Fréttir

Andoxunarefni í þörungum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á Líftæknisviði Matís eru vísindamenn m.a. að rannsaka hvort nýta megi þráahindrandi efni úr þörungum sem íböndunarefni í ýmsar heilsuvörur og markfæði sem er ört stækkandi markaður.

Einn þessara vísindamanna er Wang Tao, sem stundar doktorsnám við Matvæla- og næringarfræðiskor við HÍ með aðstöðu til rannsókna hjá Matís ohf. Hún hefur síðastliðið ár verið að skima fyrir þráahindrandi efnum í þörungum við Íslandsstrendur, en verkefnið er hluti af Gull í greipar Ægis (Novel antioxidants from Icelandic marine sources) sem AVS sjóðurinn styrkir.

Vorið 2007 var mörgum þörungategundum safnað, heildarmagn fjölfenóla ákvarðað og þráahindrandi virkni eða andoxunarvirkni metin með nokkrum andoxunarprófum (antioxidant assays). Þörungar innihalda m.a. fjölfenól sem hafa mikla lífvirkni, m.a. þráahindravirkni. Brúnþörungunum bóluþangi, hrossaþara, marinkjarna, sagþangi og stórþara var safnað, einnig sölvum og fjörugrösum sem eru rauðþörungar og maríusvuntu sem er grænþörungur.

Í ljós kom að mesta magn fjölfenóla fannst í brúnþörungunum, sérstaklega í bóluþangi og mikil fylgni var á milli magns fjölfenóla og andoxunarvirkni þörunganna. Fyrstu vísbendingar sýna einnig að bóluþang hafi blóðþrýstingslækkandi áhrif (ACE-hindravirkni) en þetta þarf að skoða nánar.

 Út frá þessum niðurstöðum var ákveðið að safna meiru af bóluþangi og sölvum síðastliðið haust og rannsaka enn frekar. Ýmsar leiðir hafa verið prófaðar til að einangra þráahindrandi efnin úr þörungunum, m.a. notaðar nokkrar tegundir ensíma. Næstu skref eru að hreinsa enn betur fjölfenólin úr þörungunum og skoða hvaða fjölfenól það eru sem hafa þráahindrandi eiginleika. Síðar verður kannað hvernig hægt er að bæta þeim í matvæli til að auka stöðugleika, bragðgæði og næringargildi.

 Wang Tao, sem er Associate Professor við Dalaian háskólann í Kína, var í Sjávarútvegsskóla Sameinuðu þjóðanna haustið 2005 og er núna á styrk frá þeim.  Hún hefur mikla reynslu af rannsóknum á fiskprótein hydrolysötum og þörungum, sem nýtist vel í þessu verkefni.  Leiðbeinendur hennar eru Dr. Guðrún Ólafsdóttir Rannsóknaþjónustunni Sýni og Guðjón Þorkelsson dósent við HÍ og sviðsstjóri á Matís, Guðmundur Óli Hreggviðsson HÍ/Matís og Charlotte Jacobsen DIFRES-DTU Danmörku .

 Fyrstu niðurstöður verkefnisins voru kynntar á The 5th Euro Fed Lipid Congress and 24th Symposium of the Nordic Lipidforum, í Gautaborg í Svíþjóð í september 2007. Veggspjald