Rauðáta og ljósáta eru undirstaða lífs í höfunum og er lífmassi þeirra einn sá mesti einstakra lífvera á jörðinni. Þannig er talið að lífmassi rauðátu á norsku hafsvæði sé um 33 milljónir tonna og ársframleiðslan um 300 milljónir tonna. Norsk yfirvöld hafa gefið út veiðikvóta upp á rúmlega 250 þúsund tonn á ári og þá hafa Færeyingar fylgt eftir og gefið út kvóta upp á um 125 þúsund tonn. Hafrannsóknastofnun mat nýlega stofnstærði rauðátunnar umhverfis Ísland og telur að lífmassinn sé um 5,9 milljón tonn, í framhaldi af því hefur stofnunin gefið út minnisblað sem leggur til að aflamark í rauðátu upp á 59 þúsund tonn.
Það er hins vegar ekki sjálfsagt að farið verði að nýta rauðátu og ljósátu, þar sem tegundirnar gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfum hafsins og eru til dæmis ein helsta fæða mikilvægra nytjastofna. Dýrasvif gegna einnig lykilhlutverki í líffræðilegri kolefniskeðju úthafanna, þar sem koltvísýringur úr andrúmsloftinu er fangaður og geymdur djúphafinu. Þetta tvöfalda hlutverk við að styðja við líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr loftslagsbreytingum undirstrikar mikilvægi þess að stýra nýtingu dýrasvifa á sjálfbæran hátt. Mögulega er áhættan við að nýta dýrasvið einfaldlega of mikil? Nýting á rauðátu og ljósátu gætu aftur á móti skapað miklar tekjur og atvinnutækifæri, auk þess að stuðla að fæðuöryggi. Möguleikar í kringum nýsköpun á sviðum eins og matvælaframleiðslu, líftækni, lyfjaþróunar, framleiðslu fæðubótaefna, snyrtivara og fóðurgerðar eru umtalsverðir. Árangursrík nýting þeirra gæti aukið fjölbreytni í íslenskum og norrænum hagkerfum og treyst stöðu sjávarbyggða.
Norska fyrirtækið Calanus AS hefur staðið að uppbyggingu rauðátuveiða og vinnslu í Noregi síðustu tvo áratugi. Fyrirtækið hefur verið með 3 stóra frystitogara í veiðunum síðustu ár og fjárfesti nýlega í vinnsluhúsnæði og búnaði sem unnið getur úr 10 þúsund tonnum af rauðátu á ári. Þá hafa Færeyingar reynt fyrir sér með rauðátuveiðar í atvinnuskyni, með frekar dræmum árangri. Þá má einnig geta þess að fyrirtækið Rauðátan ehf. í Vestmannaeyjum, ásamt Þekkingarsetri Vestmannaeyja, hefur staðið að tilraunaveiðum á rauðátu við Vestmannaeyjar síðastliðin 2 ár. Veiðar á ljósátu eru komnar lengra en rauðátuveiðarnar, en þar hefur Aker BioMarin rutt brautina með yfir áratug af rannsóknum og nýsköpun, auk umfangsmikilla veiða í atvinnuskyni við Suðurskautslandið. Tilraunir með ljósátuveiðar á norðurslóum hafa staðið yfir með misjöfnum árangri.
Ljóst er að það eru gríðarleg tækifæri í nýtingu rauð- og ljósátu, en það er hins vegar þá þörf á mikilli fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun til að þróa fiskveiðar og afurðir, sem og til að skilja áhrif veiðanna á vistkerfið, þar sem vistkerfisnálgun við stjórnun er mikilvæg. Því ákvað vinnuhópur Norrænu ráðherranefndarinnar um samstarf í sjávarútvegi að fjármagna Norrænt rannsóknaverkefni sem ætlað var að koma á fót netverki hagaðila er tengjast rannsóknum og mögulegri nýtingu á rauðátu og ljósátu á norðurslóðum. Stóð netverkið fyrir ráðstefnu sem fram fór í Kaupmannahöfn síðasta sumar og má sjá framsögur ráðstefnunnar á heimasíðu verkefnisins https://little-giants.net/ auk þess sem hópurinn hefur nú gefið út lokaskýrslu um verkefnið, sem nálgast má here.
Frekari upplýsingar um verkefnið og niðurstöður þess veitir verkefnastjóri verkefnisins Stefán Þór Eysteinsson stefan@matis.is