Fréttir

DNA greiningaraðferðir notaðar við að skilja betur mikilvæga þætti í fiskeldi

Verkefnið SustainLarvae hófst formlega nú fyrir stuttu með upphafsfundi á höfuðstöðvum Matís.  Verkefnið er til þriggja ára og eru þátttakendur verkefnisins þrír. Matís og Sæbýli frá Íslandi, ásamt FishVet Group frá Bretlandi. 

Verkefnið hlaut brautargengi í gegnum Eurostar áætlunina með milligöngu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og fjármögnun frá Tækniþróunarsjóði.  

Markmið verkefnisins eru að þróa og meta ávinning nýrra leiða til að meta heilbrigði hryggleysingja til notkunar í fiskeldi en notast verður við sæeyru frá eldisstöðinni Sæbýli.  Nýnæmið felst m.a. í notkun DNA raðgreiningaraðferða til að greina örverusamsetningu í eldiskerfunum og leit að örveruhópum sem geta haft möguleg jákvæð eða neikvæð áhrif á lífvæni eða vöxt sæeyrnanna. Einnig verða settar upp hraðvirkar aðferðir til að meta velferð dýranna með út frá óæskilegum örverum í kerfinu og með mælingum á efnum og hormónum sem dýrin losa sig við undir streitu.  Matís mun sinna tilraunum og rannsóknum í verkefninu, Sæbýli mun útvega verkefninu efnivið ásamt sérþekkingu á eldisaðferðum og FishVetGroup mun koma að markaðsmálum og aðgengi að erlendum mörkuðum fyrir afurðir verkefnisins.

Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Reynisson hjá Matís.

Fréttir

Samningur um samstarf Sólheima og Matís um rannsóknir, þróun og kennslu í tengslum við sjálfbæra matvælaframleiðslu

Þann 20.mars sl. var undirritaður samstarfssamningur milli Matís og Sólheima í Grímsnesi. Þessi samningur felur í sér vilja til að vinna að sameiginlegri stefnumótun um eflingu sjálfbærra samfélaga á Íslandi, auka starfshæfni og nýsköpun við vinnslu og sölu matvæla, efla matarhandverk á Íslandi, bjóða innlendum og erlendum samstarfsaðilum upp á að nýta aðstöðuna á Sólheimum í sínum verkefnum og að leita leiða til að fjármagna samstarfið. Félagsleg, efnahagsleg og umhverfisleg sjálfbærni er sameiginlegur flötur og mun verða grunnurinn að samstarfi Sólheima, ses. og Matís.

Sólheimar eru vagga lífrænnar ræktunar á Íslandi og þekkt alþjóðlegt samfélag. Auk þess bjóða Sólheimar upp á starfsnám og endurhæfingu fyrir atvinnulausa og aðra hópa. Sólheimar veita nemendum innsýn í og reynslu af þátttöku í sjálfbæru samfélagi.

Matís er öflugt fyrirtæki sem sinnir m.a. rannsóknum og þróun á matvælum. Hlutverk Matís er að efla samkeppnihæfni íslenskrar matvælaframleiðslu bæði afurða og atvinnulífs og stuðla um leið að góðri lýðheilsu, matvælaöryggi og sjálfbærri nýtingu auðlinda.

Frá vinstri:  Magnús Ólafsson fyrir fulltrúaráð Sólheima, Oddur M. Gunnarsson sviðsstjóri hjá Matís,
Guðmundur Á. Pétursson framkvæmdastjóri Sólheima og Ingunn Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Matís og HfSu.

Fyrirhugað er að opna matarsmiðju að Sólheimum og mun sú smiðja, líkt og aðrar matarsmiðjur Matís, þjóna öllum þeim matvæla frumkvöðlum og framleiðendum sem áhuga hafa á vöruþróun en auk þess mun hún nýtast heimamönnum vel til sinnar framleiðslu og nýsköpunar. Ein af megin áherslum Matís er stuðningur við framleiðendur sem vilja hefja vinnslu og sölu á afurðum til að auka fjölbreytni matvæla og skapa verðmæti og vinnu í strjálbýli. Matarsmiðjan veitir vottaða aðstöðu til þeirrar vinnslu auk þess sem þjónusta ráðgjafa Matís stendur framleiðendum til boða við vöruþróun og vinnsluþjálfun.

Sólheimar hafa sterk alþjóðleg tengsl.  Erlendir sjálfboðaliðar vinna um 3-12 mánaða skeið að verkefnum á Sólheimum. Sesseljuhús hefur verið í samstarfi við háskólasamtökin CELL, Center for Ecological Living and Learning, frá árinu 2008. Árlega koma 20 – 30 nemendur á vegum samtakanna á Sólheima og stunda þar hluta af námi sínu.

