Fréttir

Sjálfbærari fiskveiðar og verndun vistkerfa

Hvernig eflum við sjálfbærar fiskveiðar og stuðlum að verndun sjávarvistkerfa?

Haraldur Arnar Einarsson, sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun og Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brim komu til okkar í Matvælið og ræddu meðal annars hafrannsóknir, sjálfbærar fiskveiðar, verndun vistkerfa og aðlögunarhæfni í sjávarútvegi.

MarineGuardian verkefnið hefur það að markmiði að efla sjálfbærar fiskveiðar og stuðla að verndun sjávarvistkerfa í Atlantshafi og Norðuríshafi, með aukinni þekkingu og þróun lausna sem draga úr meðafla, brottkasti, olíunotkun, neikvæðum áhrifum á botnvistkerfi, auka afla á sóknareiningu, og tryggja bætta gagnaöflun og úrvinnslu til ákvarðanatöku og framsetningu sjálfbærniskýrslna.

Fréttir

Doktorsvörn í matvælafræði – Monica Daugbjerg Christensen

Fimmtudaginn 2. október 2025 ver Monica Daugbjerg Christensen  doktorsritgerð sína í matvælafræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Einangrun og niðurbrot sjávarfjölsykra og mat á ónæmismótandi áhrifum þeirra. Refining marine polysaccharides and their immunomodulatory effects.

Andmælendur eru dr. Kari Tvete Inngjerdingen, dósent við Háskólann í Ósló, og dr. Finn Aachmann, prófessor við Norwegian University of Science and Technology. 

Umsjónarkennarar voru Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og Guðjón Þorkelsson, prófessor. Leiðbeinendur voru Guðmundur Óli Hreggviðsson, prófessor og stefnumótandi sérfræðingur, og Jóna Freysdóttir, prófessor. Auk þeirra sátu í doktorsnefnd Ólafur H. Friðjónsson, fagstjóri og Eva Nordberg Karlsson, prófessor.

Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor og varadeildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.30.

Ágrip

Brúnþörungar innihalda mikið magn af fjölbreytilegum fjölsykrum sem hafa margvíslega lífvirkni. Í þessu doktorsverkefni var kannað á fjóra vegu hvernig nota megi ensím til umbreyta sjávarfjölsykrum og áhrifum þeirra á ónæmiskerfið. 1) Nýr súlfatasi, SulA1, úr sjávarbakteríunni Arthrobacter, var framleiddur með erfðatæknilegum aðferðum og rannsakaður ítarlega.  SulA1 súlfatasinn gat fjarlægt súlfathóp af N-Acetyl-D-galactosamine-4-sulfate sem endurspeglar eiginleika hans við að fjarlægja súlfathópa og breyta þannig lífvirkni fjölsykra. 2) Laminarin sameindir úr þremur gerðum brúnþörunga (Laminaria digitata, L. hyperborea, and Saccharina latissima) voru einangraðar og klipptar niður í smásykrur. Bygging smásykranna var greind og kom í ljós að stærð og greining þeirra hafði áhrif á boðefnaseytun angafrumna og getu þeirra til að ræsa og sérhæfa T-frumur. Þessar niðurstöður benda til þess að hugsanlega sé unnt að nota laminarin sameindir og afleiður þeirra í meðferð á sjúkdómum tengdum ónæmiskerfinu. 3) Fúkóídan úr S. latissima var klippt niður í fásykrur af mismunandi stærð. Stuttar fásykrur höfðu bólguhamlandi áhrif með því að minnka seytun angafrumna á bólguboðefnum og draga þannig úr Th1 ónæmissvari. Þær gætu því hugsanlega nýst við meðferð á bólgusjúkdómum. 4) Tvær fásykrur úr algínati juku seytun angafrumna á bólguboðefnum og ýttu undir Th1 svörun T frumna í samrækt. Þetta bendir til þess að þessar fásykrur geti nýst við eflingu ónæmissvars, t.d. í meðferð við krabbameinum eða sem ónæmisglæðar. Til samans sýna niðurstöður þessa verkefnis að niðurbrot sjávarfjölsykra með ensímum geti haft áhrif á ónæmisvirkni niðurbrotsefnanna sem eykur líkur á notkun þeirra í þróun meðferða á sjúkdómum í ónæmiskerfinu. Auk þess gæti þetta leitt til umhverfisvænnar vinnslu á fjölsykrum úr brúnþörungum með ensímum sem getur aukið verðmæti þeirra og notkunargildi í lyfja- og fæðubótariðnaði.

Fréttir

Hvað gerist þegar lífkol úr fiskeldismykju eru notuð í kálrækt?

