Fréttir

Síldarlýsið frá Margildi komið á markað á Íslandi

Tengiliður

Valur Norðri Gunnlaugsson

Fagstjóri

valur.n.gunnlaugsson@matis.is

Loksins er hægt að fá síldarlýsi frá Margildi með vægu appelsínubragði undir merkjum Fisherman í verslunum Hagkaupa, Frú Laugu og fiskisjoppu Fisherman við Hagamel. Nýjustu fréttir eru að fyrsta pöntun frá Litháen til dreifingar í Eystrasaltsríkjunum er tilbúin til sendingar.

Áður hefur Margildi m.a. selt síldarlýsi til Bandaríkjanna og Noregs við góðar undirtektir. Fisherman hefur á undanförnum árum byggt upp skemmtilega og öfluga ferðaþjónustu á Suðureyri og framleiðir nú m.a. fiskrétti og ýmsar matvörur undir merki Fisherman.

Síldarlýsið frá Margildi er ríkt af Omega-3 fitusýrum, A-, D-, og E-vítamínum og hefur komið vel út í neytendaprófun vegna milds bragðs, sem og náttúrulegs stöðuleika. Síldarlýsið frá Margildi hlaut í sumar hin eftirsóttu iTQi „Superior Taste Award“ matvælagæðaverðlaun þar sem 135 alþjóðlegir meistarakokkar og matgæðingar voru sammála um að síldarlýsið væri góð matvara.

Margildi er frumkvöðlafyrirtæki sem er með aðsetur í húsnæði Matís að Vínlandsleið, hefur þróað nýja einkaleyfisvarða vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að fullvinna lýsi til manneldis úr uppsjávartegundum á borð við loðnu, síld og makríl. Margildi hefur unnið að nýsköpun sinni í nokkur ár í samstarfi við fjölmarga aðila og þar á meðal Matís, með styrkjum m.a. frá AVS, Tækniþróunarsjóði og Uppbyggingarsjóðum.

Sjá nánar inni á: https://www.fisherman.is/

https://www.facebook.com/fishermaniceland/?fref=ts

Fréttir

Úttekt á Matís vegna þjónustumælinga á salmonellu í alifuglarækt

Matvælastofnun framkvæmdi úttekt á verkferlum Matís þar sem Matís þjónustar matvælaiðnaðinn og Matvælastofnun við mælingar á salmonellu í alifuglarækt.

Úttektaraðilar frá Matvælastofnun fóru í gegnum gæðakerfi Matís, ferla, þjálfun starfsfólks, meðhöndlun niðurstaðna og almenna vinnu hjá Matís. Skemmst er frá því að segja að Matís stóðst úttektina með glæsibrag og fékk engar leiðréttingarkröfur. Úttektin sýnir að starfsfólk Matís er vel þjálfað og gæðakerfi Matís vel úr garði gert en Matís er einnig faggilt fyrir þessar mælingar. 

Skýrslan frá úttektinni

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan hefst í vikunni

Sjávarútvegsráðstefnan í ár verður haldin dagana 16.-17. nóvember í Hörpu. Ráðstefnan er nú haldin í áttunda sinn og hefur stækkað með ári hverju enda mikilvægur vettvangur fyrir alla sem starfa í sjávarútvegi til að efla tengsl og samstarf innan greinarinnar.

Hægt er að skrá sig til 15. nóvember nk.

Nánari upplýsingar

Fréttir

Nýjum tækjabúnaði bætt við rannsóknaaðstöðu Hafrannsóknastofnunar

Háþróaður tækjakostur, FlowCam, var nýverið keyptur frá Fluid Imaging Technologies og komið fyrir á rannsóknastofu umhverfissviðs Hafrannsóknastofnunar. Grunneining búnaðarins er smásjá og háskerpu myndavél, sem myndar agnir sem flæða framhjá linsunni í sérstakri flæðikúvettu. Flæðinu er stýrt með innibyggðri tölvu, sem jafnframt notar hugbúnað til að greina og flokka stafrænar myndir í samræmi við úrval skilgreindra mynda.