Matís er í samstarfi við marga innlenda og erlenda háskóla um kennslu og nemendaverkefni. Árlega vinna 30-40 nemendur að rannsóknaverkefnum sínum hjá Matís.  Samstarf Matís við aðila og styrktarsjóði í öðrum löndum er mjög mikið og fyrirtækið hefur verið leiðandi í verkefnum um eflingu matarhandverks, um norræna lífhagkerfið og Evrópuverkefnun um sjálfbæra nýtingu auðlinda og nýsköpun.

Nánari upplýsingar veitir Oddur M. Gunnarsson sviðsstjóri hjá Matís.

Fréttir

Gríðarleg aukning í útflutningi ferskra flaka og flakabita sl. 20 ár

Ein stærsta og verðmætasta breytingin í útflutningi síðustu 10-20 árin er hin mikla aukning í framleiðslu ferskra flaka og flakabita. Frá 1997 hefur útflutningur þessara afurða nærri fjórfaldast í tonnum talið frá því að vera um 9.000 tonn í tæp 34.000 tonn árið 2013 og það sem meira er að útflutningurinn er nú í mun meira mæli með skipum en áður.

Kældur fiskur

Árið 2000 voru flutt út rúm 500 tonn af ferskum flökum með skipum en nú er þessi tala fyrir 2013 ríflega 15.000 tonn, eða rétt tæpur helmingur útflutningsins.

Breytingar af þessari stærðargráðu eiga sér ekki stað nema margt komi til og við sem erum að rannsaka af hverju, hvers vegna og hvernig breytingar hafa áhrif erum alveg sannfærð um að rannsókna- og þróunarverkefni undanfarinna ára hafa haft töluvert að segja um þennan árangur. Þessi þróun var hvött áfram af áhugasömum hagaðilum og má með sanni segja að hvatinn hafi legið í rannsókna og þróunarvinnu sem studd var af rammaáætlun um rannsóknir og þróun í Evrópu, Tækniþróunarsjóð Rannís og AVS.

Í samstarfi við útvegs- framleiðslu- og flutningsfyrirtæki hefur orðið til mikil þekking og kunnátta um hvernig best er að meðhöndla ferskt sjávarfang og viðhalda gæðum. Það má heldur ekki gleyma gildi námskeiða um bætta meðferð afla eða öðru fræðsluefni.

Ferskfiskbókin sem nýlega var sett á vefinn er mikilvægur hlekkur í því að miðla þekkingu til allra þeirra mörgu sem koma að því að skapa sem mest verðmæti úr auðlind þjóðarinnar.

Byggt á gögnum frá Hagstofu Íslands. Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Grænir dagar GAIA helgaðir hafinu

Grænir dagar eru röð viðburða innan Háskóla Íslands skipulagðir af GAIA, félagi meistaranema í umhverfis- og auðlindafræði. Helga Gunnlaugsdóttir frá Matís verður með erindi um plastefni í hafinu.

Grænir dagar verða haldnir dagana 25. – 27. mars og er ætlað að stuðla að vitundarvakningu um ýmis aðkallandi umhverfismál. Þemað í ár er hafið og þær umhverfisógnir sem að því steðja, en ábyrgð, skilningur og góð umgengni gagnvart hafinu og lífríki þess er eitthvað sem skiptir okkur á Íslandi miklu máli.

Nánari upplýsingar um Græna daga GAIA má finna á Facebook síðu félagsins.

Fréttir

Matís tekur þátt í POLSHIFTS ráðstefnunni

POLSHIFTS ráðstefnan í húskynnum Hafrannsóknastofnunar 14.-15. april 2015 | Breytingar á dreifingu uppsjávarfiskistofna, áhrif loftslagsbreytinga?

Markmið POLSHIFTS ráðstefnunnar er fá saman vísindamenn og hagsmunaaðila til að ræða um hugsanleg áhrif sem loftslagsbreytingar gætu haft á dreifingu uppsjávarfiskistofna í Norður Atlantshafi. 
Auglýst er eftir erindum með efnistök tengd veiðum (svo sem breyttan aðgang og kostnað að fiskimiðum og aðlögun fiskiflota af breyttri dreifingu fiskistofna) eða líffræði og vistfræði uppsjávarfiskistofna (svo sem breytingar á lífsögu, dreifingu á fæðu- og hrygningartíma, stofnerfðafræði og vistkerfi hafsvæða) sem mögulega má tengja loftslagsbreytingum fiskistofna. 

