Fréttir

Lengi býr að fyrstu gerð – sýnum það besta

Hvað er betra en að fá þá sem kunna til verka að sýna hvernig gott verk er unnið. Matís og Landssamband smábátaeigenda (LS) blása til samkeppni meðal sjómanna um að sýna í máli og myndum hvað þarf til svo fyrsta flokks afli berist að landi.

Samfélagsmiðlar verða nýttir til að sýna frá störfum sjómanna og munu sjómennirnir sjálfir sjá um myndir og texta.

Í lok hvers mánaðar, maí, júní, júlí og ágúst verður einn sjómaður valinn sem þykir hafa skilað besta og jákvæðasta efninu. Eingöngu verður lagt mat á myndirnar og textann og mun það vera í höndum Matís og LS að velja úr aðsendum og birtum myndum.

Markmið verkefnisins er að auka vitund um mikilvægi góðrar aflameðferðar og hversu miklu máli það skiptir að stunda vönduð vinnubrögð. Nauðsynlegt er að sýna neytendum með jákvæðum hætti að vel sé að verki staðið og að unnið sé með ábyrgum hætti að sjálfbærri nýtingu okkar sameiginlegu auðlindar.

Myndir eða stutt myndbönd mega vera af nánast hverju sem er varðandi sjómennsku, veiðar og aflameðferð. Við viljum þó fyrst og fremst sjá myndir sem fanga jákvæða mynd aflameðferðar og ekki er vitlaust að velta því fyrir sér hvað það er sem gerir fiskinn þinn þann besta á markaðnum og með hvaða hætti þú getur sýnt það í máli og myndum.

Svo er alls ekki bannað að vera frumleg(ur) og skemmtileg(ur) í myndavali og gefa ímyndunaraflinu svolítið lausan taum því það verður til mikils að vinna.

Leiðbeiningar vegna ljósmyndakeppninnar

Hægt er að taka þátt í keppninni í gegnum samfélagsmiðlana Facebook, Instagram eða Twitter. Einnig er hægt að senda tölvupóst með mynd og texta á netfangið fallegurfiskur@matis.is

Facebook

1.    Farðu á síðuna www.facebook.com/fallegurfiskur eða finndu síðuna í Facebook símaappi undir Fallegur fiskur og smelltu á „Like“ hnappinn.
2.    Taktu mynd sem varpar ljósi góða meðhöndlun afla/hráefnis sem gerir það að verkum að fyrsta flokks afli berist að landi.
3.    Settu myndina á vegginn hjá www.facebook.com/fallegurfiskur og skrifaðu lýsandi texta um myndina.
4.    Smelltu á „Share“ hnappinn eða þann hnapp eða þann hnapp sem deilir myndinni og textanum á Facebook.

Instagram

1.    Farðu á síðuna www.instagram.com/fallegurfiskur/ eða finndu síðuna í Instagram símaappi undir Fallegur fiskur og smelltu á „Follow“ hnappinn.
2.    Taktu mynd sem varpar ljósi góða meðhöndlun afla/hráefnis sem gerir það að verkum að fyrsta flokks afli berist að landi.
3.    Settu myndina með lýsandi texta á Instagram vegginn þinn en gerðu auk þess tvennt:
a.    „Hash-taggaðu“ / notaðu myllumerkið (#) á myndina/færsluna með #fallegurfiskur og
b.    Settu @fallegurfiskur í textann eða „Taggaðu“ fallegurfiskur í „Tag people“ valmöguleikanum
4.    Smelltu á „Share“ hnappinn eða þann hnapp eða þann hnapp sem deilir myndinni og textanum á Instagram.

