Fréttir

Rannsóknir og vísindi eru framtíðargjaldmiðill sjávarútvegsins

Sjávarútvegurinn, eins og aðrar atvinnugreinar, reiðir sig á rannsóknir og vöruþróun. Reynslan hefur sýnt að aukin verðmætasköpun í greininni byggir á hugviti og hafa íslensk fyrirtæki unnið metnaðarfullt og merkilegt starf á því sviði.

Þar hefur Matís iðulega verið í lykilhlutverki, verið eins konar þekkingarkjarni þegar kemur að beitingu vísinda í sjávarútvegi og brú á milli menntastofnana og atvinnulífs.

„Rannsóknir og vísindi eru framtíðargjaldmiðill sjávarútvegsins,“ segir Sveinn Margeirsson forstjóri Matís. Hann segir líklegt þekking og tækniframfarir, muni áfram leika lykilhlutverk í samkeppnisstöðu Íslands..

„Í raun stöndum við í dag með pálmann í höndunum því við erum nú þegar með mjög sterkan sjávarútveg og öflugan þekkingargrunn í greininni. Þetta er eitthvað sem margar aðrar þjóðir eiga enn eftir að byggja upp og eiga langt í land.“

Lögum samkvæmt er hlutverk Matís að auka verðmæti í matvælaiðnaði, bæta matvælaöryggi og efla lýðheilsu. Er Matís í ríkiseigu en rekið sem hlutafélag og hefur skýrt þjónustuhlutverk við sjávarútveginn og aðrar matvælagreinar en líka skyldur gagnvart eigandanum, þjóðinni.

Bendir Sveinn á að neytendur, bæði innanlands sem erlendis, verði æ kröfuharðari og betur að sér um eiginleika sjávarafurða. Með nýsköpun og rannsóknum takist sjávarútvegsfyrirtækjum að mæta  þessum miklu kröfum á hagkvæman hátt og skapa aukin verðmæti úr aflanum.

„Sú þróun sem átt hefur sér stað á sviði kælingar er gott dæmi um þetta. Í dag er um helmingur af ferskum flökum sem íslensk fyrirtæki flytja út til Evrópu fluttur með skipum í stað flugflutnings eingöngu líkt og staðan var fyrir um 15 árum, því bætt tækni hefur gert mögulegt að lengja geymsluþol vörunnar og bæta meðhöndlun fisksins í allri virðiskeðjunni. Útkoman er mun meiri útflutningur á ferskum flökum og flakabitum með ódýrum og umhverfisvænum hætti, en á sama tíma hafa flugflutningar jafnframt þróast og bjóða í dag upp á möguleika til að sinna allra kröfuhörðustu kaupendum. Útgerðarmenn, sjómenn og starfsfólk fiskvinnslu og flutningafyrirtækjanna hafa svo sannarlega horft til þarfa markaðarins og notað vísindin til að komast á næsta stig“

Sem annað dæmi um framfarir undanfarinna ára og áratuga nefnir Sveinn bætta nýtingu á aflanum. „Hér vinnur allt saman, sú tækni sem miðar að því að auka gæði hráefnisins fyrir hinn almenna neytanda skapar einnig betra hráefni fyrir hvers kyns hliðarafurðir. Framfarir í meðhöndlun og  vinnslu hafa orðið til þess að nýtingarhlutfall þorsks er farið að nálgast 80% og á sama tíma hefur hlutfall verðmætustu afurðanna farið upp.“

Sveinn segir ljóst að framboð á fiski mun aukast mjög á næstu árum, ekki síst á hvítfiski, og auka samkeppni á öllum markaðssvæðum. Hann nefnir sem dæmi Víetnam sem hefur lýst því yfir að fiskeldi muni tvöfaldast að umfangi á næstu fimm árum, og fiskurinn nær allur ætlaður til útflutnings. „Í markaðsumhverfi framtíðarinnar mun skipta sköpum hvernig tekst að byggja upp ímynd íslenskrar vöru og aðgreina hana frá öðru sjávarfangi s.s. í krafti gæða, hreinleika og matvælaöryggis. Greinin þarf að gera halda áfram sínu góða starfi, og geta unnið út frá réttum upplýsingum og nýjustu rannsóknum.“