Í sumar hefur Matís, í samstarfi við Íslenska sjávarklasann, staðið fyrir spennandi rannsóknarverkefni þar sem áhrif lífkola á jarðveg og plöntuvöxt voru könnuð. Verkefnið var styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna en fellur líka undir stærra rannsóknarverkefni sem kannar möguleikan á því að nota lífkol sem jarðvegsbætandi efni; verkefnið Jarðvegsbætandi lífefni sem stýrt er af Íslenska sjávarklasanum.

Verkefnið var unnið af nemanda sem hafði umsjón með daglegri framkvæmd tilraunarinnar í sumar, Ásdísi Öglu Sigurðardóttur. Hún hefur m.a. fylgst með vöxt plantna, vökvað, haldið utan um gögn og mun hún skila niðurstöðum í lokaskýrslu á næstu vikum.  Um verkefnið hafði hún þetta að segja:

Í tilrauninni, sem fór fram á þaki starfstöðvar Matís við Vínlandsleið, voru kálplöntur ræktaðar í mismunandi blöndum af mold og lífkolum. Meðal annars voru notuð lífkol sem unnin voru úr fiskeldisseyru. Markmiðið var að sjá hvort þessi óhefðbundnu lífkol hafi sambærileg eða jafnvel betri áhrif en hefðbundin lífkol úr viðarafgöngum.

Með þessu verkefni er stigið mikilvægt skref í átt að sjálfbærri nýtingu lífrænna aukaafurða og betri nýtingu jarðvegs. Niðurstöðurnar gætu haft jákvæð áhrif á hvernig við hugsum um úrgangsstrauma og landbúnað í framtíðinni og hver veit nema lífkol úr fiskeldismykju verði hluti af lausninni. Við hlökkum til að deila niðurstöðum þegar þær liggja fyrir. Niðurstöðurnar nýtast einnig fyrir evrópuverkefnið OCCAM sem fór af stað í maí 2025.

Styrkir til nemenda, eins og þessi frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, skipta sköpum fyrir ungt fólk sem vill öðlast reynslu af raunverulegum rannsóknarverkefnum og leggja sitt af mörkum til nýsköpunar og sjálfbærni.

Matís tekur reglulega á móti nemendum í fjölbreytt verkefni og hvetur áhugasama til að hafa samband, kannski verður það einmitt þú sem tekur þátt í tilraun næsta sumar!

Niðurstöður verkefnisns verða birtar í skýrslu seinna í haust.

Frekari upplýsingar veita:
Jónas Baldursson – jonasb@matis.is
Katrín Hulda Gunnarsdóttir – katrinh@matis.is

Fréttir

Doktorsvörn í heilbrigðisvísindum – Andrea Rakel Sigurðardóttir

Miðvikudaginn 10. september 2025 ver Andrea Rakel Sigurðardóttir doktorsritgerð sína í heilbrigðisvísindum við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Sjálfvirkar fjöllitrófs- og myndgreiningar til gæðaeftirlits á sjávarfangi. Automatic multispectral and imaging methods for quality monitoring of seafood.

Andmælendur eru dr. Frosti Pálsson, vísindamaður hjá deCode Genetics, og dr. Silje Ottestad, sérfræðingur hjá Maritech í Noregi.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var María Guðjónsdóttir, prófessor. Auk hennar sátu í doktorsnefnd Hafsteinn Einarsson, dósent, Hildur Inga Sveinsdóttir, lektor og verkefnastjóri hjá Matís, og Nette Schultz, Ph.D, Chief Innovation Officer (CINO) hjá Videometer A/S í Danmörku.

Ólafur Ögmundarson, dósent og deildarforseti Matvæla- og næringarfræðideildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13.00.

Ágrip

Sjálfbær nýting sjávarauðlinda er forsenda þess að tryggja framboð á sjávarafurðum til lengri tíma og til að vernda vistkerfi hafsins. Á sama tíma er gæða- og öryggiseftirlit í gegnum alla virðiskeðjuna flókið verkefni, þar sem sjávarafurðir eru viðkvæmar, líffræðilegur fjölbreytileiki mikill og þær eru næmar fyrir umhverfisáhrifum og meðhöndlun. Hefðbundnar aðferðir eins og skynmat, sjónrænt mat og efnagreiningar eru vel þekktar og gagnlegar en þær eru oft tímafrekar, eyðileggja sýnin eða byggja á huglægu mati.

Auknar kröfur um rekjanleika, gagnsæi, gæði afurða og skilvirkari vinnslu kalla á nýjar lausnir sem eru hlutlægar, hraðvirkar og valda ekki skemmdum á sýnum.