Tækjakaupin voru styrkt af Innviðastjóði Rannís. Búnaðurinn kemur sér vel til greininga á svifþörungum í samvinnuverkefni Hafrannsóknastofnunar og Matís, Örverur á Íslandmiðum (MIME). 

Sjá nánar

Þessi frétt birtist fyrst á vef Hafrannsóknastofnunar.

Fréttir

Efling matvælaframleiðslu og rannsókna – sama hvernig ríkisstjórnin verður!

Á fundi um aukna verðmætasköpun í landbúnaði, sem haldinn var á Hvanneyri um aukið virði landbúnaðarafurða, haldinn af Samtökum ungra bænda, Landbúnaðarháskóla Íslands og Matís fyrir stuttu, barst talið að því hvernig tiltölulega einfaldar aðgerðir til skamms tíma geta haft jákvæð áhrif til langs tíma.

Mikið var rætt um að yfirfæra þekkingu og aðferðafræði úr sjávarútvegi í ljósi reynslunnar af Aukið verðmæti sjávarfangs styrktarsjóðnum (AVS) og Tækniþróunarsjóði og aðlaga að landbúnaði. Eins og áður hefur komið fram, hefur verðmæti útfluttra sjávarafurða miðað við landaðan, afla aukist í kjölfar þess að markviss áhersla var lögð á aukið verðmæti. Eins barst í tal boðaður niðurskurður á fjárframlögum til matvælarannsókna (12%), sem er á ábyrgð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umfram aðhaldsmarkmið fjármálaáætlunar (2%).

Til tals kom fjárfesting hvorttveggja einkaaðila og hins opinbera í rannsóknum og þróun í samanburði við það sem gengur og gerist í Evrópu, Ameríku og í Japan.

Sæmundur Sveinsson rektor Landbúnaðarháskóla Íslands dró saman lokaorð og þótti honum, eftir að hafa heyrt frá framboðunum, að sama hvernig ríkistjórnin verður að þá verðum við með ríkisstjórn sem ætlar að hafa sterkan landbúnaðarháskóla og öflugt Matís, sem eru tveir lykilþættir sem eru nauðsynlegir til að efla matvælaframleiðslu og virði hennar á Íslandi.

Fréttir

Hvers virði er starfsemi Matís?

Flestum er ljóst að ótrúlegar framfarir hafa átt sér stað í íslenskum sjávarútvegi. Nú þegar miklar tæknilegar umbyltingar eiga sér stað í allri framleiðslukeðju matvæla þá sér ekki fyrir endann á þessum framförum. Á síðastliðnum 30 árum hefur íslenskur sjávarútvegur minnkað áherslu á veitt magn og aukið áherslu á gæði sem skilar meiru fyrir hvert kg af afla en áður. Grunninn að slíkri verðmætaaukningu er að finna í bættri nýtingu afla. Og til þess að geta nýtt afla betur er mikilvægt að þekkja alla virðiskeðjuna og bæta meðferð á öllum stigum keðjunnar. Þarna koma rannsóknir að.

Rannsóknir í sjávarútvegi

Rekja má rannsóknir í sjávarútvegi aftur til ársins 1934 þegar Rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands var komið á fót en á grunni hennar varð Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins til árið 1965 (Matís frá 2007). Mikilvægar vörður á þeirri vegferð eru tilkoma Fiskvinnsluskólans um 1970, upphaf matvælafræðikennslu við Háskóla Íslands 1978, stofnun sjávarútvegsbrautar Háskólans á Akureyri 1990 og stöku sjóðir sem styrktu rannsóknir.