Twitter

1.    Farðu á síðuna www.twitter.com/fallegurfiskur eða finndu síðuna í Twitter símaappi undir Fallegur fiskur og smelltu á „Follow“ hnappinn.
2.    Taktu mynd sem varpar ljósi góða meðhöndlun afla/hráefnis sem gerir það að verkum að fyrsta flokks afli berist að landi.
3.    Settu myndina með lýsandi texta á Twitter vegginn þinn en gerðu auk þess tvennt:
a.    „Hash-taggaðu“ / notaðu myllumerkið (#) á myndina/færsluna með #fallegurfiskur og
b.    Settu @fallegurfiskur í textann eða „Taggaðu“ fallegurfiskur í „Who‘s in this photo“ valmöguleikanum
4.    Smelltu á „Tweet“ hnappinn eða þann hnapp sem deilir myndinni og textanum á Twitter.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Ítarefni:

Fréttir

Greining fiskveiðistjórnunarkerfa: notkun líkana og hermun

Mánudaginn 2. maí ver Sigríður Sigurðardóttir starfsmaður Matís doktorsritgerð sína í iðnaðarverkfræði við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands.

Andmælendur eru dr. Villy Christensen, prófessor og forstöðumaður Sjávar- og fiskirannsóknarstofnunar Háskólans í Bresku Kólumbíu, Kanada, og dr. Ronald Pelot, prófessor við Dalhousie-háskóla í Halifax, Kanada.

Leiðbeinandi var dr. Gunnar Stefánsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands. Einnig sátu í doktorsnefnd Sigurjón Arason, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís, dr. Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, dr. Páll Jensson, prófessor í iðnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík, og dr. Birgir Hrafnkelsson, dósent í tölfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands.
 
Dr. Ólafur Pétur Pálsson, prófessor og deildarforseti Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideildar, stjórnar athöfninni.

Hvenær hefst þessi viðburður: 2. maí 2016 – 14:00Staðsetning viðburðar: Askja Nánari staðsetning: Stofa 132

Ágrip af rannsókn

Fiskveiðistjórnun er vandasamt verkefni sem tekst á við fjölda áskorana, þ.m.t. of stóran fiskveiðiflota, brottkast afla og óarðbærar veiðar. Líta má á fiskveiðar sem kerfi sem einkennast af samspili manna við náttúruauðlindir. Tölvuvædd hermilíkön eru gagnleg til þess að auka skilning á fiskveiðistjórnun sem og styðja við ákvarðanir tengdar stjórnun veiða. Líkön gagnast til þess að meta áhrif breytinga á stjórnun veiða á ólíka þætti, svo sem fiskistofna, atvinnu og afkomu. Breytingarnar eru til dæmis sóknartakmarkanir, breyting á úthlutun kvóta eða krafa um að allur afli komi að landi.

Markmið rannsóknarinnar var að stuðla að bættri fiskveiðistjórnun. Tilgangurinn var að þróa líkön og herma fiskveiðistjórnunarkerfi með það að markmiði að bera saman ólíkar nálganir í stjórnun veiða. Það er gert með því að líta á áhrif þeirra á valdar breytur sem eru ýmist hagrænar, líffræðilegar eða félagslegar. Meginframlag rannsóknarinnar felst í að kynna aðferðir sem hingað til hafa lítið eða ekki verið nýttar á þessum vettvangi. Rannsóknin er þverfagleg og sameinar líkangerð og hermun sem á rætur að rekja til verkfræði og sjávarútvegsfræði sem byggir á vistfræði, hagfræði og félagsfræði. Þrjú líkön voru þróuð, blendings (e. hybrid) hermilíkan sem samanstendur af kviku kerfislíkani (e. system dynamics model) og strjálu-atburða hermilíkani (e. discrete-event simulation model) og nýrri tegund líkana sem er í ætt við einingalíkön (e. agent-based models). Einn angi rannsóknarinnar fjallaði um brottkast en þar voru tólf aðferðir til að draga úr brottkasti metnar kerfisbundið með svokallaðri SVÓT greiningu sem felur í sér að greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri.

