Fréttir

Margildi komið í “Glass of fame”

Í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12 er glerskápur sem lætur ekki mikið yfir sér við fyrstu sýn. Þegar betur er að gáð kemur þó í ljós að inn í skápnum er að finna fjöldann allan af vörum sem samstarfsaðilar Matís hafa þróað og komið í neytendapakkningar. Auðvitað er plássið lítið í svona skáp og ekki allar vörur samstarfsaðila sem komast þar fyrir.

GlerskapurinnÍ skápnum góða má núna finna rabarbarakaramellu frá Löngumýri á Skeiðum, skyrkonfekt frá Rjómabúinu á Erpsstöðum, UNA húðvörur úr þörungum, reyktan fisk frá Reykhöll Gunnu á Rifi, birkisíróp frá Holt og Heiðum í Hallormsstað, sælkera sinnep frá Sólakri, mysudrykkur frá Íslandus, kaldhreinsað lýsi með gamalli aðferð frá TrueWestfjords og byggþarapasta svo fátt eitt sé nefnt. Margildi var að bætast í hópinn með vörulínu sína en framleiðsla þeirra er á lýsi úr loðnu, síld og makríl.

Stærri tæki og lausnir sem Matís hefur unnið að í gegnum samstarf sitt við sjávarútveginn komast ekki fyrir í þessum skáp enda sum þessara tækja mjög stór og þung og í einhverjum tilfellum heilar verksmiðjur!

En skápurinn hefur fengið nafnið Glerskápurinn og má með sanni segja að hann sé svona “Glass of fame” hérna hjá okkur í Matís.

Fréttir

Matís – stórt hlutverk í fjölmörgum alþjóðlegum rannsóknaverkefnum

Matís hefur í gegnum tíðina gegnt mikilvægu hlutverki á meðal fyrirtækja í sjávarútvegi. Að hluta til má segja það saman varðandi landbúnaðinn þá sérstaklega undanfarið þegar kemur að smáframleiðslu matvæla, og eru matarsmiðjur Matís mikilvægur hlekkur í því.

Hlutverk Matís í rannsóknum og nýsköpun innan sjávarútvegsins er síst að minnka enda framþróun í greininni mikil og fyrirtæki og einstaklingar innan sjávarútvegsins að gera vel í að fullnýta allt sem veitt er og fá sem best verð fyrir allt sem fer á markað með því að bjóða upp á fyrsta flokks hráefni og afurðir úr hafinu umhverfis Ísland.

En það eru mun færri sem vita um velgengi Matís í alþjóðlegu rannsókna- og nýsköpunarstarfi. Á þeim vettvangi hefur Matís sýnt getu og hæfileika til að vera öflugur þátttakandi í rannsóknaverkefnum og hefur í mörgum tilfella stjórnað eða leitt áfram stór alþjóðleg verkefni, einkum verkefni sem hafa snúið að fiski og fiskveiðum. Dæmi um slík verkefni eru EcoFishManMareFrameDiscardLess og PrimeFish.

 MareFrame_project_meeting_webFrá verkefnafundi MareFrame verkefnisins í Rúmeníu.

Heilmikill ávinningur er af þessum verkefnum hvað Matís og Íslendinga alla varðar en auk umtalsverðra fjármuna sem skila sér í aukinni atvinnuþátttöku rannsóknaaðila á Íslandi, skapast þekking í þessum verkefnum sem skilar sér beint inn í íslenskt rannsókna- og atvinnulíf.

Nánari upplýsingar um verkefnaþátttöku Matís má finna á einblöðungnum International Cooperation & Research Projects og á www.horizon2020.is.

Fréttir

Níunda alþjóðaráðstefna Samtaka um landbúnað á Norðurslóðum

Samtök um landbúnað á Norðurslóðum (e. Circumpolar Agricultural Association, CAA) eru samtök einstaklinga í öllum löndum á Norðurslóðum. Ráðstefnur samtakanna eru haldnar á þriggja ára fresti og verður níunda ráðstefnan haldin í Reykjavík dagana 6. til 8. október 2016.

Viðfangsefni ráðstefnunnar verður:

Hlutverk landbúnaðarins í lífhagkerfi Norðurslóða

Lífhagkerfið (e. Bioeconomy) er byggt á lífrænum auðlindum og hefur athyglin beinst í æ ríkara mæli að þessari nálgun á síðustu árum. Landbúnaðurinn þarf að nýta sér þá athygli sem lífhagkerfið fær því græna lífhagkerfið snýst fyrst og fremst um landbúnað og afurðir hans.