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu ráðstefnunnar.

Nokkrir punktar um ráðstefnuna.

Frétt fyrst birt á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

Fréttir

Ferskfiskhandbókin er nú aðgengileg á netinu

Ferskfiskhandbókin sem nú birtist á vefnum, fjallar um innganginn að allri almennri fiskvinnslu. Það skiptir í raun ekki máli hver lokaafurðin verður, þess er ætíð krafist að hráefnið sé af bestu gerð. Það er gamaldags og úrelt viðhorf að lélegt hráefni sé hæft til framleiðslu sumra afurða. Allir neytendur eiga kröfu á að þeim sé sýnd tilhlýðileg virðing með því að bjóða þeim aðeins upp á það besta.

Gríðarleg þekking hefur orðið til í kjölfar margra rannsókna- og þróunarverkefna undanfarin ár, tæki og búnaður í veiðiskipum hefur tekið stórstígum framförum og það sama á við í flestum vinnslum landsins. Svo allt er til staðar til að framleiða eingöngu gæðaafurðir.

Það er ljóst að þekking er undirstaða þess að framleiða sem mest verðmæti úr sjávarauðlindinni og það er fátt mikilvægara en að gera hlutina rétt frá byrjun, ferskfiskhandbókin er liður í þeirri viðleitni að auka aðgengið að handhægum upplýsingum.

Gerð þessarar handbókar var fjármögnuð af Matís með góðum stuðningi frá Rannsóknasjóði síldarútvegsins.

Hjá Matís er hægt að nálgast mikinn fróðleik um flest allt sem viðkemur sjávarafurðum og allir starfsmenn fyrirtækisins eru boðnir og búnir til að gera gott betra í samvinnu við íslenskan sjávarútveg.

Bókina má nálgast hér (best að skoða í Acrobat Reader).

Nánari upplýsingar veitir Páll Gunnar Pálsson hjá Matís.

Fréttir

Má bjóða þér aðstoð við vöruþróun?

Matís auglýsir eftir umsóknum um verkefni sem fela í sér nýtingu á svæðisbundnum auðlindum. Ætlast er til þess að verkefnið skili auknum verðmætum, aukinni sjálfbærni í nýtingu líf-auðlinda og/eða dragi úr lífrænu sorpi.

Stuðningurinn felst í sérfræðiráðgjöf við að koma vöru á markað og getur m.a. falist í aðstoð við uppsetningu vinnsluferla, vöruþróun, umbúðahönnun og mælingar (t.d. geymsluþols-, næringargildis-, efnamælingar- og/eða lífvirknimælingar)

Verkefnið er hluti af nýsköpunarverkefnum undir “Nordbio“ formennskuáætlun Íslands (2014-2016) í Norrænu ráðherranefndinni. Um er að ræða verkefni sem snúa að nýsköpun í matvælaframleiðslu, aukinni sjálfbærni í matvælaframleiðslu og aukinni framleiðslu lífmassa. Sjá meira um heildarverkefnið hér.

Ekki verður greitt fyrir eigin vinnu umsækjanda, hráefni eða tækjakaup.

Gert er ráð fyrir að verkefnin hefjist í apríl og verði lokið í október 2015.

Umsóknafrestur er til 23. mars 2015. Sótt er um þátttöku með því að fylla út umsóknareyðublað sem má finna hér.

Matsblöð sem notuð verða við mat á umsóknum. Matsblað (á íslensku), Evaluering (in Danish).

Nánari upplýsingar veita Gunnþórunn Einarsdóttir og Þóra Valsdóttir hjá Matís.

Fréttir

Frumkvöðladagur uppsveitanna

Frumkvöðladagur uppsveitanna verður haldinn fimmtudaginn 12. mars kl. 13:00 – 17:00 á Café Mika, Reykholti.

Dagurinn er haldinn í samstarfi sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og skipulagður af ferðamálaráði uppsveita Árnessýslu.

Markmiðið er að stuðla að nýsköpun og eflingu atvinnutækifæra á svæðinu. Hugað verður að því hvernig er að hefja atvinnurekstur eða þróa. Stoðkerfið verður kynnt, styrkjamöguleikar og reynslusögum deilt.

Áhugasömum gefst  tækifæri til að viðra hugmyndir sínar við ráðgjafa.  Fjölbreytt erindi verða flutt á fundinum m.a. koma gestir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og atvinnuráðgjöf SASS en einnig mun Ingunn Jónsdóttir, sameiginlegur starfsmaður Matís og Háskólafélags Suðurlands flytja erindi um nýsköpunarhugsun og segja frá Matvælabrúnni, námi sem Háskólafélagið hefur verið að keyra í samstarfi við Matís og matvælafyrirtæki á Suðurlandi.