Um doktorsefnið

Sigríður Sigurðardóttir fæddist 1. desember 1983. Hún lauk B.Sc. prófi árið 2007 í iðnaðarverkfræði og  meistaragráðu í sama fagi árið 2011. Meistararitgerð Sigríðar fjallaði um líkön og leiðir til hagræðingar í mjólkurvinnslu hjá Mjólkursamlagi Kaupfélags Skagfirðinga. Samhliða doktorsnáminu, sem hófst árið 2011, hefur Sigríður starfað hjá Matís við fjölbreytt verkefni, einkum í sjávarútvegi. Sigríður varði hluta námstímans erlendis; við Kaliforníuháskóla í Berkeley og Chalmers tækniháskólann í Gautaborg og naut leiðsagnar þarlendra prófessora.

Eiginmaður Sigríðar er dr. Egill Maron Þorbergsson og eiga þau dótturina Önnu Ísafold.

Fréttir

Háskóli Íslands upp um nær 50 sæti á lista yfir bestu háskóla heims – Matís er stoltur samstarfsaðili

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgum að Háskóli Íslands (HÍ) fékk enn eina rós í hnappagatið fyrr í þessari viku þegar Times Higher Education World University Rankings 2015-2015 birti lista yfir bestu háskóla heims. Skólinn færist upp um hartnær 50 sæti á þessum lista, úr 270. sæti í það 222.

Góð tenging hefur lengi verið á milli HÍ og Matís. Fjölmargir starfsmenn Matís koma að kennslu hjá HÍ þá sérstaklega í matvæla- og næringarfræði sem og kennslu í líftæknitengdum greinum. Starfsfólk Matís er ákaflega stolt af því að Matís skuli vera nefnt sem samstarfsaðili þessa öfluga háskóla og lítur björtum augum til áframhaldandi samstarfs á næstu árum og áratugum.

Matís óskar Háskóla Íslands til hamingju með þessa miklu viðurkenningu!

Um samstarf HÍ og Matís

Matís hefur átt í miklu og góðu samstarfi við Háskóla Íslands um nám í matvælafræði en það er samvinnuverkefni Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Matís. Í náminu er lögð rík áhersla á að nemendur vinni hagnýt verkefni og séu í tengslum við atvinnulífið.

Samstarfið við Háskóla Íslands er ekki bundið við matvæla- og næringarfræðideild þar sem einnig er mikið samstarf við verkfræði- og náttúruvísindasvið og einnig félagsvísindasvið.

Sumarið 2013 gerðu Matís og HÍ með sér samning um víðtækt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Samningurinn leggur grunninn að frekri eflingu fræðilegrar og verklegrar menntunar á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis auk samstarfs á öðrum sviðum kennslu og rannsókna. Samkomulagið er mikilvægt skref í formlegu samstarfi Matís og Háskóla Íslands um samnýtingu aðfanga, innviða rannsókna og mannauðs. Það felur í sér ásetning um að vera í fararbroddi á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til.

Háskóli Íslands hefur mótað sér stefnu til ársins 2016, þar sem m.a. er lögð áhersla á doktorsnám, framúrskarandi rannsóknir og kennslu, auk áherslu á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís. Á vegum HÍ eru stundaðar víðtækar rannsóknir og kennsla á þeim fræðasviðum sem Matís fæst við, einkum á vettvangi heilbrigðisvísinda- og verkfræði- og náttúruvísindasviða skólans.

Margt er gert til að tryggja enn betur samstarf og góða samvinnu á milli aðila í þessum mikilvægu greinum. Til að mynda var árið 2012 blásið til sóknar í matvælafræðinámi á Íslandi. Með samstarfi Matís og Háskóla Íslands, í samvinnu við aðra ríkisrekna háskóla, var nýtt alþjóðlegt meistaranám í matvælafræði sett á laggirnar en námið hefur heldur betur slegið í gegn og fjölgar nemendum ár frá ári. Nánari upplýsingar um námið má finna hér: www.framtidarnam.is.

Auk þess var stofnað nýtt svið hjá Matís með það fyrir augum að tengja enn betur saman iðnaðinn og háskólasamfélagið.