Á ráðstefnunni verður fjallað um svæðisbundna framleiðslu sem styrkir dreifðar byggðir, matvælaframleiðslu á Norðurslóðum, ferðamennsku og nýsköpun sem bregst við breyttum aðstæðum. Sérstök áhersla verður lögð á að að kynna góðan árangur sem hefur náðst á einu svæði og aðrir geta notið góðs af.

Matvælasýning á vegum lokaráðstefnu NordBio áætlunarinnar verður felld inn í dagskrána. Þann 8. október verður farin skoðunarferð þar sem gestir kynnast íslenskum landbúnaði.

Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu rástefnunnar: www.caa2016.com og upplýsingar má líka finna á Facebook síðu ráðstefnunnar.

Ráðstefnan hefur einu sinni áður verið haldin á Íslandi en það var árið 2001. Þá bar ráðstefnan heitið „Legacy and Vision in Northern Agriculture“ og var ætlað að beina athygli að samspili sögu og menningar við undirstöðu landbúnaðarins.

Mynd_Tjorvi_BI_web

Nánari upplýsingar veitir Ólafur Reykdal hjá Matís.

Fréttir

Stefnumarkandi samningur Martaks og Matís

Martak ehf. sem sérhæfir sig í lausnum fyrir matvælavinnslur, einkum rækjuvinnslu og rannsóknafyrirtækið Matís hafa gert með sér rammasamkomulag um að efla þekkingu við vinnslu sjávarafurða.

Um er að ræða stefnumarkandi rammasamning sem gengur út á að auka nýtingu hráefnis, lengja líftíma framleiddrar vöru, auka nýtingu á því sem til fellur við framleiðslu, svokallaða aukahráefni, og draga úr orku- og vatnsþörf í öllum stigum framleiðslunnar.  Mikil tækifæri eru að mati Martaks og Matís í því að bæta núverandi vinnsluferla við vinnslu sjávarafurða og minnka þannig umhverfisáhrif framleiðslunnar. „Sem metnaðarfullt fyrirtæki sem horfir stöðugt til þess að bæta eigin framleiðslu og stuðla að hagkvæmni og nýtingu viðskiptavina okkar teljum við afar mikilvægt að fá aðgang að þeirri þekkingu og fagmennsku sem Matís býr yfir,“ segir Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri Martaks.

Samstarf þekkingar og framleiðslu: Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Stefán Haukur Tryggvason, framkvæmdastjóri Martaks undirrita stefnumarkandi samning um samstarf fyrirtækjanna um þróun framleiðslulausna sem auka hagkvæmi og nýtingu hráefnis og spara orku og vatn.

Auk þessa mun Matís verða Martaki innan handar varðandi umsóknaskrif til tækni-, vísinda- og nýsköpunarsjóða og mun Matís veita ráðgjöf meðal annars í hvaða sjóði er álitlegast að sækja um í og hvernig best verður staðið að þeim umsóknum. „Fyrir okkur er mikilvægt að tengja saman þekkingu og framleiðslu til að stuðla að framþróun í matvælaiðnaði. Eitt af markmiðum okkar er að efla nýsköpun í matvælaiðnaði og því ómetanlegt að vinna með framsæknu fyrirtæki á sviði framleiðslulausna í matvælaiðnaði,“ segir Sveinn Margeisson, forstjóri Matís.

Matís er öflugt þekkingarfyrirtæki sem sinnir fjölbreyttu rannsókna- þjónustu- og nýsköpunarstarfi í matvæla- og líftækniiðnaði. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla.

Martak ehf. er í hópi öflugustu útflutningsfyrirtækja Íslands og í fararbroddi í þróun og framleiðslu á lausnum og búnaði til vinnslu sjáfarafurða þó einkum rækjuafurða. Hjá fyrirtækinu starfar metnaðarfullt starfólk með mikla reynslu í lausnum fyrir matvælaiðnaðinn. Fyrirtækið er með tvær starfsstöðvar, vöruþróun, framleiðsla, sala og þjónusta á Íslandi og þjónusta og sala í Kanada, auk umboðsmanna og dreifingaraðila í Bandaríkjunum og víðs vegar um Evrópu.

Nánari upplýsingar veitir Stefán Haukur Tryggvason í síma 422-1800 og Sveinn Margeirsson í síma 422-5000.

