Fréttir

Aukið matvælaöryggi á Íslandi

Samstarfsverkefni íslenskra og þýskra stjórnvalda um aukið öryggi matvæla er nú lokið. Matvælaöryggi er lykilforsenda þess að matvælaframleiðendur geti selt sína vöru og tekið þátt í alþjóðaviðskiptum.

Neytendur, innlendir sem erlendir, verða að geta treyst því að matvæli séu örugg og að stjórnvöld hafi getu til að fylgjast með því að matvælaöryggis sé gætt í samræmi við alþjóðlega staðla og reglugerðir.

Tvíhliða samstarfsverkefni Þýskalands og Íslands, Örugg matvæli, sem stuðlað hefur að auknu matvælaöryggi á Íslandi er nú lokið, en helstu þátttakendur verkefnisins voru Matís, Matvælastofnun (MAST), Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, German Federal Ministry of Food and Agriculture (BMEL), Federal Institute for Risk Assessment (BfR) og Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety (LAVES) í Þýskalandi.

„Markmið okkar var byggja upp stjórnsýsluna og bæta rannsóknaaðstöðu á Íslandi þannig að allir nauðsynlegir innviðir séu til staðar til að tryggja öryggi matvæla á íslenskum markaði. Þetta er gert til að vernda heilsu og hagsmuni neytenda á sífellt stækkandi mörkuðum á tímum aukinnar alþjóðavæðingar“ sagði prófessor dr. dr. Andreas Hensel, forseti BfR, og undir það tók prófessor dr. Eberhard Haunhorst, forseti LAVES á fundi með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þann 25. júní 2014. „Samstarfsverkefnið Örugg matvæli hefur stuðlað að verulegri eflingu á rannsóknargetu Íslands, sem mun gera okkur kleift að vinna í samræmi við evrópska staðla og reglugerðir. Þessi vinna mun auðvelda útflutning á íslenskum matvælum á alþjóðamarkaði.“ sagði Sveinn Margeirsson forstjóri Matís. „Þökk sé nánu samstarfi milli íslenskra yfirvalda og þýskra samstarfsaðila, hafa opinberir eftirlitsaðilar aukið þekkingu sína á löggjöf, stjórnsýslu og verklagi við opinbert matvælaeftirlit þannig að við erum nú betur í stakk búin til að tryggja hagsmuni neytenda með tilliti til matvælaöryggis“, bætti forstjóri Matvælastofnunar Jón Gíslason við.

Helstu forgangsatriði verkefnisins voru að bæta greiningu varnarefnaleifa og annarra aðskotaefna í matvælum, svo sem PCB, auk greininga á erfðabreytingum í matvælum og fóðri. Annar mikilvægur þáttur var að innleiða efnagreiningaraðferðir til að mæla þörungareitur í skelfiski. Til að ná þessum markmiðum voru keypt fyrsta flokks rannsóknartæki og sett upp á rannsóknarstofu Matís ásamt því að viðkomandi starfsfólk var þjálfað í notkun tækjanna og framkvæmd á opinberum greiningaraðferðum samkvæmt Evrópskum stöðlum. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fengu einnig þjálfun í sýnatökum, eftirliti og túlkun löggjafar á þessum sviðum. Samtals komu hingað til lands 24 sérfræðingar frá þýsku samstarfsstofnununum til að veita þessa þjálfun auk þess sem íslenskir sérfræðingar munu fara í kynnisheimsókn til Þýskalands.

Dr. Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís, dr. Roland Gerhard Körber starfsmaður Safe Food verkefnisins, Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dr. Hrönn Ólína Jörundsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, Thomas Hermann Meister, sendiherra Þýskalands á Íslandi, dr. dr. Andreas Hensel, forseti BfR, dr. Eberhard Haunhors forstjóri Laves og Margrét Björk Sigurðardóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun.

Verkefnið þykir hafa tekist afar vel og er verið að ræða hugsanlegt framhald á því samstarfi sem komið er á milli íslenskra og þýskra stofnana á sviði matvælaöryggis.

Nánari upplýsingar veitir Helga Gunnlaugsdóttir, fagstjóri hjá Matís. 

Fréttir

Erlendir sjávarútvegsráðherrar heimsækja Matís

Íslendingar hafa markað sér gott orðspor þegar kemur að nýtingu sjávarfangs og nýsköpunar í sjávarútvegi. Matís ásamt samstarfsaðilum sínum hefur stutt vel við þessa þróun með rannsóknum og nýsköpun. 