Hreinleiki og gæði segir Sveinn, drifin áfram af rannsóknum og fjárfestingu í tækniframförum, segir Sveinn að geti orðið eitt sterkasta markaðstæki íslensks fisks. „Við sjáum það gerast að internetið er að breyta því hvernig sala á öllum vörum fer fram og það er fyrirsjáanlegt að nýir möguleikar skapist til að selja sjávarafurðir með beinum hætti til neytandans. Þar munu íslensk fyrirtæki hafa í höndunum öll gögn til að sýna fram á hversu góð varan er, og heilnæm,“ spáir hann. „Neytendur um allan heim leggja vaxandi áherslu á að borða heilnæm  matvæli, sem eru framleidd án neikvæðra áhrifa á umhverfið og samfélagið. Þetta eru neytendur sem eru mjög meðvitaðir um heilsufarsleg áhrif matvæla, vilja þekkja uppruna þeirra og eru reiðubúnir að greiða hátt verð fyrir næringarríka vöru sem gerir heilsunni gott. Á öllum þessum sviðum stendur íslenskt sjávarfang mjög vel að vígi en það verður að byggja okkar málflutning á heiðarleika og vísindalegum upplýsingum, ekki bara því sem okkur finnst eða langar til að segja.“

Viðtal þetta við Svein Margeirsson, forstjóra Matís, birtist fyrst í Morgunblaðinu 26. mars sl.

Fréttir

UNA Skincare – við leitum að samstarfsaðilum

UNA skincare húðvörurnar hafa verið á Íslandsmarkaði síðan 2012 og þegar er hafin markaðssetning og sala á erlendum mörkuðum. UNA skincare ehf. er nýtt fyrirtæki stofnað innan Matís ohf. sem er stærsti hluthafinn.

UNA skincare húðvörurnar eru einstakar á markaði. Þær eru náttúrulega unnar úr íslenskum sjávar-þörungum og innihalda lífvirk efni sem byggja á áralöngum rannsóknum og gefið hafa mjög góða raun.

Nú eru tímamót þegar UNA skincare ehf. opnar fyrir aðkomu nýrra samstarfsaðila um frekari uppbyggingu, markaðssetningu og dreifingu á UNA skincare húðvörum á innlendum og erlendum mörkuðum. Fjárfesting í fyrirtækinu kemur einnig til greina.

Allar frekari upplýsingar veitir:

Oddur Már Gunnarsson, stjórnarformaður UNA skincare ehf. 
422 5096 // 858 5096 
www.unaskincare.com 
www.facebook.com/UNAskincare

Fréttir

Matís tekur þátt í POLSHIFTS ráðstefnunni

POLSHIFTS ráðstefnan í húskynnum Hafrannsóknastofnunar 14.-15. april 2015 | Breytingar á dreifingu uppsjávarfiskistofna, áhrif loftslagsbreytinga?

Markmið POLSHIFTS ráðstefnunnar er fá saman vísindamenn og hagsmunaaðila til að ræða um hugsanleg áhrif sem loftslagsbreytingar gætu haft á dreifingu uppsjávarfiskistofna í Norður Atlantshafi. 
Auglýst er eftir erindum með efnistök tengd veiðum (svo sem breyttan aðgang og kostnað að fiskimiðum og aðlögun fiskiflota af breyttri dreifingu fiskistofna) eða líffræði og vistfræði uppsjávarfiskistofna (svo sem breytingar á lífsögu, dreifingu á fæðu- og hrygningartíma, stofnerfðafræði og vistkerfi hafsvæða) sem mögulega má tengja loftslagsbreytingum fiskistofna. 

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Nokkrir punktar um ráðstefnuna.Frétt fyrst birt á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttir

Hvernig má bæta samkeppnishæfni í virðiskeðju sjávarafurða?

Matís opnar á morgun stórt verkefni úr ranni 8. rammaáætlunar Evrópu á sviði rannsókna og þróunar (Horizon 2020). Verkefnið snýst um framleiðslu sjávarafurða og hvernig bæta má samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðamarkaði. Því er stjórnað af dr. Guðmundi Stefánssyni, fagstjóra á Matís og er styrkur Horizon 2020 vegna verkefnisins um 750 milljónir króna. Verkefnið er það þriðja á fáum árum sem Matís stjórnar á sviði virðiskeðju sjávarfangs innan Evrópu (EcoFishMan og MareFrame).

