Frá 1968 þegar vatnsleiðsla var fyrst tengd á milli Vestmannaeyja og fastalandsins hafa Eyjabúar reitt sig á aðgengi að ferskvatni í gegnum leiðslur sem liggja á hafsbotni. Vestmannaeyingar og atvinnulífið á Eyjunni voru óþyrmilega minntir á það óöryggi sem felst af því að vera háðir slíkri tengingu varðandi lífsnauðsynjar 2023 þegar skemmdir urðu á leiðslunni.
Í framhaldi fjárfestu fyrirtæki á svæðinu í vatnshreinsibúnaði sem framleitt getur ferskvatn úr sjó. Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum fjárfesti meðal annast í slíkum búnaði, og í framhaldi kom upp sú hugmynd hvort ekki væri hægt að nýta þá hliðarstrauma sem til verða við ferskvatnsframleiðsluna. En vatnshreinsistöðin síar steinefni og óhreinindi úr sjónum, þannig að eftir verður hreint vatn. Meðal þeirra steinefna sem síast frá er salt, en Vinnslustöðin er á sama tíma að flytja inn töluvert magn af salti til saltfiskframleiðslu. Það lá því beinast við að kanna möguleikann á að nýta saltpækil sem fellur til við ferskvatnsframleiðsluna fyrir saltfiskvinnslu. Vinnslustöðin fékk því Matís með sér í lið til að kanna fýsileika þess, og fengu auk þess stuðning frá LÓU sjóðnum til að fjármagna hluta af verkefninu. Markmið verkefnisins var að kanna fýsileika þess að nýta salt frá ferskvatnsframleiðslunni til saltfiskframleiðslu m.t.t. matvælaöryggis, afkasta, kostnaðar og sjálfbærni.


Verkefninu er nú lokið og sýna helstu niðurstöður að hægt er að nota pækilinn í forsöltun án þess að skerða gæði vörunnar, lit eða sýrustig (pH). Vinnslutilraunir sýndu sambærilegar niðurstöður hvað varðar saltmagn í lokaafurðinni og engin neikvæð áhrif á afköstin eða nýtingu. Í heildina gæti notkun þessa pækils dregið verulega úr saltinnflutningi til saltfiskframleiðslu, sem gæti leitt til umtalsverðrar lækkunar á kostnaði við framleiðslu saltfisks. Enn fremur sýndi vistferilsmat (LCA) fram á að með því að nýta pækilinn má draga verulega úr umhverfisáhrifum framleiðslunnar, samanborið við hefðbundinn pækil sem framleiddur er úr innfluttu salti. Það er auk þess áhugaverð niðurstaða úr verkefninu að það skuli vera ódýrara að framleiða ferskvatn á þennan máta en að kaupa það ofan af landi frá HS veitum.

Verkefnið hefur sýnt fram á að notkun saltpækils sem fellur til við vatnshreinsun sé tæknilega raunhæfur, hagkvæmur og sjálfbærari valkostur við saltfiskframleiðslu. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna í lokaskýrslu verkefnisins sem nálgast má here, á heimasíðu verkefnisins or at willum@vsv.is , cecilie@matis.is or jonas@matis.is