Velgengni Ísland á þessu sviði hefur vakið verðskuldaða athygli og hafa erlendir aðilar áttað sig á að hér er að finna einstaka þekkingu og reynslu í sjávarútvegi. Sjávarútvegsráðherra Noregs Elisabeth Aspaker heimsótti Matís í dag til þess að fræðast um starfsemi fyrirtækisins og fá svör við spurningunni „Af hverju Íslendingar eru svona duglegir að framleiða og selja hágæðavörur unnar úr hvít- og uppsjávarfisk?“
Spurningin á fullan rétt á sér því munurinn á aflanýtingu Íslendinga og Norðmanna er umtalsverður. Á Íslandi fást t.d. 570 kg af afurðum úr 1 tonni af þorsk en sama magn skilar Norðmönnum aðeins 410 kg af afurðum. Munurinn nemur 16% eða 160 kg á hvert tonn sem  þýðir að virðisaukning Norðmanna út frá heildarafla þeirra í Barentshafi árið 2013 gæti numið rúmlega 1 milljarði NOK eða 21 milljarði ISK ef þeir tileinkuðu sér aðferðir Íslendinga.1 
Raunar er það svo að sjávarútvegsráðherrar beggja vegna Atlantshafsins hafa lagt leið sína til Matís á undanförnum dögum því fyrir viku síðan heimsótti Keith Hutchings sjávarútvegsráðherra Nýfundnalands einnig Matís. Auknar þorsveiðar úti fyrir Nýfundnalandi skapa ný tækifæri fyrir sjávarútveginn. Auk þess sýndi hann hlutverki Matís sem brú milli háskóla og atvinnulífs mikinn áhuga og taldi það samstarf efla iðnaðinn.

Fréttir

Ber, krabbi og klaki – vannýttar auðlindir

Á Íslandi má finna gífurlegar auðlindir í óspilltri og ómengaðir náttúru sem nýta má til matvælaframleiðslu. Í verkefninu Artic Bioeconomy var til dæmis unnið með þara í majónesi, súkkulaði og pasta. Ber, villtar jurtir, grænkál, gulrófur, rabarbari, sveppir og birki eru uppistaðan í nýstárlegum matvælum auk þess að gefa þekktum vörum nýjan keim.

Nýsköpun í matvælaiðnaði, þar sem vannýttar auðlindir koma við sögu hefur verið megin þema Artic Bioeconomy verkefnis sem lýkur í nóvember. Verkefnið er hluti af formennsku verkefni Ísland í Norrænu ráðherranefndinni. Matís leiðir verkefnið sem hefur nú ýtt rúmlega 30 hugmyndum úr vör og verða nýjar vörur kynntar þann 25. júní á ráðstefnu um lífhagkerfið sem fram fer á Selfossi. Vörurnar eru þróaðar af smáframleiðendum og einstaklingum á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum.

Matís hefur verið þeim sem vilja fara nýjar leiðir í matvæla framleiðslu innan handar og hafa matarsmiður Matís leikið þar sérstaklega stórt hlutverk. Auk þess sem rannsóknir fyrirtækisins á lífvirkum efnum og auðgun sjávarrétta hefur aukið þekkingu á því hvernig auka megi hollustu þeirrar fæðu sem við neytum. Á sama tíma og mikilvægt er að finna og nýta nýjar auðlindir þarf einnig að huga að því hvort hægt sé að nýta afurðir sem oftast nær er hent, til matvælaframleiðslu. Í því skyni var til dæmis unnið með ærkjöt, rif úr nautakjöti, mysu og grjótkrabba.

Strandaber, krabbi og mysuklaki

Sem dæmi um nýjar vörur sem verða til sýnis má nefna Strandaber, en það er ný vörulína sem nýtir aðalbláber tínd í strandasýslu. Berin eru pressuð og nýtt í safa og hratið er nýtt sem hráefni fyrir boost eða þurrkað sem millimál. Engin rotvarnar-, litar- né sætuefni eru notuð. Rannsóknir hafa sýnt fram á að íslensk aðalbláber innihalda meira af andoxunarefnum en innflutt ber.

Önnur spennandi matvara sem íslendingar hafa ekki vanist því að nýta er krabbinn. Nú verður vonandi breyting á því. Varan sem um ræðir er krabbakjöt sem hefur verið eldað og fryst, það er aðallega hugsað fyrir veitingastaði en kjötið má nota í krabbasalat, krabbakökur eða krabbaborgara.

