Fréttir

Rannsóknir tengdar húðvörum

Vegna umfjöllunar um húðvörur frá fyrirtækinu Villimey sem birtist í DV í gær, 16. desember 2016, vill Matís taka eftirfarandi fram:

Í frétt sem Matís birti á vef sínum þann 1. september sl. er um að ræða ónákvæmt orðalag en skilja má hluta fréttarinnar með þeim hætti að Matís hafi rannsakað virkni húðvaranna á líkamsstarfsemi.

Varðandi framkvæmd rannsókna þeirra er um ræðir er hið rétta að jurtir í vatnsupplausn (jurtaextrakt) með jurtum sem notaðar eru í húðvörur Villimeyjar voru prófaðar í margskonar húðfrumuprófum og bandvefsprófum.  Slík próf gefa m.a. vísbendingar um virkni ýmissa efna í húð -og bandvefsfrumum. Í viðkomandi frumuprófum var mælt magn kollagens og magn ensímanna elastasa, málmpróteinasa 1, málmpróteinasa 2 og málmpróteinasa 9.

Prófin sýndu að jurtirnar höfðu hamlandi áhrif á myndun ensímanna. Jafnframt gáfu prófin vísbendingu um aukið magn kollagens í húðfrumum. Þá kom fram virkni við að græða skrámur í frumuþekju með svokölluðu „Scratch wound healing“ prófi (skrámugræðipróf) sem og andoxunaráhrif.

Matís þykir miður að hafa sent frá sér texta sem innihélt ónákvæmt orðalag og biður alla viðeigandi afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.

Nánari upplýsingar veitir Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís.

Fréttir

Sjálfsagt að vísindamenn vinni með sjómönnum

„Við viljum að það teljist sjálfsagt að vísindamenn vinni með sjómönnum við fiskveiðirannsóknir og að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi líti á vísindamenn sem verðmæta samstarfsaðila í stefnumótunarvinnu,“ sagði Steve Mackinson frá Miðstöð umhverfis-, sjávarútvegs- og fiskeldisvísinda í Bretlandi í nýlegu viðtali í Horizon, EU Research & Innovation Magazine en tilefnið var m.a. WhiteFish verkefnið sem Matís og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) tóku þátt í fyrir Íslands hönd.

Matís, ásamt samstarfsaðilum frá Noregi, Svíþjóð, Bretlandi og Hollandi, var þátttakandi í ransóknaverkefninu WhiteFish sem var hluti af FP7, 7. rannsóknaráætlun Evrópu, en verkefninu er nýlokið. Markmið verkefnisins var að þróa og sannreyna aðferð til að reikna út, greina niður á einstakar lotur (t.d. kassa, bretti eða veiðiferð), umhverfisálag þorsk- og ýsuafurða. Verkefnið á sérstaklega að nýtast smáum og meðalstórum fyrirtækjum í virðiskeðju þorsk- og ýsuafurða, þannig að þau geti skráð sjálfbærni afurða og vinnsluleiða. Með því að geta sýnt fram á umhverfisálag einstakra framleiðslulota mun afurð verkefnisins nýtast til að skapa framleiðendum þorsk- og ýsuafurða samkeppnisforskot á markaði sem væntanlega munu skila bættum aðgangi að mörkuðum, hærra verði og aukinni velvild neytenda.

Greinin í heild er á heimasíðu Horizon.

Skylt efni

Fréttir

Handverkssláturhúsið í Seglbúðum í Landbroti

Hjá handverkssláturhúsinu í Seglbúðum í Landbroti starfar fumkvöðull sem leitaði til Matís um úrlausn sinna mála. Erlendur  Björnsson bóndi hafði lengi haft áform um að koma sér upp kjötvinnslu, til að vinna afurðir úr eigin hráefni. Til þess hafði hann hugsað sér að nýta stóra skemmu við bæinn,  sem hann hafði komið sér upp fyrir nokkrum árum, en var fremur illa nýtt, mestmegnis sem geymsla fyrir tæki og tól.

Eftir nokkra yfirlegu, voru menn ásáttir að húsnæðið mætti eins nýta sem sláturhús af minni gerðinni, auk hefðbundinnar kjötvinnslu. Má segja að ekki sé hægt að komast nær hugmyndafræðinni „Beint frá býli“.

Í hönd fór mikill undirbúningur, sem byggðist m.a. á hönnun og skipulagningu sláturhússins og þeirra verkferla sem þar er krafist og einnig fór mikill tími í samskipti við opinbera eftirlitsaðila þar sem þetta var fyrsta sláturhús sinnar tegundar á landinu. Þá þurfti að sannfæra leyfisveitendur og eftirlitsaðila að jafnvel lítil sláturhús, með takmarkaðan mannafla, þar sem verkferlar byggja meira á handverki en sjálfvirkni, geti uppfyllt allar kröfur sem gerðar eru til sláturhúsa. Nú eru liðnar tvær sláturtíðir frá opnun sláturhússins á þeim tíma hefur verið staðfest að afurðir hússins eru orðnar mjög eftirsóknaverðar enda annáluð gæði hvort heldur litið sé til hollustuhátta eða bragðs og áferðar.