Tilkoma rannsóknasjóðs í sjávarútvegi

Mikilvægustu skrefin á síðari árum voru stofnun AVS rannsóknasjóðs í sjávarútvegi árið 2003, en AVS stendur fyrir aukið verðmæti sjávarfangs, og Tækniþróunarsjóðs Rannís árið eftir. Ráðamenn þess tíma tóku alvarlega ábendingum um að það þyrfti framþróun á þessu sviði og með tilkomu sjóðanna hefur samstarf rannsóknaaðila við fyrirtæki í sjávarútvegi aukist mikið og menntuðum einstaklingum í greininni fjölgað. Afraksturinn kann að hljóma ótrúlega. Með markvissum rannsóknum hefur verðmætasköpunin aukist svo stórkostlega að mælt er í milljarðatugum. Sem dæmi má nefna að fyrstu árin fór allur makríll í bræðslu en með niðurstöðum úr rannsóknum þá jókst skilningur á því hvernig best væri að meðhöndla makrílinn þannig að úr yrði fyrirtaks vara til manneldis. Íslendingum var sagt að þetta væri ekki hægt en í stað þess að sættast á að makríll veiddur hér við land nýttist einungis til fóðurframleiðslu þá varð niðurstaðan sú að nú er verðmæti makrílsins um 20 milljarðar á ári.

Meðferð afla – gerum ekki gull úr skít!

Meðferð afla er lykilatriði þegar kemur að aukinni nýtingu. Þekking á meðferð kemur frá rannsóknum. Rétt þarf að standa að blæðingu, þvotti og kælingu og annarri meðhöndlun afla. Sama lögmál gildir fyrir öll skip í íslenska flotanum og það lögmál er vönduð blæðing og kæling og enn meiri kæling á aflanum; standa þarf rétt að blæðingu og kælingu aflans – alltaf! Íslenskur sjávarútvegur ætlar ekki að keppa um markaðinn á magni heldur á gæðum aflans. Slík hugsun er ekki síst mikilvæg þegar kemur að því að nýta þá takmörkuðu auðlind sem sjórinn geymir. Sjálfbær nýting á auðlindum hafs og vatna, í bláa lífhagkerfinu, er nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga. Rannsóknir styðja við að það sé gert á sem bestan hátt. 

Ekki rusl heldur verðmæt aukahráefni

Keðjuverkun í sjávarútvegi, með virðiskeðjunálgun hefur haft áhrif; það er auðveldara að fá gott verð fyrir hráefni sem meðhöndlað hefur verið af kostgæfni. Hitt sem bætt meðferð hefur skilað, eru tækifærin til nýtingar á því sem vannýtt hafði verið í sögulegu tilliti. Mikil verðmætasköpun er í dag hjá fyrirtækjum sem koma í kjölfar framþróunar í sjávarútvegi almennt, t.a.m. hjá aðilum sem eru að vinna með svokölluð aukahráefni en til þess að nýta þau þá er nauðsynlegt að hráefnisgæðin séu í lagi; blæðing og kæling eru lykilatriði. Þetta vitum við vegna rannsókna sem framkvæmdar hafa verið undanfarna áratugi.

Verðmætasköpun er lykill

Ísland er land tækifæra í sjálfbærri nýtingu hreinnar náttúru, t.d. í framleiðslu heilnæmra matvæla, virkra lífefna og jákvæðri upplifun af neyslu íslenskra matvæla. Hjá Matís er unnið að fjölbreyttum verkefnum í matvælaiðnaði þar sem áhersla er lögð á nýsköpun og verðmætaaukningu og hefur fyrirtækið verið í fararbroddi aukinnar verðmætasköpunar úr sjávarfangi. Verðmæti úr hverju veiddu tonni af fiski hefur aukist um 145% frá árinu 2003, fram til 2016. Sú aukning gerðist ekki af sjálfu sér, heldur gerðist hún með því að tengja saman vísindi, atvinnulífið, frumkvöðla og menntasamfélagið. Matís hefur, í samstarfi við Háskóla Íslands og aðra háskóla, tengt vísindi og dagleg viðfangsefni fyrirtækja í 23 doktorsverkefnum og 64 meistaraverkefnum sem liði í stærri rannsóknaverkefnum. Sérfræðingar Matís auðvelda hagnýtingu niðurstaðna vísindarannsókna og brúa bil á milli fyrirtækja og háskóla. Það er sama hvernig við lítum á málin, lykilatriði í verðmætasköpun samtímans og til framtíðar er samspil vísinda og praktískra áskorana fyrirtækja. Samvinnan hefur skilað okkur miklum þjóðhagslegum ávinningi, hún hefur verið að styrkjast og hefur alla burði til að styrkjast enn meira. 