„Með stofnun sviðs um menntun og matvælaframleiðslu gerum við starfsemi og hlutverk Matís meira áberandi og tengjum betur saman atvinnulífið, menntun, rannsóknir og þróun á matvælum,“ segir Guðjón Þorkelsson um hið nýja svið menntunar og matvælaframleiðslu sem tók til starfa innan Matís þann 1. júní 2012.

Fréttir

Áhugaverð ráðstefna á Akureyri – Sjávarútvegur á Norðurlandi

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) stendur fyrir áhugaverðri ráðstefnu á morgun, föstudaginn 15. apríl. Fjöldi góðra fyrirlesara mun þar flytja erindi sem tengjast sjávarútvegi og er einn þeirra Sæmundur Elíasson frá Matís og Háskólanum á Akureyri.

Nánari upplýsingar má finna á vef RHA.

Fréttir

Er sjálfbær aukning í fiskveiðum möguleg í ljósi loftlagsbreytinga?

Loftlagsbreytingar eru raunverulegar og viðvarandi. Meðal þess sem veldur áhyggjum í tengslum við loftlagsbreytingar er ógn við sjálfbæran vöxt fiskeldis og fiskveiða á heimsvísu. Jarðarbúum fjölgar ört, kröfur um næringarríkan og hollan mat aukast og framtíðarspár benda til samdráttar í matvælaframleiðslu vegna loftlagsbreytinga

ClimeFish – Nýtt verkefni

ClimeFish er evrópskt rannsóknaverkefni styrkt af Rannsóknaáætlun Evrópu, Horizon 2020, og hófst vinna í verkefninu 1. apríl sl. Markmið með verkefninu er að tryggja að framleiðsla sjávarafurða geti aukist, bæði á tegundum og á svæðum þar sem sjálfbær aukning er möguleg að teknu tilliti til væntanlegra loftlagsbreytinga. Verkefnið verður þáttur í því að tryggja öruggt framboð matvæla, atvinnuöryggi og sjálfbæra þróun dreifbýlla strandsvæða.

Í ClimeFish verkefninu verða þróuð fráviksdæmi og gerð félagshagfræðileg greining til að bera kennsl áhættu og tækifæri fyrir fiskeldi í ljósi loftslagsbreytinga. Einnig verða þróaðar aðferðir til að draga úr áhættu og greina tækifæri í samstarfi við hagsmunaaðila. Þetta mun þjóna þeim tilgangi að styrkja vísindalega ráðgjöf og bæta langtíma framleiðsluáætlanir og stefnumótun. Í ClimeFish verkefninu verður framleiðsla skoðuð á þremur sviðum, í fiskveiðum, fiskeldi í sjó og fiskeldi í vötnum og tjörnum. Sextán ferlisathuganir (e. case study) verða framkvæmdar á meira en 25 fisktegundum víðsvegar í Evrópu. Hagsmunaaðilar í verkefninu eru 21 frá 16 löndum og eru frá háskólum, rannsóknastofnunum og meðalstórum fyrirtækjum.

Nánari upplýsingar veitir Jónas R. Viðarsson hjá Matís.

Fréttir

Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Fyrir stuttu hlaut dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri IceProtein og Protis, hvatningarverðlaun sjávarútvegsins. Verðlaunin eru rós í hnappagat Hólmfríðar, starfsfólks IceProtein og Protis og FISK Seafood, eiganda IceProtein og Protis og viðurkenning á starfsemi þessara fyrirtækja í Skagafirði. Verðlaunin eru auk þess sérstakt ánægjuefni fyrir Matís því ekki er svo langt síðan Hólmfríður starfaði hjá við líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.

En hvað er IceProtein og hverslags starfsemi er um að ræða hjá fyrirtækinu?

Saga IceProtein, Matís á Sauðárkróki og dr. Hólmfríðar Sveinsdóttur

IceProtein

Á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf), sem er forveri Matís, var árið 2005 stofnað nýsköpunarfyrirtæki kringum rannsóknaverkefni sem fólu í sér nýtingu á próteinum úr afurðum hafsins sem voru ekki fullnýtt í vinnslu. Árið 2006, vegna áhuga FISK Seafood á starfseminni, var verksmiðja IceProtein flutt til Sauðárkróks og og varð hluti af Verið Vísindagarðar.