Í þessu verkefni var skoðaður möguleikinn á nýtingu myndgreiningartækni, einkum fjöllitrófsmyndgreiningar, í samspili við efnatölfræði, vélrænt nám og djúptauganet, til að sjálfvirknivæða gæða- og eftirlitsverkefni innan sjávarútvegarins. Verkefnið samanstendur af fjórum vísindagreinum sem fjalla um mismunandi notkunarmöguleika þessara tæknilausna: aldursgreining fiskikvarna, hringormagreiningu í hvítfiski, ferskleikamat á heilum þorski, og gæðamat á brúnþörungum.

Niðurstöðurnar sýna að samþætting myndgreiningar og gagnadrifinna líkana býður upp á möguleika til sjálfvirknivæðingar og til að bæta gæða- og eftirlitsferla í sjávarútvegi. Það er ljóst að tæknin býður upp á mikla möguleika til frekari notkunar víðs vegar um virðiskeðju sjávarafurða og opnar þannig tækifæri til frekari rannsókna og þróunar. 

Fréttir

Viltu smakka saltfisk og eiga möguleika á að vinna 25.000 kr. gjafabréf?

Matís leitar að þátttakendum í neytendakönnun um saltfisk!

Könnunin tekur aðeins 20 mínútur – þú smakkar 3 tegundir af saltfiski og svarar stuttum spurningalista.
Að lokinni þátttöku bjóðum við upp á kaffi og bakkelsi!

Staðsetning: Matís, Vínlandsleið 12, Grafarholti
3 heppnir þátttakendur
fá gjafabréf að verðmæti 25.000 kr.

Hverjir geta tekið þátt?
• Aldur 18–35 ára →
mæta 28. eða 29. ágúst (nokkrar tímasetningar í boði)

Engar persónugreinanlegar upplýsingar verða tengdar svörum í könnuninni.

Spurningar? Hafðu samband við: Aðalheiði Ólafsdóttur – adalheiduro@matis.is

Skráðu þig hér:

Forsíðumynd: Kolbrún Sveinsdóttir

Fréttir

Ísreiknir Matís: Áætlar raunverulega ísþörf aflans

Tengiliður

Jónas Rúnar Viðarsson

Sviðsstjóri Rannsókna og Nýsköpunar

jonas@matis.is

Eins og alþjóð veit þá eru strandveiðar nú í fullum gangi, en alls hafa um 800 bátar fengið strandveiðileyfi þetta sumarið.

Eins og við aðrar fiskveiðar er rétt aflameðferð mikilvæg til að tryggja gæði og geymsluþol, en leiðbeiningar má nálgast hér. Góð kæling á aflanum er mikilvægasti þátturinn í að tryggja gæði og geymsluþol afurðanna, og því hefur Matís útbúið ísreikni sem aðgengilegur er á heimasíðu fyrirtækisins

Ísreiknirinn gefur ráðleggingar um það magn af ís sem þarf til að kæla afla niður í 0°C miðað við sjávarhita og svo ísþörf til að viðhalda 0°C miðað við umhverfishitastig (t.d. í kæligeymslu) og dagafjölda. Gögnin að baki ísreikninum byggja á varmafræðilíkönum og kælitilraunum.

Í upphafi júní mánaðar tók gildi ný reglugerð sem kveður á um að allri vigtun strandveiðiafla ljúki á hafnarvog þar sem íshlutfall er fastsett við 3%. Hætt er við því að reglugerðin virki sem hvati til þess að takmarka ísnotkun og því getur verð gott að nýta ísreikninn til að áætla hver raunveruleg ísþörf er.

Á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar má fylgjast með sjávarhita víðsvegar umhverfis landið og má þar t.d. sjá að meðalhitastig síðustu daga á Vestfjörðum hefur verið um 8°C. Samkvæmt ísreikninum ætti því að þurfa um 9 kg af ís til að kæla hver 100 kg af afla niður í 0°C.

Aflasamsetning, hvað varðar tegund og stærð fiska, hefur áhrif á hversu langan tíma það tekur að kæla aflann niður í 0°C, auk þess sem kælimiðillinn skiptir miklu máli, eins og sjá má á þessum einblöðungi.

Fréttir

Sendinefnd frá Kyrrahafseyjum heimsækir Matís

Sendinefnd ráðmanna frá Kyrrahafseyjum kom í heimsókn til Matís þann 19. júní síðastliðinn til að kynnast starfsemi Matís og þátttöku fyrirtækisins í uppbyggingu og framþróun í fiskvinnslu á Íslandi.