Mysuklaki með berjum og jurtum er einnig ný afurð sem kynt verður á ráðstefnunni, en við gerð hans er horft til íslenskrar hefðar. Mysan sem er notuð er auka afurð skyrframleiðslu. Mysan var aðal svaladrykkur íslendinga fyrr á öldum hún hefur hinsvegar lotið í lægra haldi fyrir nýjum svaladrykkjum, en í þessu verkefni er hún nýtt í frískandi klaka fyrir börn og fullorðna.

Enn er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Fréttir

Vísindamenn um allan heim kíkja í hafið – á sama tíma!

Sýnatökudagur hafsins (e. Ocean Sampling Day / OSD) er heimsviðburður sem gengur út á það að vísindamenn safna á sama tíma sýnum úr hafinu á sumarsólstöðum 21. júní. Þessar sýnatökur munu aðstoða vísindamenn sem og almenning allan að skilja betur hvernig hafsvæði heimsins virka og þau flóknu lífríki sem þar er að finna.

Hvorki fleiri færri en 167 staðir eru nú staðfestir þar sem sýnatakan mun fara fram samtímis í næstu viku. Hér má sjá lista yfir staðina þar sem þátttaka er staðfest en á nokkrum stöðum í hafinu í kringum Ísland munu sýni verða tekin.

Nánari upplýsingar má finna á vefsvæði OSD og á bloggi OSD. Hjá Matís veitir Viggó Marteinsson einnig nánari upplýsingar um framkvæmd mælinga hér á landi.

Ocean Sampling Day 2014

Fréttir

Hvernig verður majónes hollustuvara?

30 nýjar matvörur verða kynntar á Nordtic ráðstefnunni á Selfossi. Þar verður fjallað um Norræna lífhagkerfið sem er hluti af þriggja ára formennskuverkefni íslenskra stjórnvalda í Norrænu ráðherranefndinni. Nýsköpun á sviði matvælaframleiðslu er ein af áskorunum verkefnisins.

Þann 25. júní verður haldinn ráðstefna á Selfossi um Norræna lífhagkerfið, en markmiðið er að finna leiðir til fullnýtingu afurða án þess að ganga á auðlindir og minnka þannig úrgang, auka verðmætasköpun og ýta undir nýsköpun.

 Á ráðstefnunni verður afrakstur fæðunýsköpunar kynntur, en fyrr á þessu ári var auglýst eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í vöruþróunarverkefnum bæði hér á Íslandi sem og á Grænlandi og í Færeyjum. Markmiðið var að þróa nýjar matvörur eða matvælatengdar vörur. Nýsköpunar verkefni af þessari gerð styrkja svæðisbundinn hagvöxt og auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu.

Sem dæmi um matvæli sem þróuð voru í verkefninu og hægt verður að smakka á ráðstefnunni má nefna: Ísklaka úr úr skyrmysu, handtíndum íslenskum berjum og villtum jurtum, Gulrófuflögur,Heilsumæjónes með omega – 3 og Bleikja alin á fóðri sem framleitt er með próteinum úr myglusveppum. Alls verða um 30 vörur kynntar frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. 

Lífhagkerfið er Matís hugleikið enda snúa mörg af verkefnum fyrirtækisins um verndun og velferð þess. Í nóvember næstkomandi mun verkefninu Arctic Bioeconom ljúka, en það hefur að mestu snúist um nýsköpun matvælaframleiðslu og þar með fæðuöryggi norðurslóða en ásamt Íslandi var einkum horft til fæðuframleiðslu í Færeyjum og á Grænlandi auk norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. Sigrún Elsa Smáradóttir, fagstjóri á Viðskiptaþróunarsviði, er verkefnastjóri verkefnisins. 

Enn er hægt að skrá sig á Nordtic ráðstefnuna.