FISK Seafood eignaðist síðan 64% hlut í Iceprotein árið 2009 á móti 36% hlut Matís. IceProtein hefur ásamt Matís verið þátttakandi í fjölda rannsóknaverkefna. Stefna IceProtein var að sækja um styrki til rannsókna og þróa þjónustuverkefni fyrir Kaupfélag Skagfirðinga og önnur fyrirtæki. Kaupfélag Skagfirðinga stofnaði þróunarsjóð sem styðja átti við rannsóknir tengdar starfsemi félagsins árið 2010 og voru tekjur sjóðsins 0,15% af rekstrartekjum hverrar framleiðslueiningar. Frá stofnun þróunarsjóðsins hefur starfsemi IceProtein í auknum mæli verið tengd þjónustuverkefnum fyrir Kaupfélag Skagfirðinga. Í árslok 2012 Keypti FISK Seafood hlut Matís í IceProtein og réð dr. Hólmfríði Sigurðardóttur sem framkvæmdastjóra. Skömmu síðar voru fleiri starfsmenn ráðnir til fyrirtækisins og rannsóknargetan og framleiðslan aukin.

Árið 2015 leiddi starfsemi IceProtein til stofnunar nýs fyrirtækis, Protis, sem annast framleiðslu og sölu á nýrri vörulínu undir nafni hins nýja félags. Í dag eru framleiddar þrjár tegundir af fæðubótarefnum undir nafni Protis og eru þær seldar í flestum verslunum hér á landi. Í janúar 2016 voru starfsmenn Protis og IceProtein fjórir og og hafa þeir allir menntun í líftækni og lífefnafræði.

Matís á Sauðárkróki

Í nóvember 2008 opnaði Matís líftæknismiðju á Sauðárkróki þar sem sérhæfð rannsóknastofa á sviði líftækni og lífefna var staðsett. Markmiðið var að leiða saman fyrirtæki í Skagafirði og beita háþróaðri rannsóknatækni við framleiðslu afurða úr vannýtum hráefnum. Líftæknismiðjan vann með IceProtein að tilraunaframleiðslu og byggð var upp aðstaða til greininga á lífvirkum efnum. Líftæknismiðjan á Sauðárkróki var sett á fót með stuðningi FISK Seafood  sem er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Í ársbyrjun 2016 voru starfsmenn Matís á Sauðárkróki fjórir.

Frá Verinu á Sauðárkróki

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

Hólmfríður Sveinsdóttir varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í maí 2008 og hóf þá um haustið störf í líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki ásamt öðrum starfsmönnum og meistaranemendum. Frá þeim tíma hefur Hólmfríður verið í forsvari fyrir rannsóknir og þróun á sviði líftækni og lífefna. Doktorsgráða Hólmfríðar er á sviði líftækni og í meistaranámi lagði hún stund á næringarfræði. Áhugasvið hennar hefur verið rannsóknir á lífefnum unnum úr hráefnum úr hafinu og með sérstakri áherslu á prótein og peptíð sem unnin eru úr þorski (Gadus morhua).

Árið 2011 fjárfesti FISK Seafood, sem þá hafði eignast meirihluta í IceProtein, í nýjum höfuðstöðvum og fluttu IceProtein og líftæknismiðja Matís í það húsnæði. Við það tækifæri jók Matís við tækjakost í líftæknismiðjunni. Árið 2013 þegar FISK Seafood hafði eignast IceProtein að fullu, flutti Hólmfríður sig um set frá Matís og gerðist framkvæmdastjóri IceProtein.