Auk þess munu fulltrúar fyrirtækja í uppsveitum deila reynslusögum.

Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á www.sveitir.is

Fréttir

Taka höndum saman til að stuðla að frekari nýtingu auðlinda Breiðafjarðar og atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi

Stykkishólmsbær, írska fyrirtækið Marigot Ltd. sem á Íslenska kalkþörungafélagið á Bíldudal, og Matís ohf. hafa undirritað samkomulag sem hefur að markmiði að samþætta samstarf milli þessara aðila í tengslum við nýtt verkefni sem nú er í undirbúningi. Verkefnið lýtur að aukinni virðissköpun með frekari nýtingu stórþörunga við Breiðafjörð í nýju iðnfyrirtæki, Deltagen Iceland ehf., sem áætlar að reisa verksmiðju í Stykkishólmi. Gangi þær áætlanir eftir má gera ráð fyrir að starfsemi Deltagen Iceland með 15 nýjum heilsársstörfum hefjist á síðari hluta árs 2016.

Eins og greint var frá í síðustu viku hefur Marigot keypt 60% hlut í vinnsluhluta starfsemi nýsköpunarfyrirtækisins Marinox ehf. sem var alfarið í eigu Matís og tveggja lykilstjórnenda þar. Um er að ræða þann hluta fyrirtækisins sem heldur utan um rannsóknir og vinnslu verðmætra hráefna úr hafinu, þang og þara.

Friðrik Friðriks­son, formaður stjórn­ar Matís, Sturla Böðvars­son, bæj­ar­stjóri Stykk­is­hólms­bæj­ar, og Ein­ar Sveinn Ólafs­son, fram­kvæmda­stjóri Íslenska kalkþör­unga­fé­lags­ins, f.h. Marigot.

Hyggja á náið samstarf

Með því samkomulagi sem Stykkishólmsbær, Marigot og Matís hafa nú undirritað er ætlunin að örva samþættingu í samstarfi milli þessara aðila, m.a. til að stuðla að nýjum tækifærum á sviði menntunar, rannsókna og nýsköpunar í sveitarfélaginu á grundvelli vísindastarfs og þarfa iðnaðarins. Gangi allar áætlanir eftir mun Deltagen Iceland reisa og reka nýja verksmiðju í Stykkishólmi þar sem unnir verða hágæða þörungakjarnar til útflutnings, ekki síst á grundvelli nýsköpunar og víðtækrar þekkingar vísindamanna Matís.

Varúðarsjónarmið grundvöllur sjálfbærrar þróunar

Sjálfbær nýting þangs og stórþörunga við Breiðafjörð er grundvöllur samstarfsins. Rannsóknir benda til að sjálfbær ávöxtun auðlindarinnar sé talsvert meiri en sem nemur núverandi nýtingu. Í samkomulaginu er tekið fram að ávallt verði gætt að varúðarsjónarmiðum við sérhverja framkvæmd sem fyrirhuguð starfsemi mun krefjast, enda eru þau grundvöllur sjálfbærrar þróunar á nýtingu lífrænna auðlinda. Megináhersla verður lögð á vísindalega nálgun við nýtingu auðlindarinnar með það að markmiði að fullnýta hráefnið með sem minnstum áhrifum á umhverfið samhliða sem mestum svæðisbundnum efnahagslegum ávinningi.

Viljum taka þátt í frekari atvinnuppbygginu

„Með stofnun Deltagen Iceland horfir Marigot til mögulegs framtíðarvaxtar í starfsemi sinni á Íslandi og gangi þessar áætlanir eftir verður verksmiðjan í Stykkishólmi reist gagngert með markmið starfseminnar í huga. Við horfum til Stykkishólms vegna fullnægjandi og nauðsynlegra innviða í bæjarfélaginu, tiltæks vinnuafls og nálægðar við hráefnið. Þetta er einnig skýrt merki um áhuga Marigot á því að taka þátt í frekari atvinnuuppbyggingu á Íslandi,“ segir Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins og fulltrúi Marigot hér á landi.