Samkeppnishæfni margra evrópskra sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja hefur átt á brattan að sækja undanfarin ár og vöxtur í sjávarútvegi í álfunni hefur verið takmarkaður. Markmið PrimeFish er greina helstu ástæður og koma með tillögur að úrbótum sem stuðla að aukinni nýsköpun og samkeppnishæfni og hvetja vöxt innan greinarinnar.

Kaupa neytendur fisk eingöngu út frá verði en ekki vegna gæða, sérstöðu eða rekjanleika?

Gæði fiskmetis eru mikil í Evrópu enda gera neytendur í flestum löndum álfunnar miklar kröfur þegar kemur að sjávarfangi. Sérstaða evrópsks sjávarútvegs og eldis er einnig mikil en þrátt fyrir það hafa evrópskir framleiðendur sjávarfangs margir átt undir högg að sækja undanfarin misseri, þá ekki síst þegar kemur að samkeppni gagnvart ódýrari tegundum hvítfisks frá Asíu. Hugsanlegt er að neytendur skilji ekki þau gæði og sérstöðu sem evrópsk framleiðsla stendur fyrir, en einnig getur ástæðan verið sú að framleiðendur komi ekki þessum upplýsingum á framfæri með nægjanlega skýrum hætti eða þá buddan ráði för evrópskra neytenda.

Hvernig geta framleiðendur sjávarafurða best komið sínum skilaboðum á framfæri til evrópskra neytenda?

Stöðugur óstöðugleiki

Verð og framboð sjávarafurða á evrópskum markaði hefur sveiflast umtalsvert sl. ár og hefur það grafið undan stöðugleika í rekstri fyrirtækja. Breytilegt reglugerðaumhverfi hefur áhrif á samkeppnishæfni og getur gert fyrirtækjum erfitt fyrir að uppfylla kröfur og væntingar neytenda. Dæmin sanna að markaðssetning á mörgum nýjum sjávarafurðum hefur mistekist sl. ár. Skilja framleiðendur ekki neytendur eða liggja aðrar ástæður að baki?  Slíkar spurningar eru meðal þess sem Primefish verkefnið mun taka á.

Nánar um PrimeFish

PrimeFish er fjögurra ára verkefni og taka þátt í því fyrirtæki, rannsóknastofnanir og háskólar. Þeirra á meðal eru Kontali, Syntesa, INRA, Nofima, Háskóli Íslands, háskólarnir í Álaborg, Parma, Stirling, Pavia, Nha Trang University í Víetnam og Memorial University í Kanada. Talsverður fjöldi hagaðila, s.s. sjávarútvegsfyrirtæki, tekur jafnframt þátt í verkefninu.

Nánari upplýsingar veitir Guðmundur Stefánsson verkefnisstjóri PrimeFish.

Fréttir

Ný tækifæri í jarðvarma fyrir þróunarríkin – Ísland dæmi í nýrri skýrslu FAO um hvar vel hefur tekist til

Að mati Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) liggja mikil tækifæri í jarðvarma fyrir þróunarríkin, ekki hvað síst til matvælaframleiðslu t.d. þurrkun afurða og í annarri matvælavinnslu.

Ný skýrsla um þessi mál kom út í vikunni hjá FAO. Íslands er tekið sem dæmi um hvernig vel hefur tekist til að nýta jarðvarma í landbúnaði og almennt til matvælaframleiðslu. Þrír starfsmenn Matís koma að skrifum bókarinnar og auk Minh Van Nguyen, kennara við Nah Trang háskólann í Víetnam.

José Graziano da Silva, framkvæmdastjóri FAO og forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, skrifa inngangstexta skýrslunnar.

Nánari upplýsingar og áhugaverð ítarefni má finna á vef FAO

Skýrslan í heild sinni: Uses of Geothermal Energy in Food and Agriculture

Nánari upplýsingar veitir Sigurjón Arason, yfirverkfræðingur Matís.

Fréttir

App fyrir sjómenn til að reikna ísþörf – nú fyrir öll stærstu stýrikerfin

Matís hefur nú búið til sérstakt smáforrit (app) fyrir snjallsíma og spjaldtölvur sem gerir sjómönnum auðvelt að reikna út ísþörf vegna afla.