Dagskráin verður sem hér segir:

  • 09:15 Coffee and registration
  • 10:00 Opening the conference | Sigurður Ingi Jóhannsson, Minister of Fisheries and Agriculture
  • 10:15 No standard = no market | Dr. dr. Andreas Hensel, President at BfR
  • 11:00 Product development in the Arctic Bioeconomy | Sigrún Elsa Smáradóttir, Research group leader, Matís
  • 11:30 Industry success stories:
  1. Janus Vang, Director, iNOVA and Leif Sörensen, Chef. Faroe Islands
  2. Kim Lyberth, Inuili school, Greenland
  3. Ingunn Jónsdóttir, Regional Manager Matís and Valdís Magnúsdóttir, farmer and local food producer, Iceland   
  • 12:00 Lunch | Special taste of innovation
  • 13:30 Branding of Nordic food | Emil Bruun Blauert, CEO, Executive Advisor and Developer, WNEAT
  • 13:50 Microfeed: Turning wood into food | Clas Engström, Managing Director, SP
  • 14:10 Nutrition for the future – Possibilities of the Nordic areas? | Bryndís Eva Birgisdóttir, Associate professor, University of Iceland
  • 14:30 Coffee break
  • 14:50 Food waste: Problem or growth opportunity? | Nils Kristian Afseth, Research Scientist, PhD, Nofima       
  • 15:10 Investing in algae – Ingredients for future food production | Olavur Gregersen, Managing Director, Syntesa Partners & Associates               
  • 15:30 Assessing and mitigating risk in the Nordic Bioeconomy | Guðmundur Halldórsson, Research Coordinator, Soil Conservation Service of Iceland
  • 15:45 Reflection panel | Nordic and Arctic bioeconomy in local & global perspective:
  1. Julian Roberts – COMSEC
  2. Prof. Dr. Eberhard Haunhorst , President  of Lower Saxony State Office for Consumer Protection and Food Safety
  3. Alda Agnes Gylfadóttir, Managing director, Einhamar Seafood
  4. Sigurð Björnsson, Head of Research and Innovation, RANNÍS
  5. Ásmundur Guðjónsson, Senior Adviser, Ministry of Fisheries Faroe Islands
  • 16:30 End of conference

Conference facilitator: Guðrún Hafsteinsdóttir, Chairman of the Federation of Iceland Industries.

Ráðstefnan fer fram á ensku.

Fréttir

Upphafsfundur íslenska hluta MareFrame vel sóttur

Upphafsfundur íslensku tilviksrannsóknarinnar í MareFrame verkefninu er nú ný afstaðinn, en hann fór fram þriðjudaginn 10. júní. Matís tekur þátt verkefninu í samstarfi við Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun. Evrópuverkefnið MareFrame miðar að því að þróa fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi að íslenskri fyrirmynd.

Dr. Anna Kristín Daníelsdóttir sviðsstjóri hjá Matís er verkefnastjóri íslenska hluta MareFrame. Hún segir fundinn hafa tekist vel og verið vel sóttur.

 „Markmiðið var að fá sjónarmið hagaðila um þróun og mótun íslensku tilviksrannsóknarinnar um íslenskt fjölstofna fiskveiðistjórnunarkerfi. Í MareFrame verkefninu er mikið lagt upp úr góðu samstarfi við sjómenn, útgerðir og vinnslu ásamt öðrum hagsmunaaðilum sem koma að stjórnun fiskveiða, en það er lykilatriði við innleiðingu fjölstofna fiskveiðistjórnarkerfis.“

 „Fulltrúar frá helstu hagaðilum sóttu fundinn s.s. Landsamband Íslenskra Útvegsmanna, Landsband smábátaeigenda, Samtök fiskvinnslustöðva, MSC, Fiskistofa og Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.“

Fleiri samstarfsfundir ráðgerðir í verkefninu enda er þar lögð áhersla á vistvæna, sjálfbæra, félagslega og hagræna stjórnun. Auk þess sem byggt er á því sem vel hefur verið gert í íslenskri fiskveiðistjórnun, m.a. notkun á fjölstofnalíkaninu „Gadget“ sem var þróað af íslenskum þátttakendum verkefnisins og er notað víða erlendis.

Að MareFrame verkefninu koma alls 28 stofnanir, fyrirtæki og háskólar í 10 Evrópulöndum (Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Pólland, Bretland, Spánn, Ítalía, Rúmenía, Noregur og Ísland) ásamt Suður Afríku, Ástralíu og Nýja Sjálandi. 

Fréttir

Ýtir fiskeldi undir jákvæða byggðaþróun?

Samkvæmt grein á www.visir.is hefur orðið fólksfjölgun á sunnanverðum Vestfjörðum á síðastliðnum tveimur árum í tengslum við aukið fiskeldi á svæðinu. Þar hefur Matís komið við sögu en nýsköpun og rannsóknir á sviði fiskeldis auk stuðnings við atvinnuuppbygging á landsbyggðinni hefur verið rauður þráður í starfsemi fyrirtækisins frá stofnun.