Fréttir

Hvítfiskur í Norður-Atlantshafi – leiðir til aðgreiningar frá ódýrari fiski

WhiteFishMall verkefninu er nú nýlokið en í því verkefni var markmiðið að tryggja enn frekari aðgreiningu á bolfiski úr Norður-Atlantshafinu frá ódýrari hvítfisktegundum, sem nú streyma inn á okkar helstu markaðssvæði, sér í lagi inn á Bretlandsmarkað.

Vinna við verkefnið hófst í byrjun árs 2012 og hafa farið fram markaðsrannsóknir í Bretlandi á meðal fiskneytenda, auk þess sem viðtöl og fundir hafa verið haldnir með aðilum sem starfa í þessum geira við vinnslu, sölu og markaðsstarf. Viðhorf rýnihópa sem samanstanda af dæmigerðum fiskneytendum í Bretlandi hafa hefur verið könnuð gagnvart bolfiskafurðum frá N-Atlantshafi og hvernig bæta megi upplifun þeirra við innkaup, matreiðslu og neyslu.

Nánari upplýsingar um WhiteFishMall verkefnið má finna á heimasíðu verkefnisins en loka skýrsluna má finna á vefsvæði Nordic Innovation.

Nánari upplýsingar hjá Matís veitir Jónas R. Viðarsson.

Fréttir

Sykursýkishamlandi virkni í bóluþangi – MSc. fyrirlestur í næringarfræði

Margrét Eva Ásgeirsdóttir heldur fyrirlestur um sykursýkishamlandi virkni í bóluþangi (Fucus vesiculosus) og furutrjáberki sem könnuð var með notkun 3T3-L1 fitufrumumódels. Fyrirlesturinn fer fram í Verinun, Vísindagörðum sem staðsettir eru á Sauðárkróki. Hægt er að fylgjast með fyrirlestrinum í höfuðstöðvum Matís að Vínlandsleið 12, fimmtudaginn 4. febrúar kl. 10:00-11:00 (salur: Esja-311).

Markmiðið var að kanna áhrif útdrátta úr bóluþangi og furutrjáberki á fituuppsöfnun í 3T3-L1 fitufrumumódeli, hindrandi áhrif þeirra gegn α-glucosidase ásamt andoxunarvirkni.

Þrír þangútdrættir hindruðu fituuppsöfnun í 3T3-L1 frumunum án þess að hafa áhrif á lifun þeirra og sýndi F. vesiculosus vatnsútdráttur bestu virknina með 35% hindrun í styrkleika 0,1 mg/mL. F. Vesiculosus sýruútdráttur sýndi einnig góða virkni með 19% hindrun í sama styrkleika. Þá höfðu bæði þang- og furutrjábarkar útdrættir sterka andoxunarvirkni svo og hindrunarvirkni gegn α-glucosidase. Furutrjábörkurinn hafði mestu andoxunarvirknina í ORAC með 2869 µmol TE/g og sami útdráttur hafði góða hindrunarvirkni gegn α-glucosidase með 1,3 µg/mL IC50 gildi.

Frekari rannsókna er þörf til að bera kennsl á þá ferla sem hindra fituupp-söfnunina. Einnig geta in vivo rannsóknir veitt upplýsingar um hvort þessara áhrifa gæti einnig í lifandi verum. Þetta gæti leitt til þróunar og framleiðslu á fæðubótarefni sem hægt væri að nota til að koma í veg fyrir offitu og þá efnaskiptasjúkdóma sem henni tengjast.

Verkefni til meistaragráðu í matvælafræði unnið á Líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki.

Leiðbeinendur: dr. Eva Küttner , dr. Hörður G. Kristinsson og dr. Björn Viðar Aðalbjörnsson

Prófdómari: dr. Margrét Helga Ögmundsdóttir

Fréttir

Allt vitlaust eftir viðtal í Bítinu á Bylgjunni

Í síðastliðinni viku var viðtal við Ásthildi Björgvinsdóttur en fyrirtækið hennar, Ástrík, www.astrik.is, framleiðir popp meðal annars með karamellu og sjávarsalti. Í lok viðtalsins talaði Ásthildur eilítið um Matís og sagði að fyrirtækið væri „snilld“.

Eftir þetta viðtal varð eiginlega allt vitlaust hjá Matís í fyrirspurnum um hvernig fyrirtækið getur aðstoðað frumkvöðla og smærri fyrirtæki við að koma matarhugmyndum á framleiðslustig eða koma minni framreiðslu í stærri einingar til sölu hér á landi og erlendis.