Smáforritið er einkar hentugt og auðvelt í notkun og nýtist sjómönnum til að reikna út hversu mikil ísþörfin er fyrir þann afla sem veiddur er. Í forritinu er tekið tillit til aðstæðna eins og sjávarhita, lofthita og dagar á sjó og leiðbeiningar varðandi kg magn af ís gefnar út auk þess í fjölda skófla og fjölda fata.

Nú hefur aldrei verið auðveldara að finna út hversu mikið af ís þarf til að fara sem best með okkar dýrmæta hráefni.

Forritið má nálgast á vefnum, í iTunes Store, í Windows Store og á Google Play (Android) eða með því að skanna QR kóðana hér að neðan. Forritið er aðgengilegt fyrir öll stærstu stýrikerfi farsíma.

Google Play       Windows Store       iTunes Store

Ítarefni

Fréttir

DNA greiningaraðferðir notaðar við að skilja betur mikilvæga þætti í fiskeldi

Verkefnið SustainLarvae hófst formlega nú fyrir stuttu með upphafsfundi á höfuðstöðvum Matís.  Verkefnið er til þriggja ára og eru þátttakendur verkefnisins þrír. Matís og Sæbýli frá Íslandi, ásamt FishVet Group frá Bretlandi. 

Verkefnið hlaut brautargengi í gegnum Eurostar áætlunina með milligöngu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og fjármögnun frá Tækniþróunarsjóði.  

Markmið verkefnisins eru að þróa og meta ávinning nýrra leiða til að meta heilbrigði hryggleysingja til notkunar í fiskeldi en notast verður við sæeyru frá eldisstöðinni Sæbýli.  Nýnæmið felst m.a. í notkun DNA raðgreiningaraðferða til að greina örverusamsetningu í eldiskerfunum og leit að örveruhópum sem geta haft möguleg jákvæð eða neikvæð áhrif á lífvæni eða vöxt sæeyrnanna. Einnig verða settar upp hraðvirkar aðferðir til að meta velferð dýranna með út frá óæskilegum örverum í kerfinu og með mælingum á efnum og hormónum sem dýrin losa sig við undir streitu.  Matís mun sinna tilraunum og rannsóknum í verkefninu, Sæbýli mun útvega verkefninu efnivið ásamt sérþekkingu á eldisaðferðum og FishVetGroup mun koma að markaðsmálum og aðgengi að erlendum mörkuðum fyrir afurðir verkefnisins.

Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Reynisson hjá Matís.

Fréttir

Samningur um samstarf Sólheima og Matís um rannsóknir, þróun og kennslu í tengslum við sjálfbæra matvælaframleiðslu

Þann 20.mars sl. var undirritaður samstarfssamningur milli Matís og Sólheima í Grímsnesi. Þessi samningur felur í sér vilja til að vinna að sameiginlegri stefnumótun um eflingu sjálfbærra samfélaga á Íslandi, auka starfshæfni og nýsköpun við vinnslu og sölu matvæla, efla matarhandverk á Íslandi, bjóða innlendum og erlendum samstarfsaðilum upp á að nýta aðstöðuna á Sólheimum í sínum verkefnum og að leita leiða til að fjármagna samstarfið. Félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjálfbærni er sameiginlegur flötur og mun verða grunnurinn að samstarfi Sólheima, ses. og Matís.

Sólheimar eru vagga lífrænnar ræktunar á Íslandi og þekkt alþjóðlegt samfélag. Auk þess bjóða Sólheimar upp á starfsnám og endurhæfingu fyrir atvinnulausa og aðra hópa. Sólheimar veita nemendum innsýn í og reynslu af þátttöku í sjálfbæru samfélagi.

Matís er öflugt fyrirtæki sem sinnir m.a. rannsóknum og þróun á matvælum. Hlutverk Matís er að efla samkeppnihæfni íslenskrar matvælaframleiðslu bæði afurða og atvinnulífs og stuðla um leið að góðri lýðheilsu, matvælaöryggi og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Frá vinstri:  Magnús Ólafsson fyrir fulltrúaráð Sólheima, Oddur M. Gunnarsson sviðsstjóri hjá Matís,
Guðmundur Á. Pétursson framkvæmdastjóri Sólheima og Ingunn Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Matís og HfSu.