Í greininni kemur fram að mannfjöldi á sunnanverðum vestfjörðum hafi aukist um 5% á frá 2012 – 2014 en fólksfjölgun hefur verið neikvæð á svæðinu síðastliðin ár. Árið 2012 bjuggu 1.186 manns á svæðinu en þeim hefur nú fjölgað um 60 og eru í dag 1.246 einstaklingar búsettir í Vesturbyggð og á Tálknafirði. Til samanburðar má þess geta að árið 2000 bjuggu 1.596 einstaklingar á svæðinu. Ástæða fólksfjölgunar  er rakin til atvinnuuppbyggingar í tengslum við fiskeldi, sem hefur verið í mikilli sókn á síðustu árum og áætlað er að haldi áfram.

Árið 2012 opnuði Matís starfsstöð á Patreksfirði sem þjónar sunnanverðum Vestfjörðum og Breiðafjarðarsvæðinu, en þar hefur vegur fiskeldis aukist jafnt og þétt á síðustu árum. Markmiðið með starfstöðvum Matís er að þjónusta nærsamfélagið og styrkja rannsóknir og þróun á sviði matvæla í heimabyggð. Á Patreksfirði er lögð áherla á rannsóknir tengdu sjókvíaeldi og er ætlunin að stuðla þannig að framgangi og uppbyggingu fiskeldis um land allt.

Á undanförnum árum hafa rannsóknirnar aðallega miðað að því að bæta afkomu, vöxt og gæði eldisfiska ásamt því að auka hagkvæmni við framleiðslu og minnka fóðurkostnað sem er einn stærsti útgjaldaliðurinn. Rannsóknirnar stuðla þannig að verðmætaaukningu og gerir fyrirtækjum og einstaklingum auðveldara með að kom af stað framleiðslu af einhverju tagi.

Á sunnanverðum Vestfjörðum er löng hefð fyrir útgerð og fiskvinnslu en á síðustu árum hefur orðið ákveðin hnignun í þeirri starfsstétt. Svæðið hentar hinsvegar vel fyrir fiskeldi að margra mati og hefur það án efa ýtt undir þá miklu uppbyggingu sem þegar er orðin, sérstaklega í eldi á laxi, bleikju og regnbogasilungi auk kræklings.  Stefnt er að því að afurðir á svæðinu fái sjálfbæra vottun enda séu þær unnar á sjálfbæran máta og lífhagkerfið í heild haft með í myndinni á öllum framleiðslustigum.  

Matís leggur mikila áherslu á að virðisaukning haldis í hendur við velferð lífhagkerfisins. Því skilar betri nýting fóðurs og afurða ekki einungis meiri fjármunum heldur einnig verðmætari og vistvænni vöru sem spunnin er úr sjálfbæru umhverfi. Slíkt stuðlar þannig að auknu fæðuöryggi til framtíðar.

https://www.youtube.com/watch?v=bbVMoQ9rnq0&list=PLZGs8XSSa2cJ624eO8Fzj29ns-B8bs7sl
Starfsstöð Matís á Patreksfirði

Nánar um allar starfsstöðvar Matís.

Fréttir

Ráðstefna um umhverfisefnafræði

Velkomin á Norrænu umhverfisefnafræði ráðstefnuna – NECC (Nordic Environmental Chemistry Conference) 2014 sem er haldin í Reykjavík dagana 11-13. júní 2014.

Umfjöllunarefni ráðstefnunnar er umhverfisefnafræði á Norðurlöndunum sem og á alþjóðavettvangi en umhverfisefnafræði er þverfaglegt rannsóknarsvið sem er hafið yfir landafræðileg mörk og því er alþjóðleg umræða nauðsynlegt. Fyrir ráðstefnuna er því leitað að efnistökum sem spannar meðal annars umhverfiseiturefnafræði og áhrif efna á lífverur, uppsöfnun efna í lífverum, flutningur efna í umhverfinu og umbreytingarferli þeirra, líkanagerð, græna efnafræði sem og eftirlit og reglugerðir.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Umhverfisstofnunarí auglýsingaeinblöðungi ráðstefnunnar og hjá Hrönn Ólínu Jörundsdóttur hjá Matís.

