Fréttir

Matís í samstarf við Cawthron Institute í Nýja Sjálandi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nýja Sjáland og Ísland eru eyjur þar sem íbúar eru sterkmótaðir af nálægð sinni við hafið. Báðar þjóðir eru mjög háðar hafinu og er sjálfbær nýting sjávarauðlinda því mikilvæg fyrir afkomu og efnahag þjóðanna.

Í síðustu viku heimsóttu þrír starfsmenn Matís Nýja Sjáland, þau Oddur Már Gunnarsson forstjóri, Rósa Jónsdóttir fagstjóri og Sophie Jensen verkefnastjóri, til að taka þátt í vinnustofunni „Algal research and opportunities“. Vinnustofan var skipulögð af Cawthron Institute sem er ein stærsta vísindastofnun Nýja Sjálands með sérstaka áherslu á umhverfismál. Þátttakendur voru fulltrúar frá nýsjálenskum hagsmunaaðilum svo sem NewFish, AgriSea, Plant & Food Research og Scion Research. Alþjóðlegir gestir sem sóttu vinnustofuna voru frá the Kelp Forest Foundation, RISE, SAMS, Nordic Seafarm, Ghent University, UiT, Blu3, Nofima og Universidad de Los Lagos.
Markmið vinnustofunnar var að koma á fót sameiginlegum rannsóknar- og viðskiptaverkefnum með áherslu á framleiðslu og nýtingu þörunga.

Þann 28. febrúar 2023 skrifuðu þeir Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís og Volker Kuntzsch, forstjóri Cawthron Instituite undir samstarfsamning. Markmið samningsins er að koma á samstarfsvettvangi milli Íslands og Nýja Sjálands á sviði rannsókna tengdum sjávarauðlindum. Samstarfið mun styðja við uppbyggingu þekkingar og eflingu rannsókna, allt frá hugmynd til markaðar. Aukið samstarf og gagnkvæmur stuðningur munu efla Matís og Cawthron Instituite til að styrkja bláa lífhagkerfið.

Vinnustofa í Nelson (Feirfield house) – Algal research and opportunities Downunder- Dagur 2
Oddur ásamt fleiri ánægðum þátttakendum í heimsókn hjá Sanford Bioactives í Blenheim – Dagur 3
Oddur Már Gunnarsson forstjóri Matís og Volker Kuntzsch forstjóri Cawthron Instituite skrifa hér undir samstarfssamning.