Fulltrúarnir hrifust af þeirri þekkingu og aðstöðu sem Matís býr yfir og höfðu mikinn áhuga á mögulegum tækifærum til samstarfs í þróun fiskimála á Kyrrahafseyjum. Sérstaklega var rætt um uppbyggingu á rannsóknarstofu, þjálfun starfsfólks og úrbótum á meðhöndlun og kælingu afla, að því gefnu að Alþjóðabankinn myndi veita slíku samstarfi fjárhagslegan stuðning.

Meðal gesta voru Steven Victor fiski- og umhverfismálaráðherra Palau og Fabio Siksei sérfræðingur auk starfsmanna ráðuneytisins á Palau. Frá Papua Nýju-Gíneu var Jelta Wong sjávarútvegsráðherra ásamt Gerri Katai, Simon Kaumi og Api Kassman. Frá sjávarútvegsráðuneyti Salómoneyja var aðstoðarráðuneytisstjóri James Teri og frá Alþjóðabankanum voru Nika Asasi og Xavier Vincent.

Frá Matís voru Oddur Már Gunnarsson, forstjóri Matís. Margeir Gissurarson, stefnumótandi sérfræðingur og Hildur Inga Sveinsdóttir, verkefnastjóri.

Fréttir

Skiptir innlent korn máli fyrir fæðuöryggi?

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Á vegum atvinnuvegaráðuneytisins er nú unnið að tillögum um neyðarbirgðir fæðu fyrir Ísland. Tillögurnar eru unnar hjá Háskóla Íslands og verður þeim skilað á árinu 2025. Þegar tillögurnar verða  tilbúnar, mun ráðuneytið nýta þær sem hluta af alhliða fæðuöryggisstefnu og innleiða sem hluta af almannavörnum. Með fæðuöryggi er átt við það að allir einstaklingar hafi alltaf aðgang að nægum og öruggum matvælum til að uppfylla næringarþarfir.

Kornbirgðir í landinu eru litlar en það skapar áhættu vegna loftslagsbreytinga og mögulegra truflana á innflutningi. Kornframleiðslan (bygg og hafrar) á Íslandi er talin í þúsundum tonna á hverju ári og er fyrst og fremst nýtt sem fóður fyrir búfé en lítill hluti fer til manneldis.  

Það er því tilefni til að vekja athygli á upplýsingum sem liggja fyrir hjá Matís um innlent korn. Eðlilegt er að spurt sé hvort hægt sé að nota innlent korn í matvælaiðnaði og þá einkum í bökunariðnaði. Líta má á innlenda kornið sem leið til að drýgja takmarkaðar birgðir af hveiti eða til notkunar sem eina kornið í bökunariðnaði. Sýnt hefur verið fram á að hægt er að baka ágæt brauð úr 30% íslensku byggi á móti 70% hveiti og ná ágætri lyftingu. Byggmjöl er ágætt til kexframleiðslu og í fleiri bökunarvörur sem þurfa ekki lyftingu. Íslenskir hafrar hafa reynst ágætlega í hafragraut, múslí og kex. Sýnt hefur verið fram á að íslenskir hafrar  henta ágætlega til framleiðslu á hafradrykkjum.

Hér má finna skýrslu- Íslenskt matkorn – Gæði, innihald og viðhorf

Frétt – Innlent korn til matframleiðslu

Fréttir

Mótvægis og aðlögunaraðgerðir gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg Evrópu

Tengiliður

Katrín Hulda Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri

katrinh@matis.is

Þann fyrsta maí síðastliðinn hófst Evrópuverkefnið MeCCAM formlega (Measures for Climate Change Adaptation and Mitigation in European Fisheries).

MeCCAM er brautryðjandi Evrópuverkefni sem hefur það að markmiði að þróa mótvægis og aðlögunaraðgerðir gagnvart áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg Evrópu. Verkefnið er til fjögurra ára og er stýrt af færeyska fyrirtækinu Sjókovin. Verkefnið samanstendur af 16 þátttakendum frá 9 löndum og er fjármagnað af Horizonáætlun Evrópusambandsins fyrir samtals 4,5 milljónir Evra.

Upphafsfundur MeCCAM fór fram í Þórshöfn í Færeyjum þar sem þátttakendur eyddu saman þremur dögum. Á fundinum voru næstu skref skipulögð og innleiðing MeCCAM rædd. Augljóst var á þessum upphafsfundi að MeCCAM byggir á sterku samstarfi en það að leiða saman hagsmunaaðila úr iðnaði, vísindum og stefnumótun tryggir að niðurstöður verkefnisins séu bæði hagnýtar og áhrifamiklar.