Fréttir

BS í matvælarekstrarfræði

Háskólinn á Bifröst, m.a. í samvinnu við Matís, ætlar að verða við kalli atvinnulífsins um land allt sem í vaxandi mæli hefur áhuga á að auka nýsköpun og framþróun á sviði matvælaframleiðslu. Háskólinn á Bifröst mun bjóða upp á nám í matvælarekstrarfræði frá og með haustinu 2014.

Lögð er áhersla á alla virðiskeðjuna frá frumframleiðslu að sölu til hins endanlega neytanda. Námið er 180 ECTS og lýkur með BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á matvælarekstur og hægt verður að stunda það í fjarnámi og staðnámi eða blöndu af þessu tvennu.

Að auki verður verður boðið uppá sérhæfingu í formi misserisverkefna (12 ECTS) og lokaritgerðar (14 ECTS). Námið verður í samvinnu Landbúnaðarháskóla Íslands og kennslan m.a. í samvinnu við Matís.

Grunnnám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst er alhliða viðskiptanám sem ætlað er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í atvinnulífi og samfélagi. Námið samanstendur af almennum viðskiptafræðigreinum eins og fjármálum, reikningshaldi, stjórnun og markaðsfræði. Nemendur geta dvalið eina önn í skiptinámi við erlendan samstarfsháskóla.

Sérhæfing kemur fram í eftirfarandi námskeiðum:

  • Næringafræði – 6 ECTS
  • Örverufræði matvæla – 6 ECTS
  • Matvælavinnsla – 6 ECTS
  • Matvælalöggjöf og gæðamál – 6 ECTS
  • Upplýsingatækni í matvælaiðnaði – 6 ECTS
  • Framleiðslutækni – 6 ECTS
  • Flutningatækni og vörustjórnun – 6 ECTS

Nánari upplýsingar veita Sigurður Ragnarsson, sviðsstjóri viðskiptafræðisviðs á Háskólanum á Birfröst og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Auk þess eru enn fleiri áhugaverðar upplýsingar á vef Háskólans á Bifröst, www.bifrost.is

Frétt m.a. byggð á frétt um námið sem birtist á vef Háskólans á Bifröst 6. júní sl.

Fréttir

Nordtic – lífhagkerfi norðurslóða

Þann 25. júní verður haldin ráðstefna á Hótel Selfoss þar sem fjallað verður um Norræna lífhagkerfið (Nordic Bioeconomy) og lífhagkerfi norðurslóða (Arctic Bioeconomy).

Lífhagkerfið

Hugtakið lífhagkerfi (e. Bioeconomy) hefur verið notað til að ná yfir allar lífauðlindir, samspil þeirra og samhengi og áhrif þeirra á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Rannsóknir á sviði lífhagkerfis ganga þannig þvert á atvinnugreinar og leitast við að hámarka ávinning auðlinda án þess að ganga á þær. Mikilvægur þáttur í starfsemi Matís er að efla og auka verðmætasköpun í lífhagkerfinu, meðal annars með verkefnum sem snúa að aukinni framleiðslu lífmassa og með því að hlúa að nýsköpun, vinna að bættri nýtingu og sjálfbærni í framleiðsluferlum og þar með hagfelldari afrakstri auðlinda. Starfsfólk Matís fagnar því norrænni áherslu á lífhagkerfið og vinnur náið með íslenskum stjórnvöldum að útfærslu þriggja ára formennskuverkefna á þessu sviði, en þau hófust á þessu ári þegar Ísland tók við formennsku í Norræna ráðherraráðinu.

Að þessu tilefni verður haldinn ráðstefna á Íslandi 25. júní þar sem fjallað verður um þessi mál frá margvíslegum sjónarhornum.

Á vef Gestamóttökunnar/Yourhost er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Nýsköpun í lífhagkerfi Norðurlanda og norðurslóða

