Fréttir

Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís hefur unnið verkefni um nýtingarhlutfall og efnainnihald lambakjöts og aukaafurða fyrir Íslenskt lamb ehf. og er Hafliði Halldórsson þar í forsvari en verkefnið er styrkt af Matvælasjóði.

Vegna framfara í kynbótum undanfarin ár var orðinn skortur á gögnum um nýtingu lambakjötsins. Nýtingarhlutfall fyrir lambakjöt var fundið með úrbeiningu á fjölda lambaskrokka. Skrokkunum var skipt upp í kjöt, fitu, bein og sinar. Með þessum móti fær kjötiðnaðurinn gögn fyrir áætlanagerð og kostnaðar- og framlegðarútreikninga.

Viðamiklar efnagreiningar hafa verið gerðar á lambakjöti, innmat og völdum líffærum. Áhersla var lögð á mælingar á próteini og fitu sem ákvarða orkugildið en einnig fara fram mælingar á vatni, heildarmagni steinefna og völdum vítamínum og þungmálmum.

Meðal athyglisverðra niðurstaðna má nefna að B12 vítamín reyndist í nægjanlegu magni til að hægt væri að birta upplýsingar um það undir merkingum á næringargildi. Ekki voru aðeins gerðar mælingar á næringarefnum heldur einnig á þungmálmum sem teljast til óæskilegra efna. Magn þungmálma í lambakjötinu var ekki mælanlegt.

Mynd 1: Julija Igorsdóttir við ICP-massagreininn sem notaður er við mælingar á þungmálmum.

Mynd 2: Svanhildur Hauksdóttir vigtar út sýni af lambalifur til mælinga á vatnsinnihaldi.

Frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast á verkefnasíðu þess hér:
Rannsókn á nýtingarhlutfalli og efnainnihaldi lambakjöts og aukaafurða