„Ég vona að þessi verðlaun séu ekki einungis vatn á myllu okkar Skagfirðinga til að halda áfram nánu samstarfi við alls kyns frumkvöðla í þágu nýsköpunar og framþróunar FISK Seafood og greinni til heilla heldur komi einnig til með að hvetja önnur sjávarútvegsfyrirtæki til að auka samstarf við frumkvöðla. Nýsköpun leiðir af sér betri gæði við veiðar og vinnslu, bætta ímynd, fjölbreyttari afsetningaleiðir og meiri verðmætasköpun innan fyrirtækjanna.“
Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir

Fréttir

Allt í land – fundur um bætta nýtingu sjávarafla á norðurslóðum

Samhliða formennskuáætlun Færeyinga í Norrænu ráðherranefndinni hefur færeyska fyrirtækinu Syntesa verið falið að kanna möguleika hinna Norrænu þjóða á bættri nýtingu sjávarafla.

Sem hluti af þeirri vinnu hefur Syntesa, ásamt samstarfsaðilum í Noregi, Grænlandi og Íslandi, staðið fyrir vinnufundum með hagsmunaaðilum og greint ýmis gögn er snúa að nýtingu afla. Slíkur fundur var haldinn í húsakinnum Matís í nóvember sl. sem tókst með miklum ágætum.

Nú er komið að seinni fundinum hér á landi í þessari fundaröð og munu starfsmenn Syntesa greina þar frá helstu niðurstöðum vinnufundanna í Noregi, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi. Fundurinn fer fram í húsakynnum Matís, Vínlandsleið 12, klukkan 9:00-11:00, 14. apríl nk.

Þess er vænst að niðurstöður vinnufundanna muni móta að einhverju leyti þá stefnu sem Norræna ráðherranefndin mun taka varðandi fullnýtingu fiskafla og stuðning við rannsóknir og þróun á því sviði á næstu misserum. Því er mikilvægt að raddir sem flestra hagsmunaaðila heyrist á þessu fundum. Ljóst er að þegar kemur að (full)nýtingu sjávarafla standa Íslendingar mjög framarlega, en þó er alltaf hægt að gera betur. Því er mikilvægt að hagsmunaaðilar ræði saman um hvernig hægt sé að bæta tækni, aðlaga lagaumhverfi/fiskveiðistjórnun, þróa nýjar afurðir og markaði ofl. þannig að allur afli sem veiddur er komi að landi og verði að verðmætum afurðum.

Á síðustu misserum hefur sprottið upp fjöldi fyrirtækja sem stunda framleiðslu á svokölluðum hliðarafurðum. Þessi geiri er í mikilli sókn og er ljóst að mörg tækifæri leynast í nýtingu á hráefni sem áður var fleygt, urðað eða brætt. Mikilvægt er að þarfir þessa geira séu hafðar í huga þegar fullnýting er rædd.

Er það von þeirra sem standa að fundinum að sem flestir hagsmunaaðilar sjái sér fært að mæta og leggi sitt að mörkum þannig að sjónarhorn og þarfir sem flestra komi fram.

Bætt nýting sjávarafla á norðurslóðum

Staður: Matís, Vínlandsleið 12, Reykjavík
Tími: 14. apríl 2016 kl 9:00-11:00

Dagskrá

9:00       Fundarsetning (Jónas R. Viðarsson – Matís)
9:10       Helstu niðurstöður „alt í land“ (Unn Laksá – Syntesa)
9:40       Efnahagsleg greining á bættri nýtingu sjávarafla (Magni Laksafoss – Syntesa)
10:00     Fullnýting bolfisks á Íslandi (Ásbjörn Jónsson – Matís)
10:15     Umræður (Jónas R. Viðarsson – Matís)
11:00     Fundarlok

Nauðsynlegt er að tilkynna þátttöku með því að senda tölvupóst á Jónas R. Viðarsson hjá Matís, jonas@matis.is

Fréttir

Hvað er í fóðri fiska?

Svik í viðskiptum með matvæli eru alvarlegt vandamál og fiskur meðal þeirra matvæla þar sem mest svindl virðist viðgangast. Matís efndi til málstofu þar sem fjallað var um matvælasvik frá ýmsum hliðum, og meðal annars skoðað á hvaða hátt erfðatækni getur nýst til að stuðla að auknum heilindum.