Næstu skref þeirra Erlends Björnssonar og Þórunnar Júlíusdóttur, frumkvöðlana í Seglbúðum í samstarfi við Matís, eru að auka starfssemi hússins og er undirbúningur stórgripasláturhúss, þ.e. nauta og hrossaslátrun, þegar kominn af stað. Sú starfssemi mun styrkja starfssemina og skapa nokkur störf í sveitinni til viðbótar þeim sem urðu til við opnun sauðfjársláturhússins.

Nánari upplýsingar veitir Óli Þór Hilmarsson hjá Matís.

Fréttir

Matís auglýsir eftir handverksfyrirtækjum

Í sumar fór af stað verkefnið „Craft Reach“ sem hefur það markmið að styðja við sprotafyrirtæki og núverandi smáframleiðendur á afskekktum og strjálbýlum svæðum. Matís er einn af sjö samstarfsaðilum verkefnisins sem styrkt er til þriggja ára af Northern Pheryphery and Arctic programme. Verkefnið mun byggja á velgengni og reynslu verkefnisins „Économusée Craft International“ sem lagði grunninn að þessu verkefni.

Megináhersla verkefnisins er að aðstoða við að byggja upp og markaðssetja handverksfyrirtæki á afskekktum og strjálbýlum svæðum og í leiðinni hvetja unga fólkið og veita því innblástur. Samstarfsaðilar í verkefninu eru frá Noregi, Kanada, Færeyjum, Norður-Írlandi, Írlandi, Íslandi og Grænlandi.

Matís er að nú að leita að handverksfyrirtækjum sem hafa áhuga á því að gerast ÉCONOMUSÉE og tengjast „Craft Reach“ netverkinu. Til að fá meiri upplýsingar er hægt að fara inn á heimasíðuna, www.economusee.eu.

Á Íslandi eru nú þegar til þrjú ÉCONOMUSÉE, þau eru Leir 7 í Stykkishólmi, Arfleifð á Djúpavogi og Gestastofa Sútarans á Sauðárkróki.  

Þau handverksfyrirtæki sem hafa áhuga á því að taka þátt verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

ÉCONOMUSÉE er fyrirtæki sem:

  • Nota hefðbundnar handverksaðferðir
  • Framleiða hefðbundnar og/eða nýjar vörur með ákveðin menningartengsl
  • Opna dyr sínar fyrir almenningi til að kynna handverkið og fólkið þar á bak við
  • Er með húsnæði sem hannað er þannig að hægt er að sýna gestum vinnsluna og vörurnar
  • Miðar að því að verða fjárhagslega sjálfstætt

Nánari upplýsingar um verkefnið eða núverandi handverksfyrirtæki má finna á www.economusee.eu.

Ef þú telur að þú uppfyllir ofangreind skilyrði og hefur áhuga á því að vera hluti af þessu spennandi netverki getur þú haft samband við Gunnþórunni Einarsdóttur ( gunna@matis.is).

Frestur til að sækja um er 21. desember.

Fréttir

Framboði á fiski á heimsvísu verður vart viðhaldið nema með eldisfiski

Eftirspurn eftir fiski eykst stöðust og verður því að auka framboð á eldisfiski til að halda framboði stöðugu og minnka álag af fiskveiðum. Fiskmjöl er ríkjandi próteingjafi í fiskafóðri en framleiðsla mjölsins hefur dregist saman því nýting uppsjávarfisks í verðmætari afurðir hefur aukist vegna betri fiskveiðitækni og betri kælingar hráefnisins.

Hjá Matís hefur dr. Ragnar Jóhannsson, verkefnisstjóri, verið að vinna að ýmsum verkefnum sem miða að því að finna önnur hráefni en fiskmjöl fyrir fiskeldi og nýta ónotað hráefni. Úrgangur frá sellulósaverksmiðjum í Svíþjóð og ræktun lífmassa í jarðhitalofttegundum frá Hellisheiðarvirkjun eru möguleikar sem hafa verið kannaðir.

Ragnar hefur unnið með sænskum fyrirtækjum við framleiðslu Single Cell Protein (SCP) úr hliðarstraumum frá skógariðnaði. Meginmarkmiðið er að þróa vöru sem kemur í stað fiskimjöls. Finna þurfti hvaða örverur væru heppilegastar og hvaða hliðarstraumar í sellulósa- og pappírsframleiðslu væru best fallnir til þessarar framleiðslu. Próteinmassinn er þurrkaður og blandað við önnur hráefni svo úr verði fiskeldisfóður. Þetta fóður hefur verið reynt í tilapíueldi með góðum árangri og er nú verið að þróa fóður fyrir bleikjueldi.