Fyrirhugað er að opna matarsmiðju að Sólheimum og mun sú smiðja, líkt og aðrar matarsmiðjur Matís, þjóna öllum þeim matvæla frumkvöðlum og framleiðendum sem áhuga hafa á vöruþróun en auk þess mun hún nýtast heimamönnum vel til sinnar framleiðslu og nýsköpunar. Ein af megin áherslum Matís er stuðningur við framleiðendur sem vilja hefja vinnslu og sölu á afurðum til að auka fjölbreytni matvæla og skapa verðmæti og vinnu í strjálbýli. Matarsmiðjan veitir vottaða aðstöðu til þeirrar vinnslu auk þess sem þjónusta ráðgjafa Matís stendur framleiðendum til boða við vöruþróun og vinnsluþjálfun.

Sólheimar hafa sterk alþjóðleg tengsl.  Erlendir sjálfboðaliðar vinna um 3-12 mánaða skeið að verkefnum á Sólheimum. Sesseljuhús hefur verið í samstarfi við háskólasamtökin CELL, Center for Ecological Living and Learning, frá árinu 2008. Árlega koma 20 – 30 nemendur á vegum samtakanna á Sólheima og stunda þar hluta af námi sínu.

Matís er í samstarfi við marga innlenda og erlenda háskóla um kennslu og nemendaverkefni. Árlega vinna 30-40 nemendur að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís.  Samstarf Matís við aðila og styrktarsjóði í öðrum löndum er mjög mikið og fyrirtækið hefur verið leiðandi í verkefnum um eflingu matarhandverks, um norræna lífhagkerfið og Evrópuverkefnun um sjálfbæra nýtingu auðlinda og nýsköpun.

Nánari upplýsingar veitir Oddur M. Gunnarsson sviðsstjóri hjá Matís.

Fréttir

Gríðarleg aukning í útflutningi ferskra flaka og flakabita sl. 20 ár

Ein stærsta og verðmætasta breytingin í útflutningi síðustu 10-20 árin er hin mikla aukning í framleiðslu ferskra flaka og flakabita. Frá 1997 hefur útflutningur þessara afurða nærri fjórfaldast í tonnum talið frá því að vera um 9.000 tonn í tæp 34.000 tonn árið 2013 og það sem meira er að útflutningurinn er nú í mun meira mæli með skipum en áður.

Kældur fiskur

Árið 2000 voru flutt út rúm 500 tonn af ferskum flökum með skipum en nú er þessi tala fyrir 2013 ríflega 15.000 tonn, eða rétt tæpur helmingur útflutningsins.

Breytingar af þessari stærðargráðu eiga sér ekki stað nema margt komi til og við sem erum að rannsaka af hverju, hvers vegna og hvernig breytingar hafa áhrif erum alveg sannfærð um að rannsókna- og þróunarverkefni undanfarinna ára hafa haft töluvert að segja um þennan árangur. Þessi þróun var hvött áfram af áhugasömum hagaðilum og má með sanni segja að hvatinn hafi legið í rannsókna og þróunarvinnu sem studd var af rammaáætlun um rannsóknir og þróun í Evrópu, Tækniþróunarsjóð Rannís og AVS.

Í samstarfi við útvegs- framleiðslu- og flutningsfyrirtæki hefur orðið til mikil þekking og kunnátta um hvernig best er að meðhöndla ferskt sjávarfang og viðhalda gæðum. Það má heldur ekki gleyma gildi námskeiða um bætta meðferð afla eða öðru fræðsluefni.

Ferskfiskbókin sem nýlega var sett á vefinn er mikilvægur hlekkur í því að miðla þekkingu til allra þeirra mörgu sem koma að því að skapa sem mest verðmæti úr auðlind þjóðarinnar.

Byggt á gögnum frá Hagstofu Íslands. Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Grænir dagar GAIA helgaðir hafinu

Grænir dagar eru röð viðburða innan Háskóla Íslands skipulagðir af GAIA, félagi meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði. Helga Gunnlaugsdóttir frá Matís verður með erindi um plastefni í hafinu.

Grænir dagar verða haldnir dagana 25. – 27. mars og er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um ýmis aðkallandi umhverfismál. Þemað í ár er hafið og þær umhverfisógnir sem að því steðja, en ábyrgð, skilningur og góð umgengni gagnvart hafinu og lífríki þess er eitthvað sem skiptir okkur á Íslandi miklu máli.

Nánari upplýsingar um Græna daga GAIA má finna á Facebook síðu félagsins.

IS