Er Matís einn af 38 þátttakendum í stóru samevrópsku verkefni, Food Integrity, sem ætlað er að greina svik með matvæli og þróa fyrirbyggjandi aðferðir. Hefur verkefninu verið úthlutað samtals 12 milljónum evra og snýr hlutur Matís að viðskiptum með sjávarafurðir.

Pálmaolía og melamín

Jón Árnason, verkefnastjóri hjá Matís, flutti erindi á ráðstefnunni þar sem hann fjallaði um hvernig má fylgjast með og sannreyna innihald fóðurs í fiskeldi. Hann segir vandamál með fiskeldisfóður sem betur fer vera fátíð, en samt þurfi að vera á verði. Þá geri neytendur vaxandi kröfu um að vita mikið um uppruna alls þess matar sem þeir borða. „Neytendur horfa ekki bara á gæðin og verðið heldur líka hvaðan maturinn kemur og hvað hann inniheldur. Þetta gerir það að verkum að enn brýnna verður fyrir fiskeldisfyrirtæki að geta með vissu rakið allt það hráefni sem notað er til eldisins.“

Nefnir Jón nokkur dæmi, eins og þær deilur sem komu upp í umræðunni um norskt laxeldi fyrir ári. „Þá spannst mikil umræða um notkun pálmaolíu í fiskafóðri vegna þess hvernig pálmaolía er framleidd víða um heim. Stunda bændur það að eyða villtum frumskógi til að greiða fyrir pálmaræktuninni og bitnar mjög á lífríkinu á þeim svæðum.“

Einnig nefnir Jón það uppnám sem varð í Evrópu á sínum tíma þegar upp komst að framleiðandi hafði blandað kjöt- og beinamjöli saman við hefðbundið fiskimjöl. „Þetta var þegar óttinn við Creutzfeldt-Jakob sjúkdóminn var hvað mestur og varð til þess að Evrópusambandið takmarkaði mjög notkun fiskimjöls á tímabili.“

Segir Jón jafnvel hugsanlegt að framleiðendur gætu tekið upp á því að bæta efninu melamín út í fiskeldisfóður til að búa til villandi niðurstöður um næringarinnihald. „Um er að ræða ólífrænt samband af köfnunarefni sem nýtist ekki sem næring og getur jafnvel virkað sem eitur, en ef gerð væri greining á köfnunarefnisinnihaldi melamín-blandaðs fóðurs myndi hún gefa til kynna að prótíninnihaldið væri hærra en það er í raun.“

Hvað er þá til ráða? Jón segir eina leið til að tryggja heilindin að stuðla að vönduðu upplýsingaflæði niður alla virðiskeðjuna. Önnur leið er að nýta alþjóðlega staðla og stóla á opinbert eftirlit. „Aquaculture Stewardship Council og ýmsir aðrir staðlar leitast við að votta ferla og gæði niður alla virðiskeðjuna.“
Þriðja leiðin er að nota erfðatækni og láta fóðursýnin segja söguna. „Ef grunur leikur á því að eitthvert hráefni sé í fóðrinu sem ekki á að vera þar þá getur erfðarannsókn skorið úr um hvort svo sé. Jafnvel í mjölformi er hægt að greina hvað hefur farið í fóðrið, s.s. hvaða plöntu- og dýrategundir er þar að finna.

Ofagreind frétt/viðtal birtist í Morgunblaðinu og á www.mbl.is 17. mars sl. / ai@mbl.is.

Nánari upplýsingar veitir Jón Árnason hjá Matís.

Fréttir

Mikilvægi örvera fyrir íslenskan sjávarútveg – úthlutun öndvegisstyrkja Rannís

Rannís úthlutaði styrkjum úr Rannsóknasjóði fyrir styrkárið 2016 í síðasta mánuði. Matís hlaut tvo öndvegisstyrki, þar af er Matís með verkefnastjórn í öðru þeirra, en báðir styrkirnir tengjast örverurannsóknum. Matís hlaut einnig rannsóknastöðu- og doktorsnemastyrki sem  tengjast annarsvegar rannsóknum á örverum og hinsvegar makrílrannsóknum.

