fyrsta lagi, og hins vegar hvað við erum í raun að selja inn á alla okkar fiskmarkaði, einkum með tilliti til heilnæmis, próteina og áreiðanleika. Það sé mikilvægt að tengja nýsköpunina inn á þekkta markaði t.d. Nígeríu auk þess að leita að nýjum mörkuðum.

Hæfileikafólk til landsins

Eins og Fiskifréttir hafa fjallað um að undanförnu hefur fjölþjóðlegt tengslanet vísindasamfélagsins í Matís dregið til landsins hæfileikaríkt fólk sem íslenskur sjávarútvegur getur nýtt sér með markvissum hætti með tilliti til þekkingar á og aðgengi að nýjum mörkuðum. Skemmst er að minnast ráðstefnunnar World Seafood Congress, sem Matís skipulagði með tilstyrk fjármála- og sjávarútvegsfyrirtækja. Ráðstefnan var mikilvægt innlegg inn í umræðu á alþjóða vísu, að sögn Kristmanns. Ráðstefnuna sóttu jafnt fræðimenn, ráðherrar og stjórnendur fyrirtækja í tengslum við sjávarútveg framtíðarinnar.

Kristmann segir að íslensk fyrirtæki eigi að leggja kapp á að nýta þá þekkingu og þann mannauð sem Matís hefur byggt upp með gagnkvæmu samstarfi.  Það hafi Lava Seafood gert; nýtt sér vísindasamfélagið Matís til að undirbúa margþætt verkefni á erlendri grundu. Fyrirtækið á í viðskiptum við félög í yfir 30 löndum og byggir á þeirri trú að allstaðar sé hægt að selja þekkingu.

„Matís má kalla samnefnara fyrir þá íslensku þekkingu sem er svo eftirsótt er viðkemur verðmætasköpun úr auðlindum sjávar,“ segir Kristmann.

Grein þessi birtist fyrst í Fiskifréttum 18. desember sl. 

Fréttir

Jólakveðjur frá Matís

Starfsfólk Matís óskar viðskiptavinum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Fréttir

Samstarf um menntun er liður í verðmætasköpun

Nýlega rituðu Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands og Sveinn Margeirsson forstjóri Matís grein sem birtist í Fréttablaðinu 30. nóvember síðast liðinn.

Á milli Matís og Háskóla Íslands ríkir gott og farsælt samstarf. Samningur er í gildi um kennslu og rannsóknir og gengur hann m.a. út á samnýtingu aðfanga og innviða, samstarf um rannsóknir og uppbyggingu mannauðs með það að markmiði að vera í fararbroddi á lykilfræðasviðum fyrir íslenskt samfélag.

Samningurinn á milli Háskóla Íslands og Matís lagði grunninn að eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Alls hafa 64 meistaraverkefni og 23 doktorsverkefni verið unnin á vettvangi Matís frá 2007, langflest með Háskóla Íslands.

Sjálfbær matvælaframleiðsla er lykill að því að uppfylla heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Inn í samstarf Matís og Háskóla Íslands fléttast einnig samstarf við Sjávarútvegsskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna sem starfræktur er hér á landi og hefur m.a. stutt fimm doktorsnema til að ljúka námi við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands í samstarfi við Matís. Ísland er meðal fremstu sjávarútvegsþjóða í heimi og hefur svo sannarlega margt fram að færa til aukins fæðuöryggis og velferðar í þróunarlöndum.

Með dýrmæta reynslu í farteskinu og óbilandi trú á gildi vísinda til framþróunar stefna Matís og Háskóli Íslands á áframhaldandi öflugt samstarf á næstu árum. Meðal áherslu­atriða þess samstarfs verður nauðsynleg innviðauppbygging á sviði matvæla og rannsóknir sem miða að sjálfbærri nýtingu lífauðlinda til lands og sjávar.

Greinina má lesa í heild sinni hér.