Hér eru nokkur dæmi um þátttöku Matís í íslenskum sjávarútvegi

  • Ankra – Aðstaða til pökkunar.
  • Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða – Greining samkeppnishæfni vestfirsks sjávarútvegs, aðstoð við skipulagningu og framkvæmd ráðstefna um málefni vestfirsks atvinnulífs.
  • Brim – Vinnsluspá grálúðu, rannsóknir á þorsklifur, ofurkæling fiskflaka, þróun vinnsludekks á línuskipum.
  • Codland – Rannsókna- og þróunarsamstarf, aðstoð við formun verkefna, mælingar og prófanir, eðlisgreining kollagens, norrænar tengingar, hreinsun lýsis.
  • Eimskip – Rannsóknir sem stuðluðu að þróun flutnings ferskra sjávarafurða.
  • FISK – Vinnsluspá þorsks, léttsöltun fiskflaka, ferlastýring á vinnsludekki bolfiskskipa, ofurkæling, aflameðferð bolfisks, kæling makríls, rannsóknir á þorsklifur, vistferlagreining fiskafurða.
  • Frostmark – Úttektir og prófanir búnaðar.
  • Grímur kokkur – Samstarf um auðgun sjávarrétta, ráðgjöf um framleiðsluferli.
  • HB Grandi – Samstarf í rannsókna- og þróunarstarfi þ.m.t. á sviði aflameðferðar og vinnslu uppsjávarfiska, s.s. gæði og stöðugleiki karfaafurða, ferlastýring á vinnsludekki bolfiskskipa, rafþurrkun fiskimjöls, stöðugleiki ferskra flakaafurða í útflutningi.
  • Icelandair – Rannsóknir sem stuðluðu að þróun flutnings ferskra sjávarafurða.
  • Iceprotein – Þjálfun starfsmanna, uppsetning aðferða, samstarf í verkefnum í tengslum við matvælavinnslu.
  • Ísfélag Vestmannaeyja – Aflameðferð, kæling makríls og stöðugleiki afurða.
  • Kerecis – Aðstaða í Reykjavík og aðstaða á Ísafirði í upphafi reksturs, rannsóknir á eiginleikum þorskroðs.
  • Landsamband smábátaeigenda – Aflameðferð; blóðgun, blæðing, þvottur og kæling –  kennsluefni, leiðbeiningar, smáforrit og námskeið, átaksverkefnið Fallegur fiskur, verðmætasköpun úr grásleppu.
  • Laxá – Þróun á fóðri til fiskeldis.
  • Lýsi – Rannsóknir á breytileika og stöðugleika þorsklifrar, gæðaflokkun lifrar.
  • Marel – Margvíslegt samstarf m.a. um sjálfvirkan beinskurð hvítfiskflaka, þróun mælitækni, forsnyrting flaka, erindi á Whitefish ShowHow.
  • Margildi – Aðstaða, ráðgjöf, greining eiginleika og stöðugleika lýsis, uppsetning markaðsefnis.
  • Oddi hf. – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks, vistferlagreining fiskafurða.
  • Prentsmiðjan Oddi – prófun á umbúðum.
  • Primex – Þjálfun þróunarstjóra, samstarf í rannsókna- og þróunarverkefnum varðandi nýtingu afurða Primex til lengingar geymsluþols ferskfisks.
  • Reiknistofa fiskmarkaðanna – aðstoð við bætta starfshætti á fiskmörkuðum og þátttaka í þarfagreiningu uppboðskerfis.
  • Samherji – Vinnsluspá þorsks, aflameðferð og vinnsla uppsjávarfiska sérstaklega makríls, þróun framleiðslu umbúða og flutnings ferskra sjávarafurða, ofurkæling fiskflaka.
  • Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi – Samstarf um upplýsingar um næringarefnainnihald íslenskra sjávarafurða.
  • Síldarvinnslan – Aflameðferð makríls og stöðugleiki afurða, vinnsluþróun loðnuhrogna, makrílflaka, rauðátu, ofurkæling uppsjávarfiska, bætt nýting aukaafurða uppsjávarfiska, öryggi afurða, flökun á síld.
  • Skaginn 3X – Filtrex búnaður, Rótex búnaður, ofurkæling, þróun vinnsluferla í bolfiski sem og uppsjávarfiski, frysting uppsjávarfisks.
  • Skinney Þinganes – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks, stöðugleiki makríl afurða, humarverkefni.
  • Sæplast – Hönnun og prófanir á umbúðum.
  • Thor-Ice – Þróun kæliferla með vökva ís, makríl og bolfisk.
  • True Westfjords – Þróun nýs framleiðsluferils bolfiskslýsis, könnun á aðgreiningarmöguleikum lýsis út frá fitusýrusamsetningu.
  • Vignir G. Jónsson – Fiskiperlur, aðstaða til prófana vegna vöruþróunar.
  • Vinnslustöðin – Þróun vinnsluferla við framleiðslu saltfisks.
  • Vísir – Vinnsluspá þorsks, ferlastýring við saltfiskframleiðslu, vísindaleg úttekt á vinnsluferli og eiginleikum nýrra saltfiskafurða, úttekt á áhrifum söltunaraðferða á eðliseiginleika afurða, þróun vinnsludekks á línuskipum.
  • Þorbjörn – Ferlastýring við saltfiskframleiðslu, vísindaleg úttekt á vinnsluferli og eiginleikum nýrra saltfiskafurða, úttekt á áhrifum söltunaraðferða á eðliseiginleika afurða.

