News

Nýjar reglur kalla á þróun í umbúðamálum

Á næstunni mun taka gildi reglugerð um umbúða- og úrgangsmál innan Evrópusambandsins. Reglugerðin er til umræðu og upptöku í EES samninginn.

Ljóst er að regluverkið mun hafa töluverð áhrif á ýmis fyrirtæki og gerir auknar kröfur um hönnun, samsetningu og umfang umbúða. Þetta hefur í för með sér takmarkanir á þeim umbúðum sem setja má á markað á Evrópska efnahagssvæðinu.

Sigurður Helgi Birgisson hjá Samtökum iðnaðarins er tengiliður við iðnaðinn og kemur athugasemdum á framfæri. Fyrirtæki þurfa meðal annars að huga að takmörkunum á einnota plasti, umbúðaminni hönnun og takmörkunum á notkun skaðlegra efna í umbúðum.

Af þessu tilefni vill Matís ohf minna á niðurstöður úr verkefninu Challenges in packing vegetables en þær hafa verið birtar í skýrslu á vefsíðu Matís.

Verkefnið varð til í samstarfi við grænmetisbændur en niðurstöðurnar ættu að nýtast nokkuð almennt fyrir matvælaiðnað. Greint er frá hinum ýmsu tegundum plasts og öðrum  pökkunarefnum en einnig er fjallað um umhverfisáhrif, geymsluþol og geymsluskilyrði.

Ýmsar framtíðarlausnir fyrir umhverfisvænar umbúðir eru við sjóndeildarhringinn og unnið er mikið þróunarstaf á þessu sviði bæði á Íslandi og erlendis. Nefna má þróun á umbúðum úr stoðvef plantna og þörunga. Því er rétt að fylgjast vel með nýjungum sem líta dagsins ljós.

EN