Stuðlar að fjölbreyttari atvinnumöguleikum

„Við fögnum þessu spennandi samkomulagi sem hefur að markmiði að skapa fleiri störf og auka fjölbreytni atvinnulífsins hér á svæðinu. Miðað við áætlanir myndi verksmiðjan sjálf skapa 15 ársverk undir fullum afköstum auk starfa við þangslátt og söfnun, þróunar- og tæknivinnu auk annarra afleiddra starfa sem eru okkur í Stykkishólmi mikilvæg búbót í frekari atvinnuuppbyggingu. Bæjaryfirvöld eru núna að vinna í nauðsynlegum skipulagsmálum sem snúa að verkefninu, sem við vonum að gangi eftir. Fyrirhugaður iðnaður þyrfti m.a. að hafa beinan aðgang að góðri hafnaraðstöðu fyrir allstór flutningaskip og til að landa þangi úr flutningaprömmum og skipum sem flytja þang frá sláttuprömmum á Breiðafirði. Við munum skoða þetta verkefni með stjórnvöldum,“ segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Fellur vel að meginhlutverki Matís

„Við fögnum þessu samkomulagi og lítum björtum augum til þeirra spennandi tækifæra sem samstarfið mun vonandi leiða af sér. Matís hefur í gegnum tíðina skapað sér öflugt orðspor á vettvangi rannsókna og nýsköpunar í matvælaframleiðslu og líftækni. Aðkoma okkar að starfsemi Deltagen Iceland verður í gegnum starf vísindamanna Matís þar sem mikil þekking er til staðar á vannýttum afurðum á borð við þang og þara. Með því að styðja við nýsköpun starfsmanna Matís með þessum hætti erum við að stuðla að nauðsynlegum hvata til að þróa hugmyndirnar áfram og búa til verðmætar vörur og efla þannig íslenskt atvinnulíf. Það er í raun eitt meginhlutverk Matís,“ segir Friðrik Friðriksson, stjórnarformaður Matís.

Nánari upplýsingar veita eftirtaldir aðila:

Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar, í síma 863 8888, Einar Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenska kalkþörungafélagsins, f.h. Marigot, í síma 897 0303 og Friðrik Friðriksson, formaður stjórnar Matís, í síma 896-7350.

Fréttir

Rannsókn á efnasamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum

Sú venja hefur lengi verið viðhöfð innan íslenska sjávarútvegsins að þegar sjómenn stinga sig á oddhvössum uggum karfa þá hafa þeir einfaldlega skorið í augu fiskjarins og borið slímið í stungusárið.

Aukin verðmæti úr vinnslu á Karfa (Sebastes)
– rannsókn á efnasamsetningu og lífvirkni slíms úr karfaaugum

Með því að nota slímið með þessum hætti hafa sjómenn komið í veg fyrir sýkingu og einnig hefur verkurinn orðið minni en ella og bólgusvörun hverfandi samanborið við þegar augnslím er ekki borið á sárið. Þetta varð kveikjan að verkefninu og þær upplýsingar sem byggt var á þegar farið var á stað með verkefnið. Tilgangur þessa verkefnis var að varpa ljósi á hvort nýta megi slím úr augum karfa (Sebastes) til framleiðslu efna sem hafa eftirsóknarverða lífvirkni sem mögulega mætti nota í ýmsan iðnað, svo sem í snyrtivörur, sem fæðubót ofl.

Niðurstöður sýna að andoxunarvirkni er að finna í augnslími úr karfa og þá fyrst og fremst þegar 50% metanóllausn var notuð við útdráttinn og andoxunarvirkni mæld með svokölluðu DPPH prófi. Lágt próteininnihald reyndist í augnslíminu en hæst mældist það í augnslími sem var hitaþurrkað við 30°C. Með þeim aðferðum sem prufaðar voru reyndist augnslímið hvorki innihalda bakteríuhamlandi virkni né mældist í því β-karótín.

Þetta verkefni var í raun frumrannsókn á efni sem ekki hefur verið skoðað áður og safnað var upplýsingum sem ekki lágu fyrir. Áhugavert væri í framhaldinu að rannsaka aðra eftirsóknarverða lífvirkni, svo sem bólguhamlandi virkni. Einnig væri spennandi að einangra og rannsaka frekar þau prótein sem er að finna augnslíminu.

Nemandi

Friðrik Þór Bjarnason sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri vorið 2014 og meistaranemi í fiskeldi við Háskólann í Bodø Noregi frá haustinu 2014.

Leiðbeinandi

Rannveig Björnsdóttir dósent við Háskólann á Akureyri og fagstjóri hjá Matís.

Verkefnið unnið í Háskólanum á Akureyri og Matís Akureyri, með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Allt hráefni til rannsóknarinnar kom úr vinnslu Samherja hf.

Nánari upplýsingar veitir Rannveig Björnsdóttir, fagstjóri hjá Matís á Akureyri.

IS