Og það er meira til!

Greinin hér að ofan birtist fyrst í Fiskifréttum: http://www.fiskifrettir.is/…/hvers-virdi-er-starfse…/142433/

Fréttir

Flutningskostnaður fiskflutningaskipa í bakafragt getur lækkað um nærri 40%

Rannsókna- og þróunarverkefnið T-KER er samvinnuverkefni Sæplasts, Matís, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, ITUB og Icefresh í Þýskalandi.

Markmiðið er að þróa ný flutningaker, sem ætluð eru fyrir heilan fisk, fersk flök og flakabita til að byrja með en gætu hæglega reynst vel fyrir önnur fersk matvæli. Hönnun nýju keranna, sem nefnd eru tvíburaker og staflast í pörum, miðar að því að bæta rúmmálsnýtingu í bakafragt um 60-75% og minnka þar með flutningskostnað í bakafragt um nærri 40%. Kerunum, sem væntanlega verða um 10-15 cm grynnri en hefðbundin 460 L fiskiker, er einnig ætlað að varðveita fiskgæði og stöflunaröryggi jafn vel eða betur miðað við núverandi ker fyrir hvítfisk og einnota frauðkassa fyrir lax. Jákvæð umhverfisáhrif nýju keranna stafa því bæði af bættri rúmmálsnýtingu í flutningi og aukinni notkun á endurnýtanlegum umbúðum í stað einnota umbúða.

Björn Margeirsson, rannsóknastjóri Sæplasts, um nýja verkefnið og nýju kerin.

Fréttir

Húsfyllir að Hvanneyri – fyrsta skrefið í að þrefalda verðmætasköpun og arðsemi íslensks landbúnaðar

Mjög góð mæting var á fund á Hvanneyri um aukið virði landbúnaðarafurða sem Samtök ungra bænda, Landbúnaðarháskóli Íslands og Matís buðu til í gærkvöldi. Þar stigu á stokk forsvarsmenn fundarboðenda og fulltrúar frá öllum helstu framboðum til alþingiskosninganna um næstu helgi. Á næstu dögum munum við fjalla um fundinn og draga fram það helsta sem þar fór fram.

