Fréttir

Nýr búnaður hraðar greiningum á ólífrænum snefilefnum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Efnarannsóknadeild Matís hefur tekið í notkun nýtt tæki til að undirbúa sýni til mælinga á ólífrænum snefilefnum eins og blýi, kvikasilfri, járni og kopar. Í tækinu er örbylgjum og þrýstingi beitt til að leysa sýnin fullkomlega upp í sýru. Með þessu móti er hægt að undirbúa sýnin á fáeinum mínútum í stað 12 klukkustunda í eldri búnaði Matís. Búnaðurinn er notaður bæði fyrir sýni frá viðskiptavinum og fyrir rannsóknaverkefni Matís.

Nýja tækið auðveldar undirbúningsvinnu þegar greina þarf form ólífrænna efna eins og arsens. Slíkar greiningar eru nýtt rannsóknasvið hjá Matís og kallast á ensku „elemental speciation.“ Mjög mikilvægt er að form efnanna breytist ekki fyrir mælingu og þá kemur sér vel að hægt er að stýra hitastiginu í nýja tækinu mjög nákvæmlega.

Matís hefur yfir að ráða fullkomnum massagreini (ICP-MS) til mælinga á ólífrænum snefilefnum og með tilkomu nýja tækisins er tækjabúnaðurinn orðinn eins og best verður á kosið. Matís getur boðið viðskiptavinum upp á mælingar á öllum helstu snefilefnum í matvælum og fóðri s.s. blýi, kvikasilfri, arseni, seleni, kadmíni, járni og kopar. Auk þess er búnaðurinn mikilvægur fyrir rannsóknaverkefni, vöktun á aðskotaefnum í afurðum og önnur verkefni um efnainnihald matvæla.

Mynd: Dr Sasan Rabieh, sérfræðingur Matís í greiningum á ólífrænum snefilefnum, við nýja búnaðinn.