En hvernig getur Matís hjálpað?

Eins og Ásthildur orðaði það þá er Matís snilldar fyrirtæki sem gefur aðilum kleift að nota löglega og vottaða aðstöðu, hjálpar í þessum málum til að byrja með og kemur með ábendingar og býður fram aðstoð.

Við ætlum ekki að mótmæla þessum orðum! 🙂

Viltu vita meira um hvernig Matís getur hjálpað? Kíktu þá að þessa síðu okkar, www.matarsmidjan.is.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

Viðtalið við Ásthildi má finna á vefsíðu Bylgjunnar, www.bylgjan.is.

Fréttir

Neysla Íslendinga á seleni, arseni, kadmíum og kvikasilfri úr sjávarafurðum

Lilja Rut Traustadóttir heldur fyrirlestur til meistaraprófs í Háskóla Íslands 3. febrúar nk. en rannsókn hennar byggir á aðferðafræði heildarneyslurannsókna. Niðurstöður rannsóknarinnar má nýta til stefnumótunar í lýðheilsu og þá sérstaklega sem ráðleggingar til ungra kvenna um hollustu sjávarafurða.

Fyrirlesturinn fer fram í Öskju, stofu N-132, þann 3. febrúar kl. 15-16.

LiljaRut_Auglysing_MS_fyrirlestur

Um rannsóknir á heildarneyslu aðskotaefna

Matís er þátttakandi í athyglisverðu Evrópuverkefni (www.tds-exposure.eu) þar sem þróaðar verða aðferðir til meta hversu mikið af óæskilegum aðskotaefnum fólk fær úr matvælum.

Verkefnið heitir Rannsókn á heildarneyslu aðskotaefna úr matvælum, Total Diet Study Exposure, og er unnið í samstarfi við 19 Evrópulönd og er verkefnið styrkt að hluta úr 7. rannsóknaáætlun Evrópu (FP7).

Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjór hjá Matís, er aðal tengiliður Matís í þessu verkefni og veitir hún nánari upplýsingar um rannsóknina.

Fréttir

Aukin afköst við kælingu makríls – fyrlestur til meistaraprófs við HÍ

Sindri Rafn Sindrason flytur fyrirlestur um verkefni sitt til meistaraprófs í iðnaðarverkfræði. Heiti verkefnisins er “Aukin afköst við kælingu makríls”. 

Ágrip

The objective of this study was to investigate the possibility of combining two existing cooling systems, Refrigerated Sea Water system (RSW) and Chilled Sea Water (CSW), to see if the outcome could be beneficial for fisheries to implement in their production. The main principle behind the idea is to add ice, preferably slurry ice, to help the RSW system to cool the catch down to an optimum temperature. The anatomy of the mackerel is discussed as well as seasonal variation and other important aspects of the species.

A closer look into the two cooling systems in question as well as the Icelandic mackerel quota was taken. One of the main objectives was to calculate the ice requirements for the different cooling systems, as well as compare their oil consumption and cooling rate of the product. Similar cooling treatments can also be used at other stages in the production line. Therefore the study also included a small experiment on using slurry ice to pre-cool the processed mackerel before plate freezing. Verkefnið er hluti af norræna meistaranáminu AQFood.

Leiðbeinendur

  • Sigurjón Arason, prófessor við Háskóla Íslands og yfirverkfræðingur hjá Matís
  • María Guðjónsdóttir, lektor við Háskóla Íslands
  • Aberham Hailu Feyissa, lektor við DTU
  • Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Háskóla Íslands

Prófdómari

  • Sveinn Víkingur Árnason, framkvæmdastjóri hjá Vínbúðinni

Hvenær hefst þessi viðburður: 

28. janúar 2016 – 15:00

Staðsetning viðburðar: 

VR-II

Nánari staðsetning: 

Stofa 138

Fréttir

Fundur á Blönduósi um heimavinnslu matvæla

Nokkrar konur í Austur-Húnavatnssýslu komu saman á dögunum og ræddu möguleika til heimavinnslu matvæla í héraði. Í framhaldinu var ákveðið að boða til fundar þar sem Óli Þór Hilmarsson frá Matís heldur erindi til kynningar og fræðslu um hvað þurfi að gera til að koma slíku í gang, en frá þessu segir á www.huni.is.

Nánari upplýsingar um fundinn á Blönduósi má finna á www.huni.is.

Upplýsingar um Matarsmiðjur Matís má finna á www.matis.is/matarsmidjur.

IS