Fréttir

Lífhagkerfi Snæfellsness

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Með stuðningi Snæfellsnessbæjar, Grundafjarðarbæjar og Stykkishólmsbæjar hefur Matís unnið að því að stuðla að bættri nýtingu hráefna úr lífríki Breiðafjarðar með aukna sjálfbæra verðmætasköpun einkum m.t.t. næringarefnaþarfar til fóðrunar fiska. Unnið hefur verið að vistvænni verðmætamyndandi nýsköpun innan lífhagkerfisins með framangreindum stuðningi sem hefur verið mikilvægur fyrir þá þróunarvinnu sem Matís tekur þátt í. 

Frá árinu 2014 hefur Matís unnið með Snæfellsnesbæ, Grundarfjarðarbæ og Stykkishólmsbæ að greiningu lífhagkerfis Snæfellsness, með sérstakri áherslu annarsvegar á vistvæna nýsköpun og fóðrun fiska annarsvegar og áhrif og þátt auðlinda á nýsköpun og uppgötvanir. Með samstarfinu hefur vinna Matís miðað að því að styrkja þekkingargrundvöll vistvænnar þróunar og stuðla að bættri nýtingu hráefna með aukna sjálfbærni og verðmætasköpun að leiðarljósi.

Lýsing nútímans sem tíma örra breytinga á ekki einvörðungu við hagnýtingu upplýsingatækni eða s.k. tækniumbyltingum. Mikil þróun hefur átt sér stað að undanförnu í þróun næringar fiska sem aldir eru á og við strendur landsins, sú þróun er í takt við það sem tíðkast í fiskeldi víða um heim. Viðleitni framleiðenda til að svara kröfum á neytenda markaði hafa bein áhrif á verklag og vöruþróun fyrirtækja. Fiskafóður hefur tekið miklum breytingum samhliða því að framleiðendur sækjast eftir því að selja sínar vörur með sem mestri verðmæta sköpun. Samsetning fóðurs hefur tekið breytingum eins er litið til þeirra vegalengda sem aðföng til fóðurgerðar eru flutt, rétt eins og flutningsmáta afurða á markaði. Í samstarfinu var þróun fóðrunar fiska því fyrirferðamikil.  

Samskipti fulltrúa Matís, sérfræðinga sem og nemenda, við hagaðila á Snæfellsnesi skiptu sköpum fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið innan Matís frá árinu 2014. Vinnan sem fram fór innan framangreinds samnings féll inn á allar þrjár faglegar áherslur rannsókna og nýsköpunarsviðs Matís, sem í gildi hafa verið frá fyrri hluta árs 2016, þ.e. könnun erfðaauðlinda, vöruþróun og örugg virðiskeðja matvæla. Samstarfið við sveitarfélögin þrjú hefur, má því segja, haft áhrif á starfsemi Matís í heild sinni.

Vísinda og þekkingarsamfélagið Matís nýtti samstarfsgrundvöllinn með sveitarfélögunum þremur m.a. til þess að samþætta þekkingarleit ungra vísindamanna, vilja sveitarfélaganna og hlutverk Matís sem aðstoðar viðskipta vini sína til aukinnar verðmætasköpunar, matvælaöryggis og lýðheilsu. Koma þar við sögu yfirstandandi doktorsnám Birgis Arnar Smárasonar við Háskóla Íslands og meistaraverkefni tveggja nemenda, annars vegar á sviði haf umhverfis og auðlinda við Háskólann í Baskalandi og hinsvegar við í nýsköpunar og frumkvöðlafræðum við Háskólann í Osló.

Áhugi er fyrir því á Snæfellsnesi að skoða grundvöll þess að halda áfram þessu samstarfi.

Skýrsla um verkefnið er aðgengileg á vefsíðu Matís: http://www.matis.is/media/matis/utgafa/11-17-Greining-lifhagkerfis-Snaefellsness.pdf

Fréttir

Þróun sértæks bóluefnis fyrir bleikju

Matís, í samstarfi við Íslandsbleikju, Háskólann á Akureyri, Keldur og spænska bóluefnisframleiðandann Hipra vinna að þróun sértæks bóluefnis fyrir bleikju.