Innovation in the Nordic and Arctic Bioeconomy

  • 09:15 Coffee and registration
  • 10:00 Opening the conference | Sigurður Ingi Jóhannsson, Minister of Fisheries and Agriculture
  • 10:15 No standard = no market | Dr. dr. Andreas Hensel, President at BfR                 
  • 11:00 Product development in the Arctic Bioeconomy | Sigrún Elsa Smáradóttir, Research group  
               leader, Matís                        
  • 11:30 Industry success stories:
               Janus Vang, Director, iNOVA and Leif Sörensen, Chef. Faroe Islands
               Kim Lyberth, Inuili school, Greenland
               Ingunn Jónsdóttir, Regional Manager Matís and Valdís Magnúsdóttir, farmer and local food   
               producer Iceland   
  • 12:00 Lunch | Special taste of innovation
  • 13:30 Branding of Nordic food | Emil Bruun Blauert, CEO, Executive Advisor and Developer, WNEAT
  • 13:50 Microfeed: Turning wood into food | Clas Engström, Managing Director, SP Processum          
  • 14:10 Nutrition for the future – Possibilities of the Nordic areas? | Bryndís Eva Birgisdóttir, Associate
               professor, University of Iceland
  • 14:30 Coffee break             
  • 14:50 Food waste: Problem or growth opportunity? | Nils Kristian Afseth, Research Scientist, PhD,
               Nofima      
  • 15:10 Investing in algae – Ingredients for future food production | Olavur Gregersen, Managing
               Director, Syntesa Partners & Associates               
  • 15:30 Assessing and mitigating risk in the Nordic Bioeconomy | Guðmundur Halldórsson, Research
               Coordinator, Soil Conservation Service of Iceland
  • 15:45 Reflection panel | Nordic and Arctic bioeconomy in local & global perspective:
               Julian Roberts – COMSEC
               Prof. Dr. Eberhard Haunhorst , President  of Lower Saxony State Office for Consumer   
               Protection and Food Safety
               Alda Agnes Gylfadóttir, Managing director, Einhamar Seafood
               Steinar Bergseth, Coordinator MBTera
               Ásmundur Guðjónsson, Senior Adviser, Ministry of Fisheries Faroe Islands
  • 16:30 End of conference

Conference facilitator:

Guðrún Hafsteinsdóttir, Chairman of the Federation of Iceland Industries

Meira um lífhagkerfi norðurslóða

Eitt af þeim verkefnum sem Matís hefur haft forgöngu um er norræna verkefnið Arctic Bioeconomy en Sigrún Elsa Smáradóttir, fagstjóri á Viðskiptaþróunarsviði, er verkefnastjóri verkefnisins. Verkefnið er til tveggja ára og felur í sér kortlagningu á lífauðlindum á norðurslóðum, mati á afrakstri þeirra, og samanburði og greiningu milli svæða. Einkum er horft til Grænlands, Íslands og Færeyja en tæpt á lífauðlindum í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. „Í verkefninu er sérstaklega horft til matvælaframleiðslu með tilliti til fæðuöryggis auk þess sem nýsköpunarhæfni svæðanna og einstakra greina verður metin. Þetta er gert til þess að hægt sé að meta tækifæri og ógnanir og ráðast í kjölfarið í verkefni sem styrkja svæðin á þessu sviði,“ segir Sigrún Elsa, en áætlað er að verkefninu ljúki í nóvember 2014.

„Miklar lífauðlindir er að finna á norðurslóðum og eru þær mikilvægar fyrir efnahagslíf landanna, bæði beint og óbeint. Hér á Íslandi er sjávarútvegur ein helsta undirstöðuatvinnugreinin og gögn um stöðu sjávarútvegs í mjög góðu horfi, en gögn sem snúa að öðrum auðlindum, eins og til dæmis landnýtingu, eru síðri. Það er mikilvægt að ná saman yfirliti yfir auðlindir og afrakstur þeirra svo unnt sé að meta árangur og greina hvernig efla megi svæðin. Með því að auka verðmæti afurða, örva og styrkja lífhagkerfið og afkastagetu þess aukum við efnahagslegan árangur,“ segir Sigrún Elsa og bætir við að lífauðlindir þessa svæðis séu að breytast vegna hlýnunar jarðar. „Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með þessum breytingum. Mikilvægt er að nýta þá möguleika sem hugsanlega opnast til matvælaframleiðslu á þessu svæði vegna breyttra lífsskilyrða og umhverfisáhrifa. Enda er staðreyndin því miður sú að meðan möguleikar á þessu sviði á norðurslóðum kunna að aukast, þá dragast þeir saman annars staðar á sama tíma og fólksfjölgun í heiminum heldur áfram“.

FP7, Horizon 2020, Industrial Leadership, Sicentific Excellence, Grand ChallangesSigrún Elsa Smáradóttir

Verkefninu er ætlað að styrkja löndin til virkrar þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á norrænum vettvangi. „Þegar kemur að rannsóknaáætlunum og stuðningi við nýsköpun, liggur fyrir að mikil áhersla verður lögð á lífhagkerfið, bæði í norrænu og evrópsku samhengi,“ segir Sigrún Elsa.