Önnur aðferð sem hefur verið reynd í fóðurframleiðslu er að nota brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun sem orkugjafa við ræktun örverulífmassa. Örverurnar vaxa hratt á brennisteinsvetninu, eru síðan þurrkaðar og bætt í fiskeldisfóður. Þessu verkefni var nýlega lokið eftir tveggja ára þróunarvinnu, en frekari rannsókna er þörf til að hámarka árangur.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar hjá Matís.

Fréttir

Vel heppnuð Sjávarútvegsráðstefna 2015 að baki

Matís tók þátt í Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 sem lauk í síðustu viku. Óhætt er að segja að aldrei hafi jafn margir sótt ráðstefnuna og eru skipuleggjendurnir mjög ánægðir með hvernig til tókst. Þeir starfsmenn Matís sem sóttu ráðstefnuna taka í sama streng.

Erindi á netinu

Nú er hægt að sækja öll erindi sem haldin voru á Sjávarútvegsráðstefnunni 2015 á vef ráðstefnunnar undir liðnum Dagskrá 2015 . Einnig hafa nemar Háskólans á Akureyri haldið úti Facebook síðu þar sem er að finna samantekt úr erindum.

Þátttakendur

Skráðir þátttakendur voru um 750 og hafa aldrei verið fleiri. Mestur fjöldi þátttakenda í ráðstefnusölum var um 550 manns, en margir sóttu aðeins hluta ráðstefnunnar. Rúmlega þrjú hundruð manna fundarsalir voru þétt setnir í nokkrum málstofum, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Það sem fram fer utan ráðstefnusala er einnig mikilvægt, en Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni. 

Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunar 2015

Margildi bar sigur úr býtum um Framúrstefnuhugmyndina og óskar Matís starfsmönnum Margildis hjartanlega til hamingju.

Fréttir

Lífssaga 186 Atlantshafslaxa

Uppruni og lífssaga 186 Atlantshafslaxa veiddum innan íslensku fiskveiðilögsögunnar var rannsökuð með því að nota DNA stuttraðir til að meta uppruna og hreistur og kvarnir til að finna út hversu langan tíma laxarnir hafa dvalið í ferskvatni og sjó. Rannsókn þessi var gerð hjá Matís í samvinnu við VeiðimálastofnunHafrannsóknastofnun og Fiskistofu.

Flest sýnanna voru úr laxi sem var á sínu fyrsta ári í sjó eða 72,8%. Líftími í ferskvatni var breytilegur, frá einu ári til fimm og meðalferskvatnsaldur laxanna var 2,6 ár. Flestir höfðu laxarnir verið tvö ár í ferskvatni eða 42% og 28% höfðu verið þrjú ár í ferskvatni.

Við rannsókn á uppruna var notast við gagnagrunn um erfðir laxastofna í 284 evrópskum ám. Í ljós kom að 68% sýnanna voru rakin til meginlands Evrópu og Bretlandseyja, 30% voru rakin til Skandínavíu og norður-Rússlands en einungis 2% laxana voru frá Íslandi.

Þessi rannsókn sýnir fram á að hafsvæðið suður og austur af Íslandi er mikilvæg fæðuslóð fyrir Atlandshafslaxinn, og þá sérstaklega fyrir lax frá Bretlandseyjum og suðurhluta Evrópu.  Lágt hlutfall laxa af íslenskum uppruna kom á óvart og gefur til kynna að íslenskur lax noti annað beitarsvæði.

Nánar er sagt frá rannsókninni á vef ICES ritsins.

Ítarlegi upplýsingar veitir fyrsti höfundur greinarinnar, Kristinn Ólafsson hjá Matís.

Fréttir

Traust samstarf við Matís um kennslu og rannsóknir

Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og Matís hafa gert samning sín á milli um áframhaldandi samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands, og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, undirrituðu samninginn í gær. Með samningnum er tryggð áframhaldandi samvinna um að þróa og bæta nám í matvæla- og næringarfræði við Háskóla Íslands. Samkomulagið festir enn frekar í sessi hið öfluga samstarf Háskóla Íslands og Matís.