Verkefnin verða unnin í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, HÍ, Náttúrufræðistofnun, ÍSOR ásamt alþjóðlegum samstarfsaðlium. Annar öndvegisstyrkurinn, MIME, mun nýtast til þess að fá betri heildarsýn á fjölbreytileika örvera í hafinum í kringum Ísland og hlutverk þeirra í fæðukeðjunni. Upplýsingar um fjölbreytileika örvera á íslensku hafsvæði geta haft mikið hagnýtt gildi fyrir íslenskan sjávarútveg.

Um öndvegisverkefnið MIME

Rannsóknir á fjölbreytileika sjávarörvera hafa aukist mikið undanfarin ár en litlar upplýsingar eru til um örverur í hafinu umhverfis Ísland. Markmið verkefnisins er að rannsaka örverufjölbreytileika í sýnum sem hefur verið safnað árlega í sjö ár á skilgreindum sýnatökustöðvum í kringum landið. Í verkefninu verða áhrif hitnunar andrúmslofts og súrnun sjávar rannsökuð m.t.t. örverufjölbreytileika og efnahringrása í sjónum. Þrjár tilgátur hafa verið settar fram: „a) Mikill munur er á örverusamfélögum fyrir norðan, og sunnan við landið, b) Synechococcus finnst í Norður-Atlantshafi við Ísland og í köldum Pólsjó en gegnir þó ekki sambærilegu lykilhlutverki sem frumbjarga örvera eins og við lægri breiddargráður, og c) Súrnun sjávar gerist hraðar á norðlægum slóðum í samanburði við suðlæg (temperate og tropical) svæði og hefur þess vegna meiri áhrif á sjávarörverur á norðlægum breiddargráðum sem veldur breytingum á fjölbreytileika og fjölda þeirra“. Svör við þessum tilgátum fást með því að nota nýjustu tækni í DNA raðgreiningu á genamengjum og gena tjáningu ásamt notkun örverugreinis. Rannsóknaráherslur verða lagðar á að bera saman mismunandi einkenni hafsvæða eins og kaldan pólsjó úr norðri við heitari sjó sem kemur úr suðri með Irminger straumnum. Haffræði- og lífupplýsingagögn verða sett í samhengi með nýju forriti (MB3-IS) til að skoða samvirkni á milli örveranna og umhverfisbreyta. Nýir stofnar örvera verða einangraðir og þeim lýst.

Nánari upplýsingar veitir verkefnisstjóri MIME, dr. Viggó Þ. Marteinsson hjá Matís.

Fréttir

Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins

Nú rétt í þessu voru Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins afhent á ársráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir, sem stýrir fyrirtækinu IceProtein á Sauðárkróki, hlaut Hvatningarverðlaun sjávarútvegsins sem veitt voru á ársráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi árið 2016. IceProtein og Protis settu nýlega á markað nýja vörulínu byggða á áralöngum rannsóknum á heilsubætandi áhrifum fiskpróteina. Þetta þykir okkur afskaplega áhugavert framtak kröftugs frumkvöðuls á sviði rannsókna og þróunar á landsbyggðinni. 

Það voru þau Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og Karen Kjartansdóttir, samskiptastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sem afhentu verðlaunin.

IceProtein á Sauðárkróki er öflugt fyrirtæki sem vinnur að rannsóknum og þróun á vinnslu verðmætra efna, aðallega úr sjávarfangi, með það markmið að auka nýtingu og verðmætasköpun í sjávarútvegi. Hjá Iceprotein starfa fjórir starfsmenn auk nema í rannsóknarnámi.

Matís óskar Hólmfríði og starfsfólki IceProtein sem og FISK Seafood, innilega til hamingju með verðlaunin.

Frétt fyrst birt á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

IS