Þannig hefur norræna nefndin um landbúnaðar – og matvælarannsóknir (NKJ) unnið stefnumörkun um „Norræna lífhagkerfið“ (e. The Nordic Bioeconomy Initiative). Í þeirri stefnumörkun er sérstaklega horft til sjálfbærni náttúruauðlinda og nýtingar lífmassa með svipuðum hætti og aðrar þjóðir á evrópskum vettvangi hafa gert. Í nefndinni sitja þrír Íslendingar, þeir Torfi Jóhannesson, sérfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Sigurður Björnsson, sviðsstjóri hjá Rannís. Stefnumörkunin á fyrst og fremst að bæta og greiða fyrir norrænum samstarfsverkefnum sem snúa að rannsóknum á sviði lífhagkerfisins og stuðla að frekari stefnumótun á því sviði. Þannig er ætlunin að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu í grunnframleiðslu og afleiddum greinum.

„Ætlunin er að efla samstarf úrvinnslugreina, eins og til dæmis matvælaframleiðslu eða fóður- og áburðarframleiðslu, við grunnatvinnugreinar, eins og sjávarútveg og landbúnað, og vinna að heildstæðum lausnum sem ganga þvert á atvinnugreinar og hámarka ávinning af nýtingu auðlindanna án þess að ganga á þær. Sjálfbær framleiðsla og nýting lífmassa stuðlar að efnahagslegri og félagslegri styrkingu svæða sem liggja að auðlindunum, aukinni matvælaframleiðslu og þar með auknu fæðuöryggi. Jafnframt er horft til vistvænnar framleiðslu á orkugjöfum úr lífmassa til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi en þá er mikilvægt að leiðir verði fundnar til að slík framleiðsla verði ekki á kostnað matvælaframleiðslu. Mikil samkeppni um hráefni, annars vegar til matvælaframleiðslu og hins vegar til orkuframleiðslu, getur haft alvarlegar afleiðingar á matvælaverð og möguleika fólks í heiminum til að brauðfæða sig,“ segir Sigrún Elsa.

Íslenskt formennskuverkefni

Norrænu ríkin skiptast á um að fara með formennsku í Norræna ráðherraráðinu og leiða starfsemina eitt ár í senn. Í ár kemur það í hlut Íslendinga að gegna formennsku í ráðinu en samhliða því verður sett af stað þriggja ára formennskuáætlun á sviði lífhagkerfisins sem skila á beinum efnahagslegum ávinningi á Norðurlöndunum. Nú er að ljúka útfærslu formennskuverkefna á sviði lífhagkerfisins en Matís hefur verið virkur þáttakandi í þeirri útfærslu undir forystu Sveins Margeirssonar forstjóra Matís.

„Formennskuverkefnin munu kalla á aukið samstarf iðnaðarins og rannsókna- og menntastofnana í hagnýtum virðisaukandi verkefnum. Horft verður til þess hvernig efla megi þekkingarsköpun og framþróun í sjálfbærri auðlindanýtingu og framleiðslu á lífmassa á Norðurlöndunum og yfirfæra þá þekkingu og tæknilausnir sem fyrir er milli svæða,“ segir Sigrún Elsa.

Í tengslum við formennskuverkefnið verður mynduð pallborðsnefnd, Nordic Bioeconomy panel, sem verður ráðgefandi fyrir rannsóknasjóði Norðurlandanna þegar kemur að rannsóknaköllum á sviði lífhagkerfisins. Að auki verður hlutverk nefndarinnar að kynna stöðu Norðurlandanna út á við þegar kemur að lífhagkerfinu og þannig greiða aðgang landanna að alþjóðlegum rannsóknastyrkjum.

„Það að Ísland gegni burðarhlutverki í slíku samstarfi, hafi forgöngu um metnaðarfulla formennskuáætlun á sviði lífhagkerfisins og gegni leiðandi hlutverki í rannsóknum því tengdu á norðurslóðum, beinir sjónum annarra að landinu sem áhugaverðs samstarfsaðila í verkefnum sem snúa að lífhagkerfinu. Breitt fjölþjóðlegt samstarf á þessu sviði, bæði í rannsóknum og þróun, er mikilvægur grunnur að eflingu lífhagkerfisins og þar með efnahagslegra framfara á Íslandi,“ segir Sigrún Elsa að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa. Einnig má sjá myndband Matís um stóru áskoranirnar á myndbandasíðu Matís.

IS