Almennt eru varnarefni notuð í því skyni að stuðla að árangursríkari framleiðslu ávaxta og grænmetis en geta þó verið mjög skaðleg heilsu fólks og umhverfinu.
Markmið verkefnisins var að skima afurðir á íslenskum markaði fyrir varnarefnaleifum, bera saman mælt magn í innfluttum og íslenskum afurðum og að kanna hvort munur væri á styrk varnarleifa, þungmálma og næringarefna í ytra byrði/hýði ávaxta og grænmetis í samanburði við innra byrði/aldinkjöti þess.
166 sýni (ávextir, ber, grænmeti, salat, kryddjurtir og kornvörur) af íslenskum (42%) og innfluttum afurðum (58%) voru skimuð fyrir varnarefnaleifum. Í framhaldinu var mældur styrkur varnarefna, næringarefna og þungmálma í hýði og innra byrði afurða (n=44) .
Niðurstöðurnar voru að 49% afurða á íslenskum markaði innihéldu varnarefnaleifar, 61% innfluttra afurða og 31% íslenskra afurða. Hins vegar var styrkur þeirra í sýnum að jafnaði lágur og innan leyfilegra hámarksgilda í 94% sýna. Færri tegundir varnarefna fundust í íslensku grænmeti en í innfluttu grænmeti. Hærri styrkur varnarefnaleifa og þungmálma var í hýði ávaxta og grænmetis í samanburði við innihaldið. Þá reyndist hýði grænmetis trefjaríkara en innihaldið. Að auki var íslenskt grænmeti ríkara af stein- og snefilefnum en innflutt grænmeti.