Ísland er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um fjögur þúsund tonna framleiðslu á ári. Engin lyf, önnur en fyrirbyggjandi bóluefni, hafa verið notuð í bleikjueldinu í meira en áratug og allri efnanotkun er haldið í lágmarki.  Sá sjúkdómur sem valdið hefur mestum afföllum í bleikjueldi undanfarin ár er kýlaveikibróðir. Bólusetning gegn sjúkdómnum, sem byggir á bóluefni þróað til notkunar í laxi, hefur ekki reynst nógu öflug til að verja bleikju þar til hún nær sláturstærð. Sjúkdómurinn veldur því umfangsmiklum afföllum og tekjutapi í greininni. 

Nú hafa þátttakendur verkefnisins, sem styrkt er af AVS rannsóknasjóðnum, hafið þróun á sértæku bóluefni gegn kýlaveikibróður fyrir bleikju með það að markmiði að koma á markað öflugu bóluefni sem nýtist í bleikjueldi. Verkefninu er stýrt af Íslandsbleikju og munu niðurstöður verkefnisins liggja fyrir seinni hluta árs 2019.

Fréttir

Rjómabúið Erpsstöðum vekur athygli forseta Íslands

Tengiliður

Þóra Valsdóttir

Verkefnastjóri

thora.valsdottir@matis.is

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, var í heimsókn hjá Rjómabúinu Erpsstöðum í vikunni. Þorgrímur Einar Guðbjartsson og Helga Elínborg Guðmundsdóttir reka þar blómlegt bú en þau, ásamt börnum sínum, hafa stundað nýsköpun af kappi undanfarin ár og áratug. Þau eru sannarlega ímynd hins íslenska frumkvöðlabónda.

Forsetinn og föruneyti fengu leiðsögn um nýja skyrsýningu og brögðuðu á skyri og nýjum rabarbaramysudrykk við góðan orðstír. Skyrsýningin er unnin í samvinnu við Matís og verður opnuð síðla vetrar.

Ef þú hefur ekki nú þegar kíkt í heimsókn á Erpsstaði, þá mælir allt með því að þú kíkir næst þegar það er opið hjá þeim 😉

Fréttir

Nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu eru mjög mikilvæg fyrir sjálfbæran vöxt fiskeldis

Tengiliður

Birgir Örn Smárason

Fagstjóri

birgir@matis.is

Matís var þátttakandi í verkefninu Aquaculture Innovation Network for northern Periphery and Arctic (AINNPA) sem styrkt var af Northern Periphery and Arctic Programme (NPA). Verkefnið, sem var forverkefni samstarfsaðilana fyrir undirbúning stærra verkefnis, snérist um að tengja saman lítil og meðalstór þróunarfyrirtæki á NPA svæðinu við fiskeldisiðnaðinn.

Nýsköpun og þróun á vörum og þjónustu eru mjög mikilvæg fyrir sjálfbæran vöxt fiskeldis. Minni fyrirtæki í fiskeldisgeiranum hafa ekki alltaf aðgang að nýsköpunar- og þróunarfyrirtækjum sem geta hjálpað fiskeldisfyrirtækjum að vaxa. AINNPA verkefninu var ætlað að taka á þessu vandamáli með því að tengja saman aðila og flytja þekkingu að fiskeldisiðnaðinum og opna nýja markaði fyrir lítil- og meðalstór þróunarfyrirtæki sem hafa ekki áður verið í samstarfi við fiskeldisiðnaðinn.

Samstarfsaðilar verkefnisins, University of Stirling (Bretland), Aquaculture Research Station of the Faroes (Færeyjar), SINTEF (Noregur) og Indigo Rock Marine Research Station (Írland) hafa allir langa reynslu í rannsóknum og nýsköpun fyrir fiskeldi, hver á sínu sviði. Aðilarnir hittust á fyrsta fundi verkefnisins í höfuðstöðvum Matís snemma árs 2017 og lögðu línurnar fyrir komandi mánuði.

Niðurstöðum verkefnisins var skilað til NPA sjóðsins í september. Þeim er ætlað að vera grunnur fyrir áframhaldandi samstarf aðilanna.

IS