Margt áhugavert kom fram í erindi frambjóðenda og sitt sýndist hverjum um hvernig hægt er að auka virði landbúnaðarafurða en öll framboðin voru þó sammála um að nýsköpun, rannsóknir og þróun eru grunnatriðin sem þurfa að vera til staðar til að aukin verðmætasköpun geti átt sér stað í landbúnaði. Slíkt er athyglivert í ljósi þess að í fjárlagafrumvarpi næsta árs og ríkisfjármálaáætlun næstu fimm ára er lagt til af núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að fjármagn til Matís verði skorið niður um 12% eða um 51 milljón. Slíkt er algerlega á skjön við stefnu allra flokka um eflingu nýsköpunar á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason frá Framsóknarflokki sagðist hafa fylgst með uppbyggingu Matarsmiðja Matís allt í kringum landið í gegnum tíðina. Hann sagði að á meðan niðurskurðaráform liggi fyrir þá væri Matís væntanlega að takast á við þau áform og undirbúa sig. Á sama tíma gæti félagið ekki sótt fram með eðlilegum hætti og unnið áfram að þeim flottu verkefnum sem í gangi væru allt í kringum landið. Niðurskurðurinn væri því í mikilli mótsögn við efni fundarins, aukið virði landbúnaðarafurða.

Fréttir

Getum við notað íslenskar olíur í viðarvörn?

Vitað er að fiskolíur hafa verið notaðar sem viðarvörn fyrr á öldum og reynst vel. Þekkingin hefur hins vegar mikið til glatast. Með aukinni áherslu á afturhvarf til eldri tíma og hráefna og betri þekkingu, skapast lag til að nýta fiskolíur, sem núna falla í úrgangsflokk, til verulega aukinna verðmæta en leysa þarf framleiðslu- og vöruþróunarvandamál áður en lengra er haldið. 

Nýtt verkefni er u.þ.b. að hefjast hjá Matís í samstarfi við nýsköpunarfyrirtækið Magla ehf. með fjárstyrk frá AVS sjóðnum. Markmið verkefnisins er að þróa afurð úr fiskolíum til notkunar sem hluta af viðarvörn en ákvarða þarf framleiðsluferla til að breyta óhreinu hrálýsi og þá hvaða lýsi í verðmæta viðarolíu. Heildarstyrkur verkefnisins er sjö milljónir. 

Verkefnastjóri er Ásbjörn Jónsson auk hans eru Heiða Pálmadóttir og starfsfólk efnastofu Matís þátttakendur í verkefninu. Verkefnið hefst í nóvember 2017 og líkur í nóvember 2018.

Fréttir

Skýrsla starfshóps um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna

Þann 23. maí 2016 var skipaður starfshópur um endurskoðun löggjafar um dýrasjúkdóma og dýralækna, með það að markmiði að búa til ein heildarlög um heilbrigði dýra, sem hefði þann tilgang að bæta almennt heilbrigði búfjár og gæludýra hvað alla sjúkdóma varðar. Starfshópurinn afhenti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu skýrslu sína 17. október 2017.

Helstu áherslur í tillögum starfshópsins eru meðal annars að tryggja skilvirkni í tilkynningum og viðbrögðum við sjúkdómum, vanhöldum og slysum á dýrum, og að rekin sé öflug stofnun sem sinni rannsóknum, ráðgjöf og áhættumati vegna dýrasjúkdóma. Þá er lagt til að stofnað verði sérstakt ráð sem fari með leyfisveitingar, réttindamál og endurmenntun dýralækna og heilbrigðisstarfsmenn dýra, og fjalli um kærur, álitamál o.fl.  

Lagt er til að starfsemin á Keldum verði efld og að hún færist undir yfirstjórn sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verði annað hvort sjálfstæð stofnun eða verði sameinuð öðrum stofnunum, að hluta eða öllu leyti (bls. 74). 

Skýrslan kemur til með að nýtast vel við vinnslu frumvarpa en vinna við þau mun hefjast fljótlega. Skýrslan er lögð fram til kynningar og er öllum frjálst að koma með athugasemdir eða ábendingar við efni hennar.  

Fréttin birtist fyrst á vef Stjórnarráðsins.

IS