Jónas R. Viðarsson, sviðsstjóri rannsókna Matís
Jóhan Christiansen sjávarútvegsráðherra Færeyja flytur hér opnunarávarp

Niðurstöður verkefnisins verða m.a. á eftirfarandi sviðum:

Sjálfbær sjávarútvegur í breyttu loftslagi

Lausnir sem þróaðar verða í MeCCAM  eru m.a. á sviði veiðarfæra og ákvarðanatöku (e. decision support tool), en þær geta dregið úr umhverfisáhrifum, eldsneytisnotkun og bætt veiðiáætlanir, samtímis því að tryggja hagkvæmni. Smáforrit sem skráir afla mun auðvelda veiðimönnum að bregðast við þeim rauntímabreytingum í útbreiðslu tegunda sem hlýnun sjávar getur valdið.  

Betri ákvarðanartaka byggð á vísindum

Stafræn nýsköpun er lykilatriði í MeCCAM. Verkefnið mun kanna áhrif forrits sem ætlað er að meta umhverfisáhrif og skila nýjum verkfærum sem byggja á gögnum og venjum og styður við loftslagsþolna ákvarðanatöku í allri virðiskeðju sjávarútvegsins.

Sex hafsvæði rannsökuð víðsvegar í Evrópu

Lausnir MeCCAM verða innleiddar á sex rannsóknarsvæðum sem valdar voru til þess að enduspegla þær fjölbreyttu áskoranir sem sjávarútvegur í Evrópu stendur frammi fyrir – frá stórum uppsjávar og botnsjávar flotum, niður í smáútgerðir. Hvert rannsóknarsvæði mun prófa ákveðnar lausnir og verkfæri, sem á að tryggja að þær séu yfirfæranlegar á milli svæða.

Vegna vaxandi ógnar af völdum loftslagsbreytinga fyrir viskterfi sjávar og strandsamfélög, er MeCCAM tímabært og mikilvægt skref í átt að sjálfbærri framtíð evrópsks sjávarútvegs.

Nánari upplýsingar um verkefnið má finna hér.

Forsíðumynd: Sjókovin

Linkedin

MeCCAM is funded by the European Union under Grant Agreement N° 101181571. Views and opinions expressed are however those of the author(s) only and do not necessarily reflect those of the European Union or REA. Neither the European Union nor REA can be held responsible for them.

Fréttir

Nýting hliðarstrauma frá uppsjávarfiski til manneldis

Í vikunni fór fram umræða um nýtingu hliðarstrauma frá uppsjávarfiski til manneldis á Alþingi.

Eydís Ásbjörnsdóttir, þingmaður Samfylkingar í Norðausturkjördæmi, beindi þar athygli að því að mikið magn hliðarstrauma fellur til við vinnslu á uppsjávarfiski svo sem hausar, hryggir og innyfli sem að mestu leiti er nýtt til fóðurframleiðslu, einkum í mjöl og lýsi. Eydís nefndi að rannsóknir og þróunarverkefni á vegum Matís, háskóla og fyrirtækja sýna að tæknin er til staðar og gæti uppfyllt skilyrði til að nýta slíka hliðarstrauma til manneldis, en að innlend túlkun á regluverki Evrópusambandsins torveldi nýtingu þessara hráefna til manneldis.

Atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, fagnaði þessari fyrirspurn og umræðu og ítrekaði þau miklu tækifæri sem felast í aukinni nýtingu hliðarstrauma til manneldis. Hún benti á að þessar reglugerðir hafa verið til sérstakrar skoðunar hjá Matvælastofnun og ráðuneytinu. Hún nefndi jafnframt að heimilt verði að nýta hliðarstrauma til manneldis að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem kveðið er á um varðandi framleiðslu matvæla, til dæmis að til staðar sé starfsleyfi, að hráefnið uppfylli kröfur um skynmat og aðrar gæðamælingar og að hráefnið sé meðhöndlað í samræmi við reglugerð um hollustuhætti.

Þá steig Jens Garðar Helgason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, í púltið og sagði að „af öllum öðrum ólöstuðum er það prófessor Sigurjón Arason yfirverkfræðingur hjá Matís sem hefur leitt þessa vinnu og gert ótrúlega hluti í að auka verðmæti sjávarafurða.“

Við fögnum þessari umræðu á Alþingi og beinum athygli að þeim fjölmörgu rannsóknaverkefnum um nýtingu hliðarstrauma sem Matís hefur unnið að:

IS