Helstu atriði samnings Matvæla- og næringarfræðideildar og Matís eru:

  • Tryggja ásættanlegan fjölda nemenda í matvæla- og næringafræði við Háskóla Íslands.
  • Þróa og bæta nám í matvæla- og næringafræði  við Háskóla Íslands og tryggja því faglega sérstöðu í því skyni að laða að nemendur og fræðimenn á alþjóðlegum vettvangi.
  • Vinna saman að fleiri verkefnum sem tengja saman greinar matvælafræði, matvælaöryggis, líftækni og næringarfræði. Áfram skal unnið saman að uppbyggingu tækja, gagnagrunna  og annara innviða.
  • Nemendur geta unnið að rannsókna- og þróunarverkefnum undir leiðsögn starfsmanna Matís undir umsjón fastráðinna kennara eða gestaprófessora Matvæla- og næringarfræðideildar og samkvæmt reglum Háskóla Íslands um hæfi leiðbeinenda.  
Undirritun_HI_Matis_LoRes

Frá vinstri: Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís, Guðjón Þorkelsson, forseti Matvæla- og næringarfræðideildar og sviðsstjóri hjá Matís, Inga Þórsdóttir, forseti Heilbrigðisvísindasviðs og
Þórhallur Ingi Halldórsson, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild.

Matvæla- og næringarfræðideild og Matís hafa átt gott samstarf um kennslu um langt skeið en starfsmenn Matís hafa í gegnum tíðina kennt við deildina. Nú hefur samstarfið aukist enn frekar en tveir starfsmenn Matís hafa fengið fasta stöðu við Matvæla- og næringarfræðideild HÍ og einn starfsmaður deildarinnar hefur fengið fasta stöðu við Matís.

  • Björn Viðar Aðalbjörnsson, sérfræðingur hjá Matís, hefur gegnt 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá 1. janúar 2015.
  • Sigrún Mjöll Halldórsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, gegnir 20% stöðu aðjúnkts við Matvæla- og næringarfræðideild frá og með 1. janúar 2016.
  • Alfons Ramel, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild, gegnir 20% stöðu sérfræðings hjá Matís frá og með 1. janúar 2016.

Matís er leiðandi á Íslandi í rannsóknum  á sviði matvælaframleiðslu, og matvælaöryggis. Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla, líftækni og erfðatækni. Til að framfylgja stefnu sinni er nauðsynlegt að Matís vinni í samstarfi við Háskóla Íslands að kennslu og þjálfun nemenda.

Matvæla- og næringarfræðideild er ein öflugast eining Háskóla Íslands í rannsóknavirki á hvert stöðugildi kennara. Deildin leitast við að vera í fremstu röð með vönduðum rannsóknum og kennslu sem stenst samanburð á alþjóðlegum vettvangi. Samstarfið við Matís rennir stoðum undir þau markmið. Þá er rík áhersla á samstarf við stofnanir og fyrirtæki eins og Matís í stefnu Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar veita Inga Þórsdóttir og Sveinn Margeirsson.

Fréttir

Marlýsi – Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015

Snorri Hreggviðsson, Margildi ehf., hlaut fyrstu verðlaun í samkeppninni Framúrstefnuhugmynd Sjávarútvegsráðstefnunnar 2015.

Hugmyndin er að framleiða Marlýsi, lýsi úr makríl, síld og loðnu til manneldis. Margildi ehf. hefur þróað nýja og einstaka vinnsluaðferð, svokallaða hraðkaldhreinsun, sem gerir kleift að kaldhreinsa lýsi úr uppsjávartegundunum. Fram til þessa hefur ekki verið unnt að kaldhreinsa á skilvirkan hátt og fullhreinsa fyrrnefnt lýsi til manneldis vegna mikils magns mettaðra og langra einómettaðra fitusýra s.k. steríns í lýsinu.

Margildi hefur unnið að verkefninu með verkfræðistofunni EFLU, Matís, KPMG, Alta ráðgjöf, Kanon-arkítektum, Háskólanum á Akureyri,  Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga (SASS), Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi (SSA), atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, AVS og Sjávarklasanum. Tilraunahráefni hefur fengist hjá HB Granda, Síldarvinnslunni og Eskju, einnig Vinnslustöðinni og Ísfélaginu í Vestmannaeyjum. 

Sérfræðingar Matís hafa komið að verkefninu og aðstaða Matís nýtt verkefninu til framdráttar.

Heimasíða Margildis.

Fréttir

Sjávarútvegsráðstefnan 2015

Sjávarútvegsráðstefnan 2015 verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica dagana 19. – 20. nóvember

Markmið Sjávarútvegsráðstefnunnar er að ná saman á einum stað þversniði af íslenskum sjávarútvegi til að vinna að framförum. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem menn hittast, styrkja sambönd og samstarf í greininni.

Matís er með bás á ráðstefnunni þar sem tæknilausnir og samstarfsverkefni eru kynnt. Birgir Örn Smárason, doktorsnemi hjá Matís, heldur erindi á ráðstefnunni. Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri, er í stjórn Sjávarútvegsráðstefnunnar.

Heimasíða Sjávarútvegsráðstefnunnar er hér

IS